Grágæs (Anser anser). Ljósmynd: © Daníel Bergmann.

Alþjóðlegi farfugladagurinn 10. október

Alþjóðlegi farfugladagurinn er haldinn tvisvar á ári, vor og haust, sjá https://www.worldmigratorybirdday.org/

Vegna hertra samkomutakmarkana á Höfuðborgarsvæðinu þurftum við að aflýsa fyrirhugaðri fuglaskoðun við Bakkatjörn.

Þess í stað verður hér fjallað um farfugla.

Farfuglar

Fuglar búa yfir þeim einstaka hæfileika að geta flogið. Því geta þeir hæglega valið sér góðan stað til að vera á og einnig flutt sig um set þegar aðstæður breytast. Aðalatriði er að nóg sé af fæðu, en einnig skiptir veður og öryggi miklu máli.

Það kostar mikla orku að fljúga á milli landa. Ávinningurinn af því að komast á góðar vetrar- og sumarstöðvar er þó meiri hjá þeim tegundum sem teljast til farfugla.

Á vetrarstöðvunum er mildara veður og meiri fæða en á norðlægari slóðum yfir veturinn. 

Við sjáum farfugla hópa sig á haustin. Þá eru þeir að byggja sig upp fyrir langflugið og einnig bíða þeir saman eftir ákjósanlegu veðri. Fuglar virðast næmir á veðrið og geta spáð fram í tímann. Það skiptir þá miklu að hafa meðbyr. Hraðskreiðar lægðir hafa þó oft komið farfuglum í bobba, tafið för þeirra þannig að orku þrýtur eða leitt þá af leið.

Meirihluti íslenskra varpfugla, 47 tegundir, eru farfuglar. Af þeim eru 25 tegundir sem teljast farfuglar að öllu leyti en 22 tegundir að mestu leyti. Þessir fuglar yfirgefa landið síðsumars eða á haustin og dvelja vetrarlangt í öðrum löndum eða á úthafinu fjarri Íslandsströndum. 

Fargestir

Nokkrar fuglategundir fara hér um vor og haust og dveljast um nokkurra vikna skeið á leið milli norðlægra varpslóða og vetrarstöðva á Bretlandseyjum eða annars staðar í Vestur-Evrópu. Kunnastar eru þrjár tegundir gæsa: blesgæs (dvelst einkum á Suðurlandsundirlendi og við innanverðan Faxaflóa), helsingi (aðallega norðanlands á vorin en í Skaftafellssýslum á haustin) og margæs (Faxaflói og Breiðafjörður). 

Gæsir

Lesa meira um Tegundavernd>Gæsir

Lóan er komin og fleiri farfuglar

Fyrsta lóan 2019 sást í Stokkseyrarfjöru 28. mars. © Hjördís Davíðsdóttir

Í Stokkseyrarfjöru þann 28. mars náðist mynd af fyrstu lóu vorsins og var það Hjördís Davíðsdóttir sem náði henni. Þetta mun vera sami dagur og lóan kom í fyrra.

Á póstlista fuglaáhugamanna um allt land eru nú daglegar fregnir af farfuglum:

  • 27/3 Sá þó fyrstu grágæsirnar (2) og sílamáfana (2) í dag og yfir 20 fugla hóp af tjaldi sem var greinilega nýkominn. Fyrstu tjaldarnir voru komnir fyrir nokkru síðan. – Jónína Óskars, Fáskrúðsfirði
  • 28/3 11 skógarþrestir taldir í húsagarði hér í dag. Hafa ekki verið í vetur. – Jónína Óskarsdóttir, Fáskrúðsfirði.
  • 29/3 Það sást lóa hér á Stokkseyri í gær og náðist mynd af fuglinum. Tveir jaðrakanar í sumarbúningi á Eyrarbakka með tjöldum. – Jóhann Óli Hilmarsson, Stokkseyri.
  • 30/3 Í Þöll í Hafnarfirði í morgun: Skógarþröstur tyllti sér í grenitopp og söng óburðugt lag. Fyrsti söngur skógarþrastar sem ég heyri í vor. – Erling Ólafsson.
  • 30/3 Ég sá fyrstu urtendurnar í gær hér á Fáskrúðsfirði og síðan fyrstu rauðhöfðaendurnar í dag. – Jónína Óskarsdóttir.
  • 30/3 Ég myndaði í dag blesgæsir og heiðagæsir í Flóanum, nokkrar blesæsirnar voru merktar. Er þetta ekki óvenju snemma fyrir þessar tegundir? – Svanhildur Egilsdóttir.

Það er því næsta víst að vorið er á næsta leiti.

Rauðbrystingar á flugi

Varúðarráðstafanir vegna fuglaflensu

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur gefið út tímabundnar varúðarreglur vegna fuglaflensu. Öllum þeim sem halda alifugla og aðra fugla er skylt að fylgja reglunum.

Fuglaflensa af völdum alvarlegs afbrigðis fuglaflensuveiru af sermisgerðinni H5N8 hefur breiðst hratt út í Evrópu frá því í október á síðasta ári, bæði í villtum fuglum og alifuglum, m.a. á þeim slóðum sem íslenskir farfuglar halda sig að vetri til.

Nú þegar farfuglarnir eru farnir að koma til landsins frá vetrarstöðvum, er því full ástæða til þess að hafa varann á.

Varúðarreglurnar ganga út á að tryggja að villtir fuglar komist ekki í snertingu við alifugla. Mikilvægt er að fuglarnir séu inni í yfirbyggðum gerðum eða húsum og þá er mikilvægt að fóður og drykkjarvatn fuglanna sé ekki aðgengilegt villtum fuglum.

Starfshópur sem í eru sérfræðingar Matvælastofnunar, Háskóla Íslands, Tilraunastöðvar HÍ að Keldum og sóttvarnalæknis, hefur metið ástandið og komist að þeirri niðurstöðu að töluverðar líkur séu á að þetta alvarlega afbrigði fuglaflensuveirunnar berist með farfuglunum, sem nú eru farnir að streyma til landsins. Meðgöngutími sýkingarinnar eru nokkrir dagar og því geta fuglar, sem hafa smitast stuttu áður en þeir leggja af stað yfir hafið, náð til landsins áður en þeir veikjast. Í þeim faraldri sem geisar í Evrópu nú er smit frá villtum fuglum talin vera megin smitleiðin í alifugla. Það er því hætta á að alifuglar hér á landi smitist af þeim farfuglunum sem koma frá sýktum svæðum, sér í lagi þeir sem haldnir eru utandyra og þar sem smitvörnum er ábótavant. Afleiðingar sjúkdómsins eru alvarlegar, þar sem stór hluti fuglanna getur drepist og fyrirskipa þarf aflífun á öllum fuglum á búi sem fuglaflensa greinist á og setja ýmis konar takmarkanir á starfsemi á stóru svæði umhverfis viðkomandi bú.

Sjá frétt á vef Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis:

Varúðarráðstafanir til að fyrirbyggja að fuglaflensa berist í alifugla:

Auglýsing um varúðarráðstafanir vegna fuglaflensu.
Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson