Formaður Fuglaverndar birti um helgina perónulega hugleiðingu um skógræktarmálið í Saltvík, nærri Húsavík, sem má lesa hér.

“Stundum skil ég bara alls ekki ákvarðanir sem eru teknar í stjórnsýslunni þegar kemur að náttúruvernd og dýravelferð. Aðfarir Ísafjarðabæjar gegn kríum og Garðabæjar gegn sílamáfum eru dæmi um þetta. Nýjasta dæmið er hins vegar leyfisveiting Norðurþings til Yggdrasill Carbon til jarðvinnslu vegna skógræktar. Nærri Húsavík var í sumar plægt upp fallegt og vel gróið búsvæði margra fuglategunda sem verpa á opnum svæðum Á MIÐJUM VARPTÍMA!!

Nógu slæmt er að fara svona fram með offorsi gegn náttúrunni undir því yfirskini að vilja binda kolefni, en þessi tímasetning aðgerða er gjörsamlega galin. Samkvæmt vistgerðaflokkun Náttúrufræðistofnunar (https://vistgerdakort.ni.is/) er ríkjandi vistgerð á svæðinu sem um ræðir fjalldrapamóavist. Einnig má finna þarna aðrar vistgerðir í minna mæli samkvæmt kortasjá Náttúrufræðistofnunar, en nefna má starungsmýravist og víðikjarrvist. Í þessum vistgerðum má finna ríkulegt fuglalíf og algengt er að t.d. þúfutittlingur, hrossagaukur, spói, heiðlóa, lóuþræll, rjúpa, jaðrakan, stelkur, skógarþröstur og grágæs verpi þar. Allar þessar tegundir nema rjúpa og grágæs eru alfriðaðar, en rjúpa og grágæs eru veiðitegundir sem þó að sjálfsögðu eru friðaðar á varptíma. Fjalldrapamóavist, starungsmýravist og víðikjarrvist eru allar á lista Bernarsamningsins frá 2014 yfir vistgerðir sem þarfnast verndar.

Eyðilögð gróðurþekja Saltvík, Húsavík. Ljsm. Áskell Jónsson

 

Hér er því rétt að staldra við.

Í lögum um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum (nr. 64/1994) (https://www.althingi.is/lagas/nuna/1994064.html) kemur fram að „Villt dýr, þar með talin þau sem koma reglulega eða kunna að berast til landsins, eru friðuð nema annað sé tekið fram í lögum þessum“ (6. grein). Þá er friðun skilgreind sem „bann við veiðum og öðrum aðgerðum sem geta aukið vanhöld eða dregið úr viðkomu dýra af tiltekinni tegund. Þegar rætt er um friðun tekur hún einnig til eggja og hreiðra þeirra fugla sem njóta algerrar eða tímabundinnar friðunar.“ (1. grein). Ljóst er að afföll urðu á eggjum og ungum friðaðra tegunda í sumar er umrætt land var plægt upp á varptíma.

Í lögum um velferð dýra (nr. 55/2013) (https://www.althingi.is/lagas/nuna/2013055.html) kemur fram að skylt sé að hjálpa dýrum í neyð (væntanlega hefur fjöldi fugla lent þarna í neyð á meðan á þessum aðgerðum stóð), sbr. „Þeim sem verður var við eða má ætla að dýr sé sjúkt, sært, í sjálfheldu eða bjargarlaust að öðru leyti ber að veita því umönnun eftir föngum (7. grein). Væntanlega hafa fuglaungar drepist þarna, en í 21. grein um aflífun kemur fram að „Dýr skulu aflífuð með skjótum og sársaukalausum hætti og eftir því sem unnt er án þess að önnur dýr verði þess vör. Forðast skal að valda dýrum óþarfa þjáningum eða hræðslu.“ Ljóst er að ekki hefur verið farið eftir þessu.

Í 17. grein laga um náttúruvernd (nr. 60/2013) varðandi réttindi og skyldur almennings kemur fram að „Sérstök aðgát skal höfð í nánd við búsmala, selalátur, varplönd fugla, veiðisvæði og veiðistaði“ (sjá: https://www.althingi.is/lagas/nuna/2013060.html). Hvaða sérstaka aðgát var viðhöfð er varplönd fugla voru plægð upp við Húsavík á varptíma?

Það má því spyrja sig: Voru lög brotin við þessar aðfarir Yggdrasill Carbon í sumar? Ef ekki, er ljóst að löggjöfin okkar varðandi náttúruvernd og dýravelferð eru allt of vanmáttug til að koma í veg fyrir náttúruspjöll og dýraníð!
Langstærsta náttúruverndarmál samtímans er varðveisla líffræðilegrar fjölbreytni. Einhverra hluta vegna hefur umræðan í samfélaginu einblínt á nauðsyn þess að koma í veg fyrir hamfarahlýnun með loftlagsaðgerðum. Það er auðvitað mikilvægt, en fólk virðist gleyma því að þær aðgerðir eru einmitt m.a. TIL ÞESS AÐ VARÐVEITA LÍFFRÆÐILEGA FJÖLBREYTNI. Að fórna friðuðum tegundum og vistgerðum sem ber að vernda í nafni loftslagsaðgerða er því svo sannarlega að fleygja barninu út með baðvatninu. Vissulega verðum við að grípa til loftslagsaðgerða en við það verður að vanda til verka og fara leiðir sem eyðileggja ekki meira en þær bjarga.

 

Votlendi og mikilvægi þeirra

Vernd og endurheimt votlendis er eitt af áhersluatriðum í aðgerðaáætlun í loftslagsmálum.  Ágústa Helgadóttir líffræðingur og verkefnastjóri endurheimtar votlendis hjá Landi og skógi var í viðtali hjá morguvaktinni á Rás 1. Land og skógur er í samstarfi við Fuglavernd um endurheimt votlendis.

Hér má lesa um könnun á  möguleikum í endurheimt landslags- og sjávarheilda sem er samstarfsverkefni Fuglaverndar, Lands og skóga, RSPB og ELSP

Hér má hlusta á viðtalið við Ágústu  sem hefst á 01:26:00

Lóþræll. ©Alex Máni Guðríðarson

Fuglar og votlendi – Viðtal við Aron Alexander Þorvarðarson um niðurstöður meistararitgerðar hans

Ljósmynd: Alex Máni Guðríðarson.

Á Íslandi er að finna fjölmörg ólík votlendi sem eru mismunandi að stærð og sem m.a. standa undir eða styðja við stofna yfir fimmtíu fuglategunda. Þar af ber Ísland stóran hluta af heimsstofni tíu þeirra. Núverandi löggjöf gerir einungis ráð fyrir að þau votlendi sem ná tveimur hekturum að flatarmáli njóti verndar. Þessi löggjöf endurspeglar það viðhorf sem var algengt á áttunda og níunda áratug síðustu aldar, að stærri verndarsvæði skili meiri árangri við náttúruvernd en smærri. Þetta viðhorf hefur verið mjög umdeilt og talsvert rannsakað síðustu hálfa öldina. Umræður um það hafa á ensku gengið undir heitinu „the SLOSS debate”, sem stendur fyrir “single large or several small” (eitt stórt eða mörg lítil). Þetta verkefni kannar réttmæti stærðarmarka í núverandi náttúruverndarlögum á Íslandi með því að skoða tengsl þéttleika og fjölbreytni fugla við flatarmál votlendisbletta á suður-, suðvestur- og vesturhluta landsins. Niðurstöðurnar sýna að þéttleiki fugla var hæstur á minnstu votlendisblettunum og minnkaði með aukinni stærð votlendis. Aftur á móti jókst heildarfjöldi fugla og fjölbreytni fuglalífs með aukinni stærð votlendisbletta. Þetta sýnir að minni votlendisblettir, þar á meðal blettir vel undir tveimur hekturum, geta gegnt mikilvægu hlutverki fyrir fuglalíf landsins og að horfa verður til samhengis en ekki eingöngu flatarmáls þegar teknar eru ákvarðanir um vernd votlendis. Skilningur á mikilvægi þess að aðgerðir í þágu náttúruverndar hafi bæði jákvæð áhrif líffræðilega fjölbreytni og loftslag eru að aukast og þær niðurstöður sem hér eru kynntar nýtast í þeim tilgangi.

Viðtal við Aron Alexander er að finna á hér á spilara Rásar 1 á 01:27:00 

Fullorðinn fálki, 12 ára gamall karlfugl, á flugi yfir hreiðri sínu sumarið 2023. Þessi fálki var merktur sem ungi í hreiðri sumarið 2011. Vorið 2014 fannst hann, þá þriggja ára gamall, paraður og með fjóra unga í hreiðri á óðali um 17 km frá æskuheimili sínu. Hann hefur búið á þessu óðali allar götur síðan og hann og maki hans komu upp fjórum ungum í vor. – Ljósm. Þorfinnur Sigurgeirsson

Talningar sýna að fálkum hefur fækkað samfellt frá 2019.

Fullorðinn fálki, 12 ára gamall karlfugl, á flugi yfir hreiðri sínu sumarið 2023. Þessi fálki var merktur sem ungi í hreiðri sumarið 2011. Vorið 2014 fannst hann, þá þriggja ára gamall, paraður og með fjóra unga í hreiðri á óðali um 17 km frá æskuheimili sínu. Hann hefur búið á þessu óðali allar götur síðan og hann og maki hans komu upp fjórum ungum í vor. – Ljósm. Þorfinnur Sigurgeirsson

 

Talningar sýna að fálkum hefur fækkað samfellt frá 2019 og varpstofninn vorið 2023 var sá minnsti sem mælst hefur frá upphafi rannsókna. Samfelld fækkun fálka frá 2019 kemur á óvart. Viðkoma fálka var mjög góð bæði 2018 og 2019. Reyndar var árið
2018 það besta frá upphafi rannsóknanna, en þá komust á legg 104 fálkaungar á rannsóknasvæðinu.
 Fréttina má lesa á heimasíðu Náttúrufræðistofnunar Íslands
Lundi. Ljsm. Sindri Skúlason

NACES hafsvæðið verður verndað að öllu leyti, einnig sjávarbotninn.

Fuglavernd hvatti félagasmenn og alla fuglaunnendur að skrifa undir áskorun til OSPAR nefndarinnar um vernda sjávarbotn NACES svæðisins, ekki bara yfirborðið.

OSPAR nefndin hefur ákveðið að svæðið allt þ.m.t. hafsbotninn verði verndað.

Hvers vegna er mikilvægt að vernda sjávarbotninn?

Vistkerfi sjávarbotns eru lykillinn að því að viðhalda fæðukeðjunni sem tegundir á svæðinu reiða sig á. Flæði vatns þýðir að vistkerfi sjávar – frá yfirborði til sjávarbotns – eru í eðli sínu tengd. Hverskyns breytingar á öðrum þessara tveggja þátta (t.d. af völdum mannlegra athafna) hljóta að hafa áhrif á og trufla hinn. Meðal gesta NACES svæðisins eru þekktar fuglategundir eins og lundinn, krían og haftyrðilinn. Íslenskir óðinshanar koma þar við í langferðum sínum milli heimsálfa.
En svæðið er ekki aðeins mikilvægt fyrir sjófugla. Undir yfirborðinu eru heimkynni mikils líffræðilegs fjölbreytileika sjávarlífvera. Svæðið er mikilvægt fyrir nokkrar tegundir í hættu eins og steypireyði, leðurskjaldböku, klumbudrögu (skjaldbökutegund), túnfiska, beinhákarl, kóralla og djúpsjávarsvampa. Án verndaðs sjávarbotns er þetta athvarf náttúrunnar berskjaldað fyrir hættu af mannavöldum.

Smelltu hér til að sjá hvar í veröldinni  NACES er statt.

 

 

Lundi er ein margra fuglategunda sem að dvelst þar veturlangt.

 

Nánari frétt um verndun  NACES frá botni til yfirborðs á heimasíðu BirdLife International

Kría með unga. Ljósmynd: Elma Rún Benedíktsdóttir.

Vegna aðgerða Ísafjarðarbæjar gegn kríuvörpum

Snemma í júní sendi Fuglavernd bréf til Ísafjarðarbæjar vegna aðgerða sveitarfélagsins gegn kríuvörpum.

,,Fuglavernd vill með bréfi þessu koma á framfæri miklum áhyggjum af aðgerðum
Ísafjarðarbæjar í kríuvörpum, sem lýst hefur verið í fjölmiðlum undanfarið og hafa það að
markmiði að fæla kríu úr varplöndum nálægt byggð.”

Lögin

,,Bent er á að samkvæmt lögum um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum
spendýrum (nr. 64/1994) er krían friðaður fugl. Í lögunum, sem meðal annars hafa það að
markmiði að tryggja viðgang og náttúrulega fjölbreytni villtra dýrastofna, kemur fram að:
Úr 1. gr.:
Friðun: bann við veiðum og öðrum aðgerðum sem geta aukið vanhöld eða dregið úr
viðkomu dýra af tiltekinni tegund. Þegar rætt er um friðun tekur hún einnig til eggja og
hreiðra þeirra fugla sem njóta algerrar eða tímabundinnar friðunar.”

Krían komin á válista

,,Krían er stórkostleg lífvera. Hún er heimsmetshafi í öllu dýraríkinu þegar kemur að árlegum
farvegalengdum. Krían er langlíf, verður að jafnaði um 30 ára, og ferðast um 80-90.000 km á
ári, sem jafngildir því að hver fugl fari um þrisvar sinnum fram og til baka til tunglsins á ævi
sinni. Það er því kannski engin furða að hún verji afkvæmi sín með miklum tilþrifum, eftir að
hafa lagt á sig þetta mikla ferðalag til að komast á varpstöðvar.1
Því miður hefur krían átt verulega undir högg að sækja frá því snemma á þessari öld, að
öllum líkindum vegna breytinga í hafinu sem mögulega eru til komnar vegna loftslagsvár af
mannavöldum. Hún telst vera tegund í nokkurri útrýmingarhættu (VU) skv. válista íslenskra
fugla. Mikilvægt er að hafa í huga að 20–30% af heimsstofni kríunnar er að finna hér á landi
á sumrin.”

Válisti fugla á heimasíðu NÍ

Aðgerðir og lögin

,,Að lokum vill Fuglavernd leggja áherslu á að kjósi Ísafjarðarbær að halda uppteknum hætti
með notkun fælingaraðgerða er mjög brýnt að rannsóknir á áhrifum þessara aðgerða fari
fram, til að skilja til fullnustu hvaða áhrif þær hafa á bæði kríuna og aðra friðaðar tegundir
sem verpa á svipuðum slóðum, og til að mæla hversu langt frá fælingarbúnaðinum þau áhrif
ná. Fuglavernd getur haft milligöngu um að koma slíkum rannsóknum á, en áréttar þó að
notkun fælingarbúnaðar í vörpum friðaðra fuglategunda stríðir gegn markmiðum gildandi
laga.”

Bréfið í heild sinni má lesa hér.

 

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar

Erindið var tekið fyrir í bæjarráði Ísafjarðarbæjar og afgreitt á eftirfarandi hátt: „Kríuvarp í Tunguhverfi: Lagt fram bréf frá Fuglavernd dags. 5. júní 2023, þar sem komið er á framfæri áhyggjum af aðgerðum Ísafjarðarbæjar í kríuvörpum, sem lýst hefur verið í fjölmiðlum undanfarið og hafa það að markmiði að fæla kríu úr varplöndum nálægt byggð. Fjallað var um málið á fundi bæjarráðs þann 12. júní sl. þar sem eftirfarandi var bókað „Bæjarráð þakkar erindið og vísar málinu til umhverfis- og framkvæmdanefndar. Við undirbúning máls þessa var reynt að velja vægustu leiðina til að hliðra varpi kríunnar, og að það yrði gert áður en fuglinn myndi setjast, en Ísafjarðarbær hefur fengið ítrekaðar beiðnir frá íbúum í Skutulsfirði um aðgerðir. Þá skal horft til þess að kríunni sjálfri er hætta búin á að verpa á þessu svæði, enda er varplandið mjög nálægt vegi, og hefur dauði unga síðustu ár verið mikill vegna þess. Ísafjarðarbær hefur verið í samskiptum við Nave til að finna lausn á málinu og verður áfram, og felur bæjarráð bæjarstjóra að halda áfram samtali við Nave, auk Fuglaverndar vegna málsins.“

 

Fugla- og votlendisskoðun Fuglaverndar 18. júní 2023

Sunnudaginn 18. júní héldu 13 félagar í fugla- og votlendisskoðun á Vesturland. Leiðsögumenn voru Polina Moroz og Jóhann Óli Hilmarsson, sem jafnframt ók. Fyrst var numið staðar við Eiðisvatn og Laxá í Leirársveit og skoðað svæði sem Endangered Landscape Programme (Endurheimt landslagsheilda) styrkti Fuglavernd til að skoða, sérstaklega möguleg áhrif endurheimtar votlendis á fuglalíf og gæði vatnasviðs Laxár. Verkefnið er á höndum Polinu. Í leiðinni var Ramsar-svæðið Grunnafjörður skoðað.

Þarnæst var Ramsar-svæðið Andakíll heimsótt og farið um Hvanneyrarhlöð. Eftir nestisstund við Borgarvog var farið á Mýrarnar og fyrst numið staðar við Kálfalæk. Á dögunum hlaut Fuglavernd í samstarfi við Landgræðsluna, Hafrannsóknastofnun og Konunglega Brezka Fuglaverndarfélagið (RSPB) styrk til að kanna möguleika á endurheimt búsvæða í lækjum, vötnum og votlendi fyrir fiska, fugla og aðrar lífverur. Náttúrufræðistofnun Íslands og Landbúnaðarháskóli Íslands munu einnig koma að verkefninu. Styrkurinn var veittur af Open Rivers Programme, sem hefur það að markmiði að endurheimta líffræðilegan fjölbreytileika og náttúrulega rennslishætti vatnsfalla í Evrópu. Verkefnið er framhald verkefnis, þar sem gerð var úttekt á vatnsvæði Kálfalækjar á Mýrum og þess vegna þótti við hæfi að stoppa þar.

Eknir voru „hringirnir tveir“ um Mýrarnar og stoppað á fuglaríkum stöðum eins og Ökrum og við Straumfjörð. Við bæinn Krossnes á Mýrum rákumst við á gríðarmikla nýlega framræslu, svo hún er alls ekki úr sögunni, þrátt fyrir allt.

Veður var hið skaplegasta, hægviðri og fór ekki að rigna fyrr en á heimleiðinni.

 

Alls sást 41 fuglategund í ferðinni:

Álft
Grágæs
Brandönd
Rauðhöfðaönd
Urtönd
Stokkönd
Skúfönd
Duggönd
Æðarfugl
Toppönd
Rjúpa
Lómur
Fýll
Dílaskarfur
Haförn
Tjaldur
Sandlóa
Heiðlóa
Lóuþræll
Hrossagaukur
Jaðrakan
Spói
Stelkur
Tildra
Óðinshani
Kjói
Hettumáfur
Stormmáfur
Sílamáfur
Hvítmáfur
Svartbakur
Rita
Dvergmáfur
Kría
Teista
Þúfutittlingur
Maríurela
Svartþröstur
Skógarþröstur
Hrafn
Stari

 

Samstarfsaðilar frá RSPB

Í apríl heimsóttu Zbig Karpowicz og Wenceslas Gatarabirwa Fuglavernd, en báðir eru þeir starfsmenn RSPB;  Royal Society for the Protection of Birds. Zbig er verkefnisstjóri og tengill Fuglaverndar innan RSPB og Wenceslas er yfirmaður Flyway Conservation eða verndun farleiða fugla.  Hér er hægt að fræðast nánar um farleiðaverkefnið á ensku.

Votlendi mikilvæg fuglum

Votlendi eru ofarlega á baugi því að þau eru mikilvæg búsvæði og fæðuöflunarsvæði margra fuglategunda og eru stundum kölluð lungu landsins. Starfsmenn Fuglaverndar Hólmfríður  og Anna María sýndu þeim félögum Friðland í Flóa og votlendi í kringum Grunnafjörð sem er friðlýst svæði m.a. vegna fuglalífs.

Farið var í Odda á Rangárvöllum og skoðað votlendi sem að Landgræðslan hefur umsjón með, en Oddi er ríkisjörð. Þar tók á móti okkur Ágústa Helgadóttir, líffræðingur hjá Landgræðslunni.  Hún fræddi okkur um hvernig stendur til að endurheimta votlendi jarðarinnar langkeru í eigu ríkisins og sameina það votlendinu Oddaflóði. Einnig skoðuðu þau verkefni um endurheimt á Mýrunum sem gagnast bæði fuglum og fiskum, sem Fuglavernd stendur að ásamt Hafrannsóknarstofnun og Landgræðslunni.

Þeir Wenceslas og Zbig ásamt Hólmfríði heimsóttu svo m.a. Umhverfis- og auðlindaráðuneytið og áttu þar fund með Sigurði Þráinssyni og Steinari Kaldal.  Rætt var um votlendi og farleiðir fugla og möguleikann á að sækja í sjóð til endurheimtar á votlendi.

Kettir og fugladráp þeirra – hvað er til ráða?

Áskorun til kattaeigenda á varptíma

Nú er vorið komið og með hækkandi hitastigi og meiri birtu fara dýr af flestum tegundum að huga að vorverkum og eru meira á ferðinni en yfir vetrartímann. Fuglar af öllum stærðum og gerðum hafa mikið að gera á þessum tíma. Sumir hafa haft mikið fyrir því að koma sér til landsins. Þeir parast, gera sér hreiður og liggja á eggjum í marga sólarhringa áður en ungarnir skríða út. Fjölmörg höfum við gaman af að fylgjast með öllu ferlinu.
Heimiliskettir hrista líka af sér vetrarslenið og eru oft meira úti við. Kettir eru rándýr og geta valdið miklum afföllum hjá fuglum, sér í lagi á varptíma. Til eru nokkur ráð fyrir ábyrga kattaeigendur til að reyna að minnka þann skaða sem þeirra kettir mögulega valda. Til dæmis er hægt að halda köttum inni yfir varptímann en hafa þarf í huga að kettir þurfa þá meiri leik og athygli á þeim tíma. Hægt er að halda köttunum inni ákveðinn tíma sólarhrings og þá helst yfir kvöld og nótt (u.þ.b. frá kl. 17:00 til kl. 09:00). Til að venja ketti á að koma inn seinni partinn má prófa að gefa þeim eitthvað sem eigandinn veit að kisu finnst gott. Æskilegt er að setja bjöllur á hálsólar og einnig hafa kattakragar sem settir eru á ólarnar gefið góða raun.

Samkvæmt grein á heimasíðu Fuglaverndar  drepa kettir með litríka kraga mun færri fugla en kettir með engan kraga en hér eru nokkrar greinar um veiðar katta, kraga og annað tengt því. Kragana er hægt að fá á allnokkrum stöðum svo sem hjá Fuglavernd, , Fjölskyldu- og húsdýragarðinum, gæludýraverslunum og hjá dýralæknum.

 

Í vor vilja Fuglavernd – BirdLife Iceland, Kattavinafélag Íslands, Fjölskyldu- og húsdýragarðurinn og Dýraþjónusta Reykjavíkur í sameiginlegu átaki skora á kattaeigendur að gæta katta sinna vel og reyna að lágmarka fugladráp þeirra.