Alþýðuheiti íslenskra fugla

31. október n.k. ætlar Sigurður Ægisson að vera með erindi á fræðslufundi Fuglaverndar um alþýðuheiti fugla. Íslenskir varpfuglar – og margir aðrir sem landið okkar og miðin gista á ákveðnum árstímum – hafa ekki allir ætíð borið þau heiti sem nú eru opinberlega við lýði í fræðiritum og umræðunni, þótt vissulega séu mörg þeirra aldagömul og gróin í tungunni. Í sumum tilvikum er um nýyrði að ræða, tiltölulega ung. Á öllum tímum hafa auk þessa verið til með alþýðunni enn önnur heiti, líklega oftast  staðbundin, þó ekki alltaf, sem fæst komust á þrykk en varðveittust ýmist í munnlegri geymd, handritum eða í prentuðu máli. Sigurður Ægisson hefur í rúma tvo áratugi viðað að sér þessum aukaheitum og víða leitað fanga í því sambandi. Um 700 þeirra birtust í fuglabók hans sem út kom árið 1996 og nefndist Ísfygla en síðan þá hafa bæst við um 300. Í erindi sínu fimmtudagskvöldið 31. október næstkomandi mun hann á einni klukkustund reifa þetta áhugamál sitt og með aðstoð skjávarpa taka valin dæmi um fuglaheiti sem erfitt er að ráða í, og að auki leggja nokkrar þrautir fyrir áhorfendur.

Á meðfylgjandi mynd sem Sigurður Ægisson tók er steindepill eða depill, góutittlingur, grádílóttur steindepill, máríetlubróðir, steindelfur, steindepla, steindólfur, steinklappa, steinklöpp, steinverpill eða sumarþröstur.

Fræðslufundir Fuglaverndar eru haldnir í húsakynnum Arion banka í Borgartúni 19 og byrjar fyrirlesturinn klukkan 20:30. Gengið er inn um aðalinngang hússins á austurhlið. Ókeypis er fyrir félagsmenn Fuglaverndar en 500 kr. fyrir aðra. Allir velkomnir.

Arnarritið

Í dag – 9. september – eru liðin 100 ár frá því að Alþingi samþykkti lög er fólu í sér friðun arnarins. Lögin tóku gildi 1. janúar 1914. Í tilefni af því og að Fuglavernd fagnar fimmtugasafmæli Fuglaverndar á þessu ári var ákveðið að gefa út veglegt rit um þennan tígulega en sjaldgæfa fugl enda snérist starf félagsins lengi framan af aðallega um vernd og viðgang arnarstofnsins. Ásamt því að vera afmælisgjöf félagsins til félaga þá höfum við dreift ritinu til menntastofnana í byggðarlögum á helstu búsvæðum arnarins. Ritið er unnið í samstarfi við Náttúrufræðistofnun Íslands og má þar finna upplýsingar um útbreiðslu og stofnstærð og lífshætti arnarins en einnig er komið inná sagnaminni og hindurvitni og sögu hans á Íslandi. Ritið prýða vel valdar ljósmyndir eftir helstu arnarljósmyndara landsins. Hægt er að fá ritið á skrifstofu félagsins – á kostnaðarverði – 1.000- kr. Það sem er ekki síst mikilvægt frá sjónarhorni Fuglaverndar við útgáfu slíks rits er sú von að með aukinni fræðslu og búsvæðavernd sé hægt að fækka þeim ógnum sem steðja að erninum af mannavöldum.

Hér er linkur á söluvörur félagsins

 

Áskorun til stjórnvalda að endurskoða villidýralögin

Skýrslan Vernd, velferð og veiðar villtra fugla og spendýra sem inniheldur umfjöllun og tillögur nefndar um stöðu villtra fugla og villtra spendýra hefur nú verið gerð aðgengileg á vef umhverfis- og auðlindaráðuneytisins. Fuglavernd telur mikilvægt að stjórnvöld endurskoði villidýralögin sem fyrst, lögin frá 1994 eru löngu orðin úrelt.

Nefndin telur mikilvægt að endurskoðuð löggjöf og stjórnsýsla á þessu sviði taki mið af þremur lykilstoðum, þ.e. vernd, velferð og veiðum villtra dýra. Hver þessara þátta myndi rammgerða undirstöðu laganna sem frekari útfærslur byggi á. Nefndin segir ennfremur að í núverandi löggjöf sé lögð áhersla á veiðar, og hafi almenn vernd og velferðarmál villtra dýra því að nokkru leyti orðið út undan, þó komið sé inn á þessa þætti í villidýralögum, lögum um dýravernd, náttúruvernd eða öðrum lögum.

Á myndinni eru sandlóuegg. Sigurður Ægisson tók myndina.

[btn color=”green” text=”Villidýraskýrslan” url=”http://www.umhverfisraduneyti.is/media/PDF_skrar/Vernd-velferd-og-veidar-LOKA-8-mai-2013.pdf”]

 

Kennsluefni um fugla

Félagið gaf á vordögum út handbók fyrir leikskólakennara sem nefnist Fljúgum hærra og er lokaverkefni tveggja nema í leikskólakennarafræðum við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Ritið sem var sent öllum leikskólum landsins án endurgjalds. Það verður endurprentað í haust vegna mikillar eftirspurnar og góðra viðtaka og hægt að panta með því að hafa samband við skrifstofu. Sjá nánari útlistun hér.

Krossnefir sjást á Suðurlandi

Stórir hópar af krossnefjum eru nú mættir á Hjaltlandseyjar og það lýtur út fyrir að einhverjir hafi borist hingað líka. Hópur sást á Selfossi í gær og líklegt að fleiri berist með lægðum. Krossnefur er stór og frekar sérkennileg finka með gogg sem er sérhæfður til að ná fræjum úr könglum. Goggurinn er stór og ganga skoltarnir á víxl og af því ber hann nafn sitt. Örn Óskarsson tók þessa mynd en á henni sjáum við karl hægra megin, oftast rauður með dekkri vængi, og kerlu vinstra megin gulgræn.