Fuglaskoðun á Álftanesi um helgina

Í tilefni af alþjóðlega farfugladeginum verður Fuglavernd með fuglaskoðun á Álftanesi sunnudaginn 10. maí. Allflestir farfuglarnar eru komnir og búist er við miklu fuglalífi. Ólafur Torfason og Hallgrímur Gunnarsson fuglamerkingarmenn með meiru munu leiða hópinn en lagt verður af stað frá Kasthústjörn klukkan 14:00 stundvíslega.
Ljósmyndin er af margæs en nú er mikið af þeim á Álftanesi og eru þær hér fargestir vor og haust. Aðalfæða þeirra er marhálmur, og draga þær nafn sitt af því, en þær sækja oft í tún á vorin og éta sjávarfitjung og grænþörunga.Allir eru velkomnir en gaman er að taka sjónaukann með og klæða sig vel.
Ljósmynd Eyþór Ingi Sigurðsson.

Fuglalíf í Laugardalnum – 3. maí kl. 11

Á sunnudagsmorgun kl. 11 verður boðið upp á fuglagöngu í Grasagarði Reykjavíkur í Laugardal en í garðinum er fjölskrúðugt fuglalíf. Hannes Þór Hafsteinsson, garðyrkjufræðingur og fuglaáhugamaður,leiðir gönguna. Hannes mun fræða gesti um þær fuglategundir sem fyrir augu ber og auk þess skoða hvaða tegundir plantna laða að fugla. Gestum er bent á að gaman getur verið að taka með sér sjónauka í gönguna.
Mæting við aðalinnganginn kl. 11. Þátttaka er ókeypis og allir eru velkomnir.

JÓH tók þessa mynd af auðnutittlingi.

 

Fuglar og fornminjar

Hlynur Óskarsson og Víðir Óskarsson verða með erindi um ferð fjögurra manna hóps til Perú sumarið 2014 í sal Arion banka, Borgartúni 19, þriðjudaginn 28. apríl.
Perú er ákaflega fjörbreytt land hvað varðar landslag, gróður, mannlíf og menningu, en ekki síst með tilliti til fuglalífs.  Greint verður frá helstu einkennum fuglafánu landsins auk þess sem yfirlit verður gefið yfir helstu búsvæði þeirra. Erindið hefst stundvíslega kl. 20:30.

Erindi á aðalfundi 16. apríl n.k.

Aðalfundur félagsins verður haldinn 16. apríl 2015 og mun erindi fundarins fjalla um forgangsröðun rannsókna og veiðistjórnunar á íslenskum fuglum. Veiðiálag og stofnþekkingu. Erpur S. Hansen, Náttúrustofu Suðurlands flytur.

Í erindinu eru teknar saman frumniðurstöður rannsókna á veiðiálagi og stofnþekkingu þeirra 30 fuglategunda sem leyft er að veiða hérlendis. Veiðiálag er reiknað út frá tiltækri stofnþekkingu og lagt til grundvallar forgangsröðun fyrir bæði rannsóknir og veiðistjórnun. Reiknaður var veiðistuðull með svo kallaðri „Potential Biological Removal“ aðferð (PBR) [1] fyrir 29 tegundir (veiðitölur vantar fyrir skúm). Ef PBR er 1 eða lægri, þá telst veiðin sjálfbær. Veiðiálag (veiði/PBR) er skilgreint hér sem hlutfall af skráðri meðalveiði 2004-2013. Þessi aðferð hentar þegar þekkingu á lýðfræði tegunda er ábótavant sem á við um margar tegundir hérlendis. Einnig var reiknuð hlutfallsleg breyting á meðalveiði allra tegunda fyrir og eftir 2003 (veiðitölur frá Umhverfisstofnun). Athygli vekur að meðalveiði milli þessara tveggja tímabila hefur minnkað um 40% eða meira hjá 17 tegundum (89% tegunda). Þessi samdráttur stafar að öllu jöfnu af fækkun í stofni viðkomandi tegunda, minni sókn eða blöndu þessa tveggja. Tekið skal fram að túlkun veiðibreytinga er torveld sökum flókinnar skilgreiningar veiðistofna hjá farfuglategundum. Núverandi stofnástand aðeins sjö veiðitegunda er ákjósanlegt fyrir veiði og þolir aðeins heiðagæs talsverða aukningu á veiði. Rjúpa er ein þessara sjö tegunda og jafnframt eina dæmið hérlendis um veiði sé stjórnað eftir veiðiþoli. Stofnar 14 tegunda flokkast „í hættu“, flestir vegna mikils og langvarandi viðkomubrests, og eru margar sjófuglategundir þar á meðal. Einnig flokkast fimm tegundir „í hættu“ vegna þess hve veiðiálag er hátt sem aftur bendir sterklega til ofveiði. Fimm tegundir til viðbótar flokkast „í útrýmingarhættu“, þar af fjórar sem hafa verið ofsóttar sem meintir tjónvaldar (svartbakur, hvítmáfur, silfurmáfur og hrafn), auk teistu. Válistategundum sem nú eru veiddar fjölgar því úr fjórum í sjö og telja nú 23% veiðitegunda. Blesgæs hefur ein slíkra tegunda verið friðuð.

Kallað er eftir stefnumótun í veiðistjórnun sem byggir á vísindalegum grunni. Tegundir í útrýmingarhættu og á válista er eðlilegt að friða strax og meta þarf hvort meint tjón réttlæti veiði á viðkomandi tegundum. Þetta á við um fleiri tegundir sem ekki eru eins illa staddar, eins og t.d. hettumáf. Einhverjar rannsóknir eru stundaðar á flestum mikilvægustu veiðitegundum og ætti að efla þær með mælingum á fleiri lýðfræðilegum þáttum og forgangsraða með hliðsjón af veiðiálagi, alþjóðlegu mikilvægi o.s.frv. Veiðistjórnunarkerfið þarf að byggja á árlegri samantekt og úrvinnslu upplýsinga og fela í sér árlega endurskoðun veiðitímabila allra tegunda í ljósi þeirra upplýsinga.

 

Um “Potential Biological Removal” aðferðina má lesa hér:  Peter W Dillingham & David Fletcher (2008). Estimating the ability of birds to sustain additional human-caused mortalities using a simple decision rule and allometric relationship. Biological Conservation 141: 1738-1792

 

Aðalfundur Fuglaverndar 16. apríl 2015

Aðalfundur félagsins verður að þessu sinni fimmtudaginn 16. apríl 2015 kl. 17:00 og verður haldinn á Hverfisgötu 105- þar sem skrifstofa félagsins er til húsa. Frestur til að skila inn framboðum til stjórnarkjörs rann út 14. febrúar síðastliðinn og barst eitt framboð.  Frestur til að skila inn breytingatillögum á samþykktum félagsins var 15. febrúar síðastliðinn en engar tillögur bárust. Erindi fundarins er um veiðiþol fuglategunda. 
Dagskrá fundarins er samkvæmt lögum félagsins þessi:

1. Skýrsla stjórnar um starfsemi félagsins á liðnu almanaksári.

2. Lagðir fram endurskoðaðir reikningar félagsins.

3. Breytingar á samþykktum félagsins samkvæmt 8 gr.

4. Kosin stjórn samkæmt 5 gr. samþykkta félagsins.

5. Kosinn skoðunarmaður félagsreikninga og einn til vara.

6. Ákvörðun árgjalds.

7. Önnur mál.

Fuglar og ljósmyndun 19.03.2015

Fuglavernd, Canon og Nýherji verða með fræðslufund um fuglaljósmyndun fimmtudagskvöldið 19. mars 2015 ásamt því að sýna aðdráttarlinsur frá Canon. Þar munu bæði atvinnumenn og áhugafólk um fuglaljósmyndun veita fræðslu, en meðfram því að leggja áherslu á fuglavernd verður farið í tæknileg atriði sem og praktíska hluti, eins og t.d. hvernig er best að nálgast fugla í sínu náttúrulega umhverfi. Viðburðurinn fer fram í Nýherja, Borgartúni 37, og hefst kl. 19:30. Þátttaka er ókeypis en óskað er eftir skráningu (hér er linkur á skráningarsíðu). Jóhann Óli Hilmarsson fjallar um virðingu fyrir viðfangsefninu og kemur þar aðeins inná löggjöf um fuglavernd. Þá fjallar hann um góða staði til að ljósmynda fugla ásamt því að sýna myndir af fuglum í umhverfi sínu. Sindri Skúlason fer yfir listina að mynda fugla ásamt því að fara lauslega í tæknileg atriði og hvernig best er að nálgast fugla og hvað sé mikilvægt að hafa í huga við fuglaljósmyndun (hann tók myndina af flórgoðanum). Ásta Magnúsdóttir og Helga Guðmundsdóttir sýna valdar myndir og segja sögurnar á bak við þær. Nýherji hefur fengið lánaðar aðdráttarlinsur hjá Canon sem verða til sýnis, m.a. hina nýju EF 100-400mm f/4.5-5.6L IS II USM, EF 200-400mm f/4L IS USM Extender 1.4X, EF 500mm f/4L IS II USM o.fl. Skemmtilegur og spennandi viðburður fyrir alla áhugasama um fugla og fuglaljósmyndun!

Á ferð um Svalbarða

Miðvikudaginn 25.febrúar segir Gunnlaugur Sigurjónsson áhugaljósmyndari frá, í máli og myndum, ferð sem farin var til Svalbarða sumarið 2013.  Atburðurinn verður haldinn í Borgartúni 19 í húsakynnum Arion Banka og hefst kl. 20:30.

Gunnlaugur, Jóhann Óli Hilmarsson og Daníel Bergmann fóru sumarið 2013 með fjölþjóðlegum hópi ljósmyndara til Svalbarða. Sýndar verða myndir af landslagi, dýra- og fuglalífi Svalbarða. Í upphafi ferðar var nokkrum dögum eytt í nágrenni Longyearbyen og svo var farið í siglingu norður fyrir Svalbarða inn í hafísinn þar sem komist var í návígi við ísbirni og rostunga.
Sýningin hefst stundvíslega kl. 20:30 og er öllum opin svo lengi sem húsrúm leyfir. Aðgangur er ókeypis fyrir félaga í Fuglavernd en aðgangseyrir er 500 krónur fyrir aðra. Samkvæmt venju verður hægt að nálgast hreiðurkassana okkar, fóðrara, fuglakort og eldri tölublöð af Fuglum – en við erum ekki með posa.
Ljósm: Gunnlaugur Sigurjónsson.

Myndasýning frá Svalbarða

Miðvikudaginn 25.febrúar næstkomandi mun Gunnlaugur Sigurjónsson áhugaljósmyndari segja frá, í máli og myndum, ferð sem farin var til Svalbarða sumarið 2013.  Atburðurinn verður haldinn í Borgartúni 19 í húsakynnum Arion Banka og hefst kl. 20:30.

Gunnlaugur, Jóhann Óli Hilmarsson og Daníel Bergmann fóru sumarið 2013 með fjölþjóðlegum hópi ljósmyndara til Svalbarða. Sýndar verða myndir af landslagi, dýra- og fuglalífi Svalbarða. Í upphafi ferðar var nokkrum dögum eytt í nágrenni Longyearbyen og svo var farið í siglingu norður fyrir Svalbarða inn í hafísinn þar sem komist var í návígi við ísbirni og rostunga.
Sýningin hefst stundvíslega kl. 20:30 og er öllum opin svo lengi sem húsrúm leyfir. Aðgangur er ókeypis fyrir félaga í Fuglavernd en aðgangseyrir er 500 krónur fyrir aðra. Samkvæmt venju verður hægt að nálgast hreiðurkassana okkar, fóðrara, fuglakort og eldri tölublöð af Fuglum – en við erum ekki með posa.
Ljósm: Gunnlaugur Sigurjónsson.

Fuglanámskeið ætlað börnum

Fuglarnir í garðinum heima – námskeið ætlað börnum. Laugardaginn 7. febrúar kl 11:00 – 12:00 verður haldið námskeið á vegum Fuglaverndar og Garðyrkjufélags Íslands um garðfugla í Síðumúla 1 í Reykjavík.
Þegar vetrarhörkur ríkja eiga fuglar erfiðara með að finna sér fæðu. Lífsbaráttan er hörð og þeir því oft háðir mat­ar­gjöf­um og þá er gott að eiga sér vin sem færir þeim fóður.

Steinar Björgvinsson fuglaskoðari ætlar að fræða börn um hvernig á að fóðra smáfugla í garðinum að vetri eins og t.d. skógarþresti, snjótittlinga og svartþresti.

Steinar sýnir börnunum myndir af garðfuglum, kennir þeim hvernig hægt er að búa til fuglafóður og segir þeim frá hvað fuglar vilja helst éta. Þá verður  hugað að hvar best er að skilja fóðrið eftir svo kettirnir nái síður til fuglanna. Einnig verður sagt frá heppilegum hreiðukössum, fuglaböðum og fleiru.

Foreldrar og aðrir aðstendur barna eru hvött til að mæta með börnin á fugladag barna í Síðumúla 1, Reykjavík og taka þátt og fræðast um þá göfugu iðju að fóðra fugla.
Aðgangur er frír.

Á meðfylgjandi mynd má sjá mjög gæfan auðnutittling sem hefur verið lengi í fóðrum í garði ljósmyndarans Arnar Óskarssonar á Selfossi.

 

 

Snjótittlingar

Garðfuglahelgin er framundan

Garðfuglahelgin verður að þessu sinni 23. – 26. jan. 2015. Framkvæmd athugunarinnar er einföld, það eina sem þátttakandi þarf að gera er að fylgjast með garði í klukkutíma á föstudaginn 23. jan., laugardaginn 24. jan., sunnudaginn 25. jan. eða mánudaginn 26. jan. Skrá hjá sér hvaða fugla viðkomandi sér og mesta fjölda af hverri tegund á meðan athugunin stendur yfir, þ.e. þá fugla sem eru í garðinum en ekki þá sem fljúga yfir.

Gott er að hefja undirbúning talningar nokkrum dögum áður með því að hefja daglegar fóðurgjafir til að lokka að fugla. Misjafnt er hvaða fóður hentar hverri fuglategund. Upplýsingar um fóðrun garðfugla er hægt að finna á vefsíðum um “fóðrun” og einnig í Garðfuglabæklingi Fuglaverndar sem fæst á skrifstofunni eða má panta á netfanginu fuglavernd@fuglavernd.is eða í síma 5620477.

Að lokinni athugun skal skrá niðurstöður með því að sækja eyðublaðið hér fyrir neðan (nr.1), prenta og fylla það út. Hægt er að senda það í pósti til Fuglaverndar, Hverfisgötu 105,101 Reykjavík.
Einnig er hægt að opna eyðublaðið í tölvunni – sækja eyðublað nr.2- og skrá inn upplýsingarnar beint, vista og hengja við tölvupóst (attachment) og senda á póstfang garðfuglavefsins, gardfugl@gmail.com.

[one_third_last][downloads show=”category” cat=”gardfuglahelgi”][/one_third_last]