Rauðbrystingar á flugi

Varúðarráðstafanir vegna fuglaflensu

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur gefið út tímabundnar varúðarreglur vegna fuglaflensu. Öllum þeim sem halda alifugla og aðra fugla er skylt að fylgja reglunum.

Fuglaflensa af völdum alvarlegs afbrigðis fuglaflensuveiru af sermisgerðinni H5N8 hefur breiðst hratt út í Evrópu frá því í október á síðasta ári, bæði í villtum fuglum og alifuglum, m.a. á þeim slóðum sem íslenskir farfuglar halda sig að vetri til.

Nú þegar farfuglarnir eru farnir að koma til landsins frá vetrarstöðvum, er því full ástæða til þess að hafa varann á.

Varúðarreglurnar ganga út á að tryggja að villtir fuglar komist ekki í snertingu við alifugla. Mikilvægt er að fuglarnir séu inni í yfirbyggðum gerðum eða húsum og þá er mikilvægt að fóður og drykkjarvatn fuglanna sé ekki aðgengilegt villtum fuglum.

Starfshópur sem í eru sérfræðingar Matvælastofnunar, Háskóla Íslands, Tilraunastöðvar HÍ að Keldum og sóttvarnalæknis, hefur metið ástandið og komist að þeirri niðurstöðu að töluverðar líkur séu á að þetta alvarlega afbrigði fuglaflensuveirunnar berist með farfuglunum, sem nú eru farnir að streyma til landsins. Meðgöngutími sýkingarinnar eru nokkrir dagar og því geta fuglar, sem hafa smitast stuttu áður en þeir leggja af stað yfir hafið, náð til landsins áður en þeir veikjast. Í þeim faraldri sem geisar í Evrópu nú er smit frá villtum fuglum talin vera megin smitleiðin í alifugla. Það er því hætta á að alifuglar hér á landi smitist af þeim farfuglunum sem koma frá sýktum svæðum, sér í lagi þeir sem haldnir eru utandyra og þar sem smitvörnum er ábótavant. Afleiðingar sjúkdómsins eru alvarlegar, þar sem stór hluti fuglanna getur drepist og fyrirskipa þarf aflífun á öllum fuglum á búi sem fuglaflensa greinist á og setja ýmis konar takmarkanir á starfsemi á stóru svæði umhverfis viðkomandi bú.

Sjá frétt á vef Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis:

Varúðarráðstafanir til að fyrirbyggja að fuglaflensa berist í alifugla:

Auglýsing um varúðarráðstafanir vegna fuglaflensu.
Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson