Fuglaskoðun við Elliðavatn

Við verðum með fuglaskoðun í Heiðmörk, við Elliðavatn, laugardaginn 1.október kl.13:00. Gengið frá Elliðavatnsbænum og meðfram vatninu og um nágrenni þess –  sjá meðfylgjandi kort. Við megum búast við að sjá jaðrakan, óðinshana og himbrima ásamt öðrum tegundum og mun Elma Rún Benediktsdóttir leiða gönguna.

Allir velkomnir – munið að taka sjónaukann og jafnvel fuglabókina með og vera klædd eftir veðri.

13 erlendir sjófuglafræðingar

Við hýstum fund í byrjun júní sem hafði það að markmiði að tilnefna verndarsvæði til Ospar samningsins og að því tilefni fengum við til okkur 13 erlenda sjófuglafræðinga sem gáfu vinnu sína í þetta verkefni, þrír innlendir tóku líka þátt, þeir Erpur Snær Hansen, Þorkell Lindberg Þórarinsson og Arnþór Garðarsson. BirdLife International getur tilnefnt fyrir aðildarfélögin sín en Fuglavernd er aðili að BirdLife.

Hér er linkur á Ospar samninginn sem Ísland fullgilti árið 1997.

 

Aðalfundur félagsins

Aðalfundur félagsins verður haldinn laugardaginn 16. apríl 2016 kl. 13:00 í Rauða húsinu á Eyrarbakka.  Við biðjum ykkur um að skrá ykkur á netfangið fuglavernd@fuglavernd.is svo við getum pantað súpu fyrir alla. Þeir sem geta tekið farþega eða vilja þiggja far hafið einnig samband við skrifstofu. Við stefnum á að hittast á Hverfisgötunni klukkan 12 til að sameinast í bíla.

Frestur til að skila inn framboðum til stjórnarkjörs rann út 14. febrúar síðastliðinn og bárust tvö framboð en tveir hafa sagt sig úr stjórn.  Frestur til að skila inn breytingatillögum á samþykktum félagsins var 15. febrúar síðastliðinn en engar tillögur bárust.

Þeir Hlynur Óskarsson og Alex Máni Guðríðarson munu vera með erindi um fuglana á svæðinu en stefnt er að fara í fuglaskoðun eftir fundinn.

Dagskrá fundarins er samkvæmt lögum félagsins þessi:

1. Skýrsla stjórnar um starfsemi félagsins á liðnu almanaksári.
2. Lagðir fram endurskoðaðir reikningar félagsins.
3. Breytingar á samþykktum félagsins samkvæmt 8 gr.
4. Kosin stjórn samkæmt 5 gr. samþykkta félagsins.
5. Kosinn skoðunarmaður félagsreikninga og einn til vara.
6. Ákvörðun árgjalds.
7. Önnur mál.

Áskorun til grænlenskra stjórnvalda

Fuglavernd skorar á Grænlensk stjórnvöld að hlífa stuttnefjunni. Það hefur vakið athygli umheimsins að grænlenska landsstjórnin hefur heikst á að friða stuttnefjuna, þrátt fyrir að fjöldi aðvörunarbjalla hafi hringt undanfarin ár um að hún stæði á barmi útrýmingar. Fuglavernd ásamt fuglaverndarsamtökum í Danmörku, Noregi, Bandaríkjunum og Alþjóðasamtökum BirdLife hafa skorað á grænlensku landsstjórnina að stöðva alla veiði á stuttnefju. Það stefnir í að veiðar útrými tegundinni sem varpfugli í Grænlandi á fáum árum en gríðarlegt veiðiálag er á fugla við Vesturströnd Grænlands. Stuttnefjum sem verpa hér við land hefur fækkað mikið á síðustu árum og er talsvert af þeim drepið á vetrarstöðvum vestur af Suður-Grænlandi. Þar eru bæði mikilvægar varpstöðvar grænlenskra stuttnefja og vetrarstöðvar íslenskra. Fuglaverndarsamtökin skora á landsstjórnina að nýta náttúruauðlindir þess á sjálfbæran hátt.

Ljósmynd: Lars Maltha Rasmussen/DOF

Garðfuglahelgin nálgast

Garðfuglahelgin verður að þessu sinni dagana 29.janúar-1.febrúar 2016. Framkvæmd athugunarinnar er einföld, það eina sem þátttakandi þarf að gera er að fylgjast með garði í klukkutíma  föstudaginn 29. jan., laugardaginn 30. jan., sunnudaginn 31. jan. eða mánudaginn 1. feb. Skrá hjá sér hvaða fugla viðkomandi sér og mesta fjölda af hverri tegund á meðan athugunin stendur yfir, þ.e. þá fugla sem eru í garðinum en ekki þá sem fljúga yfir.

Gott er að hefja undirbúning talningar nokkrum dögum áður með því að hefja daglegar fóðurgjafir til að lokka að fugla. Misjafnt er hvaða fóður hentar hverri fuglategund. Upplýsingar um fóðrun garðfugla er hægt að finna á vefsíðum um “fóðrun” og einnig í Garðfuglabæklingi Fuglaverndar sem fæst á skrifstofunni eða má panta á netfanginu fuglavernd@fuglavernd.is eða í síma 5620477.

Að lokinni athugun skal skrá niðurstöður með því að sækja eyðublaðið hér fyrir neðan (nr.1), prenta og fylla það út. Hægt er að senda það í pósti til Fuglaverndar, Hverfisgötu 105,101 Reykjavík.
Einnig er hægt að opna eyðublaðið í tölvunni – sækja eyðublað nr.2- og skrá inn upplýsingarnar beint, vista og hengja við tölvupóst (attachment) og senda á póstfang garðfuglavefsins, gardfugl@gmail.com.

[one_third_last][downloads show=”category” cat=”gardfuglahelgi”][/one_third_last]

Álftapabbi með unga. Ljósmynd: Elma Rún Benediktsdóttir

Fuglaskoðunarbæklingur

Í tilefni af Fuglaviku í Reykjavík er kominn út nýr bæklingur er heitir FUGLASKOÐUN Í REYKJAVÍK. Í bæklingnum er greint frá helstu fuglaskoðunarstöðum í borginni og þeir sýndir á sérstöku korti. Jafnframt eru tilgreindar helstu tegundir fugla sem má sjá á hverjum stað. Bæklingurinn er ókeypis og aðgengilegur hér á vefnum en einnig í prenti í þjónustuveri borgarinnar í Borgartúni 12-14 sem og hjá okkur hér í Fuglavernd og á fleiri stöðum í borginni. Bæklingurinn er einnig gefinn út á ensku.

Hér má skoða bæklingana:

Fuglaskoðun í Reykjavík – á íslensku
Birdwatching in Reykjavík – á ensku

Ljósmynd: Elma Rún Benediktsdóttir

Alþjóðlegur dagur hafsins

Í tilefni að alþjóðlegum degi hafsins mun heimildamynd um plastmengun í sjónum verða sýnd í Bíó Paradís á 8. júní kl. 8 –  aðgangur ókeypis. Eftir myndina er efnt til pallborðsumræðna  þar sem Egill Helgason sjónvarpsmaður, Hrönn Ólína Jörundsdóttir doktor í umhverfisefnafræði og verkefnastjóri hjá MATÍS, Karen Kjartansdóttir upplýsingafulltrúi Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi og Árni Snævarr, upplýsingafulltrúi Sameinuðu þjóðanna sitja í pallborði.

í tilkynningu frá Félagi Sameinuðu þjóðanna á Íslandi segir:

“Umhverfisspjöll af völdum plastmengunar eru gríðarleg. Við Norðursjó finnst plast í maga 94% fugla. Plastagnir geta fundið sér leið inn í vefi líkamans þegar við borðum fisk. Í landsáætlun um meðhöndlun úrgangs á Íslandi fyrir árin 2013–2024 kemur fram að ætla megi að um 70 milljónum plastpoka sé fleygt á hverju ári hér á landi en það eru um 1.120 tonn og til þess að framleiða þennan fjölda poka þarf um 2.240 tonn af olíu. En plast virðir hvorki landamæri né lögsögu ríkja og okkur stafar ekki síður hætta af plastmengun annara ríkja en okkar eigin. Talið er að árlega endi átta milljarðar plastpoka í ruslinu í Evrópu sem hefur í för með sér alvarlegar afleiðingar fyrir lífríkið. Hafstraumar hafa smalað plastögnum úr plastpokum og ýmsu öðru í gríðarstóra fláka sem hringsnúast á Kyrrahafi, Atlantshafi og Indlandshafi.

Evrópuþingið hefur nýverið samþykkt harðar aðgerðir sem miða að því að minnka notkun þunnra plastpoka sem valda mestri mengun, ýmist með banni eða álagningu gjalda. Bergþóra Njála Guðmundsdóttir, upplýsingafulltrúi umhverfisráðuneytisins segir að þetta falli undir málefnasvið EES samningsins og því muni breytingar á þessari löggjöf hafa áhrif hér heima en útfærslan er í höndum einstakra ríkja. Fyrir Alþingi liggur einnig tillaga til þingsályktunar frá þingmönnum úr öllum flokkum um að draga úr notkun plastpoka.

Að sýningu myndarinnar standa Upplýsingaskrifstofa Sameinuðu þjóðanna (UNRIC), Samband fyrirtækja í sjávarútvegi, Evrópustofa og Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi. Myndin er á ensku (án texta) og sýningartími ein klukkustund. Enginn aðgangseyrir! ”
Tengill á Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi

Erindi á aðalfundi 16. apríl n.k.

Aðalfundur félagsins verður haldinn 16. apríl 2015 og mun erindi fundarins fjalla um forgangsröðun rannsókna og veiðistjórnunar á íslenskum fuglum. Veiðiálag og stofnþekkingu. Erpur S. Hansen, Náttúrustofu Suðurlands flytur.

Í erindinu eru teknar saman frumniðurstöður rannsókna á veiðiálagi og stofnþekkingu þeirra 30 fuglategunda sem leyft er að veiða hérlendis. Veiðiálag er reiknað út frá tiltækri stofnþekkingu og lagt til grundvallar forgangsröðun fyrir bæði rannsóknir og veiðistjórnun. Reiknaður var veiðistuðull með svo kallaðri „Potential Biological Removal“ aðferð (PBR) [1] fyrir 29 tegundir (veiðitölur vantar fyrir skúm). Ef PBR er 1 eða lægri, þá telst veiðin sjálfbær. Veiðiálag (veiði/PBR) er skilgreint hér sem hlutfall af skráðri meðalveiði 2004-2013. Þessi aðferð hentar þegar þekkingu á lýðfræði tegunda er ábótavant sem á við um margar tegundir hérlendis. Einnig var reiknuð hlutfallsleg breyting á meðalveiði allra tegunda fyrir og eftir 2003 (veiðitölur frá Umhverfisstofnun). Athygli vekur að meðalveiði milli þessara tveggja tímabila hefur minnkað um 40% eða meira hjá 17 tegundum (89% tegunda). Þessi samdráttur stafar að öllu jöfnu af fækkun í stofni viðkomandi tegunda, minni sókn eða blöndu þessa tveggja. Tekið skal fram að túlkun veiðibreytinga er torveld sökum flókinnar skilgreiningar veiðistofna hjá farfuglategundum. Núverandi stofnástand aðeins sjö veiðitegunda er ákjósanlegt fyrir veiði og þolir aðeins heiðagæs talsverða aukningu á veiði. Rjúpa er ein þessara sjö tegunda og jafnframt eina dæmið hérlendis um veiði sé stjórnað eftir veiðiþoli. Stofnar 14 tegunda flokkast „í hættu“, flestir vegna mikils og langvarandi viðkomubrests, og eru margar sjófuglategundir þar á meðal. Einnig flokkast fimm tegundir „í hættu“ vegna þess hve veiðiálag er hátt sem aftur bendir sterklega til ofveiði. Fimm tegundir til viðbótar flokkast „í útrýmingarhættu“, þar af fjórar sem hafa verið ofsóttar sem meintir tjónvaldar (svartbakur, hvítmáfur, silfurmáfur og hrafn), auk teistu. Válistategundum sem nú eru veiddar fjölgar því úr fjórum í sjö og telja nú 23% veiðitegunda. Blesgæs hefur ein slíkra tegunda verið friðuð.

Kallað er eftir stefnumótun í veiðistjórnun sem byggir á vísindalegum grunni. Tegundir í útrýmingarhættu og á válista er eðlilegt að friða strax og meta þarf hvort meint tjón réttlæti veiði á viðkomandi tegundum. Þetta á við um fleiri tegundir sem ekki eru eins illa staddar, eins og t.d. hettumáf. Einhverjar rannsóknir eru stundaðar á flestum mikilvægustu veiðitegundum og ætti að efla þær með mælingum á fleiri lýðfræðilegum þáttum og forgangsraða með hliðsjón af veiðiálagi, alþjóðlegu mikilvægi o.s.frv. Veiðistjórnunarkerfið þarf að byggja á árlegri samantekt og úrvinnslu upplýsinga og fela í sér árlega endurskoðun veiðitímabila allra tegunda í ljósi þeirra upplýsinga.

 

Um “Potential Biological Removal” aðferðina má lesa hér:  Peter W Dillingham & David Fletcher (2008). Estimating the ability of birds to sustain additional human-caused mortalities using a simple decision rule and allometric relationship. Biological Conservation 141: 1738-1792