Íslenski rjúpnastofninn er vaktaður með talningum, mælingum á aldurshlutföllum, mati á holdafari fuglanna og skráningu á veiði og sókn.

Áskorun til rjúpnaveiðimanna

Framundan er fyrsta rjúpnahelgin í ár og hvetur Fuglavernd veiðimenn til að sýna samstöðu um hófsama veiði – það er allra hagur að rjúpnaveiðar séu sjálfbærar til framtíðar.  Rjúpan er þýðingamikill fugl í íslensku vistkerfi og m.a. forsenda fyrir tilvist fálka hér á landi. . Við hvetjum til hóflegra veiða og að boð og bönn séu virt og minnum á að sá sem kaupir eða selur rjúpu eða afurðir hennar er að brjóta lög.

Þessa fallegu mynd tók Daníel Bergmann og prýðir hún einnig vinsælt jólakort Fuglaverndar.

Til styrktar hinum dæmdu í Gálgahraunsmálinu

Vekjum athygli á tónleikum til styrktar níumenningunum sem á dögunum fengu dóm í Gálgahraunsmálinu. Tónleikarnir verða haldnir núna á miðvikudagskvöld, 29. október kl. 20:30 í Háskólabíói. Hverjum hinna dæmdu var gert að greiða 100.000 kr í sekt auk 150.000 kr í málskostnað. Tilgangur tónleikanna er að safna fé sem afhent verður níumenningunum og jafnframt að sýna baráttu þeirra samstöðu með tónlist og gleði. Miða má nálgast á www.miði.is.

Þessir listamenn koma fram og gefa allir vinnu sína: Hljómsveitin Spaðar- Uni Stefson- AmabAdamA-Snorri Helgasson-Ojbarasta-KK-Dikta-Jónas Sig-Pétur Ben-Prins Póló-Hallveig Rúnarsdóttir óperusöngkona-Bubbi Morthens

Við hvetjum ykkur til að sýna samstöðu með þessu góða fólki sem staðið hefur vaktina í náttúruverndarbaráttunni. Sýnum samhug og mætum í Háskólabíó á miðvikudag.

Ályktun frá Fuglavernd vegna vegagerðar í Gufudalssveit

Stjórn Fuglaverndar hvetur stjórnvöld til að fara að öllu með gát og skoða fleiri möguleika varðandi vegagerð í Gufudalssveit. Félagið lýsir yfir stuðningi við vegagerð í Gufudalssveit með göngum undir Hjallaháls. Með þeirri leið verður til láglendisvegur á þessu svæði og er því ekkert því til fyrirstöðu að ráðast í hana strax og bæta þannig úr brýnum þörfum Vestfirðinga á betri samgöngum.

Fuglavernd telur, að með þessu megi koma í veg fyrir þau miklu náttúrspjöll, sem myndi hljótast af vegagerð við vestanverðan Þorskafjörð, en hún fer um óspilta náttúru, m.a. eftir Teigsskógi endilöngum, út í sjó og yfir tanga yst á Hallsteinsnesi og yfir eyjar og sker í mynni Djúpafjarðar og Gufufjarðar, í nágrenni tveggja arnarsetra. Mikilvægum fæðusvæðum vaðfugla, æðarfugla og varpsvæði arna er því stefnt í hættu. Stíflun Gilsfjarðar ætti að vera mönnum víti til varnaðar á þessu svæði.

Sindri Skúlason tók myndina.

Fuglavernd telur að í náttúruverndarmálum verði menn að horfa til framtíðar og ekki sé réttlætanlegt að fórna náttúruverðmætum, sem auk þess eru á náttúrminjaskrá, skrá um Alþjóðalega mikilvæg fuglasvæði og falla undir lög um verndun Breiðafjarðar og Ramsar-sáttmálann, þegar aðrar leiðir eru fyrir hendi eins og í þessu máli. Göng undir Hjallháls er ein af þeim.

Stjórn Fuglaverndar 8.10.2014

Takið þátt í heiðlóutalningu

Um helgina verður evrópsk heiðlóutalning og hvetjum við sem flesta til að taka þátt. Nú er bara að hafa augun hjá sér og nótera hvar og hvort lóur sjást og þá hve margar. Ekki væri verra ef fólk hefði tök á að kíkja í fjörur eða telja lóur í bíltúrum. Talningarnar þurfa ekki að vera merkilegar. Lóur sem menn sáu á rauðu ljósi á umferðareyjum komu t.d. sterkar inn í síðustu talningu 2008.
Þegar talið er á landi (þ.e. ekki í fjörum), gjarnan í bíltúrum, er gott að skrá hversu margir kílómetrar voru eknir og hversu langt frá vegi séðar lóur voru. Með slíkum upplýsingum má slá á lágmarksþéttleika.

Tómas Grétar Gunnarsson (tomas@hi.is) heldur utanum talninguna svo vinsamlegast sendið honum upplýsingarnar. Við munum svo birta niðurstöðurnar hér á síðunni okkar og samanburð við síðustu talningu sem var í október 2008.

Bjarni Sæmundsson tók meðfylgjandi mynd.

Glókollaferð á Degi íslenskrar náttúru

Þriðjudaginn næstkomandi, 16.sept., verður Fuglavernd með fuglaskoðun í kirkjugarðinum í Fossvogi – í tilefni Dags íslenskrar náttúru.  Við munum skoða glókolla og jafnvel barrfinkur og krossnefi. Þó þessi fuglar séu ekki einkennisfuglar íslenskar fuglafánu þá hefur glókollurinn numið hér land, er staðfugl og spjarar sig ágætlega þrátt fyrir að vera minnsti fugl Evrópu, krossnefir hafa verpt hér síðan 2008 og barrfinkan er árlegur flækingur og líklegur landnemi.  Mæting hálfsex á bílastæðinu við Fossvogskirkju en gangan tekur um klukkutíma. Edward Rickson fuglaskoðari með meiru leiðir gönguna.
Má einnig sjá á fésbók.

Eyþór Ingi Jónsson tók þessa fallegu mynd af glókolli.

Hvernig á að greina blesgæs

Blesgæs hefur viðkomu hér á landi á vorin og svo aftur á haustin frá fyrri hluta september og fram í byrjun nóvember. Nú þegar gæsaveiðitímabilið er hafið er gagnlegt að rifja upp hvernig greina á blesgæsir frá öðrum gæsum en blesgæsin er friðaður fugl.

Blesgæs er dekkst gráu gæsanna. Fullorðnar eru þær með svartar rákir og díla á kvið sem er stundum nánast alsvartur. Fætur eru rauðgulir og goggur gulbleikur. Hvít blesa er ofan goggrótar. Blesgæs er sjónarmun minni en grágæs og heiðagæs en hegðar sér svipað, er þó sneggri á uppflugi og sýnist liprari á flugi. Hún lendir með sveflum og dýfum og kvakar hátt. Röddin er hærra stemmd en hjá öðrum gæsum og hún lætur meira í sér heyra.

Ungfugl að hausti vantar blesuna og svarta bletti á kvið. Hann er lítill og dökkur yfirlitum og goggur er daufari. Erfitt getur verið að greina hann frá öðrum gæsum en hann heldur sig innan um fullorðnar blesgæsir á haustin sem ætti að auðvelda greiningu. Greini skotveiðimenn eina eða fleiri blesgæsir í hóp er er líklegt að allir fuglarnir í hópnum séu blesgæsir. Líklega eru ungar innan um fullorðnu fuglana. Ættu þeir því að leyfa þeim að njóta vafans og sleppa því að skjóta.

Ástæðan fyrir því að blesgæsin er friðaður fugl er hrun í stofninum. Blesgæsarstofninn sem hefur viðdvöl á Íslandi á fartíma er fáliðaður og verpir mjög dreift á Vesturströnd Grænlands. Á fáum árum hefur orðið hrun í stofninum og ein möguleg orsök er slakur varpárangur sem veldur því að nýliðun er ekki nægileg til að standa undir afföllum vegna skotveiða. Stofninn taldi um 36.000 fugla á árunum 1998-99 en er nú líklega innan við 25.000 fuglar. Veiðarnar eru þar af leiðandi ósjálfbærar. Nákvæm orsök afkomubrestsins er óþekkt.

Útbreiðslusvæði blesgæsar á Íslandi er á Vesturlandi um Borgarfjarðarhérað og um sunnanvert Snæfellsnes, til suðurs um Kjós og Hvalfjörð. Á Suðurlandi halda blesgæsir til á láglendi Árnes- og Rangárvallasýslu, undir Eyjafjöllum og í Mýrdal. Í Skaftafellssýslum í Meðallandi, Landbroti og á Síðu.
Á öllum þessum svæðum þarf að gæta meiri varkárni við gæsaveiðar en í öðrum landshlutum er blesgæsin sjaldséður gestur. Sérstaklega ber að taka vara á veiðum í gæsanáttstöðum þar sem vitað er að blesgæsir safnast saman, en þar geta blesgæsir verið innan um grágæsir.

Skotveiðimenn þurfa að sýna sérstaka aðgát á svæðum sem merkt eru með rauðu á kortinu. 

Blesgæsakort

Ráðstefna um plastúrgang

Vertu með í að hreinsa plastið úr heimshöfunum –
Ráðstefna í Hörpu 24.september 2014.

Umhverfisstofnun stendur fyrir alþjóðlegri ráðstefnu um plast í hafi í Hörpu þann 24. september 2014. Meginmarkmið ráðstefnunnar er að leggja til aðgerðir til að draga úr plastúrgangi í hafinu. Plast leikur stórt hlutverk í daglegu lífi okkar og mun gera það um fyrirsjáanlega framtíð. Vitað er að plastúrgangur í hafinu hefur neikvæð áhrif á auðlindir hafsins og á sjávarútveg, svo og á nýtingu strandsvæða fyrir almenning og ferðaþjónustu. Nauðsynlegt er að draga úr þessum áhrifum.

Plastúrgangurinn í hafinu er af ýmsum toga, allt frá míkróplasti sem hefur m.a. verið notað í auknum mæli í snyrtivörur á allra síðustu árum, upp í stóra plasthluti og drauganet. Plast sem velkist um í hafinu berst auðveldlega í maga dýra, auk þess sem dýr geta flækst í plastinu og jafnvel kafnað. Eiturefni sem fyrirfinnast í plastinu eða sitja utan á því eiga greiða leið inn í vistkerfið og þar með í fæðukeðjuna.

Útgerðir verða fyrir miklu tjóni vegna plasts sem flækist í veiðarfæri, skrúfur, vatnsinntök o.fl. Því er mikilvægt að auka meðvitund fólks um málefnið og grípa til markvissra aðgerða til að draga úr plastúrgangi og áhrifum hans í sjónum.

Á ráðstefnunni sem verður í Silfurbergi í Hörpu er ætlunin að fara yfir stöðu mála og benda á færar leiðir til að koma í veg fyrir að plastúrgangur lendi í sjónum. Ísland fer með formennsku í Norrænu ráðherranefndinni árið 2014. Ráðstefnan er hluti af formennskuáætlun Íslands og er styrkt af Norrænu ráðherranefndinni. Til þess að fá fram fjölbreyttar, markvissar og raunhæfar lausnir er nauðsynlegt að ná saman breiðum hópi þátttakenda, bæði frá opinberum aðilum og úr einkageiranum. Þess vegna er ráðstefnan haldin daginn fyrir Íslensku sjávarútvegssýninguna, sem fram fer í Kópavogi dagana 25.- 27. september.

Skráning og frekari upplýsingar á ve Umhverfisstofnunnar: www.ust.is

Fuglaskoðun í friðlandinu í Vatnsmýrinni núna um helgina

Fuglavernd býður upp á fuglaskoðun í friðlandinu í Vatnsmýrinni og að Tjörninni núna á laugardaginn 28. júní. Síðasta gangan í þessari röð. Lagt verður af stað frá andyri norræna hússins klukkan 16:00 en gangan tekur tæpan klukkutíma. Elma Rún Benediktsdóttir mun leiða gönguna en skoðað verður fuglalífið á Hústjörn, Vatnsmýrartjörn, Þorfinnstjörn, Suðurtjörn og Norðurtjörn.
Róleg og þægileg fuglaskoðun í miðborginni – Bara að klæða sig eftir veðri og taka sjónaukann með.

Elma Rún tók þessa gæsarungamynd fyrir hálfum mánuði í Vatnsmýrinni.

Kettir á varptíma

Fuglavernd skorar á kattaeigendur að halda köttum inni yfir varptíma fugla. Kettir eru öflug og afkastamikil rándýr sem höggva stór skörð í stofna fugla sem verpa í nágrenni við mannabústaði ár hvert.  Lang best væri að kettir væru inni yfir varptímann en einhvern vegin þarf að tækla ketti sem eru vanir útigöngu.

Á þessum tíma er mikilvægt að lausaganga katta sé takmörkuð og sérstaklega yfir nóttina. Sagt er að kettir stundi mest veiðar í ljósaskiptunum en  norðarlega á hnettinum lengist dagurinn að vori og senn renna dagur og nótt saman í eitt.  Veiðar katta einskorðast því ekki við ljósaskiptin.

Hægt er að venja kött á að vera inni á nóttunni. Þegar kallað er á hann um kvöldmatarleiti og hann kemur inn þá ber að verðlauna með kattagóðgæti. Svo á ekki að hleypa honum út fyrr en daginn eftir og reyna að takamarka útiveruna við fáeinar klukkustundir.

Kattakragar hafa reynst gott meðal til að minnka veiðar katta og þeir virka betur heldur en bjöllurnar.  Fuglavernd selur kattakraga í vefverslun sinni.

Framleiðendur kraganna Birdsbesafe eru með mikið af fróðleik og upplýsingum um rannóknir á virkni kraganna. Hér má lesa um það á ensku.

Bjöllur og kragar eru í sumum tilfellum betri vörn en engin en langbest er að halda þeim inni.

 

• halda köttum inni, sérstaklega frá kvöldi og fram á morgun (helst frá kl. 17 seinnipart dags og til kl. 9 að morgni),
• gefa köttum sérlega ljúffenga máltíð (kjöt) seinni partinn (þá venjast þeir á að koma heim og eru líklegri til að vilja vera inni, saddir og sælir)
• setja litríka kattakraga utan um ólar kattanna
• setja aukabjöllur á ólarnar