Alþjóðlegur dagur hafsins

Í tilefni að alþjóðlegum degi hafsins mun heimildamynd um plastmengun í sjónum verða sýnd í Bíó Paradís á 8. júní kl. 8 –  aðgangur ókeypis. Eftir myndina er efnt til pallborðsumræðna  þar sem Egill Helgason sjónvarpsmaður, Hrönn Ólína Jörundsdóttir doktor í umhverfisefnafræði og verkefnastjóri hjá MATÍS, Karen Kjartansdóttir upplýsingafulltrúi Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi og Árni Snævarr, upplýsingafulltrúi Sameinuðu þjóðanna sitja í pallborði.

í tilkynningu frá Félagi Sameinuðu þjóðanna á Íslandi segir:

“Umhverfisspjöll af völdum plastmengunar eru gríðarleg. Við Norðursjó finnst plast í maga 94% fugla. Plastagnir geta fundið sér leið inn í vefi líkamans þegar við borðum fisk. Í landsáætlun um meðhöndlun úrgangs á Íslandi fyrir árin 2013–2024 kemur fram að ætla megi að um 70 milljónum plastpoka sé fleygt á hverju ári hér á landi en það eru um 1.120 tonn og til þess að framleiða þennan fjölda poka þarf um 2.240 tonn af olíu. En plast virðir hvorki landamæri né lögsögu ríkja og okkur stafar ekki síður hætta af plastmengun annara ríkja en okkar eigin. Talið er að árlega endi átta milljarðar plastpoka í ruslinu í Evrópu sem hefur í för með sér alvarlegar afleiðingar fyrir lífríkið. Hafstraumar hafa smalað plastögnum úr plastpokum og ýmsu öðru í gríðarstóra fláka sem hringsnúast á Kyrrahafi, Atlantshafi og Indlandshafi.

Evrópuþingið hefur nýverið samþykkt harðar aðgerðir sem miða að því að minnka notkun þunnra plastpoka sem valda mestri mengun, ýmist með banni eða álagningu gjalda. Bergþóra Njála Guðmundsdóttir, upplýsingafulltrúi umhverfisráðuneytisins segir að þetta falli undir málefnasvið EES samningsins og því muni breytingar á þessari löggjöf hafa áhrif hér heima en útfærslan er í höndum einstakra ríkja. Fyrir Alþingi liggur einnig tillaga til þingsályktunar frá þingmönnum úr öllum flokkum um að draga úr notkun plastpoka.

Að sýningu myndarinnar standa Upplýsingaskrifstofa Sameinuðu þjóðanna (UNRIC), Samband fyrirtækja í sjávarútvegi, Evrópustofa og Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi. Myndin er á ensku (án texta) og sýningartími ein klukkustund. Enginn aðgangseyrir! ”
Tengill á Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi

Erindi á aðalfundi 16. apríl n.k.

Aðalfundur félagsins verður haldinn 16. apríl 2015 og mun erindi fundarins fjalla um forgangsröðun rannsókna og veiðistjórnunar á íslenskum fuglum. Veiðiálag og stofnþekkingu. Erpur S. Hansen, Náttúrustofu Suðurlands flytur.

Í erindinu eru teknar saman frumniðurstöður rannsókna á veiðiálagi og stofnþekkingu þeirra 30 fuglategunda sem leyft er að veiða hérlendis. Veiðiálag er reiknað út frá tiltækri stofnþekkingu og lagt til grundvallar forgangsröðun fyrir bæði rannsóknir og veiðistjórnun. Reiknaður var veiðistuðull með svo kallaðri „Potential Biological Removal“ aðferð (PBR) [1] fyrir 29 tegundir (veiðitölur vantar fyrir skúm). Ef PBR er 1 eða lægri, þá telst veiðin sjálfbær. Veiðiálag (veiði/PBR) er skilgreint hér sem hlutfall af skráðri meðalveiði 2004-2013. Þessi aðferð hentar þegar þekkingu á lýðfræði tegunda er ábótavant sem á við um margar tegundir hérlendis. Einnig var reiknuð hlutfallsleg breyting á meðalveiði allra tegunda fyrir og eftir 2003 (veiðitölur frá Umhverfisstofnun). Athygli vekur að meðalveiði milli þessara tveggja tímabila hefur minnkað um 40% eða meira hjá 17 tegundum (89% tegunda). Þessi samdráttur stafar að öllu jöfnu af fækkun í stofni viðkomandi tegunda, minni sókn eða blöndu þessa tveggja. Tekið skal fram að túlkun veiðibreytinga er torveld sökum flókinnar skilgreiningar veiðistofna hjá farfuglategundum. Núverandi stofnástand aðeins sjö veiðitegunda er ákjósanlegt fyrir veiði og þolir aðeins heiðagæs talsverða aukningu á veiði. Rjúpa er ein þessara sjö tegunda og jafnframt eina dæmið hérlendis um veiði sé stjórnað eftir veiðiþoli. Stofnar 14 tegunda flokkast „í hættu“, flestir vegna mikils og langvarandi viðkomubrests, og eru margar sjófuglategundir þar á meðal. Einnig flokkast fimm tegundir „í hættu“ vegna þess hve veiðiálag er hátt sem aftur bendir sterklega til ofveiði. Fimm tegundir til viðbótar flokkast „í útrýmingarhættu“, þar af fjórar sem hafa verið ofsóttar sem meintir tjónvaldar (svartbakur, hvítmáfur, silfurmáfur og hrafn), auk teistu. Válistategundum sem nú eru veiddar fjölgar því úr fjórum í sjö og telja nú 23% veiðitegunda. Blesgæs hefur ein slíkra tegunda verið friðuð.

Kallað er eftir stefnumótun í veiðistjórnun sem byggir á vísindalegum grunni. Tegundir í útrýmingarhættu og á válista er eðlilegt að friða strax og meta þarf hvort meint tjón réttlæti veiði á viðkomandi tegundum. Þetta á við um fleiri tegundir sem ekki eru eins illa staddar, eins og t.d. hettumáf. Einhverjar rannsóknir eru stundaðar á flestum mikilvægustu veiðitegundum og ætti að efla þær með mælingum á fleiri lýðfræðilegum þáttum og forgangsraða með hliðsjón af veiðiálagi, alþjóðlegu mikilvægi o.s.frv. Veiðistjórnunarkerfið þarf að byggja á árlegri samantekt og úrvinnslu upplýsinga og fela í sér árlega endurskoðun veiðitímabila allra tegunda í ljósi þeirra upplýsinga.

 

Um “Potential Biological Removal” aðferðina má lesa hér:  Peter W Dillingham & David Fletcher (2008). Estimating the ability of birds to sustain additional human-caused mortalities using a simple decision rule and allometric relationship. Biological Conservation 141: 1738-1792

 

Aðalfundur Fuglaverndar 16. apríl 2015

Aðalfundur félagsins verður að þessu sinni fimmtudaginn 16. apríl 2015 kl. 17:00 og verður haldinn á Hverfisgötu 105- þar sem skrifstofa félagsins er til húsa. Frestur til að skila inn framboðum til stjórnarkjörs rann út 14. febrúar síðastliðinn og barst eitt framboð.  Frestur til að skila inn breytingatillögum á samþykktum félagsins var 15. febrúar síðastliðinn en engar tillögur bárust. Erindi fundarins er um veiðiþol fuglategunda. 
Dagskrá fundarins er samkvæmt lögum félagsins þessi:

1. Skýrsla stjórnar um starfsemi félagsins á liðnu almanaksári.

2. Lagðir fram endurskoðaðir reikningar félagsins.

3. Breytingar á samþykktum félagsins samkvæmt 8 gr.

4. Kosin stjórn samkæmt 5 gr. samþykkta félagsins.

5. Kosinn skoðunarmaður félagsreikninga og einn til vara.

6. Ákvörðun árgjalds.

7. Önnur mál.

Jólaopnun á skrifstofu Fuglaverndar 11. og 18. des.

Verið hjartanlega velkomin í heimsókn á skrifstofu Fuglaverndar á Hverfisgötu 105 í Reykjavík (gegnt Lögreglustöðinni). Þar fást falleg jóla- og tækifæriskort, fuglafóðrarar og fóður, fuglahús, garðfuglabæklingur o.fl. á sanngjörnu verði, posi er á staðnum. Næg bílastæði á bakvið hús, innkeyrsla frá Snorrabraut og Skúlagötu.
Einnig verður opið næsta fimmtudag 18. desember, kl. 14-20.

Jólamarkaður 8.og 9.des.

Um næstu helgi tökum við þátt í jólamarkaði upp við Elliðavatn – við opnum 11:00 og verðum til 16:00 – laugardag 7. desember og sunnudag 8. desember. Þar munum við selja nýju jólakortin okkar, urtendurnar, rjúpuna og músarindilinn ,ásamt eldri kortum, í pökkum og í lausu. Hægt verður að nálgast garðfuglabæklinginn,  arnarritiðfræðsluefni um fugla fyrir börn og síðan verðum við með úrval hreiðurhúsa – tilvalin til jólagjafa. Aðild að Fuglavernd gæti líka verið kærkomin jólagjöf og fylgir þá arnarbæklingurinn með og desember blað Fugla. Hér má sjá dagskrá helgarinar og  upplýsingar um staðsetningu.

Gefið félagsaðild í jólagjöf!

Skemmtileg jólagjöf fyrir fólk sem ann fuglum og íslenskri náttúru. Sendu okkur nafn, heimilisfang, og kennitölu þess sem skrá og nafn þitt og heimilisfang og við sendum þér inngöngupakka sem í er arnarritið (nýútgefið 50 síðna og myndum prýdd) og tímaritið okkar Fugla (afmælisrit-74 síður) til að setja undir jólatréið með fallegu fuglakorti.  Aðeins 3.500,- kr.

Sem aðili að Fuglavernd færð þú:

  • Áskrift að tímaritinu FUGLAR sem kemur út einu sinni á ári.
  • Átt kost á því að sækja fyrirlestra og mynda-sýningar sem haldnar eru á vegum félagsins, ásamt fuglaskoðunarferðum og vettvangsfræðslu.
  • Tekur þátt í að fylgja eftir markmiðum félagsins; að vernda fugla og búsvæði þeirra.

Árgjöld í Fuglavernd skiptast niður í nokkra flokka:

  • Einstaklingsaðild fyrir fullorðinn, 4200 kr.
  • Fjölskylduaðild fyrir tvo fullorðna, börn og unglinga undir 18 ára aldri, 5200 kr.
  • Fyrirtækja- og bókasafnsaðild 5200 kr.
  • Ungliðaaðild fyrir 18 ára og yngri, og eldriborgara aðild fyrir 65 ára og eldri 3200 kr.
  • Einnig er tekið á móti frjálsum framlögum á reikninginn okkar: 0301-26-22994 – kt. 500770-0159 og hægt er að greiða reglulega með greiðslukorti með þvi að hafa samband við skrifstofu Fuglaverndar.

Á myndinni má sjá hettusöngvara gæða sér á reyniberjum, myndina tók Haukur Snorrason.

Garðfuglakönnunin framundan

Nú er komið að því að hefja árvissa garðfuglakönnun Fuglaverndar en Fuglavernd hefur um árabil staðið fyrir rannsókn á garðfuglum og fengið félagsmenn og aðra áhugasama í lið með sér. Markmiðið er að athuga hvaða fuglar sækja í garða, í hve miklu magni og breytingar á samsetningu tegunda yfir vetrarmánuðina. Sem athugunarsvæði má nota húsagarða, afmörkuð svæði innan almenningsgarða, garðlönd við sumarbústaði eða skógarlundi. Meginatriðið er að sama svæði sé talið og reglulega sé fylgst með því í viku hverri. Fylgst er með fuglalífinu frá því í lok október fram í lok apríl – og niðurstöðurnar skráðar á þar til gert eyðublað.

Veturinn 2012-2013 er garðfuglakönnun Fuglaverndar frá 28. október 2012 til 27. apríl 2013. Á Garðfuglavefnum má lesa nánar um könnina en hér má nálgast eyðublaðið sem fylla á út.

Áhugafólk um fugla er hvatt til að taka þátt – engin binding – lítið umstang en mjög skemmtilegt.