Sunnudaginn 14. júní 2015 mun Fuglavernd bjóða upp á fuglaskoðun í Fuglafriðlandinu í Flóa. Örn Óskarsson mun leiða okkur um svæðið en fuglaskoðunin hefst klukkan 17:00 við fuglaskoðunarskýlið sem er við bílastæðið í Friðlandinu. Þetta er þriðja gangan af fimm en stefnt er að því að vera með göngu hvern sunnudag í júní. Votlendisfuglar einkenna svæðið og eru bein tengsl við nálæg fuglarík svæði eins og fjöruna, Ölfusárós og Ölfusforir. Fuglalífið er sérstaklega auðugt og tegundaríkt á varptíma en nærri 25 tegundir verpa þar að staðaldri.
jún, 2015
Alþjóðlegur dagur hafsins
Í tilefni að alþjóðlegum degi hafsins mun heimildamynd um plastmengun í sjónum verða sýnd í Bíó Paradís á 8. júní kl. 8 – aðgangur ókeypis. Eftir myndina er efnt til pallborðsumræðna þar sem Egill Helgason sjónvarpsmaður, Hrönn Ólína Jörundsdóttir doktor í umhverfisefnafræði og verkefnastjóri hjá MATÍS, Karen Kjartansdóttir upplýsingafulltrúi Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi og Árni Snævarr, upplýsingafulltrúi Sameinuðu þjóðanna sitja í pallborði.
í tilkynningu frá Félagi Sameinuðu þjóðanna á Íslandi segir:
“Umhverfisspjöll af völdum plastmengunar eru gríðarleg. Við Norðursjó finnst plast í maga 94% fugla. Plastagnir geta fundið sér leið inn í vefi líkamans þegar við borðum fisk. Í landsáætlun um meðhöndlun úrgangs á Íslandi fyrir árin 2013–2024 kemur fram að ætla megi að um 70 milljónum plastpoka sé fleygt á hverju ári hér á landi en það eru um 1.120 tonn og til þess að framleiða þennan fjölda poka þarf um 2.240 tonn af olíu. En plast virðir hvorki landamæri né lögsögu ríkja og okkur stafar ekki síður hætta af plastmengun annara ríkja en okkar eigin. Talið er að árlega endi átta milljarðar plastpoka í ruslinu í Evrópu sem hefur í för með sér alvarlegar afleiðingar fyrir lífríkið. Hafstraumar hafa smalað plastögnum úr plastpokum og ýmsu öðru í gríðarstóra fláka sem hringsnúast á Kyrrahafi, Atlantshafi og Indlandshafi.
Evrópuþingið hefur nýverið samþykkt harðar aðgerðir sem miða að því að minnka notkun þunnra plastpoka sem valda mestri mengun, ýmist með banni eða álagningu gjalda. Bergþóra Njála Guðmundsdóttir, upplýsingafulltrúi umhverfisráðuneytisins segir að þetta falli undir málefnasvið EES samningsins og því muni breytingar á þessari löggjöf hafa áhrif hér heima en útfærslan er í höndum einstakra ríkja. Fyrir Alþingi liggur einnig tillaga til þingsályktunar frá þingmönnum úr öllum flokkum um að draga úr notkun plastpoka.
Að sýningu myndarinnar standa Upplýsingaskrifstofa Sameinuðu þjóðanna (UNRIC), Samband fyrirtækja í sjávarútvegi, Evrópustofa og Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi. Myndin er á ensku (án texta) og sýningartími ein klukkustund. Enginn aðgangseyrir! ”
Tengill á Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi
jún, 2015
Fuglaválisti Evrópu
Nú hefur BirdLife International gefið út válista sem unninn er í samvinnu við Evrópusambandið og Alþjóðanáttúruverndarsamtökin IUCN. Samkvæmt listanum eru 10 fuglategundir í bráðri útrýmingarhættu en 18 tegundir í hættu og þar á meðal eru fýll, álka og lundi. Hér má sjá skýrsluna í heild sinni: European RedList of Birds
maí, 2015
Fuglaskoðun í Flóa 31. maí 2105
Sunnudaginn 31. maí 2015 mun Fuglavernd bjóða upp á fuglaskoðun í Fuglafriðlandinu í Flóa. Elma Rún Benediktsdóttir mun leiða okkur um svæðið en fuglaskoðunin hefst klukkan 17:00 við fuglaskoðunarskýlið sem er við bílastæðið í Friðlandinu. Votlendisfuglar einkenna svæðið og eru bein tengsl við nálæg fuglarík svæði eins og fjöruna, Ölfusárós og Ölfusforir. Fuglalífið er sérstaklega auðugt og tegundaríkt á varptíma en nærri 25 tegundir verpa þar að staðaldri.
maí, 2015
Verndaráætlun fyrir Breiðafjörð
Við fögnum því að verndaráætlun fyrir Breiðafjörð hefur verið undirrituð. Á bls.10 stendur m.a. ” Breiðafjörður er einkum þekktur fyrir auðugt lífríki, sér í lagi fuglalíf. Sjófuglar eru einkennisfuglar svæðisins og er stór hluti landsstofns sumra tegunda við Breiðafjörð. Sem dæmi má nefna að þar verpa um 75% íslenskra dílaskarfa og 80% toppskarfa. Þá fara um Breiðafjörð í hundruðum þúsunda fargestir vor og haust á leið til hánorrænna varpstöðva sinna á Grænlandi og í Kanada á vorin og til vetrarstöðva í V-Evrópu á haustin.”http://www.umhverfisraduneyti.is/frettir/nr/2734
Á myndinni sjáum við toppskarf. JÓH.
maí, 2015
Fuglaskoðun á Álftanesi um helgina
Ljósmynd Eyþór Ingi Sigurðsson.
apr, 2015
Fuglalíf í Laugardalnum – 3. maí kl. 11
Á sunnudagsmorgun kl. 11 verður boðið upp á fuglagöngu í Grasagarði Reykjavíkur í Laugardal en í garðinum er fjölskrúðugt fuglalíf. Hannes Þór Hafsteinsson, garðyrkjufræðingur og fuglaáhugamaður,leiðir gönguna. Hannes mun fræða gesti um þær fuglategundir sem fyrir augu ber og auk þess skoða hvaða tegundir plantna laða að fugla. Gestum er bent á að gaman getur verið að taka með sér sjónauka í gönguna.
Mæting við aðalinnganginn kl. 11. Þátttaka er ókeypis og allir eru velkomnir.
JÓH tók þessa mynd af auðnutittlingi.
apr, 2015
Fuglar og fornminjar
Perú er ákaflega fjörbreytt land hvað varðar landslag, gróður, mannlíf og menningu, en ekki síst með tilliti til fuglalífs. Greint verður frá helstu einkennum fuglafánu landsins auk þess sem yfirlit verður gefið yfir helstu búsvæði þeirra. Erindið hefst stundvíslega kl. 20:30.
apr, 2015
Erindi á aðalfundi 16. apríl n.k.
Aðalfundur félagsins verður haldinn 16. apríl 2015 og mun erindi fundarins fjalla um forgangsröðun rannsókna og veiðistjórnunar á íslenskum fuglum. Veiðiálag og stofnþekkingu. Erpur S. Hansen, Náttúrustofu Suðurlands flytur.
Í erindinu eru teknar saman frumniðurstöður rannsókna á veiðiálagi og stofnþekkingu þeirra 30 fuglategunda sem leyft er að veiða hérlendis. Veiðiálag er reiknað út frá tiltækri stofnþekkingu og lagt til grundvallar forgangsröðun fyrir bæði rannsóknir og veiðistjórnun. Reiknaður var veiðistuðull með svo kallaðri „Potential Biological Removal“ aðferð (PBR) [1] fyrir 29 tegundir (veiðitölur vantar fyrir skúm). Ef PBR er 1 eða lægri, þá telst veiðin sjálfbær. Veiðiálag (veiði/PBR) er skilgreint hér sem hlutfall af skráðri meðalveiði 2004-2013. Þessi aðferð hentar þegar þekkingu á lýðfræði tegunda er ábótavant sem á við um margar tegundir hérlendis. Einnig var reiknuð hlutfallsleg breyting á meðalveiði allra tegunda fyrir og eftir 2003 (veiðitölur frá Umhverfisstofnun). Athygli vekur að meðalveiði milli þessara tveggja tímabila hefur minnkað um 40% eða meira hjá 17 tegundum (89% tegunda). Þessi samdráttur stafar að öllu jöfnu af fækkun í stofni viðkomandi tegunda, minni sókn eða blöndu þessa tveggja. Tekið skal fram að túlkun veiðibreytinga er torveld sökum flókinnar skilgreiningar veiðistofna hjá farfuglategundum. Núverandi stofnástand aðeins sjö veiðitegunda er ákjósanlegt fyrir veiði og þolir aðeins heiðagæs talsverða aukningu á veiði. Rjúpa er ein þessara sjö tegunda og jafnframt eina dæmið hérlendis um veiði sé stjórnað eftir veiðiþoli. Stofnar 14 tegunda flokkast „í hættu“, flestir vegna mikils og langvarandi viðkomubrests, og eru margar sjófuglategundir þar á meðal. Einnig flokkast fimm tegundir „í hættu“ vegna þess hve veiðiálag er hátt sem aftur bendir sterklega til ofveiði. Fimm tegundir til viðbótar flokkast „í útrýmingarhættu“, þar af fjórar sem hafa verið ofsóttar sem meintir tjónvaldar (svartbakur, hvítmáfur, silfurmáfur og hrafn), auk teistu. Válistategundum sem nú eru veiddar fjölgar því úr fjórum í sjö og telja nú 23% veiðitegunda. Blesgæs hefur ein slíkra tegunda verið friðuð.
Kallað er eftir stefnumótun í veiðistjórnun sem byggir á vísindalegum grunni. Tegundir í útrýmingarhættu og á válista er eðlilegt að friða strax og meta þarf hvort meint tjón réttlæti veiði á viðkomandi tegundum. Þetta á við um fleiri tegundir sem ekki eru eins illa staddar, eins og t.d. hettumáf. Einhverjar rannsóknir eru stundaðar á flestum mikilvægustu veiðitegundum og ætti að efla þær með mælingum á fleiri lýðfræðilegum þáttum og forgangsraða með hliðsjón af veiðiálagi, alþjóðlegu mikilvægi o.s.frv. Veiðistjórnunarkerfið þarf að byggja á árlegri samantekt og úrvinnslu upplýsinga og fela í sér árlega endurskoðun veiðitímabila allra tegunda í ljósi þeirra upplýsinga.
Um “Potential Biological Removal” aðferðina má lesa hér: Peter W Dillingham & David Fletcher (2008). Estimating the ability of birds to sustain additional human-caused mortalities using a simple decision rule and allometric relationship. Biological Conservation 141: 1738-1792
mar, 2015
Aðalfundur Fuglaverndar 16. apríl 2015
Aðalfundur félagsins verður að þessu sinni fimmtudaginn 16. apríl 2015 kl. 17:00 og verður haldinn á Hverfisgötu 105- þar sem skrifstofa félagsins er til húsa. Frestur til að skila inn framboðum til stjórnarkjörs rann út 14. febrúar síðastliðinn og barst eitt framboð. Frestur til að skila inn breytingatillögum á samþykktum félagsins var 15. febrúar síðastliðinn en engar tillögur bárust. Erindi fundarins er um veiðiþol fuglategunda.
Dagskrá fundarins er samkvæmt lögum félagsins þessi:
1. Skýrsla stjórnar um starfsemi félagsins á liðnu almanaksári.
2. Lagðir fram endurskoðaðir reikningar félagsins.
3. Breytingar á samþykktum félagsins samkvæmt 8 gr.
4. Kosin stjórn samkæmt 5 gr. samþykkta félagsins.
5. Kosinn skoðunarmaður félagsreikninga og einn til vara.
6. Ákvörðun árgjalds.
7. Önnur mál.