Tveir auðnutittlingar. @Eyþór Ingi Jónsson

Auðnutittlingur og lundi komnir með kosningastjóra!

Spennand magnast í keppninni um Fugl ársins 2021 en nú eru auðnutittlingur og lundi komnir með kosningastjóra. Guðni Sighvatsson  tók að sér að hvetja auðnutittling til dáða í keppninni og er  auðnutittlingurinn komin með síðu á Instagram. Guðni segist vilja vera talsmaður auðnutittlings í keppninni í þakklætisskyni við auðnutittlinginn sem gleður hann og aðra Laugvetninga með návist sinni árið um kring.

Lundi. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Sunna Dís Kristjánsdóttir kennari tilnefndi lunda í keppnina Fugl ársins 2021 ásamt 34 lundaelskum krökkum í bekknum hennar í Engidalsskóla í Hafnarfirði og er nú orðin kosningastjóri lundans. Hún hefur sett upp síðu á Facebook fyrir lundann þar sem hann er dásamaður fyrir fegurð sína og hæfileika og m.a. birtar fallegar myndir og teikningar af lundum frá krökkunum.

Fuglavernd býður Guðna og Sunnu Dís og krakkana í Engidallskóla velkomin í hóp kosningastjóra í Fugli ársins 2021 óskar þeim auðnutittlingi og lunda velfarnaðar í keppninni.

Grágæsin var áður komin með kosningastjóra en enn eru lausar stöður 17 fugla sem keppa um titilinn Fugl ársins 2021 og hvetur Fuglavernd áhugasama á öllum aldri til að kynna sér málið og sækja um fyrir sína fugla. Nánari upplýsingar um keppnina og hvernig sótt er um stöðu kosningastjóra má finna á vefsíðu keppninnar Fugl ársins 2021.

Grágæs (Anser anser). Ljósmynd: © Daníel Bergmann.

Grágæsin komin með kosningastjóra!

Grágæsin hefur sig til flugs í keppninni um titilinn Fugl ársins 2021 ásamt 20 öðrum fuglum en er sú eina sem er komin með kosningastjóra. Líklega veitir henni ekki af því að bæta ímynd sína vegna núnings við mannskepnuna. ,,Ég vil boða þann sannleik sem hefur farið framhjá of mörgum að grágæsin er hetja og besti vinur Íslendinga” segir Kolbeinn Sæmundur Hrólfsson í umsókn sinni um stöðuna. 

Hinir 19 fuglarnir í keppninni eru enn án kosningastjóra og Fuglavernd hvetur áhugasama til að senda inn umsókn HÉR. 

Hlutverk kosningastjóra er fyrst og fremst að nota hugmyndaflugið til að vekja athygli á málefnum fuglsins, t.d. á samfélagsmiðlum, svo hann nái sér á flug í keppninni. 

Nánari upplýsingar um leitina að Fugli ársins 2021 og þá 20 fugla sem keppa.

Grágæsin er komin á samfélagsmiðla:

Grágæsin tístir

Grágæsin á Instagram

#gragaesin

Fugl ársins 2021 - logo

Keppendur um titilinn Fugl ársins 2021

Nú er ljóst hvaða 20 fuglar munu keppa um titilinn Fugl ársins 2021. Fuglavernd leitaði til almennings um að tilnefna fugla í keppnina og rökstyðja valið vel. Fjöldi tilnefninga barst og alls fengu 46 íslenskar fuglategundir tilnefningu, auk gárans Nóa sem ættaður er frá Ástralíu. Hann fékk tilnefningu frá eiganda sínum með mjög góðum rökstuðningi: ,,Nói er blíður og góður en samt stundum nett frekur, hann er uppáhalds fuglinn minn”. Nói komst þó því miður ekki á listann því einungis villtir fuglar eiga keppnisrétt. Valið var þó mjög erfitt því auðvitað eiga allir fuglar skilið að vera fugl ársins. Ein röksemdin var einmitt á þá leið:

,,Sá fugl sem ég horfi á hverju sinni er minn uppáhalds fugl, svo eiginlega ætti ég að nefna þá alla”

Í þessari keppni getur þó aðeins einn orðið Fugl árins 2021 svo nú er um að gera að gera upp hug sinn um hver af þessum 20 á listanum á titilinn helst skilið. Kosningarnar sjálfar fara fram 9.-18. apríl og Fugl ársins 2021 verður kynntur á sumardaginn fyrsta 22. apríl. 

Smelltu hér til að sjá hvaða fuglar keppa um titilinn Fugl ársins 2021.

 

Rita. Ljósmynd © Jóhann Óli Hilmarsson.

Aðalfundur Fuglaverndar 2021 og frestir vegna hans

Stefnt er að því að halda aðalfund Fuglaverndar fyrir starfsárið 2020 fimmtudaginn 15. apríl nk. Staður og stund verða nánar auglýst síðar.

Frestur til að skila inn framboðum til stjórnarkjörs rennur út 14. febrúar.
Á hverju ári ganga þrír úr stjórn félagsins og annað hvert ár gengur formaður úr stjórn. Í ár er sæti formanns laust og þrjú sæti í stjórn, en öll gefa kost á sér áfram. Sjá: Skrifstofa og stjórn.

Tillögum að breytingum á samþykktum félagsins þarf að skila inn fyrir 15. febrúar.  Sjá: lög og siðareglur félagsins.

Framboðum í stjórn og breytingartillögum skal skilað með tölvupósti á netfang Fuglaverndar eða bréfleiðis til stjórnar.

Tölvupóstfang Ólafs Karls Nielsen formanns er okn@ni.is og félagsins fuglavernd@fuglavernd.is.

Dyrhólaós

Stefnir Ísland á að grafa skurði umhverfis jörðina?

Í dag 2. febrúar er Alþjóðlegi votlendisdagurinn eða World Wetlands Day

Þennan dag árið 1971, var undirritaður alþjóðasamningur um verndun alþjóðlega mikilvægra votlendissvæða, einkum fyrir fuglalíf, og er hann kenndur við  borgina Ramsar í Íran. Ísland gerðist aðili að Ramsarsamningnum árið 1978 og skuldbatt sig þar með til að setja verndun mikilvægra votlendissvæða í öndvegi.

Votlendissvæði eru afar mikivæg búsvæði margra fuglategunda, en stórfelld röskun þeirra um alla jörð hefur skaðað fuglalíf og stuðlað að mikilli aukningu á losun gróðurhúsalofttegunda. Ísland á líklega heimsmet í röskun votlendissvæða en um 70% votlendis á láglendi hefur verið raskað. Við höfum grafið skurði sem telja um 33.000 km, sem samsvarar rúmlega 80% af vegalengdinni umhverfis jörðina um miðbaug.

Enn eru uppi áform um stórfellda röskun á votlendi og má þar nefna Dyrhólaós í Mýrdal sem fyrirhugað er að rýra með nýrri vegarlagningu. Dyrhólaós og umhverfi hans er á Náttúruminjaskrá (svæði 708) og þar eru einu sjávarleirurnar sem finnast á Suðurlandi og því mikilvægt búsvæði fugla.

Fuglavernd leggst eindregið gegn þessum áformum og lýsir áhyggjum af því að veglagningin geti haft varanleg skaðleg áhrif á fuglalíf við ósinn eins og m.a. er bent á í nýlegri umsögn Fuglaverndar um fyrirhugaða færslu þjóðvegar (1) um Dyrhólaós í Mýrdal. Fuglavernd hvetur stjórnvöld til að hverfa frá fyrirhuguðum framkvæmdum og huga frekar að stækkun og friðlýsingu náttúruminjasvæðisins eins og Náttúrufræðistofnun hefur lagt til.

Á 50 ára afmæli Ramsarsamningsins er Ísland enn á þeim stað að meira er raskað af votlendi en nemur því sem er endurheimt. Með sama áframhaldi er hætt við að þess verði ekki langt að bíða að íslenskir skurðir muni samanlagt ná umhverfis jörðina.

Auðnutittlingur. @Eyþór Ingi Jónsson

Garðfuglahelgin 2021 – Streymisfundur á Zoom

Streymisfundur um framkvæmd Garðfuglatalningar

Fimmtudaginn 28. janúar kl. 17 verður boðið upp á streymisfund þar sem farið verður stuttlega yfir framkvæmd garðfuglatalningar á Garðfuglahelginni 2021. Nánari upplýsingar um Garðfuglahelgina 2021 má finna hér.

Smelltu á hlekkinn til að tengjast:

https://us02web.zoom.us/j/88943208660?pwd=VnROYmJmblRkT2YwWjZTbnF1OGM1QT09

Hægt verður að koma með skriflegar spurningar.

Allir velkomnir meðan Zoomrúm leyfir!

Dyrhólaós

Fyrirhuguð færsla hringvegar (1) um Mýrdal

Vegagerðin hefur auglýst drög að matsáætlun fyrir færslu hringvegar (1) um Mýrdal 

Nýja vegstæðið liggur við norðanverðan Dyrhólaós sem er á náttúruminjaskrá. Þar eru einu sjávarleirurnar á Suðurlandi og eru þær mikilvægar fyrir fuglalíf, sérstaklega á fartíma. 

Jóhann Óli Hilmarsson fyrrv. formaður Fuglaverndar ritaði skýrslu árið 2013 um fuglalíf við Dyrhólaós en hennar er því miður er ekki getið í drögum VSÓ að matsáætlun fyrir Vegagerðina. Niðurstöður skýrslunnar benda til þess að vegstæði á bökkum Dyrhólaóss geti haft varanleg og skaðleg áhrif á fuglalíf við ósinn.

Vakin er athygli á því að hægt er að senda inn athugasemdir við drögin til Vegagerðarinnar til 1. febrúar 2021. 

Álftir, með unga á bakinu

Fuglavernd mótmælir þingsályktunartillögu um leyfi til veiða á álftum og gæsum

Fyrir Alþingi liggur tillaga til þingsályktunar, 312/151 þáltill.: leyfi til veiða á álft, grágæs, heiðagæs og helsingja utan hefðbundins veiðitíma

Fuglavernd mótmælir harðlega tillögu til þingsályktunar um að leyfa veiðar á álft, grágæs, heiðagæs og helsingja utan hefðbundins veiðitíma. Álft er alfriðuð tegund og veiðitímabil grágæsar og heiðagæsar er nú þegar lengra en gott þykir. 

Mikilvægasta gagnrýnin snýr þó að því að farið sé fram á að veiða þessar tegundir þegar þær eru að snúa til baka frá vetrarstöðvum og á varptíma. Fuglavernd telur slíkt algjörlega óverjandi á siðferðilegum forsendum auk þess sem það stríðir gegn fjölþjóðlegum lögum sem gilda víðast hvar á vetrarstöðvum þessara fuglategunda.  

Í greinargerðinni sem fylgir þingsályktunartillögunni er bent á að líklega sé álftin skotin ólöglega en rannsóknir í Bretlandi þar sem álftir voru gegnumlýstar sýndu að um 13% íslenskra álfta væru með blýhögl í líkamanum. Sjá: https://fuglavernd.is/2019/10/11/alftir-eru-skotnar-a-islandi-og-thad-er-ologlegt/ 

Þó að þetta ólöglega athæfi eigi sér stað þá rennir það ekki stoðum undir að leyfa það.

Miklu nær væri að finna leiðir til að fæla fugla frá svæðum. Samhliða því að fæla fugla frá þeim svæðum sem þeir mega ekki vera á, mætti koma upp túnum og ökrum sem þeim væri leyft að

bíta, en það mundi eflaust auka árangurinn af fælingaraðgerðum ef fuglarnir gætu farið á önnur tún í staðinn. Það mætti e.t.v. hugsa sér að ríkisstyrkur kæmi til fyrir slík „fuglatún”.

Veiðar á þessum tegundum á varptíma stríða gegn öllum viðurkenndum, alþjóðlegum siðareglum og meginreglum um fuglaveiði og gegn alþjóðasamningum sem Ísland hefur fullgilt.

Sjá bréf sent nefndasviði Alþingis í heild sinni undir Ályktanir og umsagnir

Íslenski rjúpnastofninn er vaktaður með talningum, mælingum á aldurshlutföllum, mati á holdafari fuglanna og skráningu á veiði og sókn.

Jólarjúpan 2020 – Hvað getum við gert?

Rjúpa. Ljósmynd © Daníel Bergmann

Veiðistofn rjúpu metinn sá minnsti frá því mælingar hófust

Niðurstöður rjúpnatalninga vorið 2020 sýndu í sjálfu sér ekkert óvænt, sums staðar er stofninn í eða nærri hámarki, annars staðar í lágmarki og enn annars staðar einhverstaðar þar á milli. Það sem er óvænt í stöðunni 2020 er viðkomubrestur sem spannar að öllum líkindum allt land frá Strandasýslu í vestri til Norður-Þingeyjarsýslu í austri, þetta eru meginuppeldisstöðvar rjúpu á Íslandi. Í samræmi við það er veiðistofn rjúpu metinn einn sá minnsti síðan mælingar hófust 1995.

Sjá nánar: Vefur Náttúrufræðistofnunar Íslands: frétt Veiðiþol rjúpnastofnsins 2020 og greinargerð: Mat á veiðiþoli rjúpnastofnsins 2020.

Ábyrgð neytenda

Hvað getum við gert? Við neytendur berum mikla ábyrgð á því að lágmarka eftirspurn þegar staðan er þessi. Vert að minna á sölubann í fullu gildi skv. reglugerð 800/2005 sem eru breytingar á reglugerð 456/1994 og eiga þær sér stoð í lögum um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum nr. 64/1994.

Því er: “ Óheimilt er að flytja út, bjóða til sölu eða selja rjúpur og rjúpnaafurðir. Með sölu er átt við hvers konar afhendingu gegn endurgjaldi.”

Ábyrgir neytendur hugsa sig líka tvisvar um áður en þeir þiggja rjúpu eða rjúpnaafurðir að gjöf eða taka þátt í neyslu rjúpnaafurða þar sem þær verða í boði.

Það eru fjölmargar aðrar vörur í boði, ekki hvað síst með auknum vinsældum jurtaafurða. Er því ekki tilvalið að gefa jólarjúpunni í ár jólafrí?

Ábyrgð veiðimanna

Hvað geta veiðimenn gert? Fuglavernd hvetur alla skotveiðimenn til að sýna hófsemi við veiðar í rjúpu í ár, sem fyrri ár, svo stuðla megi að sjálfbærni rjúpnaveiða.

Á vef Umhverfis- og auðlindaráðuneytis kemur fram að líkt og undanfarin ár er veiðiverndarsvæði á SV landi. Sjá einnig: Kort af veiðiverndarsvæði rjúpu suðvestanlands. 

Þessu til viðbótar árið 2020 eru veiðimenn einnig hvattir til að fylgja sóttvarnarreglum og tilmælum sem í gildi eru á hverjum tíma sem og tilmælum lögregluyfirvalda eða aðgerðastjórna almannavarnanefnda einstakra landshluta.

Flórgoði - par. Ljósmynd ©Jóhann Óli Hilmarsson

Fuglavernd mótmælir fyrirhuguðum framkvæmdum við vesturjaðar friðlandsins við Ástjörn í Hafnarfirði

Vegna fyrirhugaðra framkvæmda við vesturjaðar friðlandisins við Ástjörn í Hafnarfirði, hefur Fuglavernd sent Hafnarfjarðarbæ mótmæli. Sjá undir Um Fuglavernd > Ályktanir og umsagnir.

Ástjörn í Hafnarfirði er friðlýst svæði síðan 1978 og var það stækkað 1996.