Grágæs (Anser anser). Ljósmynd: © Daníel Bergmann.

Alþjóðlegi farfugladagurinn 10. október

Alþjóðlegi farfugladagurinn er haldinn tvisvar á ári, vor og haust, sjá https://www.worldmigratorybirdday.org/

Vegna hertra samkomutakmarkana á Höfuðborgarsvæðinu þurftum við að aflýsa fyrirhugaðri fuglaskoðun við Bakkatjörn.

Þess í stað verður hér fjallað um farfugla.

Farfuglar

Fuglar búa yfir þeim einstaka hæfileika að geta flogið. Því geta þeir hæglega valið sér góðan stað til að vera á og einnig flutt sig um set þegar aðstæður breytast. Aðalatriði er að nóg sé af fæðu, en einnig skiptir veður og öryggi miklu máli.

Það kostar mikla orku að fljúga á milli landa. Ávinningurinn af því að komast á góðar vetrar- og sumarstöðvar er þó meiri hjá þeim tegundum sem teljast til farfugla.

Á vetrarstöðvunum er mildara veður og meiri fæða en á norðlægari slóðum yfir veturinn. 

Við sjáum farfugla hópa sig á haustin. Þá eru þeir að byggja sig upp fyrir langflugið og einnig bíða þeir saman eftir ákjósanlegu veðri. Fuglar virðast næmir á veðrið og geta spáð fram í tímann. Það skiptir þá miklu að hafa meðbyr. Hraðskreiðar lægðir hafa þó oft komið farfuglum í bobba, tafið för þeirra þannig að orku þrýtur eða leitt þá af leið.

Meirihluti íslenskra varpfugla, 47 tegundir, eru farfuglar. Af þeim eru 25 tegundir sem teljast farfuglar að öllu leyti en 22 tegundir að mestu leyti. Þessir fuglar yfirgefa landið síðsumars eða á haustin og dvelja vetrarlangt í öðrum löndum eða á úthafinu fjarri Íslandsströndum. 

Fargestir

Nokkrar fuglategundir fara hér um vor og haust og dveljast um nokkurra vikna skeið á leið milli norðlægra varpslóða og vetrarstöðva á Bretlandseyjum eða annars staðar í Vestur-Evrópu. Kunnastar eru þrjár tegundir gæsa: blesgæs (dvelst einkum á Suðurlandsundirlendi og við innanverðan Faxaflóa), helsingi (aðallega norðanlands á vorin en í Skaftafellssýslum á haustin) og margæs (Faxaflói og Breiðafjörður). 

Gæsir

Lesa meira um Tegundavernd>Gæsir

Skrifstofan lokuð

Skrifstofan lokuð

Skrifstofa Fuglaverndar að Hverfisgötu 105, 101 Reykjavík verður lokuð á meðan hertar aðgerðir vegna Covid 19 standa yfir á Höfuðborgarsvæðinu.

Hægt er að hafa samband við félagið með tölvupósti á fuglavernd@fuglavernd.is.

Vefurinn og vefverslunin er alltaf opin, við póstsendum um land allt.

Þá má nýta sér samfélagsmiðla félagsins:

Heiðagæsir á flugi ©Jóhann Óli Hilmarsson

Tegundavernd: Gæsir

Við höfum tekið saman efni um gæsir undir flokknum tegundavernd.

Gæsir eru meðalstórir fuglar, talsvert stærri en endur, hálslengri og háfættari. Þorri gæsa sem hefur viðkomu hér á landi er mjög norðlægur, það er að segja fljúga langt norður á auðnir heimskautssvæðanna til varps. Áður náðu varpsvæði þessara norðlægu gæsa mun sunnar en vegna ágangs manna, aukins veiðiálags og röskunar búsvæða hafa þau færst norðar.

Á haustin safnast gæsir saman í stóra hópa og hefja farflug suður á hlýrri svæði. Með oddafluginu draga gæsirnar úr loftmótstöðu á löngu flugi sínu yfir höf og lönd.

Hér á landi má finna 5 gæsategundir, blesgæs, grágæs, heiðagæs, helsingja og margæs. Blesgæs og margæs eru alfriðaðar en veiðitímabil er í gildi fyrir grágæs, heiðagæs og helsingja.

Lesa meira: Tegundavernd>Gæsir

Álftir á Rauðasandi. Ljósmynd: © Eygló Aradóttir.

Skrifstofan lokuð í júlí vegna sumarleyfa

Skrifstofa Fuglaverndar að Hverfisgötu 105 verður lokuð vegna sumarleyfa starfsfólks í júlímánuði.

Frá og með 1. júlí verður skrifstofan lokuð og opnar aftur að loknu sumarleyfi þriðjudaginn 4. ágúst.

Á sama tíma verða pantanir í vefverslunina ekki afgreiddar, afgreiðsla og afhending fer fram þegar skrifstofan opnar á ný.

Hægt er að hafa samband gegnum vefinn, með því að senda tölvupóst á netfangið fuglavernd@fuglavernd.is eða í gegnum samfélagsmiðla t.d. Facebook Fuglaverndar.

Komdu með: í Hafnarhólma

Hafnarhólmi á Borgarfirði eystra er frábær staður heim að sækja og við hvetjum alla þá sem ætla að leggja land undir fót í sumar að heimsækja Hafnarhólma. Þar er að finna fjölskrúðugt fuglalíf og aðstaða til fuglaskoðunar er með því besta sem gerist á landinu.

Fuglavernd hlaut að erfðagjöf meirihluta í hólmanum árið 2017, en hér má lesa allt um Hafnarhólmann, Búsvæðavernd>Hafnarhólmi.

Ólafur Karl Nielsen, formaður Fuglaverndar.

Haförninn getur orðið illa úti í vindmyllugörðum

Fuglaverndarfélag Íslands varar við því að vindmyllugarðar verði leyfðir á farleiðum fugla og á búsvæðum hafarna og hvetur til varfærni og vandaðs umhverfismats. Þetta kom fram í fréttum Stöðvar 2.

Ólafi K. Nielsen, formanni Fuglaverndarfélagsins, óar við þeim fjölda vindmyllugarða sem nú eru í pípunum.

„Það er eins og eitthvert gullgrafaraæði sé í gangi. Menn hlaupa eins og landafjandar um allt land og reka niður hæla og segja: Hér vil ég byggja!“

Hann segir félagið hvetja til varfærni. Því þurfi vandað umhverfismat.

„Í ljósi þessa höfum við hjá Fuglavernd hvatt stjórnvöld til þess að reyna að afmarka á einhvern máta þau svæði þar sem að vindmyllugarðar kæmu til greina. Ekki að landið allt verði undir.“

Ólafur vill hlífa svæðum sem skilgreind eru sem mikilvæg fuglasvæði, sem hann segir um eitthundrað talsins, en einnig farleiðum farfugla, sem eigi sínar þjóðbrautir á þessum loftvegum.

„Og einn af þessum stöðum er til dæmis Þykkvibærinn,“ segir Ólafur.

Þar hafi þegar risið tvær vindmyllur, áform verið uppi um vindmyllugarð, á svæði þar sem að hans mati ætti ekki að leyfa slík mannvirki.

„Þetta er tugir þúsunda fugla, eða hundruð þúsunda fugla, sem fara um Þykkvabæinn. Stórir fuglar og þungir á flugi, líkt og gæsir, álftir, endur.“

Hann segir stóra fugla berskjaldaða gagnvart vindmyllum og tekur dæmi frá eynni Smøla á vesturströnd Noregs.

„Þar hafa hátt í eitthundrað ernir farist í einum vindmyllugarði síðan hann var reistur fyrir einum fimmtán árum síðan,“ segir Ólafur.

Hann varar við vindmyllum á búsvæðum arnarins hérlendis, eins og Breiðafirði og Mýrum.

„Ef við verðum með vindmyllugarð á slíkum stöðum þá gæti örninn orðið illa úti,“

segir formaður Fuglaverndarfélags Íslands.

Sjá frétt á vef Vísis, myndskeið neðst: Segir haförninn geta orðið illa úti í vindmyllugörðum. 

 

Haldið köttum inni á varptíma

Fuglavernd skorar á kattaeigendur að halda köttum inni yfir varptíma fugla. Kettir eru öflug og afkastamikil rándýr sem höggva stór skörð í stofna fugla sem verpa í nágrenni við mannabústaði ár hvert. Á varptíma er því mikilvægt að lausaganga katta sé takmörkuð og sérstaklega yfir nóttina. Bjöllur og kattakragar eru í sumum tilfellum betri vörn en engin en langbest er að halda þeim inni.

Kettir veiða helst algenga garðfugla: (smellið á tegundina til að sjá varptíma)

 – skógarþröstur

 – svartþröstur

 – stari

– snjótittlingur

– auðnutittlingur

– þúfutittlingur

Aðgerðir sem draga úr afráni katta *

Kattaeigendur geta gert ýmislegt til að draga úr tjóni á náttúru af völdum útikattar:

  1. Stýra útivistartíma kattarins. Hafa skal í huga að bráð veiðist helst þegar hún er hvað virkust. Þetta þýðir að lítil nagdýr veiðast helst að nóttu til en fuglar helst að degi til, sérstaklega snemma morguns (u.þ.b. kl. 5-9) og síðdegis (u.þ.b. kl. 17-21) (miðað við sumarvirkni). Kettir sjá hins vegar verr í mikilli birtu, sem dregur úr veiðiárangri þeirra yfir daginn. Einnig eru fuglar oft viðkvæmari fyrir afráni á varptíma.
    1. Halda ætti öllum köttum inni á nóttunni (helst frá kl. 17 til kl. 9 næsta morgun).
    2.  Sé köttur veiðikló þarf að halda honum inni á varptíma fugla, ef fuglar verpa í nágrenni kattarins.
  2. Nota hjálpartæki til að draga úr afráni. Sé köttur veiðikló þarf að draga úr getu hans til veiða með notkun bjöllu, kraga og/eða svuntu eftir þörfum og aðstæðum. Á þetta sérstaklega við um ketti yngri en 6 ára. Ýmsar rannsóknir hafa sýnt fram á gagnsemi slíkra hjálpartækja. Kattaeigendur gætu þurft að prófa sig áfram til að finna þá lausn sem virkar best á sinn kött.
    1. Fuglakragi ásamt bjöllu ætti að vera staðalútbúnaður útikattarins og ætti að duga flestum.
    2. Kattasvunta gæti verið nauðsynleg hjá sérlega veiðiglöðum köttum og þeim sem eiga til að klifra í trjám til að komast í
      hreiður.
  3. Sjá til þess að kötturinn fái góða örvun og fæðugjafir við hæfi heima fyrir. Sé köttur saddur og sæll og fær að eltast við leikföng hjá fólkinu sínu er ólíklegra (en þó ekki útilokað) að hann sæki í þá fyrirhöfn og spennu sem fylgir veiðum.
  4. Gelda köttinn eigi hann að fá að vera úti. Geldir kettir fara að jafnaði yfir minna svæði þegar þeir eru úti og hafa minni áhuga á veiðum. Þá er gelding útikatta mjög mikilvægur liður í því að koma í veg fyrir myndun villikattastofna.
  5. Fara reglulega með útiketti í ormahreinsun. Þetta atriði er mikilvægt heilsu kattarins, heilsu manna og heilsu villtra dýra, en kettir eru hýslar ýmissa sníkjudýra sem þeir geta fengið í sig við að veiða villt dýr. Þessi sníkjudýr geta svo fyrir slysni borist úr köttum í menn.

Vilji garðeigendur verja fuglavarp í garðinum sínum fyrir ágangi katta (þeirra eigin eða annarra manna) getur verið ráð að sprauta köldu vatni á köttinn þegar hann gerir sig líklegan til að fara í hreiður (auðvitað á þann hátt að kettinum verði ekki meint af). Sumum hefur reynst vel að hafa garðúðara í gangi með litlum þrýstingi undir hreiðurstað. Þá hefur vatnsúðarakerfi með hreyfiskynjurum gefið góða raun. Einnig fást í dýrabúðum ýmis fælingarefni með lykt sem köttum finnst vond, sem t.d. má setja undir tré með hreiðri. Allt gæti þetta dregið verulega úr áhuga kattarins á viðkomandi hreiðri en óvíst er þó hvort slíkar aðgerðir trufli varpfuglana.

*Brot úr grein: Menja Von Schmallensee, 2019. Heimiliskötturinn. Besti vinur mannsins en ógn við fuglalíf? Fuglar 12: 36.

Kattarkragar

Þá hafa kattakragar verið að gefa góða raun við fælingarmátt. Kattarkragar eru í skærum litum og gera það að verkum að rándýrinu tekst síður að læðast að bráðinni, þar sem fuglar sjá skæra liti mjög vel.

Rannsóknir sýna að kettir með kraga drepa allt að 19 sinnum færri fugla en kettir sem eru ekki með kraga. Þá hafa kragar sem eru marglitir (regnbogalitir) gefið betri árangur en rauðir eða gulir.

Í vefverslun Fuglaverndar má versla kattakraga. Póstsendum um land allt.

Portúgal: ósar Tagus ánnar í hættu – undirskriftasöfnun

Stjórn Fuglaverndar hefur sent frá sér bréf, bæði til forseta Portúgal og forsætisráðherra þar sem bent er á þá hættu sem steðjar að mikilvægu fuglasvæði í Portúgal. Þetta svæði eru ósar Tagus-árinnar við Lissabon. Þarna er mikilvægt búsvæði íslenska jaðrakansins (Limosa limosa islandica)

Áætlanir eru um byggingu flugvallar í ósnum (Montijo Airport).

Einnig hefur stjórn Fuglaverndar sent Guðmundi Inga Guðbrandssyni Umhverfis- og auðlindaráðherra bréf um sama efni en þar segir: (Bréfið í heild má finna undir Ályktanir og umsagnir.

Fyrir hönd stjórnar Fuglaverndar vil ég benda á þá hættu sem steðjar að mikilvægu fuglasvæði í Portúgal. Þetta svæði eru ósar Tagus-árinnar við Lissabon. Áætlanir eru um byggingu flugvallar í ósnum (Montijo Airport). SPEA systurfélag Fuglaverndar í Portúgal hefur beitt sér hart gegn þessum fyrirhuguðu framkvæmdum og stendur í málaferlum vegna þeirra. Aðstæður eru allar sérkennilegar, svæðið nýtur verndar skv. portúgölskum lögum og er á lista sem Ramsar-svæði, samt sem áður ætla stjórnvöld að knýja þetta fram.

Ósar Tagus-árinnar eru mikilvægasta votlendissvæði í Portúgal. Um 300 þúsund votlendisfuglar fara þar um vor og haust, um 200 þúsund fuglar hafa þar vetursetu og verndargildi þessa svæðis er mjög hátt í alþjóðlegum samanburði. Þetta svæði snertir beint fuglaverndarhagsmuni hér á landi þar sem nokkrar af vaðfuglategundum okkar fara þar um vor og haust og íslenskir jaðrakanar hafa þar vetursetu.

SPEA systurfélag Fuglaverndar í Portúgal hefur beitt sér hart gegn þessum fyrirhuguðu framkvæmdum og stendur í málaferlum vegna þeirra. Sjá nánar á vef þeirra: http://www.spea.pt/en/news/airport-proposal-threatens-one-of-the-most-important-wetlands-in-europe/.

Þá stendur systurfélag okkar í Hollandi fyrir undirskriftasöfnun:

https://www.vogelbescherming.nl/petitie-grutto-lissabon.

Hafnarhólmi apríl 2018

Aðalfundi 2020 frestað

Fyrirhuguðum aðalfundi Fuglaverndar hefur verið frestað um óákveðinn tíma, vegna frekari takmarkana á samkomubanni. Vonir standa til þess að hægt verði að finna nýja dagsetningu og auglýsa fundinn með löglegum fyrirvara, fyrir sumardaginn fyrsta, sem er þann 23. apríl 2020.

Samkvæmt lögum félagsins hefur aðalfundur æðsta vald í málefnum félagsins.  Hann skal halda fyrir sumardaginn fyrsta ár hvert og skal dagskrá hans vera sem hér segir:

  1. Skýrsla stjórnar um starfsemi félagsins á liðnu almanaksári.
  2. Lagðir fram endurskoðaðir reikningar félagsins.
  3. Breytingar á samþykktum félagsins samkvæmt 7. gr.
  4. Kosin stjórn samkæmt 5 gr. samþykkta félagsins.
  5. Kosinn skoðunarmaður félagsreikninga og einn til vara.
  6. Ákvörðun árgjalds.
  7. Önnur mál.

Fugl dagsins á Fésbók – skrifstofa lokuð

Lóuþræll. Ljósmynd: © Sindri Skúlason

Fugl dagsins hjá Fuglavernd

Á Fésbókarsíðu Fuglaverndar mun birtast ein færsla á dag um fugl dagsins meðan á samkomubanni stendur.

Með þessu viljum við leggja okkar af mörkum, til að stytta fólki stundir og kannski aðeins að dreifa huganum, þó ekki sé nema í stutta stund á hverjum degi. Ef samkomubannið stendur í fjórar vikur þá komumst við yfir 28 fuglategundir alls, við þurfum þá að velja einhverjar þrjár sem eru ekki í hópi ábyrgðartegunda. Hægt verður að koma með ábendingar á Fésbókarsíðunni. Ef samkomubannið stendur lengur, þá finnum við bara til fleiri fuglategundir, það er af nógu að taka. 

Skrifstofa félagsins lokuð

Skrifstofa félagsins að Hverfisgötu 105 í Reykjavík verður lokuð á meðan samkomubannið er í gildi, en starfsfólk félagsins mun ýmist vera við vinnu þar, eða heimavið.

Hægt er að ná í starfsfólk félagsins í gegnum tölvupóst og fuglavernd@fuglavernd.is og gegnum samfélagsmiðla. 

Vefurinn er alltaf opinn og pantanir í vefverslun verða afgreiddar og afhentar eftir samkomulagi við viðskiptavini.