Fuglanámskeið ætlað börnum

Fuglarnir í garðinum heima – námskeið ætlað börnum. Laugardaginn 7. febrúar kl 11:00 – 12:00 verður haldið námskeið á vegum Fuglaverndar og Garðyrkjufélags Íslands um garðfugla í Síðumúla 1 í Reykjavík.
Þegar vetrarhörkur ríkja eiga fuglar erfiðara með að finna sér fæðu. Lífsbaráttan er hörð og þeir því oft háðir mat­ar­gjöf­um og þá er gott að eiga sér vin sem færir þeim fóður.

Steinar Björgvinsson fuglaskoðari ætlar að fræða börn um hvernig á að fóðra smáfugla í garðinum að vetri eins og t.d. skógarþresti, snjótittlinga og svartþresti.

Steinar sýnir börnunum myndir af garðfuglum, kennir þeim hvernig hægt er að búa til fuglafóður og segir þeim frá hvað fuglar vilja helst éta. Þá verður  hugað að hvar best er að skilja fóðrið eftir svo kettirnir nái síður til fuglanna. Einnig verður sagt frá heppilegum hreiðukössum, fuglaböðum og fleiru.

Foreldrar og aðrir aðstendur barna eru hvött til að mæta með börnin á fugladag barna í Síðumúla 1, Reykjavík og taka þátt og fræðast um þá göfugu iðju að fóðra fugla.
Aðgangur er frír.

Á meðfylgjandi mynd má sjá mjög gæfan auðnutittling sem hefur verið lengi í fóðrum í garði ljósmyndarans Arnar Óskarssonar á Selfossi.

 

 

eBird – fuglaskráningar

Síðan í mars 2011 hefur hópur íslenskra fuglaskoðara verið virkur við að setja inn athuganir í vefkerfi sem kallast eBird – www.ebird.org. Hægt er að draga saman athuganir á einstökum tegundum yfir tímabil og má t.d. hér sjá athuganir frá 2011-2015 (http://tinyurl.com/m2rkehw). Þetta sýnir tíðni auðnutittlinga í innsendum listum á eBird. Í loks árs 2014 virðist vera meira af þeim en haustin 2011-2013, en þá eru þeir í um og yfir 60% innsendra lista. Fyrir neðan má sjá fjölda lista á viku eftir árum sem línuritin byggja á.

Það er mjög einfalt fyrir fólk að setja inn athuganir þarna og því fleiri sem eru virkir þeim mun betri upplýsingar fást um sveiflur milli ára og árstíða. Eina sem þarf að gera er að skrá sig inn í kerfið og byrja að setja inn athuganir. Velja má að nota íslensku fuglaheitin við innskráningu. Sérstaklega þægilegt ef um garðfuglaathuganir er að ræða. Hér má sjá yfirlit yfir allar íslenskar athuganir: http://tinyurl.com/nk9hvyy

 

Snjótittlingar

Garðfuglahelgin er framundan

Garðfuglahelgin verður að þessu sinni 23. – 26. jan. 2015. Framkvæmd athugunarinnar er einföld, það eina sem þátttakandi þarf að gera er að fylgjast með garði í klukkutíma á föstudaginn 23. jan., laugardaginn 24. jan., sunnudaginn 25. jan. eða mánudaginn 26. jan. Skrá hjá sér hvaða fugla viðkomandi sér og mesta fjölda af hverri tegund á meðan athugunin stendur yfir, þ.e. þá fugla sem eru í garðinum en ekki þá sem fljúga yfir.

Gott er að hefja undirbúning talningar nokkrum dögum áður með því að hefja daglegar fóðurgjafir til að lokka að fugla. Misjafnt er hvaða fóður hentar hverri fuglategund. Upplýsingar um fóðrun garðfugla er hægt að finna á vefsíðum um “fóðrun” og einnig í Garðfuglabæklingi Fuglaverndar sem fæst á skrifstofunni eða má panta á netfanginu fuglavernd@fuglavernd.is eða í síma 5620477.

Að lokinni athugun skal skrá niðurstöður með því að sækja eyðublaðið hér fyrir neðan (nr.1), prenta og fylla það út. Hægt er að senda það í pósti til Fuglaverndar, Hverfisgötu 105,101 Reykjavík.
Einnig er hægt að opna eyðublaðið í tölvunni – sækja eyðublað nr.2- og skrá inn upplýsingarnar beint, vista og hengja við tölvupóst (attachment) og senda á póstfang garðfuglavefsins, gardfugl@gmail.com.

[one_third_last][downloads show=”category” cat=”gardfuglahelgi”][/one_third_last]

Munið eftir smáfuglunum

Jarðbönn og snjór eru nú um víða um land og eiga fuglarnir erfitt. Fuglavernd hvetur landsmenn að hugsa til þessara smáu meðbræðra og ekki síst farfuglanna sem koma langt að og þurfa orku og vatn til að lifa af.  Sem dæmi um fóður má nefna brauð, epli, fitu, kjötsag, matarafanga handa þröstum, störum og hröfnum, sólblómafræ eða páfagaukafræ handa auðnutittlingum, kurlaður maís og hveitikorn handa snjótittlingunum.  Fita er það fóður sem hentar flestum fuglum vel í kuldum og má blanda matarolíu, tólg eða smjöri við afganga og korn. Síðan þarf vatn að vera aðgengilegt.

Skógarþrestir, svartþrestir og starar éta að jafnaði skordýr og önnur smádýr en ber á haustin. Í vetrarhörkum leita þeir í æti sem menn bera út í garð og eru sérlega sólgnir í feitmeti eins og kjötsag og mör. Einnig þiggja þeir ávexti svo sem epli, perur og rúsínur. Brauðmeti, sérstaklega ef það er blandað með matarolíu eða öðru feitmeti er einnig vel þegið í vetrarkuldum. Best er að koma þessum kræsingum fyrir á fóðurpalli eða hengja upp í tré. Epli og perur er gott að skera í tvennt og stinga uppá greinarenda 1-2 metra frá jörðu.

Snjótittlingar éta einkum fræ af jörðinni. Snjótittlingum er frekar illa við að vera inn á milli trjáa og því er best að gefa þeim á opnu svæði eða á húsþök. Þeir éta líka af fóðurpöllum en aðeins einstaka fugl lærir að éta úr hangandi fóðurdalli. Mulið maískorn, sólblómafræ og finkukorn er í uppáhaldi hjá þeim.

Auðnutittlingar og barrfinkur vilja einkum sólblómafræ og finkukorn. Mjög auðvelt er að venja þá á að éta úr hangandi fóðurdöllum, kornstönglum og af fóðurpöllum í trjám. Þeir éta líka finkukorn af jörðinni. Með því að hengja fóðurdalla í tré rétt utan við glugga er hægt að fylgjast vel með atferli þeirra og hafa mikla ánægju af en við seljum eina tegund af slíkum.

Hrafnar sækja einkum í matarúrgang sem borinn er út að vetrarlagi. Hrafnarnir éta einkum kjöt og spik en næla sér einnig í brauðbita og jafnvel ávexti. Að eðlisfari eru hrafnarnir ákaflega varir um sig og hætta sér því ekki nærri húsum. Best er þess vegna að gefa þeim þar sem pláss er gott til allra átta.

Hettumáfar og sílamáfar sækja í matarúrgang þegar þeir koma síðla vetrar eða á vorin. Þeir eru einkum á ferðinni snemma morguns og valda þá oft ónæði.

Þessar upplýsingar má líka finna á garðfuglavefnum og að auki hvað megi gefa flækingum sem sjást hér oft á veturna.
Þessa fallegu ljósmynd af gráþresti tók Alex Máni Guðríðarson á Selfossi.

Jólaopnun á skrifstofu Fuglaverndar 11. og 18. des.

Verið hjartanlega velkomin í heimsókn á skrifstofu Fuglaverndar á Hverfisgötu 105 í Reykjavík (gegnt Lögreglustöðinni). Þar fást falleg jóla- og tækifæriskort, fuglafóðrarar og fóður, fuglahús, garðfuglabæklingur o.fl. á sanngjörnu verði, posi er á staðnum. Næg bílastæði á bakvið hús, innkeyrsla frá Snorrabraut og Skúlagötu.
Einnig verður opið næsta fimmtudag 18. desember, kl. 14-20.

Ályktun mófuglaráðstefnunnar

Ráðstefna Fuglaverndar sem haldin var 27.desember 2014 ályktaði svohljóðandi: Til mófugla teljast ýmsir algengir fuglar sem verpa dreift í opnu landi. Þetta eru einkum vaðfuglar en einnig teljast rjúpa og nokkrar tegundir spörfugla til mófugla. Á Íslandi eru afar stórir stofnar nokkurra mófuglategunda, t.d. er talið að allt að helmingur allra heiðlóa og spóa í heiminum verpi á Íslandi. Fleiri stofnar eru mjög stórir. Íslendingar bera ábyrgð á að vernda þessa fugla samkvæmt alþjóðasamningum, t.d. samningnum um líffræðilega fjölbreytni (Ríó) og AEWA samningnum sem tekur til verndar farfugla og votlendisfugla. Þrátt fyrir mikilvægi Íslands og alþjóðlega ábyrgð á mörgum mófuglastofnum er vöktun á þeim og búsvæðum þeirra afar takmörkuð. Brýnt er að þær stofnanir sem hafa lögbundið hlutverk við að vakta fuglastofna fái til þess nauðsynlegt fjármagn.

Mófuglar verpa um allt land í fjölbreyttum búsvæðum á opnu landi. Sérstök áskorun er að vernda fuglastofna sem verpa svo dreift því verndarsvæði geta aðeins náð yfir lítinn hluta stofnanna. Brýnt er að efla og koma á fót verndarsvæðum á lykilstöðum. Einnig er nauðsynlegt að taka tillit til mófugla við skipulag landnotkunar svo þeir geti þrifist samhliða nýtingu.

Örlög mófuglastofna á 21. öld munu endurspegla árangur Íslendinga við að samræma nýtingu og vernd landsins.

Ályktunin er send ráðherra umhverfis- og auðlindaráðuneytis og landbúnaðarráðuneyti sem og fjölmiðlum. Hér má sjá ráðstefnudagskrána.

Vetrarfuglaganga í Laugardal

Fjölskrúðugt vetrarfuglalífið í Laugardal verður skoðað á göngu um Grasagarðinn og nágrenni sunnudaginn 23. nóvember kl. 10. Gangan er skipulögð í samstarfi Fuglaverndar og Grasagarðs Reykjavíkur. Um leiðsögn sér Hannes Þór Hafsteinsson náttúrufræðingur en hann þekkir fuglalífið í Laugardalnum manna best og miðlar þeirri þekkingu með skemmtilegum og fróðlegum hætti.

Mæting við aðalinngang Grasagarðsins. Þátttaka er ókeypis og allir eru velkomnir.

Fjölmargar fuglategundir halda til í Laugardal yfir vetrartímann. Algengastir eru skógarþrestir, svartþrestir, starar, auðnutittlingar, stokkendur, grágæsir og húsdúfur. Minnsti fugl Evrópu, glókollurinn, fannst fyrst verpandi á Íslandi 1999. Nú verpa nokkur pör reglulega í Laugardal og ef vel er að gáð má finna þennan smávaxna landnema víða í trjálundum. Í vetur hafa músarrindlar verið tíðir gestir í Grasagarðinum og vitað er um nokkur krossnefspör sem halda til á svæðinu og sjást öðru hvoru. Nýlega sást glóbrystingur á ferli í Laugardal og flesta vetur undanfarin ár hafa branduglur sótt í dalinn.

Gunnar Þór Hallgrímsson tók þessa mynd af glóbrystingi í fyrravetur.

Ráðstefna um mófugla 29.11

Laugardaginn 29. nóvember hélt Fuglavernd ráðstefnu um stöðu og vernd íslenskra mófuglastofna og þá ábyrgð sem við berum á þeim í alþjóðlegu samhengi. Erindin byggðu á nýlegum eða nýjum rannsóknum í fuglafræðum og niðurstaðan fróðleg fyrir alla þá sem áhuga hafa á íslensku fuglalífi.

Ráðstefnan bar yfirskriftina: Eiga mófuglar undir högg að sækja? Staða stofna, búsvæðavernd og alþjóðlegar skyldur og var haldin í salarkynnum Háskóla Íslands í Odda. Hún hófst á því að lagt var fram yfirlit yfir íslenskar mófuglategundir og útbreiðslu þeirra, svo var m.a. skýrt hversvegna sumir þessara stofna er eins stórir og raun ber vitni og hvernig það endurspeglar ábyrgð okkar íslendinga í alþjóðlegu samhengi og þær skuldbindingar sem við höfum undirgengist.
Landnotkun var rædd – hvaða áhrif t.d. landbúnaður og skógrækt hafa og svo var sérstakur lestur um mat á stofnum og hvernig best fari að vakta þá. Þetta var svo allt skoðað með verndun þessara stofna í huga. Fundurinn ályktaði og hefur ályktunin verið send til umhverfis- og auðlindaráðherra sem einnig gegnir embætti landbúnaðarráðherra.  Hér má sjá ályktunina. 

Dagskrá
10:10 Fundarstjóri Jón S. Ólafsson opnar ráðstefnuna.
10:15 Jón Geir Pétursson skrifstofustjóri á skrifstofu landgæða umhverfis- og auðlindaráðuneytisins ávarpar ráðstefnuna í forföllum umhverfis- og auðlindaráðherra
10:25 Íslenskir mófuglastofnar, far og vetrarstöðvar
Sett var fram yfirlit yfir íslenskar tegundir og útbreiðslu.
Guðmundur A. Guðmundsson, dýravistfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands.
10:50 Búsvæðaval og vernd mófugla
Tómas Grétar Gunnarsson, vistfræðingur hjá Rannsóknasetri Háskóla Íslands á Suðurlandi.
11:15 Áhrif landnotkunar á mófuglastofna
Lilja Jóhannesdóttir, doktorsnemi hjá Rannsóknasetri Háskóla Íslands á Suðurlandi.
11:40 Léttur standandi hádegisverður
12:10 Stofnmat og vöktun
Guðmundur A. Guðmundsson, dýravistfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands
12:35 Verndun og alþjóðlegar skuldbindingar
Kristinn Haukur Skarphéðinsson, dýravistfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands
13:00 Fundarstjóri ber upp ályktun fundarins
13:15 Fundi slitið

Ráðstefnan var styrkt af umhverfis- og auðlindaráðuneytinu og er öllum opin og ókeypis.

Spói: JÓH

 

Námskeið í stafrænni fuglaljósmyndun

Fuglavernd heldur námskeið í fuglaljósmyndun núna í nóvember. Markmið námskeiðsins er að kynna grunnatriði í fuglaljósmyndun, tæki, tækni og nálgun við fugla. Farið verður yfir hvaða myndavélar henta best, hvernig linsur, þrífætur, forrit og fl. tæknileg atriði. Rætt verður um myndbyggingu, felutjöld, ljósmyndun úr bíl og annan útbúnað. Hvað er öðruvísi við að mynda fugla, hvað ber að varast og hvað gerir það eftirsóknarvert. Námskeiðið getur nýst jafnt byrjendum sem lengra komnum sem hafa áhuga á fuglaljósmyndun. Námskeiðið er þrískipt og er haldið dagana 12.,15. og 18. nóv.2014.

Miðvikudagur 12. nóvember frá 18:30-22
Í fyrsta hluta er farið yfir grunnatriðin. Farið verður yfir hvað skiptir máli við val á myndavélum, linsum og aukabúnaði. Stillingar og tæknileg atriði verða rædd. Farið verður í hluti eins og myndbyggingu og hvað þarf að hafa í huga þegar verið er að mynda. Bent verður á góða staði til fuglaljósmyndunar, skoðað hvernig best er að nálgast fugla og farið verður í ýmis hagnýt atriði er snúa að fuglaljósmyndun. Leiðbeinandi í fyrsta hluta er Sindri Skúlason https://www.flickr.com/photos/sindri_skulason/

Laugardagur 15. nóvember frá 12:00-16:00
Í öðrum hluta er farið í vettvangsferð þar sem þátttakendur spreyta sig í fuglaljósmyndun. Farið verður á nokkra góða fuglaljósmyndastaði sem eru eftirsóttir á höfðuborgarsvæðinu. Sýnt hvernig þekking á íslensku fánunni nýtist í að nálgast viðfangsefnið.
Leiðbeinandi í öðrum hluta er Jóhann Óli Hilmarsson, fuglaljósmyndari http://www.johannoli.com/

Þriðjudagur 18. nóvember frá 18:30-22:00
Þriðji hluti er svo helgaður úrvinnslunni og frekari leiðum til að öðlast færni í bæði fuglaljósmyndun og eftirvinnslu. Farið verður yfir helstu atriði við lagfæringu mynda og hvaða forrit er best að nota.
Leiðbeinandi í þriðja hluta er Christopher Lund ljósmyndari http://www.chris.is/

Vinsamlegast skráið þátttöku á netfangið fuglavernd@fuglavernd.is fyrir miðja næstu viku. Verð er 35.000 fyrir félagsmenn en 39.000 fyrir aðra.

Jóhann Óli Hilmarsson tók þessa mynd af súlum.

Garðfuglakönnun 2014-2015

Nú er komið að því að hefja árvissa garðfuglakönnun Fuglaverndar en Fuglavernd hefur um árabil staðið fyrir rannsókn á garðfuglum og fengið félagsmenn og aðra áhugasama í lið með sér. Markmiðið er að athuga hvaða fuglar sækja í garða, í hve miklu magni og breytingar á samsetningu tegunda yfir vetrarmánuðina. Sem athugunarsvæði má nota húsagarða, afmörkuð svæði innan almenningsgarða, garðlönd við sumarbústaði eða skógarlundi. Meginatriðið er að sama svæði sé talið og reglulega sé fylgst með því í viku hverri. Fylgst er með fuglalífinu frá því í lok október fram í lok apríl – og niðurstöðurnar skráðar á þar til gert eyðublað.

Veturinn 2014-2015 er garðfuglakönnun Fuglaverndar frá 26. október til 25. apríl. Á Garðfuglavefnum má lesa nánar um könnina en hér má nálgast eyðublaðið til að prenta og fylla út – en hér er skjal sem má fylla út rafrænt og senda svo sem viðhengi á fuglavernd@fuglavernd.is.

Áhugafólk um fugla er hvatt til að taka þátt – engin binding – lítið umstang en mjög skemmtilegt. Ekki er skilyrði að maður gefi fuglunum þó það auki bara á ánægjuna og betra er að byrja seint en aldrei.

Á meðfylgjandi mynd má sjá silkitoppur gæða sér á eplum. Ljósmyndina tók Örn Óskarsson.