Fuglavernd hefur hrundið af stað leitinni að Fugli ársins, annað árið í röð.
Kynntar eru til leiks tuttugu fuglar á nýuppfærðri heimasíðu keppninnar, https://fuglarsins.is/, sem m.a. voru tilnefndir af þeim sem tóku þátt í fyrra. Í það skiptið bar heiðlóan sigur úr bítum, vorboðinn okkar ljúfi.
Á heimasíðu keppninnar má sjá þá fugla sem eru í forvali: https://fuglarsins.is/. Kynntu þér keppendur og taktu þátt með því að velja þann fugl sem þú vilt sjá keppa um titilinn Fugl ársins 2022 – fimm fuglar komast pottþétt áfram. Forvalið fer fram rafrænt dagana 10.-15. ágúst á vefsíðu keppninnar.
Úrslitakosningin um Fugl ársins 2022 fer svo fram á https://fuglarsins.is/ dagana 5.- 12.september og verður sigurvegari ársins kynntur þann 16. september á Degi íslenskar náttúru.
Endilega deildu áfram, njóttu vel og góða skemmtun!
Tilgangur keppninnar er að vekja athygli á stöðu fugla og fuglaverndarmála á Íslandi, afla nýrra Fuglaverndarfélaga og styrktaraðila en ekki síst að skemmta og fræða.
Nánari upplýsingar gefur Brynja Davíðsdóttir verkefnastjóri hjá Fuglavernd: fuglarsins@fuglavernd.is og í síma 8447633.
Tveir sjálfboðaliðar nýttu frídag til að endurnýja forn skilti og setja upp ný skilti í og við Friðland fugla í Flóa. Gömlu skiltin voru orðin máð og skiltið við vegamótin sást ekki úr bíl sem ók framhjá og var orðið ansi snjáð. Nýtt skilti var sett upp til að vísa fólki veginn. Það bar tilætlaðan árangur. Á meðan skiltafólkið bætti við stikum á gönguleiðinni um Friðlandið renndu ferðamenn í hlaðið, sumir því þeir höfðu lesið um Friðlandið og ætlað sér þangað aðrir komu því að þeir sáu skiltið við vegamótin.
Sunnan vindur og skúrir á köflum var þegar verkið hófst en það brast á með blíðu þegar drukkið var te á palli fuglaskoðunarhússins að verki loknu. Ljósmyndir; Anna María Lind Geirsdóttir.
Fimmtudaginn15. júní var boðið upp á fuglaskoðun í Friðlandinu í Flóa og leiðsögumaður að þessu sinni var Trausti Gunnarsson, leiðsögumaður og ritari stjórnar Fuglaverndar og ljósmyndari hópsins var Guðrún Lára Pálmadóttir. Fimm félagar mættu til leiks fyrir utan Guðrúnu Láru og Trausta. Lómarnir voru í miklu stuði og stjöstjarnan blómstraði sem aldrei fyrr. 15 fuglategundir sáust og heyrðus. Veður var gott en stórstreymt og það var að falla að í Ölfusárós svo nokkrir blotnuðu í fæturna á síðustu metrunum. Flóðs og fjöru gætir í mýrinni. Gúmmístígvél öðru nafni vaðstígvél eru málið.
3. maí 2022 var kynningarkvöld á Canonvörum í húsnæði Origo í samstarfi við Fuglavernd. Kvöldið var vel sótt og
Alex Máni Guðríðarson, Daníel Bergmann og Sigmundur Ásgeirsson sýndu margar magnaðar ljósmyndir og sögðu skemmtilegar og áhugaverðar sögur á bak við þær.
Hómfríður Arnardóttir kynnti félagið og nokkrar vörur sem vefverslunin hefur ti l sölu.
2. júní mættu átta manns í fuglaskoðun í Friðlandi í Flóa og níunda manneskjan mætti til að stika gönguleiðina um Friðlandið. Göngustjóri var Anna María Lind Geirsdóttir sem hljóp í skarðið fyrir Trausta Gunnarsson. 4-5 m vindur var en annars milt og gott veður.
Fullt af lómum héldu uppi stuðinu með væli, korri og dirrindí. Tveir lómaungar sáust og margir lómar sem lágu stíft á . Meðal annara tegunda sem sáust og heyrðust þetta vorkvöld í mýrinni: Álft, æðarfugl, urtönd, lóa, hrossagaukur, fýll, sílamáfur, lóuþræll, jaðrakan, stelkur og óðinshani.
Eftir að lokað var fyrir aðgang að varpstæði stara undir stiganum við fuglaskoðunarhúsið voru settir upp varpkassar fyrir stara, í fyrra var enginn í þeim en þetta árið er kominn stari með hreiður. Hann var ekki ýkja hress með mannskapinn við húsið.
Samkvæmt lögum um velferð dýra (nr. 55/2013) bera sveitarfélög ábyrgð á að brugðist sé við að koma villtum dýrum í neyð til aðstoðar eða sjá til þess að þau séu aflífuð. Þeim sem verða varir við lifandi veika villta fugla í neyð í nærumhverfi manna ættu að:
Gæta þess að koma ekki mjög nálægt eða handleika fuglinn án sóttvarna svo sem einnota hanska og veiruheldrar grímu
Tilkynna strax um það til viðkomandi sveitarfélags. Sveitarfélaginu er skylt að bregðast við út frá dýravelferðarsjónarmiðum. Helst er mælt með að sveitarfélag kalli til dýralæknir til aflífunar á sjáanlega veikum dýrum eða að dýrin verði aflífuð með öðrum mannúðlegum hætti, sem ekki eykur áhættu á dreifingu á smitefni (skot, höfuðhögg eða blóðgun gæti aukið smitdreifingu). Ef sveitarfélagsskrifstofur eru lokaðar getur almenningur beint erindinu til lögreglu. Boð eftir dýralækni til hjálpar villtu dýri í neyð þarf að koma frá sveitarfélagi eða lögreglu, nema ef viðkomandi ætlar sjálfur að greiða fyrir útkallið.
Flestir hafa eflaust tekið eftir því að vorhugur er kominn í fugla landsins. Farfuglum sem verpa á Íslandi fjölgar með hverjum deginum og staðfuglar eru komnir í æxlunargír. Heillandi tilhugalíf fuglanna getur gefið hversdagsleika okkar ánægjulega fyllingu, taki menn sér tíma til að njóta fuglasöngsins og fylgjast með varphegðun fiðraðra vina okkar. Þetta tímabil í æviskeiði fuglanna er jafnan mjög krefjandi fyrir þá. Þar reynir bæði á líkamsástand og atferli fuglanna við að koma næstu kynslóð á legg og getur truflun af ýmsum orsökum haft afdrifaríkar afleiðingar. Farfuglarnir eiga að baki langt og strembið ferðalag og staðfuglanir hafa þraukað erfiðan vetur með takmörkuðu aðgengi að fæðu. Allir eiga þeir skilið að geta hugað að varpi án teljandi hindrana að hálfu okkar mannanna.
Kettir og útivera
Margir kettir eru einnig hækkandi sól fegnir og njóta útiverunnar eftir langan og kaldan vetur. Þeir eru flestir forvitnir um fuglana ekki síður en við. Þótt sumir kettir láti sér nægja að fylgjast með annríki fuglanna úr fjarlægð sækja aðrir mjög í að veiða þá. Afrán katta á fuglum og truflun sem þeir valda á varptíma getur aukið verulega á raunir fuglanna á þessu viðkvæma tímabili og gætu haft í senn neikvæð áhrif á einstaklinga og á stofna. Kettir á Íslandi voru fluttir hingað af mönnum og geta veiðar þeirra á fuglum hérlendis því ekki talist náttúrulegar, heldur verður að líta svo á að þær séu á ábyrgð manna. Þær eru þess vegna einn af fjölmörgum þáttum í nútímasamfélagi manna sem hefur neikvæð áhrif á fuglalíf og bætast ofan á neikvæð áhrif vegna búsvæðaeyðingar, loftslagsbreytinga, mengunar og ósjálfbærra veiða svo eitthvað sé nefnt.
Kattaeigendur eru stundum óviðbúnir ef í ljós kemur að skemmtilega og gæfa gæludýrið þeirra sé veiðikló. Margir vilja þó leggja sitt af mörkum til að draga verulega úr eða hindra alfarið veiðar kattanna sinna og truflun sem þeir kunna að valda. Til allrar lukku eru ýmis góð ráð til þess.
Fuglavernd hvetur eindregið alla kattaeigendur til að standa vörð um öryggi og velferð villtra fugla með því að:
1) Stýra útivistartíma kattarins. Á varptíma fugla ætti að halda ketti inni eins mikið og unnt er, en helst a.m.k. frá kl. 17 til kl. 9 næsta morgun. Gott er að gefa köttum sem fara út eitthvað sérlega girnilegt að éta hvern dag um það leyti sem þeir eiga að koma inn, til að venja þá við að koma heim á réttum tíma.
2) Nota hjálpartæki til að draga úr veiðum. Fái köttur að fara út ætti fuglakragi (t.d. Birdsbesafe®) að vera staðalbúnaður, en rannsóknir hafa sýnt fram á gagnsemi þeirra. Í einhverjum tilfellum er æskilegt að bæta við bjöllu líka. Á meðan fuglar liggja á eggjum og þangað til ungar eru orðnir vel fleygir gæti verið nauðsynlegt að setja kattasvuntu (t.d. CatBib®) á sérlega veiðiglaða ketti og þá sem eiga til að klifra í trjám til að komast í hreiður. Kattaeigendur gætu þurft að prófa sig áfram til að finna þá lausn sem virkar best á sinn kött.
3) Sjá til þess að kötturinn fái góða örvun og fæðugjafir við hæfi heima fyrir. Sé köttur saddur og sæll og fær að eltast við leikföng hjá fólkinu sínu er ólíklegra (en þó ekki útilokað) að hann sæki í þá fyrirhöfn og spennu sem fylgir veiðum.
4) Gelda köttinn eigi hann að fá að vera úti. Geldir kettir fara að jafnaði yfir minna svæði þegar þeir eru úti og hafa minni áhuga á veiðum. Þá er gelding útikatta mjög mikilvægur liður í því að koma í veg fyrir myndun villikattastofna, en slíkir stofnar geta haft verulega neikvæð áhrif á fuglalíf.
Tæplega 20 manns tók þátt í að tína rusl, leggja greinar á tjarnarbakka og snyrta til í friðlandinu í Vatnsmýrinni laugardaginnn 11. apríl s.l.
Það var léttksýjað og nokkur blástur en allir voru í föðurlandi og vel klæddir svo það kom ekki að sök. Nóg var af ruslinu en því miður gleymdist að mynda binginn.
Lóur voru komnar í mýrina svo og tjaldar og hrossagaukur.:
“Tjörnin er fuglagarður í miðri borg og umsjón og ábyrgð þessa svæðis er á hendi borgaryfirvalda.
Ástandfuglastofna Tjarnarinnar er óviðunandi og ekki í samræmi við mikilvægi fuglanna
fyrir borgarbúa. Vorin 2014 og 2015 var spyrnt við fótum og borgaryfirvöld stóðu að
andarungaeldi við Tjörnina til að styðja við hnignandi stofna. Það starf hefur borið
árangur og t.d. var eina gargandarkollan sem varp við Tjörnina í sumar úr sleppingum
frá 2015. Haustið 2017 voru ágengar plöntur í kríuvarpinu í Þorfinnshólma upprættar
og haustið 2018 í kríuvarpinu í Vatnsmýrarfriðlandi. Líkt og við höfum áður sagt, þá
fögnum við þessu frumkvæði og hvetjum til að haldið verði áfram á sömu braut.”
Dagurinn er orðinn lengri en nóttin og vorið skríður hægt áfram. Farfuglar eru farnir að koma til landins og það styttist í að loftin fyllast af söngi friðlara og ungatísti úr hreiðrum. Í kjölfarið fylgir aukin veiði katta.
Fuglavernd hefur í nokkur ár selt kattakraga frá fyrirtækinu BirdsBeSafe, Vermont, Bandaríkjunum. Kannanir hafa sýnt að kragarnir virka betur heldur en bjöllur á hálsólum til að vara fugla við aðvífandi hættu; köttur. Aftur á móti hafa kettir lært að þekkja að hljóð úr bjöllu þýðir að köttur sé í næsta nágrenni og þá er best fyrir köttinn að undribúa sig undir kattafund eða koma sér í öruggt skjól.
Í greininni sem er hlekkjuð hér kemur fram að þegar kettir fengu kraga þá fækkaði skiptunum þegar þeir komu heim með bráð. Einnig kemur fram að flestum köttum var alveg sama þó að kraganum hefði verið bætt við utanum hálsól þeirra. Aftur á móti var hluti katta mjög ósáttur við þessa viðbót og sýndu kettirnir það í verki m.a. með því að tosa kragann af sér.
Jól 2024: Hægt er að versla í vefverslun og fá sent í pósti til kl. 14 þann 23. desember. Hægt verður að sækja vöru og versla á staðnum á skrifstofu Fuglaverndar til kl. 15 sama dag. Það verður lokað um jól og Fuglavernd opnar aftur á nýju ári fimmtudag 2. janúar kl. 9. Gleðilega hátíð, fuglavinir nær og fjær. Loka
Við notum vafrakökur og aðra mælingatækni til að bæta vafraupplifun þína á vefnum okkar, sýna persónulegt efni, greina umferð um vefinn og skilja hvaðan úr veröldinni við fáum heimsóknir á vefinn okkar. Persónuverndarstefna okkar tók gildi 20. júlí 2018.
Með því að velja OK samþykkir þú notkun okkar á vafrakökum og öðrum rekjanleika.
OKNeiPersónuverndarstefna