Glókollur - karlfugl

Fuglskoðun í Hólavallakirkjugarði, Reykjavík

Glókollur karlfugl, ljósmyndari Örn Óskarsson.

Laugardaginn 15. febrúar bauð Fuglavernd upp á fuglaskoðun í Hólavallakirkjugarði.

Á meðan að um 15 manns safnaðist saman við suðurhlið kirkjugarðins bauð Heimir Janusarson, umsjónarmaður garðsins, upp á kakó þar sem vindur næddi um þátttakendur og lofthiti var lágur og sól náði ekki að verma mannskapinn.

Anna Pratichi Gísladóttir, líffræðinemi, leiddi hópinn um garðinn og leitaði fugla. Það var ekki mikið um fugla í kirkjugarðinum þennan dag. Hópurinn heyrði í svartþröstum og skógarþröstum sem sátu í trjám og sungu.  Glókollar voru á ferðinni sem að sumir heyrðu í og öðrum tókst að sjá.

Það hafði verið urmull af auðnutittlingum í garðinum í haust enda mikið um birki og reynivið. Tveir smyrlar höfðu komið auga á þessa ágætu matarkistu og sátu um garðinn og veiddu sér til matar. Heimir hafði fundið hami og leifar auðnutittlinga í garðinum eftir veislurnar. Aðrir auðnutittlingar höfðu væntanlega flutt sig um set á hættuminni svæði, enda hefur enginn auðnutittlingur haldið til í Hólavallakirkjugarði síðan í haust.

 

 

 

Gráþröstur og epli. Ljósmyndari; Örn Óskarsson

Garðfuglahelgin, fyrstu niðurstöður

Athugunarstaðir garðfuglahelgar voru 49 þetta árið. Þátttakendur voru 57, sem sagt á sumum stöðum voru fleri en einn að telja. Það voru 15 tegundir skráðar en alls sáust 3028 fuglar.  Við þökkum þeim sem að tóku þátt í talningunni.

Í fyrra voru athugunarstaðir  alls 153 og sáust fuglar í 143 görðum (93,5%). Skráðir þátttakendur voru 202, sem var miklu betri þátttaka en á þessu ári.  Með aukinni þátttöku sjást fleiri fuglar og að sama skapi með minni þátttöku; færri fuglar. Í fyrra sáust  14.416 fuglar af 19 tegundum í görðum þátttakenda. Flestir fuglar sáust í garði á Stokkseyri (694) og flestar tegundir í garði í Árbæjarhverfi í Reykjavík. Snjótittlingar voru helmingur þeirra fugla sem voru skráð.

Þið sem að misstuð af garðfuglahelgi þessa árs, Fuglavernd hvetur ykkur til að taka þátt að ári liðnu eða hefja þátttöku í garðfuglakönnun á komandi hausti, veturlangt

 

 

 

 

 

 

 

Gráþröstur og epli. Ljósmyndari; Örn Óskarsson

Garðfuglahelgin 2025 – skilafrestur er til 15. febrúar

Garðfuglahelgin 2025 skilafrestur er til 15. febrúar.

Árlega fitjar Fuglavernd upp á talningu garðfugla yfir eina helgi. Allir sem hafa aðgang  að garði geta tekið þátt í garðfuglahelgi.

Venjulega er um að ræða síðustu helgina í janúar og nú er hún liðin sú síðasta helgi. Um var að ræða 24. – 27. janúar og hver og ein réð því hvaða dag hann taldi sinn klukkutíma.

Skilafrestur talninga er til 15. febrúar og Fuglavernd bíður spennt eftir niðustöðum frá öllum þátttakendum svo hægt verður að birta þær.

 

Hér má finna nánari upplýsingar um garðfuglahelgi svo og eyðublöðin og rafrænt skilaform. Skilafrestur er til 15. febrúar. 

 

 

Fyrstu fimm tjaldarnir í Helguvík.

Tjaldar í Hvalfirði

Félagar í Fuglavernd lögðu land undir fót til að leita 5000 tjalda með vetursetu í Hvalfirði sunnudag 17. nóvember 2024.

Heiðskírt var og 3-5 stiga frost og 10-15 m/sek þar sem mest lét.

Fyrsta stopp var hjá Súlueyri. Þar sást enginn fugla á fjörum Grunnafjarðar, hrafnar flugu yfir og var gengið niður í fjöru á Súlueyri fyrir opnu hafi. Þar sást svartbakur, grámáfur og hvítmáfur við ós Áslækjar.  Freistað var þessa að ganga að Ósum en sandrokið var slíkt að hætt var við.

 

Sandrok við Súlueyri.

Næsti stans var við Miðsand í Hvalfirði. Þar var mest um hvítmáfa, grámáfa, æðarfugl og stokkendur. Einnig sást til toppanda.

Ekið var yfir í Helguvík. Þar sáust loks fimm tjaldar auk ofangreindra tegunda.

Næsti stans var við ósa Botnsár. Enga tjalda var að sjá, en á voginum synti æðarfugl og væntanlega aðrar tegundir.

Síðasti stansinn var í Brynudalsvogi. Þar var hamagangur í flæðarmálinu og allt að gerast. Mikill kliður í tjöldum og kastað var tölu á þá og niðurstaðan var að ekki færri en 200 tjaldar í flæðarmálinu en að öllum líkindum miklu fleiri og var þessi fundur við tjaldana mjög ánægjulegur.

Kaldur dagur og hvass til fuglaskoðunar en mjög ánægjuleg för þrátt fyrir að ekki fundust 5000 tjaldar. Alltaf gaman að fara í fuglaskoðun.

Vel heppnuð ganga í Friðlandi fugla í Flóa

5. júní mættu 10 manns til að upplifa Friðland fugla í Flóa. Anna María Lind leiddi hópinn og urmull fugla voru mættir. Surr í næsta ósýnilegum lóuþrælum heyrðust á víð og dreif. Lómar heilsuðust, kvöddust, kvökuðu, görguðu og góluðu eins og lómar gera best. Álftahjón ákváðu að taka ungahópinn sinn á land og örkuðu norðar í mýrina. Smyrill eltist við lóuþræl en náði ekki bráðinni og varð að sitja eftir svangur. Óðinshanar léku við hvern sinn fingur ef svo mætti segja og voru á öðru hverju dæli (tjörn). Æðarfugl sást með unga á dæli og aðrar andartegundir flugu hjá eða voru í slag í eintómum vorfögnuði.  Stör var byrjuð að spretta svo sem önnur grös. Það var norðan garri, 12 – 16 m/sek í upphaf göngu, en léttskýjað  og fuglaskoðendur voru allir vel búnir og allir á stígvélum nema einn, en þannig er það oftast að minnst einn verður votur í fæturna eftir gönguna.  Hvort sem fólk var í stígvélum eða votum skóm þá var samhugur um að þetta hefði verið frábær ganga og upplifun mikil. Vindinn lægði er leið á gönguna en lofthiti var nær tíu gráðum og það var gott að safnast saman í lok göngu á pallinum í skjóli fuglaskoðunarhússins.

Næsta ganga verður 27. júní og leiðsögumaður verðu Ísak Ólafssonn líffræðingur.

eBird hvað er nú það?

eBird er frábært vefkerfi fyrir fuglaáhugafólk!

Langar þig að verða hluti af stærsta samfélagi fuglaáhugafólks í heimi? Langar þig að geta á einfaldan hátt haldið utan um allar þínar fuglaathuganir og lista, hvar sem er í heiminum, og jafnframt lagt þitt af mörkum til fuglarannsókna og fuglaverndar? Þá er eBird fyrir þig!

eBird er vefkerfi og app sem þróað var af Cornell háskóla í Bandaríkjunum og gerir fuglaáhugafólki kleift á einfaldan, þægilegan og endurgjaldslausan hátt að skrá og halda utan um allar sínar fuglaathuganir, hvar sem það er í heiminum. Auk þess að auðvelda því að finna nýjar tegundir og nýja staði til að skoða fugla. Á sama tíma leggur fólk sitt af mörkum til að auka skilning og þekkingu vísindamanna á dreifingu fugla í tíma og rúmi, fjölda þeirra og búsvæðanotkun Þessar upplýsingar nýtast einnig vel þegar kemur að verndun fugla. Nánar má skoða og lesa um eBird hér.

Fuglavernd hvetur áhugasama félagsmenn sína eindregið til að kynna sér kerfið og þá möguleika sem það býður upp á en aðgangur að því er ókeypis.

Finna má einfaldar leiðbeiningar um notkun eBird hér og um notkun á eBird Mobile appinu hér

Rétt er að benda á að hægt er að stilla tegundaheiti fuglanna á íslensku í appinu, svo þægilegra gæti það ekki verið. Þetta þarf aðeins að gera einu sinni og er gert með því að fara inn í „Settings“ og velja „Icelandic“ úr listanum undir „Show common names in“. Hér eftir munu tegundaheitin alltaf birtast notandanum á íslensku þegar athuganir er skráðar.

Fugla- og votlendisskoðun Fuglaverndar 18. júní 2023

Sunnudaginn 18. júní héldu 13 félagar í fugla- og votlendisskoðun á Vesturland. Leiðsögumenn voru Polina Moroz og Jóhann Óli Hilmarsson, sem jafnframt ók. Fyrst var numið staðar við Eiðisvatn og Laxá í Leirársveit og skoðað svæði sem Endangered Landscape Programme (Endurheimt landslagsheilda) styrkti Fuglavernd til að skoða, sérstaklega möguleg áhrif endurheimtar votlendis á fuglalíf og gæði vatnasviðs Laxár. Verkefnið er á höndum Polinu. Í leiðinni var Ramsar-svæðið Grunnafjörður skoðað.

Þarnæst var Ramsar-svæðið Andakíll heimsótt og farið um Hvanneyrarhlöð. Eftir nestisstund við Borgarvog var farið á Mýrarnar og fyrst numið staðar við Kálfalæk. Á dögunum hlaut Fuglavernd í samstarfi við Landgræðsluna, Hafrannsóknastofnun og Konunglega Brezka Fuglaverndarfélagið (RSPB) styrk til að kanna möguleika á endurheimt búsvæða í lækjum, vötnum og votlendi fyrir fiska, fugla og aðrar lífverur. Náttúrufræðistofnun Íslands og Landbúnaðarháskóli Íslands munu einnig koma að verkefninu. Styrkurinn var veittur af Open Rivers Programme, sem hefur það að markmiði að endurheimta líffræðilegan fjölbreytileika og náttúrulega rennslishætti vatnsfalla í Evrópu. Verkefnið er framhald verkefnis, þar sem gerð var úttekt á vatnsvæði Kálfalækjar á Mýrum og þess vegna þótti við hæfi að stoppa þar.

Eknir voru „hringirnir tveir“ um Mýrarnar og stoppað á fuglaríkum stöðum eins og Ökrum og við Straumfjörð. Við bæinn Krossnes á Mýrum rákumst við á gríðarmikla nýlega framræslu, svo hún er alls ekki úr sögunni, þrátt fyrir allt.

Veður var hið skaplegasta, hægviðri og fór ekki að rigna fyrr en á heimleiðinni.

 

Alls sást 41 fuglategund í ferðinni:

Álft
Grágæs
Brandönd
Rauðhöfðaönd
Urtönd
Stokkönd
Skúfönd
Duggönd
Æðarfugl
Toppönd
Rjúpa
Lómur
Fýll
Dílaskarfur
Haförn
Tjaldur
Sandlóa
Heiðlóa
Lóuþræll
Hrossagaukur
Jaðrakan
Spói
Stelkur
Tildra
Óðinshani
Kjói
Hettumáfur
Stormmáfur
Sílamáfur
Hvítmáfur
Svartbakur
Rita
Dvergmáfur
Kría
Teista
Þúfutittlingur
Maríurela
Svartþröstur
Skógarþröstur
Hrafn
Stari

 

Klettarindill. Ljsm Michael Ashbet

Klettaprílari, piwauwau, fugl ársins Nýja Sjálandi.

Hann er rindill en samt brattur sigurvegari nýsjálensku keppninnar um fugl ársins 2022.

Leiðrétting barst í dag 22. nóvember frá Yann Kolbeinssyni , líffræðingi hjá Náttúrstofu Norðausturlands:

Langaði að benda á að þessi tegund sem um ræðir í fréttinni (South Island Wren, https://ebird.org/species/soiwre1) heitir klettaprílari á íslensku. Hann er alls óskyldur íslenska músarrindlinum, enda í annarri ætt fugla (klifurrindlaætt, Acanthisittidae). Músarrindill er í rindlaætt (Troglodytidae). Þrátt fyrir heitin eru þessar tvær ættir ansi fjarskyldar. Klettarindill er allt önnur tegund sem finnst í Norður Ameríku (https://ebird.org/species/rocwre/).“

Klettaprílarinn, Xenicus gilviventris, er sem sagt fugl ársins á Nýja Sjálandi.

Fugl ársins á heimasíðu nýj sjálenska fuglaverndarfélagsins Forest & Bird

Skógarþröstur

Garðfuglakönnun 2022-23 hefst 30. október

Ljsm. Sindri Skúlason, skógarþröstur.

Garðfuglakönnun er árlegur viðburður Fuglaverndar sem snýst um að telja fugla í garðinum sínum. Fuglar heimsækja mest þá garða þar sem fóður stendur til boða. Könnunin er ætluð öllum sem hafa áhuga á fuglum og er ekki ýkja flókin þó hún virðist vera það við fyrstu sýn.

Það er hægt að telja fugla daglega, vikulega t.d. bara um helgar.

Eyðublöð eru tilbúin á heimasíðu Fuglaverndar sem hægt er að hlaða niður og prenta út ef vill.

Fyrir daglega notkun er oft handhægara að nota rissblað eða stílabók. Dæmi um skráningarblað sem maður notar daglega hér fyrir neðan. Þar sést t.d. að fyrst sáust 5 starar og það var skráð. En þegar næst var skoðað, skömmu seinna, voru þeir orðnir 12. Þá leggur maður ekki saman fimm og tólf heldur notar hærri töluna tólf sem fjölda stara þennan dag. Á þessu blaði eru skráðir þeir fuglar sem eru venjulega í görðum en það geta verið aðrar tegundir sem heimsækja garða reglubundið.  Þegar vikan er liðin tekur maður saman tölurnar, hæstu tölur hverrar tegundar, og færir inn í eyðublaðið sem finna má hér.

Það er ágætt að undirbúa garðfuglakönnunina með því að byrja að æfa sig í talningu og skráningu og þeir sem  fóðra fugla geta hafið fóðrun nokkrum dögum fyrir. Það má nefna að fólk sem bæði fóðrar fugla og tekur þátt í garðfuglakönnuninni lærir ótrúlega mikið um hegðun ýmissa fuglategunda bara með því að fylgjast með þeim.

Hvað gefur maður garðfuglum að éta? Hér eru upplýsingar

Fuglavernd selur einnig prentaða bæklinginn Garðfuglar í vefversluninni