Vorverk í Vatnsmýrinni 2024 undir bláhimni

Laugardaginn 6. apríl mættu hinir frábæru sjálfboðaliðar Fuglaverndar í Vatnsmýrina í Reykjavík og tóku til hendinni.  Menn sammæltust um að minna rusl var þetta vorið í mýrinni en mörg vor og alls engin kóvíd-gríma fannst. Ein líkleg skýring á minna ruslmagni var að lægðir þennan vetur höfðu verið færri svo að minna rusl var á ferðinni.

Sjálboðaliðar Fuglaverndar eru að sönnu ómissandi  og eru allir félagar að sjálfsögðu hjartanlega velkomnir  þegar við auglýsum eftir sjálboðaliðum.

 

 

 

 

Fýlsungar í vanda

Fuglavernd hvetur fuglavini  sem eiga leið um Suðurland undir Eyjafjöllum og í  Mýrdal að bjarga fýlsungum.

Nú er runninn upp ágústmánuður, þegar nýfleygir fýlsungar þenja vængi sína og reyna að ná til sjávar. Tímabilið stendur fram yfir miðjan september. Það getur reynst ungun á Suðurlandi, undir Eyjafjöllum og í Mýrdal, þrautinni þyngri að ná á haf út. Björgin þar sem þeir alast upp eru norðan þjóðvegar. Ef lygnt er þegar ungarnir taka fyrsta flugið þá ná þeir stundum ekki til sjávar og lenda á vegum, bílastæðum og í skurðum þar sem þeirra bíður óþarfur, bráður bani.

Fuglavernd hvetur fólk sem á leið um þetta svæði að leggja hönd á plóg við að bjarga ungunum. Gott er að vera vel sýnileg og klæðast jafnvel gulu vesti og hafa með handklæði, létt teppi eða gamalt lak og kassa. Þegar ungi hefur verið fangaður skal sleppa honum af bryggju eða  setja hann í árós eða í lygna á sem að mun endanlega bera hann til sjávar.

 

Starfsmaður RSPB

Hanna Philips, starfsmaður RSPB (breska fuglaverndarfélagsins), verður í Vík við björgun og  við merkingar á fýlsungum til 3. september. Þeir sem vilja slást í för með henni geta haft samband við hana beint, sími +447793036536 eða fengið upplýsingar í  Kötlusetri upplýsingamiðstöðinni í Vík í Brydebúð við Víkurveg. 

 

Hvernig bjargar maður fýlsunga?

Nánari útskýringar á björgun fýlsunga  og hvernig kassa sé best að nota er hægt að lesa um á heimasíðu Fuglaverndar. 

Þeir sem nota Facebook og vilja taka þátt í fýlsungabjörgun geta verið með í lokuðum fýlsungabjörgunarhópi á FB. Vinsamlega meldið ykkur með pósti til:  fuglavernd@fuglavernd.is og þið fáið senda slóð til að skrá ykkur í hópinn.

 

Sjálfboðaliðar Fuglaverndar – mikilvægur hlekkur

Sjálfboðaliðastarf Fuglaverndar er mikilvægur hlekkur í starfi þess. Það þarf að taka til hendinni á svæðum sem að félagið er með í sinni umsjón og síðan er þetta vettvangur fyrir félaga til að hittast og kynnast.

Nokkrir sjálfboðaliðar Fuglaverndar komu saman í Vatnsmýrinni laugardaginn 15. apríl og tóku til hendinni við að hreinsa rusl í kringum friðlandið og upp úr tjörnum og síkjum. Þetta var aldeilis þarft verk og alltaf er fólk jafn hissa á því hvað safnast saman: Plastbretti af bílum, einangrunarplast, plast umbúðir stórar og smáar, þúsund sígarettusíur (filter) og þar fram eftir götunum.  Veður var milt og gott og vannst verkið vel og þáðu allir hressingu í gróðurhúsi Norræna hússins í hléinu.

 

 

 

Tveir sjálfboðaliðar merktu göngustíg í Friðlandi í Flóa 23. apríl. Þann morgun var slatti af lóuþrælum í flóanum.  Nokkuð fleri sjálfboðaliðar mættu í Friðlandið 28. apríl þegar skyndilega hafði snjóað í milt vorið. Gengið var rösklega til verka: Kamar þrifinn, fuglaskoðunarhús þrifið, tröppur yfir girðingu festar, hlið að göngustíg lagað, göngubrú færð, fuglaskoðunarhús skrapað undir fúavörn og týnt rusl. Mikið vatn var báðar helgarnar í flóanum  og há stígvél komu að góðum notum. Þegar sjálfboðaliðarnir tóku hádegishlé þá hurfu ský af himni og sólskinið náði að verma Friðland, fugla og fólk.  Fuglar hímdu á veginum að Friðlandinu og meðal tegunda sem þar sáust á flugi, sundi eða vappi í Friðlandinu voru lómar, lóur, starar, hrossagaukar og álftir.