Hvernig á að greina blesgæs

Blesgæs hefur viðkomu hér á landi á vorin og svo aftur á haustin frá fyrri hluta september og fram í byrjun nóvember. Nú þegar gæsaveiðitímabilið er hafið er gagnlegt að rifja upp hvernig greina á blesgæsir frá öðrum gæsum en blesgæsin er friðaður fugl.

Blesgæs er dekkst gráu gæsanna. Fullorðnar eru þær með svartar rákir og díla á kvið sem er stundum nánast alsvartur. Fætur eru rauðgulir og goggur gulbleikur. Hvít blesa er ofan goggrótar. Blesgæs er sjónarmun minni en grágæs og heiðagæs en hegðar sér svipað, er þó sneggri á uppflugi og sýnist liprari á flugi. Hún lendir með sveflum og dýfum og kvakar hátt. Röddin er hærra stemmd en hjá öðrum gæsum og hún lætur meira í sér heyra.

Ungfugl að hausti vantar blesuna og svarta bletti á kvið. Hann er lítill og dökkur yfirlitum og goggur er daufari. Erfitt getur verið að greina hann frá öðrum gæsum en hann heldur sig innan um fullorðnar blesgæsir á haustin sem ætti að auðvelda greiningu. Greini skotveiðimenn eina eða fleiri blesgæsir í hóp er er líklegt að allir fuglarnir í hópnum séu blesgæsir. Líklega eru ungar innan um fullorðnu fuglana. Ættu þeir því að leyfa þeim að njóta vafans og sleppa því að skjóta.

Ástæðan fyrir því að blesgæsin er friðaður fugl er hrun í stofninum. Blesgæsarstofninn sem hefur viðdvöl á Íslandi á fartíma er fáliðaður og verpir mjög dreift á Vesturströnd Grænlands. Á fáum árum hefur orðið hrun í stofninum og ein möguleg orsök er slakur varpárangur sem veldur því að nýliðun er ekki nægileg til að standa undir afföllum vegna skotveiða. Stofninn taldi um 36.000 fugla á árunum 1998-99 en er nú líklega innan við 25.000 fuglar. Veiðarnar eru þar af leiðandi ósjálfbærar. Nákvæm orsök afkomubrestsins er óþekkt.

Útbreiðslusvæði blesgæsar á Íslandi er á Vesturlandi um Borgarfjarðarhérað og um sunnanvert Snæfellsnes, til suðurs um Kjós og Hvalfjörð. Á Suðurlandi halda blesgæsir til á láglendi Árnes- og Rangárvallasýslu, undir Eyjafjöllum og í Mýrdal. Í Skaftafellssýslum í Meðallandi, Landbroti og á Síðu.
Á öllum þessum svæðum þarf að gæta meiri varkárni við gæsaveiðar en í öðrum landshlutum er blesgæsin sjaldséður gestur. Sérstaklega ber að taka vara á veiðum í gæsanáttstöðum þar sem vitað er að blesgæsir safnast saman, en þar geta blesgæsir verið innan um grágæsir.

Skotveiðimenn þurfa að sýna sérstaka aðgát á svæðum sem merkt eru með rauðu á kortinu. 

Blesgæsakort

Ráðstefna um plastúrgang

Vertu með í að hreinsa plastið úr heimshöfunum –
Ráðstefna í Hörpu 24.september 2014.

Umhverfisstofnun stendur fyrir alþjóðlegri ráðstefnu um plast í hafi í Hörpu þann 24. september 2014. Meginmarkmið ráðstefnunnar er að leggja til aðgerðir til að draga úr plastúrgangi í hafinu. Plast leikur stórt hlutverk í daglegu lífi okkar og mun gera það um fyrirsjáanlega framtíð. Vitað er að plastúrgangur í hafinu hefur neikvæð áhrif á auðlindir hafsins og á sjávarútveg, svo og á nýtingu strandsvæða fyrir almenning og ferðaþjónustu. Nauðsynlegt er að draga úr þessum áhrifum.

Plastúrgangurinn í hafinu er af ýmsum toga, allt frá míkróplasti sem hefur m.a. verið notað í auknum mæli í snyrtivörur á allra síðustu árum, upp í stóra plasthluti og drauganet. Plast sem velkist um í hafinu berst auðveldlega í maga dýra, auk þess sem dýr geta flækst í plastinu og jafnvel kafnað. Eiturefni sem fyrirfinnast í plastinu eða sitja utan á því eiga greiða leið inn í vistkerfið og þar með í fæðukeðjuna.

Útgerðir verða fyrir miklu tjóni vegna plasts sem flækist í veiðarfæri, skrúfur, vatnsinntök o.fl. Því er mikilvægt að auka meðvitund fólks um málefnið og grípa til markvissra aðgerða til að draga úr plastúrgangi og áhrifum hans í sjónum.

Á ráðstefnunni sem verður í Silfurbergi í Hörpu er ætlunin að fara yfir stöðu mála og benda á færar leiðir til að koma í veg fyrir að plastúrgangur lendi í sjónum. Ísland fer með formennsku í Norrænu ráðherranefndinni árið 2014. Ráðstefnan er hluti af formennskuáætlun Íslands og er styrkt af Norrænu ráðherranefndinni. Til þess að fá fram fjölbreyttar, markvissar og raunhæfar lausnir er nauðsynlegt að ná saman breiðum hópi þátttakenda, bæði frá opinberum aðilum og úr einkageiranum. Þess vegna er ráðstefnan haldin daginn fyrir Íslensku sjávarútvegssýninguna, sem fram fer í Kópavogi dagana 25.- 27. september.

Skráning og frekari upplýsingar á ve Umhverfisstofnunnar: www.ust.is

Fuglaskoðun í friðlandinu í Vatnsmýrinni núna um helgina

Fuglavernd býður upp á fuglaskoðun í friðlandinu í Vatnsmýrinni og að Tjörninni núna á laugardaginn 28. júní. Síðasta gangan í þessari röð. Lagt verður af stað frá andyri norræna hússins klukkan 16:00 en gangan tekur tæpan klukkutíma. Elma Rún Benediktsdóttir mun leiða gönguna en skoðað verður fuglalífið á Hústjörn, Vatnsmýrartjörn, Þorfinnstjörn, Suðurtjörn og Norðurtjörn.
Róleg og þægileg fuglaskoðun í miðborginni – Bara að klæða sig eftir veðri og taka sjónaukann með.

Elma Rún tók þessa gæsarungamynd fyrir hálfum mánuði í Vatnsmýrinni.

Kettir á varptíma

Fuglavernd skorar á kattaeigendur að halda köttum inni yfir varptíma fugla. Kettir eru öflug og afkastamikil rándýr sem höggva stór skörð í stofna fugla sem verpa í nágrenni við mannabústaði ár hvert.  Lang best væri að kettir væru inni yfir varptímann en einhvern vegin þarf að tækla ketti sem eru vanir útigöngu.

Á þessum tíma er mikilvægt að lausaganga katta sé takmörkuð og sérstaklega yfir nóttina. Sagt er að kettir stundi mest veiðar í ljósaskiptunum en  norðarlega á hnettinum lengist dagurinn að vori og senn renna dagur og nótt saman í eitt.  Veiðar katta einskorðast því ekki við ljósaskiptin.

Hægt er að venja kött á að vera inni á nóttunni. Þegar kallað er á hann um kvöldmatarleiti og hann kemur inn þá ber að verðlauna með kattagóðgæti. Svo á ekki að hleypa honum út fyrr en daginn eftir og reyna að takamarka útiveruna við fáeinar klukkustundir.

Kattakragar hafa reynst gott meðal til að minnka veiðar katta og þeir virka betur heldur en bjöllurnar.  Fuglavernd selur kattakraga í vefverslun sinni.

Framleiðendur kraganna Birdsbesafe eru með mikið af fróðleik og upplýsingum um rannóknir á virkni kraganna. Hér má lesa um það á ensku.

Bjöllur og kragar eru í sumum tilfellum betri vörn en engin en langbest er að halda þeim inni.

 

• halda köttum inni, sérstaklega frá kvöldi og fram á morgun (helst frá kl. 17 seinnipart dags og til kl. 9 að morgni),
• gefa köttum sérlega ljúffenga máltíð (kjöt) seinni partinn (þá venjast þeir á að koma heim og eru líklegri til að vilja vera inni, saddir og sælir)
• setja litríka kattakraga utan um ólar kattanna
• setja aukabjöllur á ólarnar

 

Græn ganga 1. maí

Fuglavernd er eitt af þeim félögum sem standa að grænu göngunni 1. maí í samstarfi við stéttarfélög. Efnt er til göngunnar til að krefjast þess að almenningur hafi áfram, eins og hingað til frjálsan aðgang að náttúru Íslands og að almannarétturinn verði virtur.

Þátttakendur safnast saman um kl. 13:00 við hestinn á Hlemmi. Gengið verður á eftir 1. maí göngu stéttarfélaganna sem hefst kl. 13:30. Að dagskrá lokinni á Ingólfstorgi kl. 15 verður gengið að Alþingishúsinu þar sem þúsund grænum fánum verður stungið niður. Göngumenn eru hvattir til að klæðast grænu.

Náttúran er ein dýrmætasta sameign þjóðarinnar. Náttúran, með víðernum og fegurð landsins er einnig orðin okkar helsta tekjulind með örum vexti í ferðaþjónustu. Samhliða því hafa forráðamenn landsvæða takmarkað för fólks um náttúruperlur með gjaldtöku við Geysi og Kerið í Grímsnesi. Einnig er unnið að tillögum um svonefndan náttúrupassa, sem er útfærsla á gjaldi fyrir að skoða náttúru Íslands. Komið hefur fram í skoðanakönnunum að meirihluti landsmanna er mótfallinn slíku gjaldi. Þá hefur þess orðið vart í auknum mæli að landeigendur reyni að takmarka för fólks með því að loka vegum og fornum leiðum með keðjum og hliðum. Almannarétturinn og ferðafrelsið eru því í greinilegri hættu. Krafa grænu göngunnar í ár er að þau beri að vernda og virða.

Eftirfarandi félög standa að grænu göngunni 2014: Alda – félag um sjálfbærni og lýðræði, Eldvötn, Ferðafélag Íslands, Ferðafélagið Útivist, Ferðaklúbburinn 4×4, Framtíðarlandið, Fuglavernd, Græna netið, Landvernd, Náttúruverndarsamtök Íslands, Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands, Náttúruverndarsamtök Suðurlands, Náttúruvaktin, Samtök útivistarfélaga (SAMÚT), Skotveiðifélag Íslands (SKOTVÍS), Umhverfisvaktin við Hvalfjörð og Ungir umhverfissinnar.

 

Fésbókarsíða atburðarins

 

Áhugaverð ráðstefna um matarsóun

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið stendur fyrir morgunverðarfundi um matarsóun undir yfirskriftinni „Hættum að henda mat“, á Degi umhverfisins, 25. apríl næstkomandi. Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO) áætlar að árlega fari 1,3 milljarðar tonna matvæla til spillis. Þetta er álíka mikill matur og framleiddur er árlega í Afríku sunnan Sahara eyðimerkurinnar. Á sama tíma fer ein af hverjum sjö manneskjum í heiminum svöng að sofa og yfir 20 þúsund börn deyja daglega úr næringarskorti. Þessar staðreyndir endurspegla verulegt ójafnvægi þegar kemur að lífsstíl fólks sem aftur hefur stórfelld áhrif á umhverfið, m.a. vegna losunar gróðurhúsalofttegunda, land- og vatnsnotkunar og ýmissar mengunar sem hlýst af matarframleiðslu. Á fundinum verður fjallað um umfang, ástæður og afleiðingar matarsóunar, hvað stýrir okkur sem neytendum þegar kemur að kaupum á mat, hvernig nýta má betur hráefni við matvælaframleiðslu, hvernig draga má úr matarsóun í mötuneytum og þá vitundarvakningu sem hefur orðið meðal almennings og stjórnvalda varðandi þessi efni. Sigurður Ingi Jóhannsson, umhverfis- og auðlindaráðherra ávarpar fundinn. Morgunverðarfundurinn fer fram föstudaginn 25. apríl næstkomandi í Heklusal Hótel Sögu og hefst kl. 8:30 en áætlað er að honum verði lokið kl. 10:30. Fundurinn er öllum opinn og er aðgangur ókeypis en óskað er eftir því að fundargestir skrái sig fyrir kl. 12 á hádegi 23. apríl. Afgangs matur verður nýttur í Kaffistofu Samhjálpar.

Glókollur - karlfugl

Fuglaganga í Laugardal

Sunnudaginn 4. maí næstkomandi munum við í samvinnu við Grasagarðinn skoða fjölskrúðugt fuglalífið í Laugardalnum.    Hannes Þór Hafsteinsson náttúrufræðingur og Aron Leví Beck fuglarannsóknarmaður leiða gönguna og munu fræða okkur um hætti skógarfugla. Lagt af stað við aðalinngang í garðinn kl. 11.00.

Á meðfylgjandi mynd situr glókollur á grein – Örn Óskarsson tók myndina en á garðfuglavefnum okkar má sækja margvíslegan fróðleik.

Landsmót fuglaáhugamanna

Landsmót fuglaáhugamanna verður haldið á Djúpavogi helgina 9.-11. maí.

Dagskráin getur tekið breytingum vegna veðurs

Föstudagur 9. maí
Mæting á Hótel Framtíð. Setning er klukkan 20:00 og síðan munu þeir félagar Björn og Binni frá Höfn vera með kynningu á því hvernig best er að greina máfa

Laugardagur 10. maí
Lagt verður af stað klukkan 8:00 frá Hótel Framtíð í skoðunarferð. Byrjað verður að skoða syðst í Álftafirði og haldið áfram í átt að Búlandsnesi. Kaffi- og nestisstopp verður þar sem hentar.
Klukkan 20:00 verður kvöldverður á Hótel Framtíð. Eftir hann verður Jóhann Óli Hilmarsson með kynningu á náttúru og dýralífi á Svalbarða og einnig frá svæðinu í kring um Djúpavog.

Sunnudagur 11. maí
Dagskrá sunnudagsins er nokkuð opin en stefnt er að því að skoða Teigarhorn, Hálsaskóg og fleiri áhugaverða staði.

Skráning og nánari upplýsingar á: albert@djupivogur.is kristjan@djupivogur.is

Hægt er að fylgjast með breytingum sem verða á facebook síðu birds.is og á www.fuglar.is

Meðfylgjandi mynd er af ósamáfi sem Brynjúlfur Brynjólfsson tók nýverið.

Hollvinir Tjarnarinnar 2013

Hollvinir tjarnarinnar – allir velkomnir

Laugardaginn 5. apríl 2014 munum við hittast í Friðlandinu í Vatnsmýrinni og láta hendur standa fram úr ermum.  Mæting um tíu en allt í lagi að mæta seinna ef þannig stendur á. Það sem þarf að gera er að safna saman rusli, gera hreiður fyrir æðarfuglinn í Stóra hólmanum í Norður-Tjörn og grisja sjálfssáðan trjágróður sem vex á varplandi anda og mófugla í friðlandinu við Norræna húsið.

Allir velkomnir. Þeir sem eru tilbúnir til starfans mega senda línu á fuglavernd@fuglavernd.is – aðallega til að reikna út hve margir verða í kaffi. Nánari áætlun verður tilkynnt þegar nær dregur. Margar hendur vinna létt verk.

Fuglavernd stofnaði í fyrra, með Norræna húsinu, óformlegan hóp sem er kallaður “Hollvinir Tjarnarinnar”. Tilgangurinn er að virkja krafta þeirra áhugamanna sem tilbúnir eru að leggja góðu málefni lið, nefnilega að hlúa að lífríki Tjarnarinnar. Fyrsta aðgerðin var 7. apríl 2013 en þá var tiltekt í Friðlandinu , rusli safnað saman, síkin hreinsuð og runnar og tré klippt.  Meðfylgjandi mynd er af hluta af hópnum sem mætti þennan laugardag.