Ástand líffræðilegs fjölbreytileika sjávar á Norðurskautinu

CAFF stendur fyrir Conservation of Arctic Flora and Fauna eða verndun gróðurs og dýralífs á Norðurskautinu var að gefa út skýrslu: State of the Arctic Marine Biodiversity Report eða Ástand líffræðilegs fjölbreytileika sjávar á Norðurskautinu.  Efni skýrslunar er mjög yfirgripsmikið allt frá botndýrum og svifi yfir í fiska, sjávarspendýr og sjófugla.

Sem dæmi má nefna að mörgum tegundum sjófugla fækkað í Norðaustur Atlantshafi, í Noregi, á Íslandi, Grænlandi og í Færeyjum.  Ísmáfinum hefur fækkað um 80-90% síðustu 20 ár í heimskautaeyjum Kanada og Norðaustur Atlantshafi og í Rússlandi hefur útbreiðsla skroppið saman í samræmi við hopun ísjaðarsins til norðurs.

Allir þeir sem láta sig umhverfið varða, sem og fuglavernd ættu ekki að láta þetta efni framhjá sér fara.

State of the Arctic Marine Biodiversity Report

Hér er vefslóð á skýrsluna https://www.arcticbiodiversity.is/marine en efni hennar hefur líka verið tekið saman í stutt myndbönd, sem sjá má í heild sinni hér.

geirfuglinn er útdauður

Ályktun um uppbyggingu Náttúruminjasafns Íslands

Í umboði neðangreindra samtaka skorum við á Alþingi og mennta- og menningarmálaráðherra að taka hið fyrsta af skarið varðandi málefni Náttúruminjasafns Íslands og búa þannig um hnúta að starfsemi þess rísi undir nafni við miðlun á fróðleik og þekkingu á náttúru landsins, náttúrusögu, náttúruvernd og nýtingu náttúruauðlinda, eins og lög kveða á um.

Ályktun Alþingis nr. 70/145 um hvernig minnast skuli aldarafmælis fullveldis Íslands, sem formenn allra þingflokka á Alþingi fluttu undir lok síðasta kjörtímabils og samþykkt var með 56 atkvæðum mótatkvæðalaust er mikið fagnaðarefni. Þar kemur m.a. fram að Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni ... „að sjá til þess að í fjármálaáætlun til næstu fimm ára, sem lögð verður fyrir Alþingi vorið 2017, verði gert ráð fyrir uppbyggingu Náttúruminjasafns.“

Það veldur því vonbrigðum að Náttúruminjasafns Íslands skuli hvergi vera getið í tillögu ríkisstjórnarinnar að ríkisfjármálaáætlun 2018–2022.

Á 100 ára afmæli HÍN árið 1989 kynnti menntamálaráðherra áætlanir um að reist yrði hús yfir Náttúrugripasafn Íslands. Í kjölfarið var mæld út lóð í Vatnsmýri fyrir byggingu Náttúruhúss sem var hugsað sem safnbygging og aðsetur Náttúrugripasafns. Í deiliskipulagi Háskólasvæðisins er enn gert ráð fyrir Náttúruhúsi á þessum stað, á svonefndum G-reit.

Staða Náttúruminjasafnsins, höfuðsafns þjóðarinnar í náttúrufræðum, hefur frá upphafi verið óviðunandi og safnið búið við þröngan kost þau tíu ár sem liðin eru frá stofnun þess. Fjárheimildir hafa verið afar naumt skornar, starfsmenn aðeins tveir hið mesta, skrifstofuaðstaða ótrygg og engin aðstaða til sýningahalds, kennslu eða miðlunar fróðleiks á eigin vegum.

Öflugt náttúrufræðisafn styrkir menntakerfið og menningarlífið og stuðlar að aukinni þekkingu á náttúru landsins og skilningi á tengslum hennar við umheiminn. Menntun landsmanna í náttúrufræðum er forsenda sjálfbærni í atvinnugreinum þjóðarinnar, sem nær allar hvíla á nýtingu náttúrunnar. Aukinn skilningur á náttúru Íslands er eitthvert brýnasta verkefni samtímans og skólaæska landsins á sannarlega skilið metnaðarfullt og nýstárlegt náttúrufræðisafn þar sem undrum og ferlum náttúrunnar eru gerð skil.
Það er mikils um vert að ekki verði hvikað frá þeim góðu fyrirheitum sem gefin eru í fyrrnefndri ályktun Alþingis.

Ljósmynd: Geirfuglinn. Myndin er fengin af vef Náttúruminjasafns Íslands, www.nmsi.is

Dagsferðin: Leyndardómar Borgarfjarðar

Síðastliðinn laugardag fór formaður Fuglaverndar, Jóhann Óli Hilmarsson fyrir hópferð sem bar yfirskriftina Leyndardómar Borgarfjarðar. Honum til aðstoðar var Alex Máni Guðríðarson. Ferðin hófst formlega í Borgarnesi, þar sem síðasti þátttakandinn slóst í hópinn og í Borgarvogi voru yfir 20 brandendur, sem glöddu augað, en brandendur sáust nokkuð víða á Mýrunum.

Farið var að Álftanesi, í Straumfjörð og að Ökrum og dugði það fyrir daginn. Á leiðinni sáust tveir fálkar, fullorðinn örn og stórir margæsahópar. Á fjörunni voru leirur fullar af vaðfuglum, m.a. rauðbrystingi, sanderlu og tildru á leið til hánorrænna varstöðva eins og margæsin. Rjúpukarrar sátu á hverjum hól á Mýrunum í blíðunni. Á bakaleiðinni var Ramsar-svæðið Grunnafjörður lauslega skoðað.

Yfir 40 fuglategundir sáust í ferðinni:

 

Æður Hvítmáfur Sílamáfur
Álft Jaðrakan Silfurmáfur
Bjartmáfur Kjói Skógarþröstur
Brandönd Kría Skúfönd
Dílaskarfur Lómur Spói
Fálki Lóuþræll Stari
Flórgoði Margæs Steindepill
Fýll Maríuerla Stelkur
Grágæs Rauðbrystingur Stokkönd
Haförn Rauðhöfði Svartbakur
Heiðlóa Rita Tildra
Hettumáfur Rjúpa Tjaldur
Hrafn Sanderla Toppönd
Hrossagaukur Sandlóa Urtönd
Þúfutittlingur
Æðarfugl

Námskeið í fuglaljósmyndun

Fuglavernd stendur fyrir námskeiði í stafrænni fuglaljósmyndun dagana 19. – 21. maí 2017.

Markmiðið er að kynna grunnatriði í fuglaljósmyndun; tæki, tækni og nálgun við fugla. Farið verður yfir hvaða myndavélar henta best, hvernig linsur, þrífætur, forrit og fleiri tæknileg atriði. Rætt verður um myndbyggingu, felutjöld, ljósmyndun úr bíl og annan útbúnað.
Námskeiðið getur nýst jafnt byrjendum sem lengra komnum.
Skráning og frekari upplýsingar má finna hér. 

Æðarfugl prýðir þessa frétt en ljósmyndina tók Sindri Skúlason.

Teista. Ljósmynd: Sindri Skúlason

Ársskýrsla Fuglaverndar 2016

Aðalfundur Fuglaverndar var haldinn þriðjudaginn 18. apríl 2017.

Þar fór formaður félagsins, Jóhann Óli Hilmarsson yfir ársskýrslu fyrir árið 2016 og hana, ásamt eldri ársskýrslum er að finna undir Um Fuglavernd > Ársskýrslur

Á fundinum voru kjörnir tveir nýjir stjórnarmenn, þeir Aron Leví Beck og Trausti Gunnarsson og munu þeir taka sæti í stjórn um leið og tækifæri gefst til þess að kalla hana saman.

Dagur Jarðar í Grasagarðinum

Á laugardaginn, á Degi Jarðar, stóð Fuglavernd fyrir fuglaskoðun í samstarfi við Grasagarð Reykjavíkur. Alls komu um 60 manns í fuglaskoðunina, svo hópnum var skipt upp í tvo hópa til að njóta betur leiðsagnar um garðinn. Leiðsögumenn voru Einar Þorleifsson og Hannes Þór Hafsteinsson. Að lokinni göngunni komu hóparnir í garðskálann (Kaffi Flóru) þar sem kynning var á starfsemi Fuglaverndar, fuglahúsum og fuglafóðri.

Að lokinni dagskrá í Grasagarðinum tók við dagskrá hjá Garðyrkjufélagi Íslands þar sem boðið var upp á súpu og brauð í hádeginu. Þar voru kynnt starfsemi Garðyrkjufélagsins og býflugnarækt.

Myndir frá Degi Jarðar 2017

 

 

Bókarkápa Væri ég fuglinn frjáls

Væri ég fuglinn frjáls gefin grunnskólum

Væri ég fuglinn frjáls, bekkjarsett hefur verið gefið í alla grunnskóla með 5. bekk

Fuglavernd hefur gefið út bókina Væri ég fuglinn frjáls, fyrstu skrefin í fuglaskoðun.

Allir grunnskólar landsins sem eru með 5. bekk hafa nú fengið að gjöf bekkjarsett af bókinni, til þess að efla náttúrufræðikennslu en það er eitt af markmiðum Fuglaverndar. Viðtökur við bókinni hafa vægast sagt verið frábærar, hvarvetna höfum við mætt miklu þakklæti fyrir gjöfina og kennarar hafa tekið nýju námsefni fegins hendi.

Þá fengum við sérstakt hrós fyrir umbúnað sendinganna, en við endurnýttum pappakassa og dagblöð sem umbúðir sendinganna til grunnskólanna.

Í samvinnu við Menntamálastofnun var bókin kynnt á dögunum á málþingi um náttúrufræðimenntun og þaðan er sömu sögu að segja, viðtökurnar hafa verið framar björtustu vonum.

Ályktun vegna vegagerðar í Gufudalssveit (Teigsskógur)

Fuglavernd leggst eindregið gegn þeirri veglínu, sem Vegagerðin vill fylgja í Gufudalssveit. Ákvörðun Vegagerðarinnar brýtur í bága við fjölmörg lög, bæði lög um náttúruvernd sem og lög um verndun Breiðafjarðar, alþjóðlega samninga eins og Bernar- og Ramsar-sáttmálana, auk þess að snúa á Hæstaréttardóm með málamyndabreytingum á þeirri veglínu sem þeir voru gerðir afturreka með.

Fuglavernd hvetur Vegagerðina að stíga inní nútímann, hlíta áliti Skipulagsstofnunar og velja ætíð þá leið sem hefur minnst umhverfisáhrif, þrátt fyrir að slík leið kunni að vera eitthvað dýrari en aðrar leiðir. Stofnunin á að láta umhverfið njóta vafans.

Fuglavernd skorar á ráðherra samgöngu- og umhverfismála að hlutast til um að Vegagerðin endurskoði þessa afstöðu sína.

Stjórn Fuglaverndar

 

Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Lóa. Ljósmyndari: Alex Máni 2014.

Lóan er komin

Lóan er mjög algengur fugl á Íslandi og telur hátt í milljón fugla að hausti. Hún er hvergi eins algeng í Evrópu og hér – og eins og þekkt er þá er lóan okkar helsti vorboði.  Lóan er einum degi seinna á ferðinni í ár en í fyrra, þegar hún sást við Garðskagavita 26. mars. Meðalkomutími þessa ljúfa vorboða undanfarna tvo áratugi er 23. mars.

Kristinn Haukur Skarphéðinsson, dýravistfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands, bendir á að afar sjaldgæft sé að svo margar lóur hafi hér vetursetu eins og nú í vetur, en í desember sáust yfir 100 lóur á Seltjarnarnesi og nokkrir tugir um og eftir áramót. Það séu þó allar líkur á því að fuglarnir sem sáust við Einarslund séu farfuglar, að sögn Kristins.

„Hún er að koma svona fram undir apríl, þannig að menn geta svo sem hengt sína vorkomu á hvað sem þeir vilja, en lóan er náttúrulega ágætur fulltrúi, syngur fallega og er ljúfur fugl. Þannig að það er ágætt að halda í þessa hefð og telja að vorið sé komið með lóunni,“ segir Kristinn.

Á Facebook-síðu Fuglaathugunarstöðvar Suðausturlands kom fram í gær að fjórar heiðlóur sáust á flugi við Einarslund á Höfn. Óvenjumargar lóur ákváðu að vera um kyrrt á Íslandi nú í vetur, í stað þess að fljúga til Bretlandseyja eins og venja er.