Fuglaskoðun fyrir krakka

Í samstarfi við Grasagarð Reykjavíkur í Laugardal hefur Fuglavernd reglulega boðið upp á fuglaskoðun að vori.

Laugardaginn 18. maí bjóðum við upp á fuglaskoðun fyrir krakka í samstarfi við Reykjavík iðandi af lífi og Landvernd í aðdraganda Dýradagsins sem haldinn verður þann 22. maí.

Við hvetjum krakka til að koma og skoða fuglana í dalnum með okkur og það er velkomið að taka pabba og mömmu, afa og ömmu eða einhverja aðra fullorðna með.

Fuglum er gefið í Grasagarðinum svo þar er hægt að sjá margar fuglategundir, stórar sem smáar. Leiðsögumenn verða Björk Þorleifsdóttir og Snorri Sigurðsson.

Gott er að taka með sér kíki.

Viðburðurinn hefst við aðalinngang Grasagarðsins kl. 11 og þátttaka er ókeypis.

 

Svartþröstur. Ljsm. Sigurður Ægisson

Fuglalíf að vetri

Fuglaskoðun í Grasagarði Reykjavíkur laugardaginn 8. desember kl. 11.

Í Grasagarðinum er fjölskrúðugt fuglalíf allan ársins hring. Laugardaginn 8. desember mun Hannes Þór Hafsteinsson garðyrkjufræðingur og fuglaáhugamaður leiða fræðslugöngu um fuglalífið í garðinum en gangan er liður í samstarfi Grasgarðsins og Fuglaverndar. Farið verður yfir fuglafóðrun, fuglar garðsins skoðaðir og kíkt eftir flækingum en Grasagarðurinn er viðkomustaður margra fagurra flækinga svo sem glóbrystings og fjallafinku. Gestir eru hvattir til að taka með sér kíkja.

Einnig hvetjum við gesti til að taka með nesti sem má gæða sér á í ljósum prýddum garðskálanum en boðið verður upp á te og kakó í skálanum að göngu lokinni. Fuglavernd verður með fuglahús og fuglafóður til sölu í garðskálanum, til fjáröflunar fyrir félagið.

Gangan hefst við aðalinngang Grasagarðsins kl. 11.

Þátttaka er ókeypis og allir velkomnir!

Alþjóðlegi farfugladagurinn – fuglaskoðun í Grasagarðinum

Laugardaginn 12. maí bjóða Grasagarður Reykjavíkur og Fuglavernd upp á göngu um fuglalíf í Laugardal en í Grasagarðinum er fjölskrúðugt fuglalíf. Hannes Þór Hafsteinsson garðyrkjufræðingur og Einar Þorleifsson náttúrufræðingur leiða gönguna sem fer fram á alþjóðlega farfugladeginum. Þeir munu fræða gesti um þær fuglategundir sem fyrir augu ber auk þess að skoða hvaða tegundir plantna laða fugla að. Snjallsímar verða notaðir til að spila fuglahljóð til að lokka fuglana að en þetta ráð hefur virkað vel til að sjá  glókolla og músarrindla.

Fuglarnir í Grasagarðinum eru margir hverjir búnir að verpa og sum svartþrastapör virðast vera komin með unga. Auk þess hefur sést til glóbrystings í garðinum núna í vor.

Gangan hefst kl. 11 við aðalinngang, aðgangur ókeypis og allir velkomnir. Gestir eru hvattir til að koma með kíkja með sér í gönguna.

skjáskot af myndbandi um garðfugla

Myndband um garðfugla og fóðrun

Undir Verkefnin>Garðfuglar höfum við sett inn myndband um garðfugla og fóðrun þeirra.

Örn Óskarsson, http://ornosk.com/ hélt fræðsluerindi um garðfugla og fóðurgjafir fimmtudagskvöldið 25. janúar 2018. Í erindinu fjallar hann um helstu tegundir garðfugla á Íslandi, fóðurgjafir, vatn, hreinlæti og allt það helsta sem skiptir máli.

Þá viljum við minna á að í vefversluninni okkar finnur þú fuglafóður og fuglahús til styrktar félaginu.

 

Flækingsfuglar á Suðurnesjum

Háleggur. Ljósmynd ©Sölvi Rúnar Vignisson

Suðurnesin eru eitt af áhugaverðustu svæðum landsins þegar kemur að fjölbreyttu fuglalífi og þar hafa margir sjaldgæfir flækingsfuglar sést á síðustu árum. Á þessu fræðslukvöldi verður fjallað um flækingsfugla á Suðurnesjum og helstu fuglaskoðunarsvæði í máli og myndum.

Fuglaskoðarar og ljósmyndarar munu kynna helstu fuglaskoðunarstaði, sýna myndir af sjaldséðum fargestum og ræða breytingar í fuglaskoðun í gegnum árin.

Nýverið kom út fuglaskoðunarkort af Reykjanesi sem unnið var í samstarfi Þekkingarseturs Suðurnesja, Náttúrustofu Suðvesturlands, Reykjanes Geopark og Markaðsstofu Reykjaness og verður fuglaskoðunarkortið og vefsvæði þess kynnt fyrir þátttakendum.

Námskeiðið er haldið í samstarfi við Fuglavernd, Reykjanes Geopark og Markaðsstofu Reykjaness og fer fram í Þekkingarsetri Suðurnesja, Garðvegi 1, Sandgerði.

Kennari: Sölvi Rúnar Vignisson, líffræðingur hjá Þekkingarsetri Suðurnesja.

Verð: Fræðslukvöldið er þátttakendum að kostnaðarlausu.

Tígluþerna. Ljósmynd ©Sölvi Rúnar Vignisson
Tígluþerna. Ljósmynd ©Sölvi Rúnar Vignisson
Gardfuglar 2017 Kápumynd Snjótittlingur ©Daníel Bergmann

Nýr garðfuglabæklingur og garðfuglahelgin

Bæklingurinn Garðfuglar er nú fáanlegur í vefverslun okkar í nýrri og endurbættri útgáfu. Bæklingurinn eru 24 bls. af fróðleik um fuglategundir sem vænta má í görðum, um fuglafæðu og hvaða gróðurtegundir gera garðinn aðlaðandi fyrir fuglalíf. Bæklinginn prýða bæði teiknaðar skýringarmyndir , m.a. eftir  Jón Baldur Hlíðberg, og ljósmyndir eftir nokkra félagsmenn, þá Daníel Bergmann, Hrafn Óskarsson, Jóhann Óla Hilmarsson, Sindra Skúlason og Örn Óskarsson.

Garðfuglahelgin 2018

Árleg garðfuglahelgi Fuglaverndar er nú um helgina, frá 26. -29. janúar.  Á þessum tíma í janúar er fjöldi fugla í görðum í hámarki og farfuglarnir ekki komnir til landsins. Athuganir garðfuglahelgarinnar gefa því vísbendingar um tegundir og fjölda fugla um hávetur á Íslandi.

Fyrirmynd garðfuglahelgarinnar er komin frá RSPB en í Bretlandi hefur garðfuglahelgin verið haldin frá árinu 1979 en hefur verið haldin hér á landi frá árinu 2004.

Veldu þér klukkutíma einhvern daganna um þessa helgi og fylgstu með fuglunum í garðinum þínum. Aðeins á að skrá fjölda fugla af ákveðinni tegund sem sjást saman í garðinum, ekki á að telja þá fugla sem fljúga hjá. Best er að tilkynna fjölda flestra fugla sem koma og setjast í garðinn. Það má nefnilega ekki leggja saman, það er gert til þess að forðast tvítalningar á sama fuglinum, sem ef til vill kemur á 15 mínútna fresti í garðinn. Þá er hann skráður sem einn fugl en ekki fjórir. Ef fjöldi fuglanna er slíkur að það getur verið erfitt að telja kvika smáfugla, er gott hjálpartæki að taka mynd og telja fuglana sem sjást á henni.

Fyrir börn og þá sem eru að stíga sín fyrstu skref í fuglaskoðun, þá höfum við útbúið:

Garðfuglar – Hjálparblað með myndum.pdf sem hægt er að prenta út og nota við talninguna.

Niðurstöðurnar getur þú skráð rafrænt hér:

Garðfuglahelgin 2018, rafræn skráning athugana

 

Vefverslunin

Í vefversluninni okkar finnur þú líka fuglahús og fuglafóður.

 

 

Fræðslukvöld – Garðfuglar

Auðnutittlingar. © Örn Óskarsson

Fimmtudagskvöldið 25. janúar verður haldið fræðslukvöld um garðfugla hjá Fuglavernd.

Hvar: Sal Barðstrendingafélagsins, Hverfisgötu 105, 101 Reykjavík

Hvenær: Kl. 20:00

Örn Óskarsson félagsmaður og umsjónarmaður garðfuglakönnunar Fuglaverndar heldur framsöguerindi um garðfugla, greiningu tegunda og fóðrun þeirra. Að erindinu loknu verður einnig hægt að spyrja spurninga og opið verður á skrifstofu Fuglaverndar, er þar á kaupa fóðurhús, fuglahús, fóðrara og fuglafóður til styrktar félaginu.

Garðfuglahelgin er svo strax í kjölfarið, helgina 26. – 29. janúar 2018.

Frítt inn fyrir félagsmenn og við viljum bjóða nýja félaga sérstaklega velkomna.

Fuglalíf að vetri

Í samstarfi við Grasagarð Reykjavíkur í Laugardal stendur Fuglavernd fyrir fuglaskoðun laugardaginn 9. desember kl. 11.

Hannes Þór Hafsteinsson garðyrkjufræðingur og fuglaáhugamaður mun leiða fræðslugöngu þar litið verður til fuglalífsins í Grasagarði Reykjavíkur. Farið verður yfir fuglafóðrun, fuglar garðsins skoðaðir og kíkt eftir flækingum en Grasagarðurinn er viðkomustaður margra fagurra flækinga svo sem barrfinku, glóbrystings og bókfinku.

Gangan fer af stað frá aðalinngangi Grasagarðsins. Gott er að hafa með sér kíki. Núna eru smáfuglarnir í garðinum: skógar- og svartþröstur, stari, auðnutittlingur, glókollur, músarrindill en svo skemmtilega vill til að það eru tveir glóbrystingar fastagestir hérna og fjallafinka líka.

Við vekjum athygli á að Flóran Café/Bístró verður lokuð á aðventunni vegna framkvæmda í Grasagarðinum. Garðskálinn og lystihúsið eru þó ljósum prýdd og opin alla daga frá 10-15 þótt kaffihúsið sé lokað. Því er tilvalið að taka með sér hressingu, heitt kakó eða kaffi á brúsa og eitthvað góðgæti til að maula með og nýta aðstöðuna í garðskálanum.

Myndin er tekin af sýnir svartþrastarkvenfugl gæða sér á epli sem hefur verið þrætt upp á grein á yllirunna.

Allir velkomnir og aðgangur ókeypis

 

Fyrirlestur um margæsir

Milli borgarsvæða Írlands og heimskautasvæða Norður Kanada: Rannsóknir á lífi margæsa Freydís Vigfúsdóttir

„Í fyrirlestrinum verður fjallað um rannsóknir á margæsum en margæsir sem eru fargestir á Íslandi og vetra sig á Írlandi, verpa á Heimskautasvæðum Norður Kanada og eru varpsvæði þeirra ein þau norðlægustu sem þekkjast meðal fuglategunda. Ísland gegnir mikilvægu hlutverki sem viðkomustaður en gæsirnar þurfa að safna nægum forða hérlendis bæði til eggjamyndunar sem og til að knýja hið 3000 km langa farflug, þvert yfir Grænlandsjökul, á varpstöðvarnar á 80´N á Ellesmere-eyju og svæðunum í kring. Talningar benda til þess að þessi tiltekni stofn (aðeins rúmlega 30.000 fuglar) hafi allur viðdvöl hér á landi og um fjórðungur þess fari um Suð-Vestur horn Íslands. 

Markmið verkefnisins er m.a. að kanna streitu í villtum dýrastofnum og takmarkandi þætti á farleið, en hér er þekktum einstaklingsmerktum fuglum fylgt á eftir alla farleiðina. Sagt verður frá aðferðum mælinga og niðurstöðum rannsóknanna sem mest hafa farið fram í Dublin á Írlandi og á Álftanesi á Íslandi. Einnig verður sagt frá leiðangri rannsóknarhópsins á heimskautasvæðin árið 2014 þar sem mælingar á varpstöð fóru fram og myndir af gróður- og dýralífi þessa einstaka og fáfarna svæðis verða sýndar.“

Höfundurinn Freydís Vigfúsdóttir er sérfræðingur við Háskóla Íslands. Freydís lauk BSc og MSc prófi í líffræði við Háskóla Íslands og PhD prófi frá University of East Anglia í Englandi. Freydís stundar rannsóknir í vistfræði sem lúta að álagi, atferli og hormónabúskap hánorrænna farfugla og sjávarlíffræði sem leitast við að skilja eðli og ástæður breytinga á fæðukeðjum hafsins.

Umhverfisstyrkur úr Samfélagssjóði Landsbankans

Fuglavernd hlaut í sumar umhverfisstyrk úr samfélagssjóði Landsbankans. Styrkurinn er veittur til að útbúa kynningarefni um Friðlandið í Flóa og þann árangur sem náðst hefur þar við endurheimt votlendis. Endurheimt votlendis við Friðlandið í Flóa hófst árið 1997 og því er verkefnið tuttugu ára í ár. Hólmfríður Arnardóttir tók á móti styrknum fyrir hönd félagsins.

Fimmtán verkefni hlutu umhverfisstyrki úr Samfélagssjóðnum miðvikudaginn 5. júlí, sjá frétt Landsbankans. Fimm verkefni fengu 500 þúsund krónur hvert og tíu verkefni 250 þúsund krónur hvert, samtals fimm milljónir króna. Þetta var í sjöunda sinn sem Landsbankinn veitir umhverfisstyrki úr Samfélagssjóði bankans en í ár bárust um 70 umsóknir.

Umhverfisstyrkjum Landsbankans er ætlað að styðja við verkefni á sviði umhverfismála og náttúruverndar og dómnefnd leitast við að velja metnaðarfull verkefni sem hafa skýra þýðingu fyrir íslenska náttúru og vistkerfið. Styrkirnir byggja á stefnu Landsbankans um samfélagslega ábyrgð þar sem fram kemur m.a. að bankinn hyggist flétta umhverfismál, efnahagsmál og samfélagsmál saman við rekstur sinn.

Í dómnefnd sátu Dr. Brynhildur Davíðsdóttir, dósent í umhverfis- og auðlindafræðum við Háskóla Íslands, Finnur Sveinsson, sérfræðingur í samfélagsábyrgð og dr. Guðrún Pétursdóttir, forstöðumaður Stofnunar Sæmundar fróða um sjálfbæra þróun við Háskóla Íslands, en hún var jafnframt formaður nefndarinnar.

Styrkþegar eða fulltrúar þeirra ásamt dr. Guðrúnu Pétursdóttur, formanni dómnefndar, lengst t.v. og Lilju Björk Einarsdóttur bankastjóra Landsbankans t.h.