Heiðagæsir á flugi ©Jóhann Óli Hilmarsson

Gæsaveiðitímabil hafið

Ljósmynd: Heiðagæsir á flugi. ©Jóhann Óli Hilmarsson

„Það er veiðidagur góður þegar hóflega er veitt, með talsverðri líkamlegri áreynslu, vakandi náttúruskyni og sært dýr liggur ekki eftir að kveldi“

Þessi orð eru höfð eftir Stefáni Jónssyni, alþingismanni, rithöfundi, útvarpsmanni og veiðimanni (1923 – 1990) og eiga jafn vel við í dag og þegar þau voru skrifuð.

Allir veiðimenn þurfa að hafa gild skotvopnaleyfi og veiðikort þegar gengið er til veiða. Leyfilegt er að skjóta grágæs og heiðargæs. Stofn heiðargæsa er í sögulegu hámarki, um fimmfalt stærri að talið er en grágæsastofninn. Út frá sjálfbærni auðlinda mega skotveiðimenn hafa það í huga ef valið stendur milli þess að skjóta heiðargæs eða grágæs.

Nánar um skynsamlega skotveiði á vef Skotvís.

Veiðimenn skulu sérstaklega minntir á að óheimilt er að skjóta fugla í sárum og ófleyga fugla. Í upphafi veiðitímabilsins má búast við að rekast á ófleyga unga, sérstaklega á svæðum þar sem varp hefur farið seint af stað.

Einnig er ástæða til að minna sérstaklega á alfriðun blesgæsarinnar en hún hefur verið friðuð síðan 2006. Þá mega veiðar á helsingja í Austur– og Vestur–Skaftafellssýslum ekki hefjast fyrr en 25. september.

Nánar um veiðitímabil á vef Umhverfisstofnunar.

Blesgæs friðuð

Ástæðan fyrir því að blesgæsin er friðaður fugl er hrun í stofninum. Blesgæsarstofninn sem hefur viðdvöl á Íslandi á fartíma er fáliðaður og verpir mjög dreift á Vesturströnd Grænlands. Á fáum árum hefur orðið hrun í stofninum og ein möguleg orsök er slakur varpárangur sem veldur því að nýliðun er ekki nægileg til að standa undir afföllum vegna skotveiða. Stofninn taldi um 36.000 fugla á árunum 1998-99 en er nú líklega innan við 19.000 fuglar. Veiðarnar eru þar af leiðandi ósjálfbærar. Nákvæm orsök afkomubrestsins er óþekkt.

Útbreiðslusvæði blesgæsar
Útbreiðslusvæði blesgæsar
Summertime

Sumarið er tíminn – 11. júní – 11. ágúst

Þegar komið er sumar þá eru fjölmörg störf að vinna úti í náttúrunni í starfi Fuglaverndar. Frá og með 11. júní til og með 11. ágúst er því stopul viðvera starfsfólks á skrifstofunni. Best er að hringja á undan sér til þess að tryggja að einhver sé við, í síma 562 0477.

Í júlí er skrifstofan lokuð vegna sumarleyfa starfsfólks og á sama tíma verður ekki hægt að afgreiða pantanir sem gerðar eru í vefversluninni.

Hægt er að hafa samband gegnum vefinn eða í gegnum samfélagsmiðla t.d. Facebook Fuglaverndar

Það er margt um að vera, líttu í viðburðadagatalið og komdu út og vertu með.

 

Inniköttur ©Dögg Matthíasdóttir

Innikettir á varptíma fugla

Fuglavernd skorar á kattaeigendur að halda köttum inni yfir varptíma fugla. Kettir eru öflug og afkastamikil rándýr sem höggva stór skörð í stofna fugla sem verpa í nágrenni við mannabústaði ár hvert.  Á varptíma er því mikilvægt að lausaganga katta sé takmörkuð og sérstaklega yfir nóttina. Bjöllur eru í sumum tilfellum betri vörn en engin en langbest er að halda þeim inni.

Kattarkragar

Þá hafa kattakragar verið að gefa góða raun við fælingarmátt. Kattarkragar eru í skærum litum og gera það að verkum að rándýrinu tekst síður að læðast að bráðinni, þar sem fuglar sjá skæra liti mjög vel.

Rannsóknir sýna að kettir með kraga drepa allt að 19 sinnum færri fugla en kettir sem eru ekki með kraga. Þá hafa kragar sem eru marglitir (regnbogalitir) gefið betri árangur en rauðir eða gulir.

Meira má lesa um kattarkraga:
Birds be safe: Can a novel cat collar reduce avian mortality by domestic cats (Felis catus)?

Assessing the effectiveness of the Birdsbesafe® anti-predation collar cover in reducing predation on wildlife by pet cats in Western Australia

Kattarkraga má víða finna í vefverslunum t.d. birdsbesafe.com

Framtíð spóans

Alþjóðlegi farfugladagurinn var laugardaginn 12. maí og Spóahátíð var einn af þeim viðburðum sem haldinn var víðs vegar um heiminn til að halda daginn hátíðlegan.

Tómas Grétar Gunnarsson, forstöðumaður Rannsóknarseturs Háskóla Íslands á Suðurlandi hélt síðasta erindi dagsins um vernd spóans hér á landi.

Myndband: Framtíð spóans

Forseti Íslands Hr. Guðni Th. Jóhannesson og Ásbjörn Björgvinsson framkvæmdastjóri Votlendissjóðsins

Votlendissjóðurinn tekur til starfa

Skrifað hefur verið undir stofnun Votlendissjóðsins. Tilgangur hans er að stuðla að endurheimt votlendis og draga með því úr losun gróðurhúsalofttegunda. Verndari sjóðsins er Forseti Íslands hr. Guðni Th. Jóhannesson. Kynningarfundur var haldinn á Bessastöðum þann 30. apríl 2018.

Votlendissjóðurinn er stofnaður um samfélagslegt verkefni sem hefur það að markmiði að fá fyrirtæki, félagasamtök og einstaklinga til að fjármagna endurheimt hluta þess votlendis sem þegar hefur verið raskað hérlendis. Víðtækt samstarf liggur að baki þessu verkefni svo sem Landgræðsla Ríkisins, Landbúnaðarháskólinn, Háskóli Íslands, Rannsóknarsetur Háskóla Íslands á Suðurlandi, Vegagerðin, Fuglavernd, Landvernd, Klappir, Náttúrustofa Austurlands, Náttúrufræðistofnun Íslands, sveitarfélög, bændur og landeigendur.

Verkefnið verður unnið með hverju sveitarfélagi fyrir sig þar sem íbúar fá kynningu á verkefninu og landeigendur fá boð um að taka þátt. Sveitarfélagið Fjarðabyggð ríður á vaðið og verður þar tilraunaverkefni sem verður þróað áfram. Reynt verður að fá ríkið til að endurheimta votlendi á þeim ríkisjörðum sem ekki eru í notkun.

Ásbjörn Björgvinsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Votlendissjóðsins.

Myndir

 

Meira um votlendi

Verkefnin>Votlendi

Votlendi.is

Facebook: Votlendi

 

 

 

 

Ástand fuglastofna heimsins - púlsinn tekinn á plánetunni. Forsíða.

Ástand fuglastofna heimsins

Fuglavernd eru aðilar að BirdLife International sem eru ein elstu náttúruverndarsamtök heims en sögu þeirra má rekja aftur til 1922.

Í samantekt BirdLife um ástand fuglastofna heimsins kemur m.a. fram að einn af hverjum átta fuglastofnum er talinn vera í útrýmingarhættu.  Þrátt fyrir að fréttirnar séu slæmar þá er hægt að grípa til ýmissa ráða, um það má líka lesa í skýrslunni.

Stofnþróun fuglastofna á válista IUCN og stofnþróun fuglastofna í Evrópu.
Stofnþróun fuglastofna á válista IUCN og stofnþróun fuglastofna í Evrópu.
Yfirlitsmynd um útrýmingarhættu fuglastofna og flokkun í áhættuflokka.
Yfirlitsmynd um útrýmingarhættu fuglastofna og flokkun í áhættuflokka.
Árangur sem náðst hefur í að minnka fugla sem meðafla við fiskveiðar.
Árangur sem náðst hefur í að minnka fugla sem meðafla við fiskveiðar.

Skýrslan í heild sinni

BirdLife: State of the World’s Birds – taking the pulse of the planet.  

Lóa. Ljósmyndari: Alex Máni 2014.

Lóan er komin

Lóan er komin að kveða burt snjóinn.  Helsti vorboði okkar er kominn á tilsettum tíma nú rétt fyrir páska, fyrstu lóurnar sáust í Flóanum í dag. Aðeins tvisvar sinnum hafa lóurnar komið seinna en í dag, 1999 og 2001, en meðalkomudagur þeirra 1998-2017 hefur verið 23. mars. 

Lóan er einkennisfugl íslenskra móa og útbreiddur varpfugl um land allt og einnig á hálendinu.  Lóan er vaðfugl sem verpur einkum á þurrum stöðum, mólendi og grónum hraunum. Hreiðrið er opin laut milli þúfna eða á berangri, klætt með stráum.

Um helmingur af heimsstofni lóunnar verpur hér á landi, eða um 300.000 pör, svo ábyrgð okkar gagnvart þessum vorboða er mikil og nauðsynlegt að vernda búsvæði hennar.

Vetrarheimkynnin eru í Vestur Evrópu, aðallega á Írlandi en einnig í Frakklandi, Portúgal og á Spáni.

Flórgoði - par. Ljósmynd ©Jóhann Óli Hilmarsson

Úthérað – mikilvægt fuglasvæði og virkjun vindorku

Vegna hugmynda sem uppi eru um virkjun vindorku á Úthéraði sendi Fuglavernd Bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs bréf þann 14. mars vegna kynningarfundar sem haldinn var þann 15. mars 2018.

Þar segir:

Fuglavernd lýsir yfir alvarlegum áhyggjum af hugmyndum um vindmyllugarð á alþjóðlega mikilvægu fuglasvæði við Hól á Úthéraði. Reynsla erlendis frá hefur sýnt að auðugt fuglalíf og vindmyllugarðar fara ekki saman og áhrifin geta verið mjög alvarleg fyrir fugla.

Hólsland og nálæg votlendi á Úthéraði eru á skrá Náttúrufræðistofnunar Íslands yfir Alþjóðlega mikilvæg fuglasvæði (VOT-A 3) og er einnig á IBA skrá Alþjóða fuglaverndarsamtakanna (BirdLife International) um mikilvæg fuglasvæði (IS 040). Við mótmælum þessum hugmyndum!

Bréf til Sveitarstjórnar Fljótsdalshéraðs vegna kynningar- og umræðufundar um möguleika á virkjun vindorku á Úthéraði. 

Úthérað – mikilvægt fuglasvæði

Fuglalíf er mikið og fjölbreytt á Úthéraði (Guðmundur A. Guðmundsson o.fl. 2001) og þær tegundir varpfugla sem ná alþjóðlegum verndarviðmiðum eru lómur (220 pör), flórgoði (38 pör), grágæs (1.600 pör) og kjói (1.300 pör). Hið sama á við um grágæs á fjaðrafellitíma (7.700 fuglar) og fartíma (7.517 fuglar).

Ysti hluti Úthéraðs, votlendi og sandar í Hjaltastaðaþinghá, Húsey, Eylendið í Jökulsárhlíð, ásamt Egilsstaða- og Finnsstaðanesjum utan við Egilsstaði, eru á náttúruminjaskrá. Allt svæðið er á IBA-skrá.

 

Stefnumótunar- og leiðbeiningarit um virkjun vindorku á Íslandi

Engin stefna hefur verið mörkuð um vindorkuvirkjanir á Íslandi og því réðst Landvernd í það verkefni að semja stefnu sem byggist á náttúruverndarsjónarmiðum með almannahagsmuni að leiðarljósi.  Vonast er til að framkvæmdaaðilar og sveitarfélög geti nýtt sér þessa stefnumörkun til að lágmarka neikvæð umhverfisáhrif slíkra framkvæmda og til að koma í veg fyrir að ráðist verði í byggingu vindorkuvirkjana á svæðum þar sem miklar líkur eru á að þær hafi veruleg neikvæð áhrif á viðkvæma náttúru landsins. Einnig vonast samtökin til að stefnan marki upphafið af almennri umræðu um málefnið hér á landi.

Landvernd leggst gegn vindorkuvirkjunum og –verum á mikilvægum fuglasvæðum (IBA svæðum) og hvetur til rannsókna á farleiðum fugla (þ.m.t. dægurfari) og varpstöðvum mófugla áður en slík mannvirki koma almennt til álita.

Mikilvæg fuglasvæði

Á Íslandi er skráð 121 mikilvægt fuglasvæði (IBA svæði, e. Important Bird Areas) og vísast til nánari upplýsinga um þau í Fjölriti Náttúrufræðistofnunar nr.55.  Fuglavernd BirdLife Iceland hefur skráð IBA svæði og eru hjá BirdLife International skráð 99 alþjóðlega mikilvæg fuglasvæði á Íslandi.

Almennt er þekking á farleiðum fugla hér á landi takmörkuð, hvort heldur sem er milli varp- og vetrarstöðva eða milli fæðustöðva og náttstaða (dægurfar). Hérlendis er mjög hár þéttleiki verpandi mófugla og þarf að huga að því við staðsetningu vindorkuvirkjana en mannvirkjagerð og hávaði getur haft veruleg áhrif á varp mófugla.

 

Nánar má lesa um Verkefnin > Virkjun vindorku

Ljósmyndasamkeppni CAFF

CAFF, stendur fyrir ljósmyndasamkeppni á starfsvæði sínu á norðurheimskautinu.

Keppninni er skipt í fjóra flokka:

Verðlaun verða veitt í hverjum flokki, en aðalverðlaunin eru ljósmyndaferð til Rovaniemi í Finnlandi í fjórar nætur. Allar nánari upplýsingar eru á https://photocontest.arcticbiodiversity.is/. Skilafrestur er til 1. ágúst 2018.