Álftir og lómar í Friðlandinu í Flóa.

Aðgerðaáætlun í loftslagsmálum – Kallað eftir tillögum frá almenningi

Vinna við aðgerðaáætlun í loftslagsmálum miðar að því að Ísland geti staðið við skuldbindingar sínar skv. Parísarsamningnum í loftslagsmálum til 2030. Áætlunin á að liggja fyrir í lok árs 2017.

Með áætluninni er stefnt að því að setja fram aðgerðir sem ætlað er að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi og auka bindingu koldíoxíðs úr andrúmslofti.

Sérstök verkefnisstjórn og sex faghópar vinna áætlunina, en við vinnu aðgerðaáætlunarinnar er áhersla lögð á samráð við haghafa og að sjónarmið og tillögur komi frá aðilum utan stjórnkerfisins. Í því augnmiði er starfandi samráðsvettvangur þar sem eiga sæti fulltrúar haghafa og flokka í minnihluta á Alþingi en auk þess er almenningur hvattur til að senda inn hugmyndir og tillögur að aðgerðum í gegn um netfangið loftslag@uar.is

Á vefnum www.co2.is eru birtar þær tillögur sem búið er að senda inn. Margar þeirra eru mjög fróðlegar og viljum við hvetja félagsmenn okkar til að senda inn þær hugmyndir sem þeir hafa, s.s. um endurheimt votlendis.

Ljósmynd: Álftir og lómar í Friðlandinu í Flóa. ©Jóhann Óli Hilmarsson.

Kynning á ársfundi The Waterbirds Society

Í liðinni viku var haldinn hér á landi 41. ársfundur The Waterbirds Society. Dagskrá fundarinns spannaði þrjá daga og föstudaginn 11. ágúst snérist dagskráin að miklu leyti um lunda.

Starfsmenn Fuglaverndar, þær Hólmfríður og Dögg, heimsóttu fundinn þann dag og kynntu starfsemi Fuglaverndar á Íslandi.

Gaman var að koma á fundinn, þar sem m.a. er haldið uppboð á alls konar skemmtilegum hlutum til styrktar rannsóknarnemum á þessu sviði. Fuglavernd gaf barmmerki á uppboðið og vonum innilega að einhver hafi farið glaður með þá minjagripi heim frá fundinum.

Hér eru nokkrar myndir

 

Teista. Ljósmynd: Sindri Skúlason

Ársskýrsla Fuglaverndar 2016

Aðalfundur Fuglaverndar var haldinn þriðjudaginn 18. apríl 2017.

Þar fór formaður félagsins, Jóhann Óli Hilmarsson yfir ársskýrslu fyrir árið 2016 og hana, ásamt eldri ársskýrslum er að finna undir Um Fuglavernd > Ársskýrslur

Á fundinum voru kjörnir tveir nýjir stjórnarmenn, þeir Aron Leví Beck og Trausti Gunnarsson og munu þeir taka sæti í stjórn um leið og tækifæri gefst til þess að kalla hana saman.

Rauðbrystingar á flugi

Varúðarráðstafanir vegna fuglaflensu

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur gefið út tímabundnar varúðarreglur vegna fuglaflensu. Öllum þeim sem halda alifugla og aðra fugla er skylt að fylgja reglunum.

Fuglaflensa af völdum alvarlegs afbrigðis fuglaflensuveiru af sermisgerðinni H5N8 hefur breiðst hratt út í Evrópu frá því í október á síðasta ári, bæði í villtum fuglum og alifuglum, m.a. á þeim slóðum sem íslenskir farfuglar halda sig að vetri til.

Nú þegar farfuglarnir eru farnir að koma til landsins frá vetrarstöðvum, er því full ástæða til þess að hafa varann á.

Varúðarreglurnar ganga út á að tryggja að villtir fuglar komist ekki í snertingu við alifugla. Mikilvægt er að fuglarnir séu inni í yfirbyggðum gerðum eða húsum og þá er mikilvægt að fóður og drykkjarvatn fuglanna sé ekki aðgengilegt villtum fuglum.

Starfshópur sem í eru sérfræðingar Matvælastofnunar, Háskóla Íslands, Tilraunastöðvar HÍ að Keldum og sóttvarnalæknis, hefur metið ástandið og komist að þeirri niðurstöðu að töluverðar líkur séu á að þetta alvarlega afbrigði fuglaflensuveirunnar berist með farfuglunum, sem nú eru farnir að streyma til landsins. Meðgöngutími sýkingarinnar eru nokkrir dagar og því geta fuglar, sem hafa smitast stuttu áður en þeir leggja af stað yfir hafið, náð til landsins áður en þeir veikjast. Í þeim faraldri sem geisar í Evrópu nú er smit frá villtum fuglum talin vera megin smitleiðin í alifugla. Það er því hætta á að alifuglar hér á landi smitist af þeim farfuglunum sem koma frá sýktum svæðum, sér í lagi þeir sem haldnir eru utandyra og þar sem smitvörnum er ábótavant. Afleiðingar sjúkdómsins eru alvarlegar, þar sem stór hluti fuglanna getur drepist og fyrirskipa þarf aflífun á öllum fuglum á búi sem fuglaflensa greinist á og setja ýmis konar takmarkanir á starfsemi á stóru svæði umhverfis viðkomandi bú.

Sjá frétt á vef Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis:

Varúðarráðstafanir til að fyrirbyggja að fuglaflensa berist í alifugla:

Auglýsing um varúðarráðstafanir vegna fuglaflensu.
Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson 

 

Snjótittlingar

Munið eftir smáfuglunum

Munið að gefa smáfuglunum í garðinum.

Þegar kalt er, vættu brauð og haframjöl í matarolíu. Olían er góð í frosti og gefur fuglunum aukna orku. Þurra brauðskorpu má einnig væta með vatni. Öll fita er vinsæl hjá fuglum á köldum vetrardögum.

Hér getur þú lesið meira um fóðrun garðfugla.

Á skrifstofu Fuglaverndar seljum við ýmis konar fóður fyrir fugla. Póstsendum hvert á land sem er. Skoðaðu vöruúrvalið.

Fuglafóður

  • Kurlaður maís fyrir snjótittlinga (650 g) – 300 kr
  • Sólblómafræ án hýðis (1 kg) – 600 kr
  • Sólblómafræ með hýði (2 kg) – 1.200 kr
  • Sólblómafræ án hýðis, sekkur (23 kg)  – 9.000 kr

 

Bókarkápa Væri ég fuglinn frjáls

Útgáfuhóf: Væri ég fuglinn frjáls

Fimmtudagskvöldið 22. desember frá kl. 18 – 19 bjóðum við félagsmönnum til útgáfuhófs bókarinnar Væri ég fuglinn frjáls, fyrstu skrefin í fuglaskoðun.

Fyrir félagsmenn sem greitt hafa árgjaldið verður bókin á tilboðsverði 2.500 krónur í útgáfuhófinu. Höfundurinn Jóhann Óli Hilmarsson fuglafræðingur sem jafnframt tók ljósmyndir í bókina verður hjá okkur og áritar eintök sé þess óskað.

Á kápusíðum bókarinnar eru myndir af algengustu fuglum á Íslandi. Þeim er skipt niður í sex flokka eftir búsvæðum, skyldleika og lífsháttum: sjófuglar, vaðfuglar, máffuglar, landfuglar, vatnafuglar og spörfuglar. Þessi flokkun gerir ungum og áhugasömum fuglaskoðurum kleift að greina flesta þá fugla sem þeir sjá á förnum vegi.

Í bókinni er að finna verkefni eftir árstíðum t.d. að fylgjast með farfuglum á vorin því koma farfuglanna er stór hluti vorkomunnar. Þá er fjallað um hvað þarf til fuglaskoðunar, hvert er hægt að fara, fóðrun fugla til að laða þá að görðum og fuglavernd.

Fuglavernd þakkar sérstakleg eftirtöldum aðilum fyrir stuðning þeirra við útgáfu bókarinnar: Barnavinafélagið Sumargjöf, Náttúruverndarsjóður Pálma Jónssonar stofnanda Hagkaups, Samfélagssjóður Valitor, Samfélagssjóður Landsbanks, Umhverfis- og auðlindaráðuneytið.

Allir velkomnir, aðgangur ókeypis og við vonumst til að sjá sem flesta í jólaskapi.

Skógarþröstur, Stari og Gráþröstur. Ljósmyndari: Örn Óskarsson

Fuglalíf að vetri

Í samstarfi við Grasagarð Reykjavíkur í Laugardal stendur Fuglavernd fyrir viðburði sunnudaginn 11. desember kl. 11.

Hannes Þór Hafsteinsson garðyrkjufræðingur og fuglaáhugamaður mun leiða fræðslugöngu þar litið verður til fuglalífsins í Grasagarði Reykjavíkur. Farið verður yfir fuglafóðrun, fuglar garðsins skoðaðir og kíkt eftir flækingum en Grasagarðurinn er viðkomustaður margra fagurra flækinga svo sem barrfinku, glóbrystings og bókfinku.

Gangan fer af stað frá aðalinngangi Grasagarðsins. Gott er að hafa með sér kíki því síðustu daga hefur heyrst í bókfínku en hún hefur enn ekki sést.

Að göngunni lokinni er tilvalið að líta við í Garðskálanum þar sem svartþrestir verpa en þar er jólamarkaður á aðventunni, Flóran Café/Bistro er opin frá kl. 11-17 og kl. 12:30 leikur lúðrasveit jólalög.

Allir velkomnir og aðgangur ókeypis

Bókarkápa Væri ég fuglinn frjáls

Væri ég fuglinn frjáls

Það gleður okkur að segja frá því að við höfum lokið útgáfu fuglaskoðunarrits fyrir börn sem ber heitið: Væri ég fuglinn frjáls. Fyrstu skrefin í fuglaskoðun.  

Verkefnið er skrifað fyrir 4.-5. bekkinga, en höfðar þó til allra sem eru að stíga sín fyrstu skref í þessu skemmtilega og fræðandi áhugamáli, jafnt heima sem í skóla.  Myndir af algengustu fuglum Íslands eru á kápusíðum en það gerir ungum og áhugasömum fuglaskoðurum kleift að greina þá fugla sem þeir sjá.

Ritið er fáanlegt á skrifstofu okkar og kostar kr. 3000, –
Höfundur er Jóhann Óli Hilmarsson

Eftirtaldir styrktu útgáfuna:
Umhverfis-og auðlindaráðuneytið
Barnavinafélagið Sumargjöf
Náttúruverndarsjóður Pálma Jónssonar
Valitor – Samfélagssjóður
Landsbanki Íslands – Samfélagssjóður

Og þökkum við þeim kærlega fyrir það en það gerir okkur jafnframt kleift að senda svokallað bekkjarsett till allra grunnskóla landsins þeim að kosnaðarlausu.