Fundartörn um fuglameðafla

Í síðustu viku áttum við fundi með ýmsum aðilum í sjávarútvegi, þar sem helsta umræðuefnið var fuglameðafli á grásleppuveiðum. Við töluðum við fulltrúa frá Hafró, Fiskistofu, Landsambandi smábátaeiganda, Marine Stewardship Council, og Icelandic Sustainable Fisheries. Rory Crawford sem vinnur fyrir BirdLife International og RSPB Scotland tók þátt og Hólmfríður Arnardóttir og Erpur Snær Hansen fyrir hönd félagsins.

 

Garðfuglahelgin nálgast

Garðfuglahelgin verður að þessu sinni dagana 29.janúar-1.febrúar 2016. Framkvæmd athugunarinnar er einföld, það eina sem þátttakandi þarf að gera er að fylgjast með garði í klukkutíma  föstudaginn 29. jan., laugardaginn 30. jan., sunnudaginn 31. jan. eða mánudaginn 1. feb. Skrá hjá sér hvaða fugla viðkomandi sér og mesta fjölda af hverri tegund á meðan athugunin stendur yfir, þ.e. þá fugla sem eru í garðinum en ekki þá sem fljúga yfir.

Gott er að hefja undirbúning talningar nokkrum dögum áður með því að hefja daglegar fóðurgjafir til að lokka að fugla. Misjafnt er hvaða fóður hentar hverri fuglategund. Upplýsingar um fóðrun garðfugla er hægt að finna á vefsíðum um “fóðrun” og einnig í Garðfuglabæklingi Fuglaverndar sem fæst á skrifstofunni eða má panta á netfanginu fuglavernd@fuglavernd.is eða í síma 5620477.

Að lokinni athugun skal skrá niðurstöður með því að sækja eyðublaðið hér fyrir neðan (nr.1), prenta og fylla það út. Hægt er að senda það í pósti til Fuglaverndar, Hverfisgötu 105,101 Reykjavík.
Einnig er hægt að opna eyðublaðið í tölvunni – sækja eyðublað nr.2- og skrá inn upplýsingarnar beint, vista og hengja við tölvupóst (attachment) og senda á póstfang garðfuglavefsins, gardfugl@gmail.com.

[one_third_last][downloads show=”category” cat=”gardfuglahelgi”][/one_third_last]

Aðalfundur og stjórnarkjör

Aðalfundur Fuglaverndar verður að þessu sinni laugardaginn 16. apríl.
Frestur til að skila inn framboðum til stjórnarkjörs rennur út 14. febrúar og tillögum að breytingum á samþykktum félagsins 15. febrúar. Í ár eru þrjú sæti laus.

Á hverju ári ganga þrír úr stjórn félagsins og annaðhvort ár gengur formaður úr stjórn.
Við óskum hér með eftir framboðum í stjórn Fuglaverndar. Framboðum og breytingartillögum skal skilað með tölvupósti eða bréfleiðis til stjórnar.
Tölvupóstfang formannsins er johannoli@johannoli.com og póstfang félagsins er fuglavernd@fuglavernd.is.

Ljósmynd af lómum á Elma Rún Benediktsdóttir.

Hvar eru smáfuglarnir!

Margir hafa veitt því athygli hversu lítið hefur sést af smáfuglum í görðum það sem af er vetri. Þetta á sérstaklega við þá sem fóðra fugla. Fólk hér á Suðurlandi og víðar hefur varla séð auðnutittlinga í vetur og veturinn á undan. Nú hafa snjótittlingarnir einnig brugðist, þrátt fyrir tíð sem að öllu jöfnu hefði átt að fylkja þeim í garða, þar sem er gefið.

Hvað veldur? Því er fljótsvarað, það veit enginn með fullri vissu! Nokkrar tilgátur hafa komið fram um auðnutittlingafæðina. Stofnsveiflur eru þekktar hjá auðnutittlingnum og fleiri smáfuglum eins og hjá glókollinum landnemanum ljúfa. Birkifræ þroskaðist lítið eða ekki haustið 2014, en birkifræ er aðalfæða auðnutittlinga. Veturinn síðasti var umhleypingasamur og óhagstæður smáfuglum. Fuglarnir gætu hafa fallið vegna skorts á æti og óhagstæðrar tíðar. Sumir segja að auðnutittlingarnir hafi horfið um miðjan desember 2014. Þeir gætu því jafnvel hafa yfirgefið landið og leitað til Bretlandseyja eftir betra lífi. Síðasta haust, 2015, var fræframleiðsla birkis mjög góð. Samt hafa auðnutittlingar ekki sést að ráði í fóðri það sem af er vetri. Vonandi á stofninn eftir að ná sér á strik á ný. Margir sakna þessa spaka og kvika smávinar, sem lífgar uppá tilveru fólks í svartasta skammdeginu.

Fæðuhættir snjótittlinga eru talsvert öðruvísi en auðnutittlinga, þó þeir séu einnig fræætur. Þeir sækja í grasfræ eins og melfræ, njólafræ og því um líkt. Kornakrar, sérstaklega óslegnir, eru forðabúr á veturna. Snjótittlingur er norrænastur allra spörfugla og aðlagaður að kaldri veðráttu. Í hríðarbyljum láta þeir fenna yfir sig og ýfa fiðrið til að halda á sér hita. Veðráttan á því ekki að hafa teljandi áhrif á stofninn. Hvað veldur þá þessum snjótittlingaskorti? Hafa fuglarnir enn nóg æti úti í náttúrunni eða á kornökrum? Er einhver óþekkt óáran í stofninum? Eiga tittlingarnir eftir að koma í fóðrið fljótlega? Um næstu helgi, 9.-10. janúar, verður hin árlega vetrarfuglatalning Náttúrufræðistofnunnar um land allt. Það verður fróðlegt að sjá hvort og þá hvar, snjótittlingar komi fram í talningunni.

Meðfylgjandi mynd tók Halla Hreggviðsdóttir.

Skógarþröstur, Stari og Gráþröstur. Ljósmyndari: Örn Óskarsson

Fuglalíf að vetri í Grasagarðinum sunnudag 13. des.

Fjölskrúðugt vetrarfuglalífið í Laugardal verður skoðað á göngu um Grasagarðinn og nágrenni sunnudaginn 13. desember 2015 kl. 11. Gangan er skipulögð í samstarfi Grasagarðs Reykjavíkur og Fuglaverndar. Um leiðsögn sér Hannes Þór Hafsteinsson, náttúrufræðingur og garðyrkjufræðingur hjá Borgargörðum í Laugardal, en hann þekkir fuglalífið í Laugardalnum manna best og miðlar þeirri þekkingu með skemmtilegum og fróðlegum hætti. 

Mæting er við aðalinngang Grasagarðsins. Þátttaka er ókeypis og allir eru velkomnir.

Fjölmargar fuglategundir halda til í Laugardal yfir vetrartímann. Algengastir eru skógarþrestir, svartþrestir, starar, auðnutittlingar, stokkendur, grágæsir og húsdúfur. Minnsti fugl Evrópu, glókollurinn, fannst fyrst verpandi á Íslandi 1999. Nú verpa nokkur pör reglulega í Laugardal og ef vel er að gáð má finna þennan smávaxna landnema í trjálundum dalsins. Á hverjum vetri halda nokkrir múasarrindlar til í Laugardalnum og krossnefir og barrfinkur hafa sést af og til í vetur. Og flesta vetur undanfarin ár hafa branduglur sótt í dalinn.

Á myndinni má sjá skógarþröst, stara og gráþröst þræta um epli. Mynd Örn Óskarsson.

Loftlagsganga 29.nóv.2015

Mánudaginn 30. nóvember hefst loftslagsþing Sameinuðu þjóðanna í París. Þar er stefnt að bindandi samkomulagi um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda með það að markmiði að hlýnun andrúmslofts jarðar haldist innan 2° C.

Alþjóðlegar grasrótarhreyfingar þrýsta á þjóðarleiðtoga um að draga nægilega úr losun til að halda hlýnun jarðar undir 2° C og krefja iðnríkin að standa við það fyrirheit frá 2009 að styrkja þriðjaheimsríki um 100 milljarða dollara á ári frá og með 2020. Annars vegar til að þessi ríki geti aðlagast nýjum og erfiðum aðstæðum vegna breytinga á loftslagi og hins vegar til að gera þeim kleift að nýta hreinar og endurnýjanlegar orkulindir. Liður í því er Global Climate March sem verður gengin í fjölmörgum borgum um allan heim þann 29. nóvember næstkomandi.

Fuglavernd ætlar að taka þátt og hvetjum við félagsmenn til að mæta á svokallað „Drekasvæði“ sem staðsett er á horni Kárastígs, Frakkastígs og Njálsgötu, þaðan sem gengið verður til kröfufundar á Lækjartorgi. 
Frekari upplýsingar um gönguna má finna hér
.

Loftslagsáhrif eru mikil á fugla. BirdLife í samstarfi við Audubon gefur út skýrslu í tilefni af loftlagsráðstefnunni um áhrif loftlagsbreytinga á fuglalíf:  Sjá hér: http://climatechange.birdlife.org/

Við viljum undirstrika þá kröfu að Ísland axli ábyrgð sína í loftslagsmálum og skuldbindi sig í París til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um að minnsta kosti 40% fyrir árið 2030 – óháð markmiði ESB um 40% samdrátt í losun. Ennfremur beri Íslandi að stefna að kolefnishlutleysi fyrir árið 2050 líkt og mörg önnur lönd gera.

Álftapabbi með unga. Ljósmynd: Elma Rún Benediktsdóttir

Fuglaskoðunarbæklingur

Í tilefni af Fuglaviku í Reykjavík er kominn út nýr bæklingur er heitir FUGLASKOÐUN Í REYKJAVÍK. Í bæklingnum er greint frá helstu fuglaskoðunarstöðum í borginni og þeir sýndir á sérstöku korti. Jafnframt eru tilgreindar helstu tegundir fugla sem má sjá á hverjum stað. Bæklingurinn er ókeypis og aðgengilegur hér á vefnum en einnig í prenti í þjónustuveri borgarinnar í Borgartúni 12-14 sem og hjá okkur hér í Fuglavernd og á fleiri stöðum í borginni. Bæklingurinn er einnig gefinn út á ensku.

Hér má skoða bæklingana:

Fuglaskoðun í Reykjavík – á íslensku
Birdwatching in Reykjavík – á ensku

Ljósmynd: Elma Rún Benediktsdóttir

Fuglavika í Reykjavík

Reykjavíkurborg – Reykjavík – Iðandi af lífi- og Fuglavernd standa fyrir fuglaviku í Reykjavík dagana 17.-23. október þar sem boðið verður uppá margs konar fræðsluviðburði með það að markmiði að vekja athygli á því fjölskrúðuga fuglalífi sem glæðir borgina árið um kring.

Fuglavikan hefst með málþingi í Norræna húsinu, undir yfirskriftinni Fuglar í borg. Þar verður sagt frá skemmtilegum fuglaskoðunarstöðum í borginni, rætt um búsvæði og vernd og einnig verður rætt um fuglatengt starf með leikskólabörnum.

Þá verður boðið upp á fuglaskoðun á ólíkum stöðum í borginni alla fuglavikuna, þar sem ein þeirra verður á ensku. Einnig er nýr fræðslubæklingur í smíðum um fuglaskoðunarstaði í Reykjavíkurborg og verður bæklingurinn gefinn út bæði á íslensku og ensku.

Málþingið verður haldið laugardaginn 17. október undir yfirskriftinni “Fuglar í borg” og byrjar klukkan 13:00 í Norræna húsinu. Allir eru velkomnir á meðan húsrúm leyfir. Þrjú erindi verða á málþinginu.
Fuglar og búsvæði borgarinnar – Snorri Sigurðsson.
Mínir fuglaskoðunarstaðir –  Elma Rún Benediktsdóttir.
Fuglavinna með börnum – Sigrún Björg Ingþórsdóttir.

Fuglaskoðanir
Laugardaginn 17.okt. Fuglaskoðun – Vatnsmýrin / Tjörnin kl.15:00

Við byrjum á að skoða fugla í Vatnsmýrinni – lagt af stað frá Norræna húsinu beint eftir málþingið kl.15:00. Edward Rickson leiðir gönguna.

Sunnudaginn 18. okt. Fuglaskoðun – Strandfuglar í Skerjafirði kl.15:00
Hist við Skeljanes í Skerjafirði við strætóskýlið. Mikið fuglalíf er á þessum slóðum allan ársins hring. Börn eru sérstaklega boðin velkomin :-). Hópinn leiða þau Ásgerður Einarsdóttir og Snorri Sigurðsson.

Mánudaginn 19. okt. Fuglaskoðun á ensku –  Tjörnin kl.13:00
Hist við Ráðhús Reykjavíkur.

Þriðjudaginn 20. okt. Fuglaskoðun við Elliðavatn
Hist við Elliðavatnsbæinn – kl 16:15. Á haustin og veturna halda ýmsar andategundir sig við vatnið. Einnig verður leitað að skógarfuglum.

Miðvikudaginn 21. okt. Fuglaskoðun – Laugarnes kl.13:00
Hist við Listasafn Sigurjóns Ólafssonar. Snorri Sigurðsson leiðir fuglaskoðunina. Laugarnes er heppilegur staður til að horfa yfir sundin og fylgjast með sjófuglum.

Fimmtudaginn 22. okt. Garðfuglar og fóðurgjafir – Grasagarður Reykjavíkur kl.10:00
Fuglafræðsla í Grasagarði Reykjavíkur. Hist við innganginn í garðinn.

Föstudaginn 23. okt. Fuglaskoðun – Elliðaárdalur kl.14:00
Hist við Árbæjarstíflu. Anna María Lind Geirsdóttir leiðir fuglaskoðunina og eru börn boðin hjartanlega velkomin ásamt foreldrum eða kennurum.

 Munum að klæða okkur eftir veðri – og taka sjónauka og jafnvel fuglabók með.