Hvers vegna er lundinn að hverfa?

Stytt úr grein NY Times: Why Are Puffins Vanishing? The Hunt for Clues Goes Deep (Into Their Burrows)

Ofveiði fisktegunda, veiðar og mengun eru meðal þátta sem valda álagi á fuglana en loftslagsbreytingar gætu reynst stærsta áskorunin.

“Lundinn er algengasti fugl Íslands” segir dr. Erpur Snær Hansen, stjórnarmaður í Fuglavernd og starfandi forstöðumaður Náttúrustofu Suðurlands. “Og hann er líka mest veiddur”.

Ásamt dr. Fayet, frönskum vísindamanni við Háskólann í Oxford, vinnur Erpur Snær Hansen að rannsókn hennar við vöktun á fjórum lundabyggðum, tveimur á Íslandi, einni í Wales og einni í Noregi. Frá árinu 2010 hefur dr. Erpur Snær einnig framkvæmt talningar tvisvar á ári, “lundarallið” þar sem hann ferðast tæpa 5.000 km hringinn í kringum landið og heimsækir um 700 merktar lundaholur í 12 lundabyggðum. Talin eru egg og ungar.

Hitastig sjávar umhverfis Ísland stjórnast af langtímasveiflum þar sem hlýskeið og kuldaskeið skiptast á. Frá 1965-1995 ríkti kuldaskeið og núverandi er hlýskeið. Dr. Erpur Snær segir að mælingar á hitastigi að vetri sýni hlýnun um 1°C, sem virðist vera lítið en hefur mikil áhrif á sandsíli. Kenning hans er þessi: “Ef hitastig hækkar um eina gráðu, breytir það vaxtarhraða og getu þeirra til að lifa af veturinn”.

Lundarallið hefur sýnt að 40% lundaunga léttast með tíma, sem er önnur slæm vísbending.

Þegar fullorðnu fuglarnir geta ekki veitt nóg til að fæða sjálfa sig og ungana, þá taka þeir ákvörðun með eðlisávísun sinni; ungarnir svelta.

Dr. Fayet kallaði leit sína “hjartabrjótandi”: “Þú stingur hendinni inn í lundaholuna og þreifar fyrir þér, finnur lítinn bolta á gólfinu, en áttar þig þá á því að hann er kaldur og hreyfir sig ekki”.

Dr. Hansen with a puffin chick pulled out of its burrow. ©Josh Haner – NY Times
Dead puffins taken by hunters that Dr. Hansen encountered on Lundey Island. ©Josh Haner – NY Times
Taking a break while hauling equipment on Iceland’s southeastern coast. ©Josh Haner – NY Times

Greinin í heild í NY Times: Why Are Puffins Vanishing? The Hunt for Clues Goes Deep (Into Their Burrows)

Framtíð spóans

Alþjóðlegi farfugladagurinn var laugardaginn 12. maí og Spóahátíð var einn af þeim viðburðum sem haldinn var víðs vegar um heiminn til að halda daginn hátíðlegan.

Tómas Grétar Gunnarsson, forstöðumaður Rannsóknarseturs Háskóla Íslands á Suðurlandi hélt síðasta erindi dagsins um vernd spóans hér á landi.

Myndband: Framtíð spóans

Forseti Íslands Hr. Guðni Th. Jóhannesson og Ásbjörn Björgvinsson framkvæmdastjóri Votlendissjóðsins

Votlendissjóðurinn tekur til starfa

Skrifað hefur verið undir stofnun Votlendissjóðsins. Tilgangur hans er að stuðla að endurheimt votlendis og draga með því úr losun gróðurhúsalofttegunda. Verndari sjóðsins er Forseti Íslands hr. Guðni Th. Jóhannesson. Kynningarfundur var haldinn á Bessastöðum þann 30. apríl 2018.

Votlendissjóðurinn er stofnaður um samfélagslegt verkefni sem hefur það að markmiði að fá fyrirtæki, félagasamtök og einstaklinga til að fjármagna endurheimt hluta þess votlendis sem þegar hefur verið raskað hérlendis. Víðtækt samstarf liggur að baki þessu verkefni svo sem Landgræðsla Ríkisins, Landbúnaðarháskólinn, Háskóli Íslands, Rannsóknarsetur Háskóla Íslands á Suðurlandi, Vegagerðin, Fuglavernd, Landvernd, Klappir, Náttúrustofa Austurlands, Náttúrufræðistofnun Íslands, sveitarfélög, bændur og landeigendur.

Verkefnið verður unnið með hverju sveitarfélagi fyrir sig þar sem íbúar fá kynningu á verkefninu og landeigendur fá boð um að taka þátt. Sveitarfélagið Fjarðabyggð ríður á vaðið og verður þar tilraunaverkefni sem verður þróað áfram. Reynt verður að fá ríkið til að endurheimta votlendi á þeim ríkisjörðum sem ekki eru í notkun.

Ásbjörn Björgvinsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Votlendissjóðsins.

Myndir

 

Meira um votlendi

Verkefnin>Votlendi

Votlendi.is

Facebook: Votlendi

 

 

 

 

Ástand fuglastofna heimsins - púlsinn tekinn á plánetunni. Forsíða.

Ástand fuglastofna heimsins

Fuglavernd eru aðilar að BirdLife International sem eru ein elstu náttúruverndarsamtök heims en sögu þeirra má rekja aftur til 1922.

Í samantekt BirdLife um ástand fuglastofna heimsins kemur m.a. fram að einn af hverjum átta fuglastofnum er talinn vera í útrýmingarhættu.  Þrátt fyrir að fréttirnar séu slæmar þá er hægt að grípa til ýmissa ráða, um það má líka lesa í skýrslunni.

Stofnþróun fuglastofna á válista IUCN og stofnþróun fuglastofna í Evrópu.
Stofnþróun fuglastofna á válista IUCN og stofnþróun fuglastofna í Evrópu.
Yfirlitsmynd um útrýmingarhættu fuglastofna og flokkun í áhættuflokka.
Yfirlitsmynd um útrýmingarhættu fuglastofna og flokkun í áhættuflokka.
Árangur sem náðst hefur í að minnka fugla sem meðafla við fiskveiðar.
Árangur sem náðst hefur í að minnka fugla sem meðafla við fiskveiðar.

Skýrslan í heild sinni

BirdLife: State of the World’s Birds – taking the pulse of the planet.  

Lóa. Ljósmyndari: Alex Máni 2014.

Lóan er komin

Lóan er komin að kveða burt snjóinn.  Helsti vorboði okkar er kominn á tilsettum tíma nú rétt fyrir páska, fyrstu lóurnar sáust í Flóanum í dag. Aðeins tvisvar sinnum hafa lóurnar komið seinna en í dag, 1999 og 2001, en meðalkomudagur þeirra 1998-2017 hefur verið 23. mars. 

Lóan er einkennisfugl íslenskra móa og útbreiddur varpfugl um land allt og einnig á hálendinu.  Lóan er vaðfugl sem verpur einkum á þurrum stöðum, mólendi og grónum hraunum. Hreiðrið er opin laut milli þúfna eða á berangri, klætt með stráum.

Um helmingur af heimsstofni lóunnar verpur hér á landi, eða um 300.000 pör, svo ábyrgð okkar gagnvart þessum vorboða er mikil og nauðsynlegt að vernda búsvæði hennar.

Vetrarheimkynnin eru í Vestur Evrópu, aðallega á Írlandi en einnig í Frakklandi, Portúgal og á Spáni.

skjáskot af myndbandi um garðfugla

Myndband um garðfugla og fóðrun

Undir Verkefnin>Garðfuglar höfum við sett inn myndband um garðfugla og fóðrun þeirra.

Örn Óskarsson, http://ornosk.com/ hélt fræðsluerindi um garðfugla og fóðurgjafir fimmtudagskvöldið 25. janúar 2018. Í erindinu fjallar hann um helstu tegundir garðfugla á Íslandi, fóðurgjafir, vatn, hreinlæti og allt það helsta sem skiptir máli.

Þá viljum við minna á að í vefversluninni okkar finnur þú fuglafóður og fuglahús til styrktar félaginu.

 

Gardfuglar 2017 Kápumynd Snjótittlingur ©Daníel Bergmann

Nýr garðfuglabæklingur og garðfuglahelgin

Bæklingurinn Garðfuglar er nú fáanlegur í vefverslun okkar í nýrri og endurbættri útgáfu. Bæklingurinn eru 24 bls. af fróðleik um fuglategundir sem vænta má í görðum, um fuglafæðu og hvaða gróðurtegundir gera garðinn aðlaðandi fyrir fuglalíf. Bæklinginn prýða bæði teiknaðar skýringarmyndir , m.a. eftir  Jón Baldur Hlíðberg, og ljósmyndir eftir nokkra félagsmenn, þá Daníel Bergmann, Hrafn Óskarsson, Jóhann Óla Hilmarsson, Sindra Skúlason og Örn Óskarsson.

Garðfuglahelgin 2018

Árleg garðfuglahelgi Fuglaverndar er nú um helgina, frá 26. -29. janúar.  Á þessum tíma í janúar er fjöldi fugla í görðum í hámarki og farfuglarnir ekki komnir til landsins. Athuganir garðfuglahelgarinnar gefa því vísbendingar um tegundir og fjölda fugla um hávetur á Íslandi.

Fyrirmynd garðfuglahelgarinnar er komin frá RSPB en í Bretlandi hefur garðfuglahelgin verið haldin frá árinu 1979 en hefur verið haldin hér á landi frá árinu 2004.

Veldu þér klukkutíma einhvern daganna um þessa helgi og fylgstu með fuglunum í garðinum þínum. Aðeins á að skrá fjölda fugla af ákveðinni tegund sem sjást saman í garðinum, ekki á að telja þá fugla sem fljúga hjá. Best er að tilkynna fjölda flestra fugla sem koma og setjast í garðinn. Það má nefnilega ekki leggja saman, það er gert til þess að forðast tvítalningar á sama fuglinum, sem ef til vill kemur á 15 mínútna fresti í garðinn. Þá er hann skráður sem einn fugl en ekki fjórir. Ef fjöldi fuglanna er slíkur að það getur verið erfitt að telja kvika smáfugla, er gott hjálpartæki að taka mynd og telja fuglana sem sjást á henni.

Fyrir börn og þá sem eru að stíga sín fyrstu skref í fuglaskoðun, þá höfum við útbúið:

Garðfuglar – Hjálparblað með myndum.pdf sem hægt er að prenta út og nota við talninguna.

Niðurstöðurnar getur þú skráð rafrænt hér:

Garðfuglahelgin 2018, rafræn skráning athugana

 

Vefverslunin

Í vefversluninni okkar finnur þú líka fuglahús og fuglafóður.

 

 

Hófsemi veiðimanna lykillinn að sjálfbærum rjúpnaveiðum

Náttúrufræðistofnun Íslands hefur metið veiðiþol rjúpnastofnsins 2017. Ráðlögð rjúpnaveiði í haust er um 57 þúsund fuglar, en hún var á síðasta ári 40 þúsund fuglar. Stofnunin leggur áherslu á að hvergi verði slakað á í þeirri viðleitni að draga sem mest úr heildarafföllum rjúpunnar.

Viðkoma rjúpunnar var metin með talningum í tveimur landshlutum síðsumars. Hlutfall unga reyndist vera 78% á Norðausturlandi og 79% á Suðvesturlandi, þetta er ágæt viðkoma. Miðað við niðurstöður rjúpnatalninga er stærð rjúpnastofnsins  í meðallagi víðast hvar um land 2017 en þó ekki á Vestfjörðum og Suðausturlandi, þar er stofninn í lágmarki. Reiknuð heildarstærð varpstofns rjúpu vorið 2017 var metin 173 þúsund fuglar, en var 132 þúsund fuglar 2016. Framreiknuð stærð veiðistofns 2017 er 649 þúsund fuglar miðað við 453 þúsund fugla 2016. Þessir útreikningar byggja á gögnum fyrir Norðausturland og ofmeta stærð stofnsins nær örugglega.

Sjá nánar: Tillögur um rjúpnaveiði 2017

Veiðidagar rjúpu 2017

Fjöldi veiðidaga eru 12 sem skiptast á fjórar helgar, þ.e. síðustu helgina í október og fyrstu þrjár í nóvember:

  • föstudaginn 27. október, laugardaginn 28. október og sunnudaginn 29. október,
  • föstudaginn 3. nóvember, laugardaginn 4. nóvember og sunnudaginn 5. nóvember,
  • föstudaginn 10. nóvember, laugardaginn 11. nóvember og sunnudaginn 12. nóvember,
  • föstudaginn 17. nóvember, laugardaginn 18. nóvember og sunnudaginn 19. nóvember.

Veiðiverndarsvæði suðvestanlands

Á vef Umhverfis- og auðlindaráðuneytis kemur fram að líkt og undanfarin ár er veiðiverndarsvæði á SVlandi.

Sjá einnig: Kort af veiðiverndarsvæði rjúpu suðvestanlands.

Um svæðið segir í reglugerð 800/2005: “Allar rjúpnaveiðar eru óheimilar innan svæðis sem birt er í viðauka I við reglugerð þessa og markast í norðri af lögsagnarumdæmi Reykjavíkur, Mosfellsbæ, austurhluta Mosfellsheiðar í Grímsnes- og Grafningshreppi og Skálafells og Skálafellshálsi í Grímsnes- og Grafningshreppi, Bláskógabyggð og Kjósarhreppi. Hið friðaða svæði í Skálafelli og Skálafellshálsi markast af Kjósarskarðsvegi (48) frá vegamótum við Þingvallaveg (360) að vegamótum við Meðalfellsveg (461) og þaðan að brú á Svínadalsá og er ánni síðan fylgt að mörkum Reykjavíkur um Svínaskarð. Norðurhluti svæðisins markast síðan af Þingvallavegi frá gatnamótum Kjósarskarðsvegar að Grafningsvegamótum og þaðan af línu sem dregin er í austur frá Grafningsvegamótum í Þingvallavatn. Svæðið markast í austri af Þingvallavatni og fylgir síðan austurbakka Sogs og Ölfusár til sjávar.”

Sölubann á rjúpu og hófsemi veiðimanna

Markmið veiðistjórnunar á rjúpu er að veiðar verði sjálfbærar þannig að komandi kynslóðir geti stundað veiðar. Veiðistjórnun snýst því að vissu leyti um það langtímasjónarmið að vernda veiðistofna til framtíðar. Undanfarin ár hefur fyrst og fremst verið lögð áhersla á þrjú atriði í veiðistjórnun. Sóknardögum hefur verið fækkað verulega, sölubann á rjúpu og rjúpuafurðum var komið á og biðlað var til veiðimanna um að sýna hófsemi á rjúpnaveiðum.

Sölubann á rjúpu er í gildi skv. reglugerð 800/2005 sem eru breytingar á reglugerð 456/1994 og eiga þær sér stoð í lögum um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum nr. 64/1994. 

Umhverfisstofnun fer með eftirlit með veiðum og hér má skrá sig inn á vef Umhverfisstofnunar. Þar skila skotveiðimenn veiðiskýrslum árlega, óháð því hvort eitthvað var veitt eða ekki og sótt um og endurnýjuð veiðikort.

Þá viljum við minna á öryggi veiðimanna á veiðslóð og bendum á Vef Safetravel.is þar sem veiðimenn geta skilið eftir ferðaáætlun.

Fuglavernd hvetur alla skotveiðimenn til að sýna hófsemi við veiðar í rjúpu í ár, sem fyrri ár, svo stuðla megi að sjálfbærni rjúpnaveiða.

 

Hvernig á að greina blesgæs? – Gæsaveiðitímabilið er hafið

Fuglaveiðimenn eru farnir að undirbúa fyrstu veiðiferð tímabilsins. Veiðar á grágæsum og heiðagæsum hófust sunnudaginn 20. ágúst.Þann 1. september hefst veiðitímabil anda, en á vef Umhverfisstofnunar má sjá veiðitímabil þeirra fugla sem heimilt er að veiða.

Veiðimenn skulu sérstaklega minntir á að óheimilt er að skjóta fugla í sárum og ófleyga fugla. Í upphafi veiðitímabilsins má búast við að rekast á ófleyga unga, sérstaklega á svæðum þar sem varp hefur farið seint af stað. Einnig er ástæða til að minna sérstaklega á alfriðun blesgæsarinnar en hún hefur verið friðuð síðan 2006. Þá mega veiðar á helsingja í Austur– og Vestur–Skaftafellssýslum ekki hefjast fyrr en 25. september.

Greining blesgæsar

Blesgæs hefur viðkomu hér á landi á vorin og svo aftur á haustin frá fyrri hluta september og fram í byrjun nóvember. Nú þegar gæsaveiðitímabilið er hafið er gagnlegt að rifja upp hvernig greina á blesgæsir frá öðrum gæsum en blesgæsin er friðaður fugl.

Blesgæs er dekkst gráu gæsanna. Fullorðnar eru þær með svartar rákir og díla á kvið sem er stundum nánast alsvartur. Fætur eru rauðgulir og goggur gulbleikur. Hvít blesa er ofan goggrótar. Blesgæs er sjónarmun minni en grágæs og heiðagæs en hegðar sér svipað, er þó sneggri á uppflugi og sýnist liprari á flugi. Hún lendir með sveflum og dýfum og kvakar hátt. Röddin er hærra stemmd en hjá öðrum gæsum og hún lætur meira í sér heyra.

Ungfugl að hausti vantar blesuna og svarta bletti á kvið. Hann er lítill og dökkur yfirlitum og goggur er daufari. Erfitt getur verið að greina hann frá öðrum gæsum en hann heldur sig innan um fullorðnar blesgæsir á haustin sem ætti að auðvelda greiningu. Greini skotveiðimenn eina eða fleiri blesgæsir í hóp er er líklegt að allir fuglarnir í hópnum séu blesgæsir. Líklega eru ungar innan um fullorðnu fuglana. Ættu þeir því að leyfa þeim að njóta vafans og sleppa því að skjóta.

Hrun í stofninum ástæða friðunar

Ástæðan fyrir því að blesgæsin er friðaður fugl er hrun í stofninum. Blesgæsarstofninn sem hefur viðdvöl á Íslandi á fartíma er fáliðaður og verpir mjög dreift á Vesturströnd Grænlands. Á fáum árum hefur orðið hrun í stofninum og ein möguleg orsök er slakur varpárangur sem veldur því að nýliðun er ekki nægileg til að standa undir afföllum vegna skotveiða. Stofninn taldi um 36.000 fugla á árunum 1998-99 en er nú líklega innan við 19.000 fuglar. Veiðarnar eru þar af leiðandi ósjálfbærar. Nákvæm orsök afkomubrestsins er óþekkt.

Útbreiðslusvæði blesgæsar

Útbreiðslusvæði blesgæsar á Íslandi er á Vesturlandi um Borgarfjarðarhérað og um sunnanvert Snæfellsnes, til suðurs um Kjós og Hvalfjörð. Á Suðurlandi halda blesgæsir til á láglendi Árnes- og Rangárvallasýslu, undir Eyjafjöllum og í Mýrdal. Í Skaftafellssýslum í Meðallandi, Landbroti og á Síðu.
Á öllum þessum svæðum þarf að gæta meiri varkárni við gæsaveiðar en í öðrum landshlutum er blesgæsin sjaldséður gestur. Sérstaklega ber að taka vara á veiðum í gæsanáttstöðum þar sem vitað er að blesgæsir safnast saman, en þar geta blesgæsir verið innan um grágæsir.

Skotveiðimenn þurfa að sýna sérstaka aðgát á svæðum sem merkt eru með rauðu á kortinu. 

Útbreiðslusvæði blesgæsar
Útbreiðslusvæði blesgæsar

© Ljósmynd: Blesgæs. Jóhann Óli Hilmarsson

Ungum er það allra best

Það verður aldrei of oft hamrað á því að, að velferð fugla þarf alltaf að ganga fyrir. Það má ekki trufla þá, ekki fara of nálægt þeim sérstaklega ekki fara of nálægt hreiðrum.

Látið unga í friði sem virðast vera munaðarlausir, takið þá ekki úr sínu náttúrulega umhverfi. Foreldrarnir eru oftast í næsta nágrenni að safna æti og bíða eftir því að mannfólkið hverfi á braut.

Þegar fólk hringir til Fuglaverndar og segist hafa fundið unga er allra best að láta hann bara vera í friði, því oftast kemur móðirin að leita að unganum sínum þegar fólkið fer. Fuglarnir verða hræddir við fólk og láta sig hverfa. Þegar mannfólkið er farið þá fara foreldrarnir aftur að leita að ungunum sínum. Þá er leiðinlegt að búið sé að hirða ungann, “bjarga” honum með því að fara með hann í burtu.

Skógarþrastarungar fara ófleygir úr hreiðri

Í grein Ævars Petersen í Tímariti Hins íslenska náttúrufræðifélags, Náttúrufræðingnum, segir:1

Skógarþrastarungar eru ófleygir í hálfa til eina viku eftir að þeir fara úr hreiðri og dreifast þá vanalega um nærliggjandi garða. Á þessu tímabili eru þeir sérlega auðveld bráð fyrir ketti sem mikið er af í sumum þéttbýlishverfum.
Meðan skógarþrastarungar eru ófleygir en farnir úr hreiðri telur fólk gjarnan að þeir séu yfirgefnir. Þá eru þeir oft handsamaðir því fólk telur sig vera að bjarga þeim. Svo er alls ekki og hið eina rétta er að láta þá í friði. Foreldrarnir finna þá auðveldlega því ungarnir láta heyra til sín og nema foreldrar þau hljóð langar leiðir.

Náttúran sér um sína

Ef eitthvað er að ungum eru þeir oft skildir eftir af foreldrum sínum í náttúrunni og þurfa þeir að reyna að bjarga sér sjálfir. Yfirleitt er best að láta fugla vera í svona aðstæðum, leyfa náttúrunni að sjá um sig sjálf.

Öðru máli gegnir ef ungi eða fullorðinn fugl er slasaður, vængbrotinn eða fastur í einhverju rusli t.d. plasti eða snæri.

Ef nauðsynlega þarf að fanga fugl, setjið hann í kassa með pappír í botninum og setjið skál af vatni fyrir fuglinn. Látið kassan á dimman, hlýjan og rólegan stað og hafið samband við dýralækni eða Húsdýragarðinn.

 

1. Ævar Petersen (2014). Svartþröstur aðstoðar við hreiður skógarþrasta. Náttúrufræðingurinn 82(1-2): 61-64

Fuglar með unga