Snemma í júní sendi Fuglavernd bréf til Ísafjarðarbæjar vegna aðgerða sveitarfélagsins gegn kríuvörpum.
,,Fuglavernd vill með bréfi þessu koma á framfæri miklum áhyggjum af aðgerðum
Ísafjarðarbæjar í kríuvörpum, sem lýst hefur verið í fjölmiðlum undanfarið og hafa það að
markmiði að fæla kríu úr varplöndum nálægt byggð.”
Lögin
,,Bent er á að samkvæmt lögum um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum
spendýrum (nr. 64/1994) er krían friðaður fugl. Í lögunum, sem meðal annars hafa það að
markmiði að tryggja viðgang og náttúrulega fjölbreytni villtra dýrastofna, kemur fram að:
Úr 1. gr.:
Friðun: bann við veiðum og öðrum aðgerðum sem geta aukið vanhöld eða dregið úr
viðkomu dýra af tiltekinni tegund. Þegar rætt er um friðun tekur hún einnig til eggja og
hreiðra þeirra fugla sem njóta algerrar eða tímabundinnar friðunar.”
Krían komin á válista
,,Krían er stórkostleg lífvera. Hún er heimsmetshafi í öllu dýraríkinu þegar kemur að árlegum
farvegalengdum. Krían er langlíf, verður að jafnaði um 30 ára, og ferðast um 80-90.000 km á
ári, sem jafngildir því að hver fugl fari um þrisvar sinnum fram og til baka til tunglsins á ævi
sinni. Það er því kannski engin furða að hún verji afkvæmi sín með miklum tilþrifum, eftir að
hafa lagt á sig þetta mikla ferðalag til að komast á varpstöðvar.1
Því miður hefur krían átt verulega undir högg að sækja frá því snemma á þessari öld, að
öllum líkindum vegna breytinga í hafinu sem mögulega eru til komnar vegna loftslagsvár af
mannavöldum. Hún telst vera tegund í nokkurri útrýmingarhættu (VU) skv. válista íslenskra
fugla. Mikilvægt er að hafa í huga að 20–30% af heimsstofni kríunnar er að finna hér á landi
á sumrin.”
Aðgerðir og lögin
,,Að lokum vill Fuglavernd leggja áherslu á að kjósi Ísafjarðarbær að halda uppteknum hætti
með notkun fælingaraðgerða er mjög brýnt að rannsóknir á áhrifum þessara aðgerða fari
fram, til að skilja til fullnustu hvaða áhrif þær hafa á bæði kríuna og aðra friðaðar tegundir
sem verpa á svipuðum slóðum, og til að mæla hversu langt frá fælingarbúnaðinum þau áhrif
ná. Fuglavernd getur haft milligöngu um að koma slíkum rannsóknum á, en áréttar þó að
notkun fælingarbúnaðar í vörpum friðaðra fuglategunda stríðir gegn markmiðum gildandi
laga.”
Bréfið í heild sinni má lesa hér.
Bæjarráð Ísafjarðarbæjar
Erindið var tekið fyrir í bæjarráði Ísafjarðarbæjar og afgreitt á eftirfarandi hátt: „Kríuvarp í Tunguhverfi: Lagt fram bréf frá Fuglavernd dags. 5. júní 2023, þar sem komið er á framfæri áhyggjum af aðgerðum Ísafjarðarbæjar í kríuvörpum, sem lýst hefur verið í fjölmiðlum undanfarið og hafa það að markmiði að fæla kríu úr varplöndum nálægt byggð. Fjallað var um málið á fundi bæjarráðs þann 12. júní sl. þar sem eftirfarandi var bókað „Bæjarráð þakkar erindið og vísar málinu til umhverfis- og framkvæmdanefndar. Við undirbúning máls þessa var reynt að velja vægustu leiðina til að hliðra varpi kríunnar, og að það yrði gert áður en fuglinn myndi setjast, en Ísafjarðarbær hefur fengið ítrekaðar beiðnir frá íbúum í Skutulsfirði um aðgerðir. Þá skal horft til þess að kríunni sjálfri er hætta búin á að verpa á þessu svæði, enda er varplandið mjög nálægt vegi, og hefur dauði unga síðustu ár verið mikill vegna þess. Ísafjarðarbær hefur verið í samskiptum við Nave til að finna lausn á málinu og verður áfram, og felur bæjarráð bæjarstjóra að halda áfram samtali við Nave, auk Fuglaverndar vegna málsins.“