Heiðlóa

Heiðlóa er Fugl ársins 2021!

Það er heiðlóan sem er sigurvegari kosninga um titilinn Fugl ársins 2021. Hún flaug beint á toppinn í atkvæðagreiðslunni og sigraði með glæsibrag þar sem hún fékk bæði flest atkvæði sem 1. val kjósenda  og var einnig með flest atkvæði samanlagt sem 1.-5. val. Himbriminn veitti henni harða keppni. Alls bárust 2054 atkvæði og stóð valið um 20 fugla. Velja mátti 5 fugla og raða þeim í sæti 1-5. 

Himbrimi
Himbriminn veitti heiðlóunni harða keppni um titilinn Fugl ársins 2021. Ljósmyndina tók Eyþór Ingi Jónsson sem var kosningastjóri himbrimans

Það er Fuglavernd sem stendur að baki kosningu á Fugli ársins en stefnt er að því að hún verði árlegur viðburður héðan í frá enda voru viðtökurnar frábærar. Keppnin er  haldin í þeim tilgangi að vekja athygli á fuglum og þeim ógnum sem að þeim steðja, þar á meðal röskun búsvæða og loftslagsbreytingar. Í hópi fugla sem voru keppendur um titilinn Fugl ársins og eru í miklum vanda á Íslandi eru lundi, kría og sendlingur.

Staða heiðlóunnar á Íslandi er þó góð og telst stofninn vera hátt í 400 þúsund pör. Hún er algengur og útbreiddur varpfugl og Ísland er mjög mikilvægt búsvæði fyrir heiðlóuna því að um þriðjungur allra heiðlóa í heiminum verpur hér á landi. Heiðlóan er farfugl og flýgur á haustin til Vestur-Evrópu, aðallega Írlands, en einnig í Frakklands, Spánar, Portúgal og Marokkó, þar sem hún dvelur við strendur og árósa.

Enn ein fjöður í hatt heiðlóunnar

Heiðlóa
Titillinn Fugl ársins 2021 er enn ein fjöður í hatt heiðlóunnar. Ljósmynd: Eyþór Ingi Jónsson

Titillinn Fugl ársins 2021 er enn ein fjöður í hatt heiðlóunnar sem einnig sigraði BirdEurovisionkeppnina árið 2002 með fögrum söng sínum. Heiðlóan er gjarnan kölluð vorboðinn ljúfi og skipar sérstakan sess í hugum landsmanna sem tákn vorkomunnar og er fréttum af fyrstu komu heiðlóunnar á hverju vori ákaft fagnað. Um hana hafa einnig löngum verið ort og kveðin rómantísk ljóð.

Sé ég gróa og grænka kvist
grynnist snjóatakið
vorið hló er heyrði ég fyrst
hlýja lóukvakið

Lóuvísur 1929, Stefán Vagnsson

 

Allir frambóðendur voru með kosningastjóra

Heiðlóan stóð ekki ein í sinni kosningabaráttu en sérstök talskona hennar í keppninni var Guðrún Jónsdóttir. Hún lagði dag við nótt við að lyfta heiðlóunni á flug í keppninni, fór í útvarpsviðtöl, opnaði kosningaskrifstofu, var með kosningakaffi á pallinum og lét útbúa sérstakan hringitón í síma með lóusöng. Hún stofnaði einnig fésbókarsíðu fyrir heiðlóuna sem þegar er komin með um 600 fylgjendur. 

Allir 20 fuglarnir í framboði höfðu kosningastjóra á sínum snærum, fólk úr ýmsum áttum, á öllum aldri, sem stóð sig með stakri prýði. Margir stofnuðu samfélagsmiðlasíður fyrir sína fugla, gerðu myndbönd, fóru í viðtöl og fengu jafnvel sína eigin vefsíðu eins og himbriminn. Fuglavernd þakkar öllum kosningastjórunum kærlega fyrir að leggja fuglum og félaginu lið sitt með þessum hætti og vonar að þau hafi öll haft ánægju af.

,,Lóan er hið eina sanna sameiningartákn þjóðarinnar” sagði Guðrún Jónsdóttir talskona lóunnar og var á því að landsmenn ættu að sameinast um að kjósa hana fugl ársins til að kveða burt kóf og leiðindi síðasta vetrar og það hafa þeir nú gert.

Fuglavernd óskar heiðlóunni til hamingju með titilinn Fugl ársins 2021 og vonar að sumarið verði henni og hennar fiðruðu bræðrum og systrum gjöfult og gott.

Fuglar í 10 efstu sætum í kosningum um Fugl ársins 2021:

  1. Heiðlóa
  2. Himbrimi
  3. Rjúpa
  4. Hrafn
  5. Maríuerla
  6. Kría
  7. Hrossagaukur
  8. Lundi
  9. Svartþröstur
  10. Músarrindill

Nánari upplýsingar um frambjóðendur og kosningastjóra þeirra er að finna á vefsíðunni keppninnar fuglarsins.is

Gerast félagi í Fuglavernd

Styrkja starf Fuglaverndar

Fugl ársins 2021 – Atkvæðin streyma inn

Atkvæði streyma nú inn í tengslum við kjör á Fugli ársins 2021 og hafa nú um 1500 manns greitt atkvæði. Allir sem hafa íslenska kennitölu hafa atkvæðisrétt og engin aldursmörk eru á kjörgengi. Velja má allt að 5 fugla sem 1.-5. val en ekki má setja sama fuglinn í fleiri en eitt sæti.

Allir fuglarnir komnir með kosningastjóra 
Lómar berjast um óðal. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson
Lómar eru oft með mikið busl og læti eins og kjósendur Fugls ársins 2021 í heitu pottunum um þessar mundir. Lómur keppir þó ekki um titilinn í ár. Ljósmynd Jóhann Óli Hilmarsson

Allir fuglarnir 20 sem eiga möguleika á titlinum Fugl ársins 2021 náðu að krækja sér í sérstaka kynningarfulltrúa í formi talskvenna og kosningastjóra. Um er að ræða fólk á öllum aldri og úr öllum áttum sem á það sameiginlegt að vera fuglavinir. Sum þeirra hafa komið upp samfélagsmiðla- og vefsíðum fyrir fugla sína og einnig hafa þau dyggilega talað máli sinna fugla í fjölmiðlum án þess að halla á aðra frambjóðendur.

Fuglavernd reiknar með að spennan eigi eftir að magnast eftir því sem líður á kosninguna en henni lýkur sunnudaginn 18. apríl kl. 18. Nú þegar heitu pottarnir hafa opnað aftur er einnig næsta víst að Fugl ársins 2021 verði heitasta umræðuefnið þar enda hefur fólk sterkar skoðanir á því hver á að verða Fugl ársins. Fuglavernd hefur nokkrar áhyggjur af því að einhverjir muni missa sig í skvett og fjaðrafok eins og buslöndum er gjarnt, en biðlar til fólks að gæta ítrustu sóttvarna og virða fjarlægðarmörk.

Á vef keppninnar má finna hlekk á kjörseðilinn, upplýsingar um frambjóðendur og fyrirkomulag kosninganna.

KJÓSA FUGL ÁRSINS 2021

Kosningin um Fugl ársins 2021 er hafin!

Kosning um Fugli árins 2021 hefur tekið flugið og stendur hún til kl. 18 sunnudaginn 18. apríl.

Finna má hlekk á rafrænt kosningaeyðublað, upplýsingar um frambjóðendur, kosningastjóra þeirra og allar nánari upplýsingar um kosninguna á síðu keppninnar á hlekknum hér:

Fugl ársins 2021

Atkvæði eru þegar farin að streyma inn eins og farfuglar að vori og einnig umsóknir um stöður kosningastjóra fuglanna sem eru í framboði.  Nú eru 9 fuglar af 20 sem eru í framboði búnir að næla sér í einn slíkan. Þó kosningin sé hafin er enn hægt að sækja um stöður kosningastjóra þeirra fugla sem út af standa og freista þess að gefa þeim byr undir báða vængi í keppninni.

Á myndinni með þessari frétt er blesgæs sem ekki keppir um titilinn Fugl ársins þetta árið en hún tók að sér af mesta hlutleysi að myndskreyta fréttina á táknrænan hátt þar sem hún hefur sig til flugs. Myndina tók Jóhann Óli Hilmarsson.

Uppfært: Allir fuglarnir í framboði um titilinn Fugl ársins 2021 eru nú komnir með kosningastjóra og talskonur!

 

 

Tveir auðnutittlingar. @Eyþór Ingi Jónsson

Auðnutittlingur og lundi komnir með kosningastjóra!

Spennand magnast í keppninni um Fugl ársins 2021 en nú eru auðnutittlingur og lundi komnir með kosningastjóra. Guðni Sighvatsson  tók að sér að hvetja auðnutittling til dáða í keppninni og er  auðnutittlingurinn komin með síðu á Instagram. Guðni segist vilja vera talsmaður auðnutittlings í keppninni í þakklætisskyni við auðnutittlinginn sem gleður hann og aðra Laugvetninga með návist sinni árið um kring.

Lundi. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Sunna Dís Kristjánsdóttir kennari tilnefndi lunda í keppnina Fugl ársins 2021 ásamt 34 lundaelskum krökkum í bekknum hennar í Engidalsskóla í Hafnarfirði og er nú orðin kosningastjóri lundans. Hún hefur sett upp síðu á Facebook fyrir lundann þar sem hann er dásamaður fyrir fegurð sína og hæfileika og m.a. birtar fallegar myndir og teikningar af lundum frá krökkunum.

Fuglavernd býður Guðna og Sunnu Dís og krakkana í Engidallskóla velkomin í hóp kosningastjóra í Fugli ársins 2021 óskar þeim auðnutittlingi og lunda velfarnaðar í keppninni.

Grágæsin var áður komin með kosningastjóra en enn eru lausar stöður 17 fugla sem keppa um titilinn Fugl ársins 2021 og hvetur Fuglavernd áhugasama á öllum aldri til að kynna sér málið og sækja um fyrir sína fugla. Nánari upplýsingar um keppnina og hvernig sótt er um stöðu kosningastjóra má finna á vefsíðu keppninnar Fugl ársins 2021.

Grágæs (Anser anser). Ljósmynd: © Daníel Bergmann.

Grágæsin komin með kosningastjóra!

Grágæsin hefur sig til flugs í keppninni um titilinn Fugl ársins 2021 ásamt 20 öðrum fuglum en er sú eina sem er komin með kosningastjóra. Líklega veitir henni ekki af því að bæta ímynd sína vegna núnings við mannskepnuna. ,,Ég vil boða þann sannleik sem hefur farið framhjá of mörgum að grágæsin er hetja og besti vinur Íslendinga” segir Kolbeinn Sæmundur Hrólfsson í umsókn sinni um stöðuna. 

Hinir 19 fuglarnir í keppninni eru enn án kosningastjóra og Fuglavernd hvetur áhugasama til að senda inn umsókn HÉR. 

Hlutverk kosningastjóra er fyrst og fremst að nota hugmyndaflugið til að vekja athygli á málefnum fuglsins, t.d. á samfélagsmiðlum, svo hann nái sér á flug í keppninni. 

Nánari upplýsingar um leitina að Fugli ársins 2021 og þá 20 fugla sem keppa.

Grágæsin er komin á samfélagsmiðla:

Grágæsin tístir

Grágæsin á Instagram

#gragaesin

Fugl ársins 2021 - logo

Keppendur um titilinn Fugl ársins 2021

Nú er ljóst hvaða 20 fuglar munu keppa um titilinn Fugl ársins 2021. Fuglavernd leitaði til almennings um að tilnefna fugla í keppnina og rökstyðja valið vel. Fjöldi tilnefninga barst og alls fengu 46 íslenskar fuglategundir tilnefningu, auk gárans Nóa sem ættaður er frá Ástralíu. Hann fékk tilnefningu frá eiganda sínum með mjög góðum rökstuðningi: ,,Nói er blíður og góður en samt stundum nett frekur, hann er uppáhalds fuglinn minn”. Nói komst þó því miður ekki á listann því einungis villtir fuglar eiga keppnisrétt. Valið var þó mjög erfitt því auðvitað eiga allir fuglar skilið að vera fugl ársins. Ein röksemdin var einmitt á þá leið:

,,Sá fugl sem ég horfi á hverju sinni er minn uppáhalds fugl, svo eiginlega ætti ég að nefna þá alla”

Í þessari keppni getur þó aðeins einn orðið Fugl árins 2021 svo nú er um að gera að gera upp hug sinn um hver af þessum 20 á listanum á titilinn helst skilið. Kosningarnar sjálfar fara fram 9.-18. apríl og Fugl ársins 2021 verður kynntur á sumardaginn fyrsta 22. apríl. 

Smelltu hér til að sjá hvaða fuglar keppa um titilinn Fugl ársins 2021.

 

Rita. Ljósmynd © Jóhann Óli Hilmarsson.

Aðalfundur Fuglaverndar 2021 og frestir vegna hans

Stefnt er að því að halda aðalfund Fuglaverndar fyrir starfsárið 2020 fimmtudaginn 15. apríl nk. Staður og stund verða nánar auglýst síðar.

Frestur til að skila inn framboðum til stjórnarkjörs rennur út 14. febrúar.
Á hverju ári ganga þrír úr stjórn félagsins og annað hvert ár gengur formaður úr stjórn. Í ár er sæti formanns laust og þrjú sæti í stjórn, en öll gefa kost á sér áfram. Sjá: Skrifstofa og stjórn.

Tillögum að breytingum á samþykktum félagsins þarf að skila inn fyrir 15. febrúar.  Sjá: lög og siðareglur félagsins.

Framboðum í stjórn og breytingartillögum skal skilað með tölvupósti á netfang Fuglaverndar eða bréfleiðis til stjórnar.

Tölvupóstfang Ólafs Karls Nielsen formanns er okn@ni.is og félagsins fuglavernd@fuglavernd.is.

Dyrhólaós

Stefnir Ísland á að grafa skurði umhverfis jörðina?

Í dag 2. febrúar er Alþjóðlegi votlendisdagurinn eða World Wetlands Day

Þennan dag árið 1971, var undirritaður alþjóðasamningur um verndun alþjóðlega mikilvægra votlendissvæða, einkum fyrir fuglalíf, og er hann kenndur við  borgina Ramsar í Íran. Ísland gerðist aðili að Ramsarsamningnum árið 1978 og skuldbatt sig þar með til að setja verndun mikilvægra votlendissvæða í öndvegi.

Votlendissvæði eru afar mikivæg búsvæði margra fuglategunda, en stórfelld röskun þeirra um alla jörð hefur skaðað fuglalíf og stuðlað að mikilli aukningu á losun gróðurhúsalofttegunda. Ísland á líklega heimsmet í röskun votlendissvæða en um 70% votlendis á láglendi hefur verið raskað. Við höfum grafið skurði sem telja um 33.000 km, sem samsvarar rúmlega 80% af vegalengdinni umhverfis jörðina um miðbaug.

Enn eru uppi áform um stórfellda röskun á votlendi og má þar nefna Dyrhólaós í Mýrdal sem fyrirhugað er að rýra með nýrri vegarlagningu. Dyrhólaós og umhverfi hans er á Náttúruminjaskrá (svæði 708) og þar eru einu sjávarleirurnar sem finnast á Suðurlandi og því mikilvægt búsvæði fugla.

Fuglavernd leggst eindregið gegn þessum áformum og lýsir áhyggjum af því að veglagningin geti haft varanleg skaðleg áhrif á fuglalíf við ósinn eins og m.a. er bent á í nýlegri umsögn Fuglaverndar um fyrirhugaða færslu þjóðvegar (1) um Dyrhólaós í Mýrdal. Fuglavernd hvetur stjórnvöld til að hverfa frá fyrirhuguðum framkvæmdum og huga frekar að stækkun og friðlýsingu náttúruminjasvæðisins eins og Náttúrufræðistofnun hefur lagt til.

Á 50 ára afmæli Ramsarsamningsins er Ísland enn á þeim stað að meira er raskað af votlendi en nemur því sem er endurheimt. Með sama áframhaldi er hætt við að þess verði ekki langt að bíða að íslenskir skurðir muni samanlagt ná umhverfis jörðina.

Auðnutittlingur. @Eyþór Ingi Jónsson

Garðfuglahelgin 2021 – Streymisfundur á Zoom

Streymisfundur um framkvæmd Garðfuglatalningar

Fimmtudaginn 28. janúar kl. 17 verður boðið upp á streymisfund þar sem farið verður stuttlega yfir framkvæmd garðfuglatalningar á Garðfuglahelginni 2021. Nánari upplýsingar um Garðfuglahelgina 2021 má finna hér.

Smelltu á hlekkinn til að tengjast:

https://us02web.zoom.us/j/88943208660?pwd=VnROYmJmblRkT2YwWjZTbnF1OGM1QT09

Hægt verður að koma með skriflegar spurningar.

Allir velkomnir meðan Zoomrúm leyfir!

Dyrhólaós

Fyrirhuguð færsla hringvegar (1) um Mýrdal

Vegagerðin hefur auglýst drög að matsáætlun fyrir færslu hringvegar (1) um Mýrdal 

Nýja vegstæðið liggur við norðanverðan Dyrhólaós sem er á náttúruminjaskrá. Þar eru einu sjávarleirurnar á Suðurlandi og eru þær mikilvægar fyrir fuglalíf, sérstaklega á fartíma. 

Jóhann Óli Hilmarsson fyrrv. formaður Fuglaverndar ritaði skýrslu árið 2013 um fuglalíf við Dyrhólaós en hennar er því miður er ekki getið í drögum VSÓ að matsáætlun fyrir Vegagerðina. Niðurstöður skýrslunnar benda til þess að vegstæði á bökkum Dyrhólaóss geti haft varanleg og skaðleg áhrif á fuglalíf við ósinn.

Vakin er athygli á því að hægt er að senda inn athugasemdir við drögin til Vegagerðarinnar til 1. febrúar 2021.