Samstarfsaðilar frá RSPB

Í apríl heimsóttu Zbig Karpowicz og Wenceslas Gatarabirwa Fuglavernd, en báðir eru þeir starfsmenn RSPB;  Royal Society for the Protection of Birds. Zbig er verkefnisstjóri og tengill Fuglaverndar innan RSPB og Wenceslas er yfirmaður Flyway Conservation eða verndun farleiða fugla.  Hér er hægt að fræðast nánar um farleiðaverkefnið á ensku.

Votlendi mikilvæg fuglum

Votlendi eru ofarlega á baugi því að þau eru mikilvæg búsvæði og fæðuöflunarsvæði margra fuglategunda og eru stundum kölluð lungu landsins. Starfsmenn Fuglaverndar Hólmfríður  og Anna María sýndu þeim félögum Friðland í Flóa og votlendi í kringum Grunnafjörð sem er friðlýst svæði m.a. vegna fuglalífs.

Farið var í Odda á Rangárvöllum og skoðað votlendi sem að Landgræðslan hefur umsjón með, en Oddi er ríkisjörð. Þar tók á móti okkur Ágústa Helgadóttir, líffræðingur hjá Landgræðslunni.  Hún fræddi okkur um hvernig stendur til að endurheimta votlendi jarðarinnar langkeru í eigu ríkisins og sameina það votlendinu Oddaflóði. Einnig skoðuðu þau verkefni um endurheimt á Mýrunum sem gagnast bæði fuglum og fiskum, sem Fuglavernd stendur að ásamt Hafrannsóknarstofnun og Landgræðslunni.

Þeir Wenceslas og Zbig ásamt Hólmfríði heimsóttu svo m.a. Umhverfis- og auðlindaráðuneytið og áttu þar fund með Sigurði Þráinssyni og Steinari Kaldal.  Rætt var um votlendi og farleiðir fugla og möguleikann á að sækja í sjóð til endurheimtar á votlendi.