Myndasýning og bókakynning: Fálkinn. Daníel Bergmann sýnir og segir frá

Nýverið gaf Daníel Bergmann út bókina Fálkinn. Hann mun sýna myndir af fálkum og segja frá tilurð myndanna í sal Arionbanka.

Fálkinn er stærsti og glæsilegasti fulltrúi fálkaættarinnar. Hann er harðgerður ránfugl sem lifir nyrst á hjara veraldar í löndunum umhverfis Norðurheimskautið. Fálkinn er sérhæfður ránfugl og háður rjúpunni sér til lífsviðurværis. Þetta sérstaka samband ránfugls og bráðar hefur orðið uppspretta kvæða og þjóðasagna. Á öldum áður voru fálkar fangaðir, fluttir úr landi og þjálfaðir til veiða. Íslenskir fálkar voru konungsgersemi og eftirsóttir af aðlinum í Evrópu til veiðileikja. Frá 1940 hefur fálkinn verið alfriðaður og sérstakt leyfi þarf til að nálgast hreiður hans á varptíma. Fálkinn var um tíma í skjaldarmerki þjóðarinnar og við hann er kennd fálkaorðan, æðsta heiðursmerki sem forseti Íslands veitir. Ókrýndur sem slíkur er fálkinn ótvíræður þjóðarfugl Íslendinga.

Daníel Bergmann hefur fylgst með fálkum og ljósmyndað þá í náttúru Íslands í rúma tvo áratugi. Aldrei áður hefur birst á prenti slíkt samansafn ljósmynda en í bókinni eru 115 myndir teknar á 23 ára tímabili. Myndirnar gefa innsýn í líf fálkans á öllum árstímum og þeim til stuðnings er margvíslegur fróðleikur og frásagnir af fálkum.

Aðgangseyrir:

Félagar Fuglaverndar: Innifalið í árgjaldi.

Utanfélagsmenn: 1000 kr . Enginn posi á staðnum vinsamlega komið með seðla.

 

Bí, bí, bí og dirrindí

Ljósmynd © Daníel Bergmann

Fuglavernd, Canon og Origo efna til viðburðar þar sem öflugir fuglaljósmyndarar munu sýna ljósmyndir og fræða fólk um fuglaljósmyndun. Þau Daníel Bergmann, Guðbjartur Ísak Ásgeirsson og Jónína G. Óskarsdóttir verða með myndasýningar og segja sögurnar á bak við myndirnar.

Sindri Skúlason, varaformaður Fuglaverndar og fuglaljósmyndari, opnar viðburðinn, kynnir félagið í stuttu máli og tæpir á siðfræði fuglaljósmyndunar. Sýndar verða ljósmyndir af íslenskum og erlendum fuglategundum og mun Daníel Bergmann t.d. sýna myndir frá Svalbarða og Suðurhöfum (Antarktíku, Suður-Georgíu og Falklandseyjum) og nefnist fyrirlestur hans Norður og niður.

Origo mun sýna úrval af Canon myndavélum og linsum en því miður verða ekki langar aðdráttarlinsur á staðnum þar sem Canon er búið að senda mikið magn til Rússlands vegna HM í knattspyrnu.

Viðburðurinn fer fram í Origo, Borgartúni 37. Húsið opnar kl. 19:00 þar sem áhugasamir geta skoðað Canon ljósmyndabúnað en myndasýningar hefjast kl. 19.30.

Ókeypis er á viðburðinn en nauðsynlegt er að skrá sig.

© Guðbjartur Ísak Ásgeirsson

 

© Jónína G. Óskarsdóttir

Ljósmyndasamkeppni CAFF

CAFF, stendur fyrir ljósmyndasamkeppni á starfsvæði sínu á norðurheimskautinu.

Keppninni er skipt í fjóra flokka:

Verðlaun verða veitt í hverjum flokki, en aðalverðlaunin eru ljósmyndaferð til Rovaniemi í Finnlandi í fjórar nætur. Allar nánari upplýsingar eru á https://photocontest.arcticbiodiversity.is/. Skilafrestur er til 1. ágúst 2018.

Ljósmyndanámskeið – stafræn fuglaljósmyndun

Fuglavernd stendur fyrir námskeiði í stafrænni fuglaljósmyndun dagana 19. – 21. maí 2017.

Markmiðið er að kynna grunnatriði í fuglaljósmyndun; tæki, tækni og nálgun við fugla. Farið verður yfir hvaða myndavélar henta best, hvernig linsur, þrífætur, forrit og fleiri tæknileg atriði. Rætt verður um myndbyggingu, felutjöld, ljósmyndun úr bíl og annan útbúnað.

Námskeiðið getur nýst jafnt byrjendum sem lengra komnum.

Verð fyrir félagsmenn Fuglaverndar eru 35.000 kr. en annars 39.000 krónur. Bent er á að mörg stéttarfélög taka þátt í námskeiði af þessu tagi, allt að 50% af námskeiðsgjaldi.

Námskeiðslýsing

Föstudagur frá 18:30-22:00 – innifalið er léttur kvöldverður
Í fyrsta hluta er farið yfir grunnatriðin. Farið verður yfir hvað skiptir máli við val á myndavélum, linsum og aukabúnaði.  Stillingar og tæknileg atriði verða rædd.  Farið verður í hluti eins og myndbyggingu og hvað þarf að hafa í huga þegar verið er að mynda. Bent verður á góða staði til fuglaljósmyndunar, skoðað hvernig best er að nálgast fugla og farið verður í ýmis hagnýt atriði er snúa að fuglaljósmyndun.

Laugardagur frá 13:00-17:00 – sameinast í bíla
Í öðrum hluta er farið í vettvangsferð þar sem þátttakendur spreyta sig í fuglaljósmyndun. Farið verður á nokkra góða fuglaljósmyndastaði sem eru eftirsóttir á höfðuborgarsvæðinu. Sýnt hvernig þekking á íslensku fánunni nýtist í að nálgast viðfangsefnið.

Sunnudagur frá 13:00-17:00
Þriðji hluti er svo helgaður úrvinnslunni og frekari leiðum til að öðlast færni í bæði fuglaljósmyndun og eftirvinnslu. Farið yfir helstu atriði við lagfæringu mynda og hvaða forrit er best að nota.

Skráning

Skráning á ljósmyndanámskeið 19. – 21. maí 

 

Viðburðurinn á Facebook: Ljósmyndanámskeið – stafræn fuglaljósmyndun

Canon kynning og myndakvöld

Fuglavernd, Canon og Nýheri efna til viðburðar fimmtudagskvöldið 30. mars kl. 19:30 þar sem öflugir fuglaljósmyndarar munu sýna ljósmyndir auk þess sem veitt verður fræðsla um fuglaljósmyndun.

Á viðburðinum munu Eyþór Ingi Jónsson, Gunnlaugur Sigurjónsson og Ingi Steinar Gunnlaugsson vera með myndasýningar og segja sögurnar á bak við þeirra myndir.

Þá mun Jóhann Óli Hilmarsson, formaður Fuglaverndar og fuglaljósmyndari kynna félagið í stuttu máli og tæpa á siðfræði fuglaljósmyndunar.

Úrval af Canon ljósmyndabúnaði til sýnis.

Frá Canon Europe hefur Nýherji fengið lánaðar aðdráttarlinsur sem verða til sýnis, m.a. EF 200-400 mm f/4L IS USM Extender 1.4X, EF 400mm f/2.8L IS II USM og EF 500 mm f/4L IS II USM.

Þá verða nýjustu Canon EOS myndavélarnar á staðnum, m.a. EOS 7D Mark II, EOS 5D Mark IV og EOS-1D X Mark II.

Viðburðurinn fer fram hjá Nýherja, Borgartúni 37 og hefst kl. 19:30. Húsið opnar kl. 19:00 þar sem áhugasamir geta skoðað Canon ljósmyndabúnað.

Frítt inn og allir velkomnir, en nauðsynlegt er að skrá sig á vef Nýherja.

Skráðu þig á Fuglar og ljósmyndun með Canon

Viðburðurinn á Facebook: Canon kynning og myndakvöld 30. mars

Fuglar og ljósmyndun 19.03.2015

Fuglavernd, Canon og Nýherji verða með fræðslufund um fuglaljósmyndun fimmtudagskvöldið 19. mars 2015 ásamt því að sýna aðdráttarlinsur frá Canon. Þar munu bæði atvinnumenn og áhugafólk um fuglaljósmyndun veita fræðslu, en meðfram því að leggja áherslu á fuglavernd verður farið í tæknileg atriði sem og praktíska hluti, eins og t.d. hvernig er best að nálgast fugla í sínu náttúrulega umhverfi. Viðburðurinn fer fram í Nýherja, Borgartúni 37, og hefst kl. 19:30. Þátttaka er ókeypis en óskað er eftir skráningu (hér er linkur á skráningarsíðu). Jóhann Óli Hilmarsson fjallar um virðingu fyrir viðfangsefninu og kemur þar aðeins inná löggjöf um fuglavernd. Þá fjallar hann um góða staði til að ljósmynda fugla ásamt því að sýna myndir af fuglum í umhverfi sínu. Sindri Skúlason fer yfir listina að mynda fugla ásamt því að fara lauslega í tæknileg atriði og hvernig best er að nálgast fugla og hvað sé mikilvægt að hafa í huga við fuglaljósmyndun (hann tók myndina af flórgoðanum). Ásta Magnúsdóttir og Helga Guðmundsdóttir sýna valdar myndir og segja sögurnar á bak við þær. Nýherji hefur fengið lánaðar aðdráttarlinsur hjá Canon sem verða til sýnis, m.a. hina nýju EF 100-400mm f/4.5-5.6L IS II USM, EF 200-400mm f/4L IS USM Extender 1.4X, EF 500mm f/4L IS II USM o.fl. Skemmtilegur og spennandi viðburður fyrir alla áhugasama um fugla og fuglaljósmyndun!

Myndasýning frá Svalbarða

Miðvikudaginn 25.febrúar næstkomandi mun Gunnlaugur Sigurjónsson áhugaljósmyndari segja frá, í máli og myndum, ferð sem farin var til Svalbarða sumarið 2013.  Atburðurinn verður haldinn í Borgartúni 19 í húsakynnum Arion Banka og hefst kl. 20:30.

Gunnlaugur, Jóhann Óli Hilmarsson og Daníel Bergmann fóru sumarið 2013 með fjölþjóðlegum hópi ljósmyndara til Svalbarða. Sýndar verða myndir af landslagi, dýra- og fuglalífi Svalbarða. Í upphafi ferðar var nokkrum dögum eytt í nágrenni Longyearbyen og svo var farið í siglingu norður fyrir Svalbarða inn í hafísinn þar sem komist var í návígi við ísbirni og rostunga.
Sýningin hefst stundvíslega kl. 20:30 og er öllum opin svo lengi sem húsrúm leyfir. Aðgangur er ókeypis fyrir félaga í Fuglavernd en aðgangseyrir er 500 krónur fyrir aðra. Samkvæmt venju verður hægt að nálgast hreiðurkassana okkar, fóðrara, fuglakort og eldri tölublöð af Fuglum – en við erum ekki með posa.
Ljósm: Gunnlaugur Sigurjónsson.