Garðfuglahelgin nálgast

Garðfuglahelgin verður að þessu sinni dagana 29.janúar-1.febrúar 2016. Framkvæmd athugunarinnar er einföld, það eina sem þátttakandi þarf að gera er að fylgjast með garði í klukkutíma  föstudaginn 29. jan., laugardaginn 30. jan., sunnudaginn 31. jan. eða mánudaginn 1. feb. Skrá hjá sér hvaða fugla viðkomandi sér og mesta fjölda af hverri tegund á meðan athugunin stendur yfir, þ.e. þá fugla sem eru í garðinum en ekki þá sem fljúga yfir.

Gott er að hefja undirbúning talningar nokkrum dögum áður með því að hefja daglegar fóðurgjafir til að lokka að fugla. Misjafnt er hvaða fóður hentar hverri fuglategund. Upplýsingar um fóðrun garðfugla er hægt að finna á vefsíðum um “fóðrun” og einnig í Garðfuglabæklingi Fuglaverndar sem fæst á skrifstofunni eða má panta á netfanginu fuglavernd@fuglavernd.is eða í síma 5620477.

Að lokinni athugun skal skrá niðurstöður með því að sækja eyðublaðið hér fyrir neðan (nr.1), prenta og fylla það út. Hægt er að senda það í pósti til Fuglaverndar, Hverfisgötu 105,101 Reykjavík.
Einnig er hægt að opna eyðublaðið í tölvunni – sækja eyðublað nr.2- og skrá inn upplýsingarnar beint, vista og hengja við tölvupóst (attachment) og senda á póstfang garðfuglavefsins, gardfugl@gmail.com.

[one_third_last][downloads show=”category” cat=”gardfuglahelgi”][/one_third_last]

Hvar eru smáfuglarnir!

Margir hafa veitt því athygli hversu lítið hefur sést af smáfuglum í görðum það sem af er vetri. Þetta á sérstaklega við þá sem fóðra fugla. Fólk hér á Suðurlandi og víðar hefur varla séð auðnutittlinga í vetur og veturinn á undan. Nú hafa snjótittlingarnir einnig brugðist, þrátt fyrir tíð sem að öllu jöfnu hefði átt að fylkja þeim í garða, þar sem er gefið.

Hvað veldur? Því er fljótsvarað, það veit enginn með fullri vissu! Nokkrar tilgátur hafa komið fram um auðnutittlingafæðina. Stofnsveiflur eru þekktar hjá auðnutittlingnum og fleiri smáfuglum eins og hjá glókollinum landnemanum ljúfa. Birkifræ þroskaðist lítið eða ekki haustið 2014, en birkifræ er aðalfæða auðnutittlinga. Veturinn síðasti var umhleypingasamur og óhagstæður smáfuglum. Fuglarnir gætu hafa fallið vegna skorts á æti og óhagstæðrar tíðar. Sumir segja að auðnutittlingarnir hafi horfið um miðjan desember 2014. Þeir gætu því jafnvel hafa yfirgefið landið og leitað til Bretlandseyja eftir betra lífi. Síðasta haust, 2015, var fræframleiðsla birkis mjög góð. Samt hafa auðnutittlingar ekki sést að ráði í fóðri það sem af er vetri. Vonandi á stofninn eftir að ná sér á strik á ný. Margir sakna þessa spaka og kvika smávinar, sem lífgar uppá tilveru fólks í svartasta skammdeginu.

Fæðuhættir snjótittlinga eru talsvert öðruvísi en auðnutittlinga, þó þeir séu einnig fræætur. Þeir sækja í grasfræ eins og melfræ, njólafræ og því um líkt. Kornakrar, sérstaklega óslegnir, eru forðabúr á veturna. Snjótittlingur er norrænastur allra spörfugla og aðlagaður að kaldri veðráttu. Í hríðarbyljum láta þeir fenna yfir sig og ýfa fiðrið til að halda á sér hita. Veðráttan á því ekki að hafa teljandi áhrif á stofninn. Hvað veldur þá þessum snjótittlingaskorti? Hafa fuglarnir enn nóg æti úti í náttúrunni eða á kornökrum? Er einhver óþekkt óáran í stofninum? Eiga tittlingarnir eftir að koma í fóðrið fljótlega? Um næstu helgi, 9.-10. janúar, verður hin árlega vetrarfuglatalning Náttúrufræðistofnunnar um land allt. Það verður fróðlegt að sjá hvort og þá hvar, snjótittlingar komi fram í talningunni.

Meðfylgjandi mynd tók Halla Hreggviðsdóttir.

Skógarþröstur, Stari og Gráþröstur. Ljósmyndari: Örn Óskarsson

Fuglalíf að vetri í Grasagarðinum sunnudag 13. des.

Fjölskrúðugt vetrarfuglalífið í Laugardal verður skoðað á göngu um Grasagarðinn og nágrenni sunnudaginn 13. desember 2015 kl. 11. Gangan er skipulögð í samstarfi Grasagarðs Reykjavíkur og Fuglaverndar. Um leiðsögn sér Hannes Þór Hafsteinsson, náttúrufræðingur og garðyrkjufræðingur hjá Borgargörðum í Laugardal, en hann þekkir fuglalífið í Laugardalnum manna best og miðlar þeirri þekkingu með skemmtilegum og fróðlegum hætti. 

Mæting er við aðalinngang Grasagarðsins. Þátttaka er ókeypis og allir eru velkomnir.

Fjölmargar fuglategundir halda til í Laugardal yfir vetrartímann. Algengastir eru skógarþrestir, svartþrestir, starar, auðnutittlingar, stokkendur, grágæsir og húsdúfur. Minnsti fugl Evrópu, glókollurinn, fannst fyrst verpandi á Íslandi 1999. Nú verpa nokkur pör reglulega í Laugardal og ef vel er að gáð má finna þennan smávaxna landnema í trjálundum dalsins. Á hverjum vetri halda nokkrir múasarrindlar til í Laugardalnum og krossnefir og barrfinkur hafa sést af og til í vetur. Og flesta vetur undanfarin ár hafa branduglur sótt í dalinn.

Á myndinni má sjá skógarþröst, stara og gráþröst þræta um epli. Mynd Örn Óskarsson.

Álftapabbi með unga. Ljósmynd: Elma Rún Benediktsdóttir

Fuglaskoðunarbæklingur

Í tilefni af Fuglaviku í Reykjavík er kominn út nýr bæklingur er heitir FUGLASKOÐUN Í REYKJAVÍK. Í bæklingnum er greint frá helstu fuglaskoðunarstöðum í borginni og þeir sýndir á sérstöku korti. Jafnframt eru tilgreindar helstu tegundir fugla sem má sjá á hverjum stað. Bæklingurinn er ókeypis og aðgengilegur hér á vefnum en einnig í prenti í þjónustuveri borgarinnar í Borgartúni 12-14 sem og hjá okkur hér í Fuglavernd og á fleiri stöðum í borginni. Bæklingurinn er einnig gefinn út á ensku.

Hér má skoða bæklingana:

Fuglaskoðun í Reykjavík – á íslensku
Birdwatching in Reykjavík – á ensku

Ljósmynd: Elma Rún Benediktsdóttir

Fuglar og fornminjar

Hlynur Óskarsson og Víðir Óskarsson verða með erindi um ferð fjögurra manna hóps til Perú sumarið 2014 í sal Arion banka, Borgartúni 19, þriðjudaginn 28. apríl.
Perú er ákaflega fjörbreytt land hvað varðar landslag, gróður, mannlíf og menningu, en ekki síst með tilliti til fuglalífs.  Greint verður frá helstu einkennum fuglafánu landsins auk þess sem yfirlit verður gefið yfir helstu búsvæði þeirra. Erindið hefst stundvíslega kl. 20:30.

Fuglar og ljósmyndun 19.03.2015

Fuglavernd, Canon og Nýherji verða með fræðslufund um fuglaljósmyndun fimmtudagskvöldið 19. mars 2015 ásamt því að sýna aðdráttarlinsur frá Canon. Þar munu bæði atvinnumenn og áhugafólk um fuglaljósmyndun veita fræðslu, en meðfram því að leggja áherslu á fuglavernd verður farið í tæknileg atriði sem og praktíska hluti, eins og t.d. hvernig er best að nálgast fugla í sínu náttúrulega umhverfi. Viðburðurinn fer fram í Nýherja, Borgartúni 37, og hefst kl. 19:30. Þátttaka er ókeypis en óskað er eftir skráningu (hér er linkur á skráningarsíðu). Jóhann Óli Hilmarsson fjallar um virðingu fyrir viðfangsefninu og kemur þar aðeins inná löggjöf um fuglavernd. Þá fjallar hann um góða staði til að ljósmynda fugla ásamt því að sýna myndir af fuglum í umhverfi sínu. Sindri Skúlason fer yfir listina að mynda fugla ásamt því að fara lauslega í tæknileg atriði og hvernig best er að nálgast fugla og hvað sé mikilvægt að hafa í huga við fuglaljósmyndun (hann tók myndina af flórgoðanum). Ásta Magnúsdóttir og Helga Guðmundsdóttir sýna valdar myndir og segja sögurnar á bak við þær. Nýherji hefur fengið lánaðar aðdráttarlinsur hjá Canon sem verða til sýnis, m.a. hina nýju EF 100-400mm f/4.5-5.6L IS II USM, EF 200-400mm f/4L IS USM Extender 1.4X, EF 500mm f/4L IS II USM o.fl. Skemmtilegur og spennandi viðburður fyrir alla áhugasama um fugla og fuglaljósmyndun!

Á ferð um Svalbarða

Miðvikudaginn 25.febrúar segir Gunnlaugur Sigurjónsson áhugaljósmyndari frá, í máli og myndum, ferð sem farin var til Svalbarða sumarið 2013.  Atburðurinn verður haldinn í Borgartúni 19 í húsakynnum Arion Banka og hefst kl. 20:30.

Gunnlaugur, Jóhann Óli Hilmarsson og Daníel Bergmann fóru sumarið 2013 með fjölþjóðlegum hópi ljósmyndara til Svalbarða. Sýndar verða myndir af landslagi, dýra- og fuglalífi Svalbarða. Í upphafi ferðar var nokkrum dögum eytt í nágrenni Longyearbyen og svo var farið í siglingu norður fyrir Svalbarða inn í hafísinn þar sem komist var í návígi við ísbirni og rostunga.
Sýningin hefst stundvíslega kl. 20:30 og er öllum opin svo lengi sem húsrúm leyfir. Aðgangur er ókeypis fyrir félaga í Fuglavernd en aðgangseyrir er 500 krónur fyrir aðra. Samkvæmt venju verður hægt að nálgast hreiðurkassana okkar, fóðrara, fuglakort og eldri tölublöð af Fuglum – en við erum ekki með posa.
Ljósm: Gunnlaugur Sigurjónsson.

Fuglanámskeið ætlað börnum

Fuglarnir í garðinum heima – námskeið ætlað börnum. Laugardaginn 7. febrúar kl 11:00 – 12:00 verður haldið námskeið á vegum Fuglaverndar og Garðyrkjufélags Íslands um garðfugla í Síðumúla 1 í Reykjavík.
Þegar vetrarhörkur ríkja eiga fuglar erfiðara með að finna sér fæðu. Lífsbaráttan er hörð og þeir því oft háðir mat­ar­gjöf­um og þá er gott að eiga sér vin sem færir þeim fóður.

Steinar Björgvinsson fuglaskoðari ætlar að fræða börn um hvernig á að fóðra smáfugla í garðinum að vetri eins og t.d. skógarþresti, snjótittlinga og svartþresti.

Steinar sýnir börnunum myndir af garðfuglum, kennir þeim hvernig hægt er að búa til fuglafóður og segir þeim frá hvað fuglar vilja helst éta. Þá verður  hugað að hvar best er að skilja fóðrið eftir svo kettirnir nái síður til fuglanna. Einnig verður sagt frá heppilegum hreiðukössum, fuglaböðum og fleiru.

Foreldrar og aðrir aðstendur barna eru hvött til að mæta með börnin á fugladag barna í Síðumúla 1, Reykjavík og taka þátt og fræðast um þá göfugu iðju að fóðra fugla.
Aðgangur er frír.

Á meðfylgjandi mynd má sjá mjög gæfan auðnutittling sem hefur verið lengi í fóðrum í garði ljósmyndarans Arnar Óskarssonar á Selfossi.

 

 

eBird – fuglaskráningar

Síðan í mars 2011 hefur hópur íslenskra fuglaskoðara verið virkur við að setja inn athuganir í vefkerfi sem kallast eBird – www.ebird.org. Hægt er að draga saman athuganir á einstökum tegundum yfir tímabil og má t.d. hér sjá athuganir frá 2011-2015 (http://tinyurl.com/m2rkehw). Þetta sýnir tíðni auðnutittlinga í innsendum listum á eBird. Í loks árs 2014 virðist vera meira af þeim en haustin 2011-2013, en þá eru þeir í um og yfir 60% innsendra lista. Fyrir neðan má sjá fjölda lista á viku eftir árum sem línuritin byggja á.

Það er mjög einfalt fyrir fólk að setja inn athuganir þarna og því fleiri sem eru virkir þeim mun betri upplýsingar fást um sveiflur milli ára og árstíða. Eina sem þarf að gera er að skrá sig inn í kerfið og byrja að setja inn athuganir. Velja má að nota íslensku fuglaheitin við innskráningu. Sérstaklega þægilegt ef um garðfuglaathuganir er að ræða. Hér má sjá yfirlit yfir allar íslenskar athuganir: http://tinyurl.com/nk9hvyy