Starar

Fuglavernd biður félagsmenn að dreifa þessum boðskap eins og við á:

Fuglavernd skorar á meindýraeyða og garðeigendur að fara að lögum og eyða ekki starahreiðrum meðan egg og ungar eru í hreiðrinu.  Starinn er alfriðaður og því ólöglegt að drepa staraunga í hreiðri eða eyða eggjum. Þessi fallegi og skemmtilegi fugl, sem hermir svo listilega eftir, sækist eftir nábýli við manninn og getur því borist óværa úr hreiðrinu í híbýli manna t.d. inn um glugga. Sumir setja út varpkassa í tré eða húsveggi fjarri gluggum og þakkar starinn fyrir sig með fjölbreyttum söng og líflegu látbragði. Ef starinn nær að verpa í of miklu nábýli er nauðsynlegt að bíða eftir að ungarnir yfirgefi hreiðrið svo hægt sé að hreinsa út hreiðrið, eitra og loka hreiðurstæði.

Fugl fyrir milljón

logo
Ljósmyndakeppnin Fugl fyrir milljón stendur nú yfir.Áhugasamir ljósmyndarar geta skráð sig til þátttöku í ljósmyndasamkeppni um bestu fuglamyndina tekna á Tröllaskaganum, Hrísey, Grímsey, Drangey eða Málmey á tímabilinu 14. maí til 31. ágúst, 2012. Auk ýmissa veglegra verðlauna, verður besta myndin verðlaunuð með 1.000.000 króna í reiðufé. Hægt er að skrá sig hjá Brimnes hóteli og Rauðku.

Sjá nánar á síðu keppninnar: http://www.fuglfyrirmilljon.com

Tvær meistaravarnir um fugla

Bendum á meistaraprófsvarnir í líffræði sem haldnar verða núna í maí þar sem rannsóknarefnið er fuglar. Bæði erindin eru á Íslensku en það eru þau Aðalsteinn Örn Snæþórsson með erindi um varpárangur og lífslíkur rjúpuhæna að sumri og Borgný Katrínardóttir með erindi um mikilvægi hálfgróinna áreyra á Íslandi fyrir spóa.  Sjá dagana 18. og 29. maí í dagskrá félagsins og á vef Háskóla Íslands. 

Fuglavernd styður meirihluta svartfuglanefndar

Fuglavernd styður eindregið niðurstöðu meirihluta svartfuglanefndar Umhverfisráðuneytisins.

Veiðar, þar með talin eggjataka, eru ekki sjálfbærar úr stofnum sem ná ekki að viðhalda stofnstærð sinni af einhverjum orsökum, t.d. vegna fæðuskorts. Hrun í varpstofnum margra íslenskra sjófuglastofna er staðreynd. Ástundun veiða úr hnignandi stofnum er siðlaus umgengni við náttúruna, óháð magni veiddra fugla. Veiðibann er eina siðlega viðbragðið við stofnhruni tegunda.

Það hljóta að vera hagsmunir allra sem nýta svartfugla að stofnarnir séu sterkir og sjálfbærir. Öll sérhagsmunavarsla getur spillt tiltrú almennings á siðferði veiðimanna og eru ívilnanir sem þeir krefjast á fyrirkomulagi veiðistjórnunar í fullri andstöðu við varúðarreglu sem leyfir sjófuglum að njóta vafans. Svartfuglar og ekki síst lundi gefa af sér miklar tekjur vegna ferðamanna sem koma til að skoða þessa fugla og þær tekjur hverfa þegar þeir grípa í tómt. Á myndinni má sjá stuttnefjur í bjargi. Varpstofn stuttnefju hefur minnkað um 44% á landsvísu á sl. 25 árum og um 95% á Reykjanesskaga.

Skoða tillögur hópsins á vef Umhverfisráðuneytisins

Ljósm:JÓH.