Glókollur karlfugl, ljósmyndari Örn Óskarsson.
Laugardaginn 15. febrúar bauð Fuglavernd upp á fuglaskoðun í Hólavallakirkjugarði.
Á meðan að um 15 manns safnaðist saman við suðurhlið kirkjugarðins bauð Heimir Janusarson, umsjónarmaður garðsins, upp á kakó þar sem vindur næddi um þátttakendur og lofthiti var lágur og sól náði ekki að verma mannskapinn.
Anna Pratichi Gísladóttir, líffræðinemi, leiddi hópinn um garðinn og leitaði fugla. Það var ekki mikið um fugla í kirkjugarðinum þennan dag. Hópurinn heyrði í svartþröstum og skógarþröstum sem sátu í trjám og sungu. Glókollar voru á ferðinni sem að sumir heyrðu í og öðrum tókst að sjá.
Það hafði verið urmull af auðnutittlingum í garðinum í haust enda mikið um birki og reynivið. Tveir smyrlar höfðu komið auga á þessa ágætu matarkistu og sátu um garðinn og veiddu sér til matar. Heimir hafði fundið hami og leifar auðnutittlinga í garðinum eftir veislurnar. Aðrir auðnutittlingar höfðu væntanlega flutt sig um set á hættuminni svæði, enda hefur enginn auðnutittlingur haldið til í Hólavallakirkjugarði síðan í haust.