Fjölskrúðugt vetrarfuglalífið í Laugardal verður skoðað á göngu um Grasagarðinn og nágrenni sunnudaginn 23. nóvember kl. 10. Gangan er skipulögð í samstarfi Fuglaverndar og Grasagarðs Reykjavíkur. Um leiðsögn sér Hannes Þór Hafsteinsson náttúrufræðingur en hann þekkir fuglalífið í Laugardalnum manna best og miðlar þeirri þekkingu með skemmtilegum og fróðlegum hætti.
Mæting við aðalinngang Grasagarðsins. Þátttaka er ókeypis og allir eru velkomnir.
Fjölmargar fuglategundir halda til í Laugardal yfir vetrartímann. Algengastir eru skógarþrestir, svartþrestir, starar, auðnutittlingar, stokkendur, grágæsir og húsdúfur. Minnsti fugl Evrópu, glókollurinn, fannst fyrst verpandi á Íslandi 1999. Nú verpa nokkur pör reglulega í Laugardal og ef vel er að gáð má finna þennan smávaxna landnema víða í trjálundum. Í vetur hafa músarrindlar verið tíðir gestir í Grasagarðinum og vitað er um nokkur krossnefspör sem halda til á svæðinu og sjást öðru hvoru. Nýlega sást glóbrystingur á ferli í Laugardal og flesta vetur undanfarin ár hafa branduglur sótt í dalinn.
Gunnar Þór Hallgrímsson tók þessa mynd af glóbrystingi í fyrravetur.
Laugardaginn 29. nóvember hélt Fuglavernd ráðstefnu um stöðu og vernd íslenskra mófuglastofna og þá ábyrgð sem við berum á þeim í alþjóðlegu samhengi. Erindin byggðu á nýlegum eða nýjum rannsóknum í fuglafræðum og niðurstaðan fróðleg fyrir alla þá sem áhuga hafa á íslensku fuglalífi.
Ráðstefnan bar yfirskriftina: Eiga mófuglar undir högg að sækja? Staða stofna, búsvæðavernd og alþjóðlegar skyldur og var haldin í salarkynnum Háskóla Íslands í Odda. Hún hófst á því að lagt var fram yfirlit yfir íslenskar mófuglategundir og útbreiðslu þeirra, svo var m.a. skýrt hversvegna sumir þessara stofna er eins stórir og raun ber vitni og hvernig það endurspeglar ábyrgð okkar íslendinga í alþjóðlegu samhengi og þær skuldbindingar sem við höfum undirgengist.
Landnotkun var rædd – hvaða áhrif t.d. landbúnaður og skógrækt hafa og svo var sérstakur lestur um mat á stofnum og hvernig best fari að vakta þá. Þetta var svo allt skoðað með verndun þessara stofna í huga. Fundurinn ályktaði og hefur ályktunin verið send til umhverfis- og auðlindaráðherra sem einnig gegnir embætti landbúnaðarráðherra. Hér má sjá ályktunina.
Dagskrá 10:10 Fundarstjóri Jón S. Ólafsson opnar ráðstefnuna. 10:15 Jón Geir Pétursson skrifstofustjóri á skrifstofu landgæða umhverfis- og auðlindaráðuneytisins ávarpar ráðstefnuna í forföllum umhverfis- og auðlindaráðherra 10:25 Íslenskir mófuglastofnar, far og vetrarstöðvar Sett var fram yfirlit yfir íslenskar tegundir og útbreiðslu.
Guðmundur A. Guðmundsson, dýravistfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands. 10:50 Búsvæðaval og vernd mófugla Tómas Grétar Gunnarsson, vistfræðingur hjá Rannsóknasetri Háskóla Íslands á Suðurlandi. 11:15 Áhrif landnotkunar á mófuglastofna Lilja Jóhannesdóttir, doktorsnemi hjá Rannsóknasetri Háskóla Íslands á Suðurlandi. 11:40 Léttur standandi hádegisverður 12:10 Stofnmat og vöktun Guðmundur A. Guðmundsson, dýravistfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands 12:35 Verndun og alþjóðlegar skuldbindingar Kristinn Haukur Skarphéðinsson, dýravistfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands 13:00 Fundarstjóri ber upp ályktun fundarins
13:15 Fundi slitið
Ráðstefnan var styrkt af umhverfis- og auðlindaráðuneytinu og er öllum opin og ókeypis.
Nú er komið að því að hefja árvissa garðfuglakönnun Fuglaverndar en Fuglavernd hefur um árabil staðið fyrir rannsókn á garðfuglum og fengið félagsmenn og aðra áhugasama í lið með sér. Markmiðið er að athuga hvaða fuglar sækja í garða, í hve miklu magni og breytingar á samsetningu tegunda yfir vetrarmánuðina. Sem athugunarsvæði má nota húsagarða, afmörkuð svæði innan almenningsgarða, garðlönd við sumarbústaði eða skógarlundi. Meginatriðið er að sama svæði sé talið og reglulega sé fylgst með því í viku hverri. Fylgst er með fuglalífinu frá því í lok október fram í lok apríl – og niðurstöðurnar skráðar á þar til gert eyðublað.
Veturinn 2014-2015 er garðfuglakönnun Fuglaverndar frá 26. október til 25. apríl. Á Garðfuglavefnum má lesa nánar um könnina en hér má nálgast eyðublaðið til að prenta og fylla út – en hér er skjal sem má fylla út rafrænt og senda svo sem viðhengi á fuglavernd@fuglavernd.is.
Áhugafólk um fugla er hvatt til að taka þátt – engin binding – lítið umstang en mjög skemmtilegt. Ekki er skilyrði að maður gefi fuglunum þó það auki bara á ánægjuna og betra er að byrja seint en aldrei.
Á meðfylgjandi mynd má sjá silkitoppur gæða sér á eplum. Ljósmyndina tók Örn Óskarsson.
Þriðjudaginn næstkomandi, 16.sept., verður Fuglavernd með fuglaskoðun í kirkjugarðinum í Fossvogi – í tilefni Dags íslenskrar náttúru. Við munum skoða glókolla og jafnvel barrfinkur og krossnefi. Þó þessi fuglar séu ekki einkennisfuglar íslenskar fuglafánu þá hefur glókollurinn numið hér land, er staðfugl og spjarar sig ágætlega þrátt fyrir að vera minnsti fugl Evrópu, krossnefir hafa verpt hér síðan 2008 og barrfinkan er árlegur flækingur og líklegur landnemi. Mæting hálfsex á bílastæðinu við Fossvogskirkju en gangan tekur um klukkutíma. Edward Rickson fuglaskoðari með meiru leiðir gönguna.
Má einnig sjá á fésbók.
Eyþór Ingi Jónsson tók þessa fallegu mynd af glókolli.
Blesgæs hefur viðkomu hér á landi á vorin og svo aftur á haustin frá fyrri hluta september og fram í byrjun nóvember. Nú þegar gæsaveiðitímabilið er hafið er gagnlegt að rifja upp hvernig greina á blesgæsir frá öðrum gæsum en blesgæsin er friðaður fugl.
Blesgæs er dekkst gráu gæsanna. Fullorðnar eru þær með svartar rákir og díla á kvið sem er stundum nánast alsvartur. Fætur eru rauðgulir og goggur gulbleikur. Hvít blesa er ofan goggrótar. Blesgæs er sjónarmun minni en grágæs og heiðagæs en hegðar sér svipað, er þó sneggri á uppflugi og sýnist liprari á flugi. Hún lendir með sveflum og dýfum og kvakar hátt. Röddin er hærra stemmd en hjá öðrum gæsum og hún lætur meira í sér heyra.
Ungfugl að hausti vantar blesuna og svarta bletti á kvið. Hann er lítill og dökkur yfirlitum og goggur er daufari. Erfitt getur verið að greina hann frá öðrum gæsum en hann heldur sig innan um fullorðnar blesgæsir á haustin sem ætti að auðvelda greiningu. Greini skotveiðimenn eina eða fleiri blesgæsir í hóp er er líklegt að allir fuglarnir í hópnum séu blesgæsir. Líklega eru ungar innan um fullorðnu fuglana. Ættu þeir því að leyfa þeim að njóta vafans og sleppa því að skjóta.
Ástæðan fyrir því að blesgæsin er friðaður fugl er hrun í stofninum. Blesgæsarstofninn sem hefur viðdvöl á Íslandi á fartíma er fáliðaður og verpir mjög dreift á Vesturströnd Grænlands. Á fáum árum hefur orðið hrun í stofninum og ein möguleg orsök er slakur varpárangur sem veldur því að nýliðun er ekki nægileg til að standa undir afföllum vegna skotveiða. Stofninn taldi um 36.000 fugla á árunum 1998-99 en er nú líklega innan við 25.000 fuglar. Veiðarnar eru þar af leiðandi ósjálfbærar. Nákvæm orsök afkomubrestsins er óþekkt.
Útbreiðslusvæði blesgæsar á Íslandi er á Vesturlandi um Borgarfjarðarhérað og um sunnanvert Snæfellsnes, til suðurs um Kjós og Hvalfjörð. Á Suðurlandi halda blesgæsir til á láglendi Árnes- og Rangárvallasýslu, undir Eyjafjöllum og í Mýrdal. Í Skaftafellssýslum í Meðallandi, Landbroti og á Síðu.
Á öllum þessum svæðum þarf að gæta meiri varkárni við gæsaveiðar en í öðrum landshlutum er blesgæsin sjaldséður gestur. Sérstaklega ber að taka vara á veiðum í gæsanáttstöðum þar sem vitað er að blesgæsir safnast saman, en þar geta blesgæsir verið innan um grágæsir.
Skotveiðimenn þurfa að sýna sérstaka aðgát á svæðum sem merkt eru með rauðu á kortinu.
Fuglavernd býður upp á fuglaskoðun í friðlandinu í Vatnsmýrinni og að Tjörninni núna á laugardaginn 28. júní. Síðasta gangan í þessari röð. Lagt verður af stað frá andyri norræna hússins klukkan 16:00 en gangan tekur tæpan klukkutíma. Elma Rún Benediktsdóttir mun leiða gönguna en skoðað verður fuglalífið á Hústjörn, Vatnsmýrartjörn, Þorfinnstjörn, Suðurtjörn og Norðurtjörn.
Róleg og þægileg fuglaskoðun í miðborginni – Bara að klæða sig eftir veðri og taka sjónaukann með.
Elma Rún tók þessa gæsarungamynd fyrir hálfum mánuði í Vatnsmýrinni.
Sunnudaginn 4. maí næstkomandi munum við í samvinnu við Grasagarðinn skoða fjölskrúðugt fuglalífið í Laugardalnum. Hannes Þór Hafsteinsson náttúrufræðingur og Aron Leví Beck fuglarannsóknarmaður leiða gönguna og munu fræða okkur um hætti skógarfugla. Lagt af stað við aðalinngang í garðinn kl. 11.00.
Á meðfylgjandi mynd situr glókollur á grein – Örn Óskarsson tók myndina en á garðfuglavefnum okkar má sækja margvíslegan fróðleik.
Fuglar og náttúra í Tyrklandi og Georgíu verður umfjöllunarefni fræslufundar Fuglaverndar 26. febrúar kl. 20:30
Edward Rickson og Yann Kolbeinsson segja frá
Síðastliðið vor hélt lítill hópur fuglaskoðara af nokkrum þjóðernum í ferð um stóran hluta Tyrklands og í Kákasus-fjöllin í Georgíu. Landslag, náttúra og mannlíf er mjög fjölbreytt á þessu stóra svæði. Þar mætast austrið og vestrið. Þar eru Kúrdar, Armenar og fleiri minnihlutahópar. Þar eru ævafornar menningarminjar. Þar eru hæstu fjöll Evrópu. Þar er eldfjallalandslag og hraun sem gæti verið í Þingeyjarsýslum. Síðast en ekki síst afar fjölbreytt og ríkulegt fuglalíf. Leiðangursmenn sáu yfir 300 tegundir á þremur vikum, sem ku vera met fyrir þetta svæði.
Mikið var myndað í ferðinni og ætla þeir félagar að sýna brot af því besta á fræðslufundinum.
Fundurinn byrjar kl. 20:30 og er haldinn í húsakynnum Arions banka í Borgartúni 19. Fundurinn eru öllum opinn svo lengi sem húsrúm leyfir. Aðgangur er ókeypis fyrir félaga í Fuglavernd en aðgangseyrir er 500 krónur fyrir aðra. Á vef Fuglaverndar má finna frekari upplýsingar: www.fuglavernd.is.
Lilja Jóhannesdóttir mun segja frá rannsóknum sínum á fuglalífi á landbúnaðarsvæðum á Suðurlandi á fræðslufundi félagsins fimmtudaginn 28. nóvember. Fjallað verður um áhrif landnýtingar, farið verður yfir þéttleikatölur og samfélög í mismunandi búsvæðum og einnig verða stofnstærðir algengustu tegunda skoðaðar.
Fræðslufundir Fuglaverndar eru haldnir í húsakynnum Arion banka í Borgartúni 19 og byrjar fyrirlesturinn klukkan 20:30. Gengið er inn um aðalinngang hússins á austurhlið. Ókeypis er fyrir félagsmenn Fuglaverndar en 500 kr. fyrir aðra. Allir velkomnir.
31. október n.k. ætlar Sigurður Ægisson að vera með erindi á fræðslufundi Fuglaverndar um alþýðuheiti fugla. Íslenskir varpfuglar – og margir aðrir sem landið okkar og miðin gista á ákveðnum árstímum – hafa ekki allir ætíð borið þau heiti sem nú eru opinberlega við lýði í fræðiritum og umræðunni, þótt vissulega séu mörg þeirra aldagömul og gróin í tungunni. Í sumum tilvikum er um nýyrði að ræða, tiltölulega ung. Á öllum tímum hafa auk þessa verið til með alþýðunni enn önnur heiti, líklega oftast staðbundin, þó ekki alltaf, sem fæst komust á þrykk en varðveittust ýmist í munnlegri geymd, handritum eða í prentuðu máli. Sigurður Ægisson hefur í rúma tvo áratugi viðað að sér þessum aukaheitum og víða leitað fanga í því sambandi. Um 700 þeirra birtust í fuglabók hans sem út kom árið 1996 og nefndist Ísfygla en síðan þá hafa bæst við um 300. Í erindi sínu fimmtudagskvöldið 31. október næstkomandi mun hann á einni klukkustund reifa þetta áhugamál sitt og með aðstoð skjávarpa taka valin dæmi um fuglaheiti sem erfitt er að ráða í, og að auki leggja nokkrar þrautir fyrir áhorfendur.
Á meðfylgjandi mynd sem Sigurður Ægisson tók er steindepill eða depill, góutittlingur, grádílóttur steindepill, máríetlubróðir, steindelfur, steindepla, steindólfur, steinklappa, steinklöpp, steinverpill eða sumarþröstur.
Fræðslufundir Fuglaverndar eru haldnir í húsakynnum Arion banka í Borgartúni 19 og byrjar fyrirlesturinn klukkan 20:30. Gengið er inn um aðalinngang hússins á austurhlið. Ókeypis er fyrir félagsmenn Fuglaverndar en 500 kr. fyrir aðra. Allir velkomnir.
Við notum vafrakökur og aðra mælingatækni til að bæta vafraupplifun þína á vefnum okkar, sýna persónulegt efni, greina umferð um vefinn og skilja hvaðan úr veröldinni við fáum heimsóknir á vefinn okkar. Persónuverndarstefna okkar tók gildi 20. júlí 2018.
Með því að velja OK samþykkir þú notkun okkar á vafrakökum og öðrum rekjanleika.
OKNeiPersónuverndarstefna