Fuglalíf Tjarnarinnar í Reykjavík 2022

“Fuglalífi Tjarnarinnar hefur hnignað á liðnum árum og áratugum og það er óumdeilt.
Við teljum að þrjár meginskýringar séu á þessari þróun og höfum rökstutt það í fyrri
skýrslum. Skýringar okkar eru:
• fæðuskortur
• afrán
• hnignun búsvæða.

Við höfum áður rætt ítarlega mögulegar mótvægisaðgerðir og viljum í því sambandi
benda á Tjarnarskýrslur frá 2011 og 2112 (Ólafur K. Nielsen og Jóhann Óli Hilmarsson
2011 og 2012, sjá líka Ólaf K. Nielsen 2013). Boðskapur okkar er sá sami og fyrr og í
hnotskurn felast tillögur okkar í því að viðhalda umgjörðinni, stunda ræktunarstarf og
hafa eftirlitsmann með Tjarnarfuglunum.”

Árlega kemur út skýrsla um fuglalíf Tjarnarinnar og er hún frlóðleg lesning fyrir vini Tjarnarinnar en ekki alltaf að sama skapi ánægjuleg.

Hér er hægt að lesa skýrsluna um fuglalíf Tjarnarinnar árið 2022

Sjálfboðaliðar Fuglaverndar – mikilvægur hlekkur

Sjálfboðaliðastarf Fuglaverndar er mikilvægur hlekkur í starfi þess. Það þarf að taka til hendinni á svæðum sem að félagið er með í sinni umsjón og síðan er þetta vettvangur fyrir félaga til að hittast og kynnast.

Nokkrir sjálfboðaliðar Fuglaverndar komu saman í Vatnsmýrinni laugardaginn 15. apríl og tóku til hendinni við að hreinsa rusl í kringum friðlandið og upp úr tjörnum og síkjum. Þetta var aldeilis þarft verk og alltaf er fólk jafn hissa á því hvað safnast saman: Plastbretti af bílum, einangrunarplast, plast umbúðir stórar og smáar, þúsund sígarettusíur (filter) og þar fram eftir götunum.  Veður var milt og gott og vannst verkið vel og þáðu allir hressingu í gróðurhúsi Norræna hússins í hléinu.

 

 

 

Tveir sjálfboðaliðar merktu göngustíg í Friðlandi í Flóa 23. apríl. Þann morgun var slatti af lóuþrælum í flóanum.  Nokkuð fleri sjálfboðaliðar mættu í Friðlandið 28. apríl þegar skyndilega hafði snjóað í milt vorið. Gengið var rösklega til verka: Kamar þrifinn, fuglaskoðunarhús þrifið, tröppur yfir girðingu festar, hlið að göngustíg lagað, göngubrú færð, fuglaskoðunarhús skrapað undir fúavörn og týnt rusl. Mikið vatn var báðar helgarnar í flóanum  og há stígvél komu að góðum notum. Þegar sjálfboðaliðarnir tóku hádegishlé þá hurfu ský af himni og sólskinið náði að verma Friðland, fugla og fólk.  Fuglar hímdu á veginum að Friðlandinu og meðal tegunda sem þar sáust á flugi, sundi eða vappi í Friðlandinu voru lómar, lóur, starar, hrossagaukar og álftir.

Alþjóðlegur dagur votlendis í dag 2. febrúar

Eftirfarandi er af heimasíður Votlendissjóðsin, en á heimasíðu hans er meiri upplýsingar.

Mikið hefur gengið á votlendi landsins undanfarna áratugi. Í kjölfar jarðræktarlaga (1923) og með tilkomu stórvirkra vinnuvéla á fimmta áratug þessarar aldar, urðu þáttaskil í nýtingu mýrlendis hér á landi. Upphófst þá tímabil stórfelldrar framræslu sem styrkt var með framlögum úr opinberum sjóðum.
Til að byrja með voru láglendismýrar, sem eru víða frjósamar og vel fallnar til ræktunar, ræstar fram til túngerðar. Seinna meir jókst mjög framræsla mýra til að bæta þær sem beitiland. Vegagerð og þéttbýlismyndun hafa einnig tekið sinn toll og við virkjanir fallvatna hefur straumvötnum verið breytt og landi sökkt undir miðlunarlón.
Nú er svo komið að tiltölulega lítið er eftir af óröskuðu votlendi á láglendi. Sem dæmi má nefna að athuganir hafa leitt í ljós að einungis 3% alls votlendis á Suðurlandi er eftir óraskað og einungis 18% votlendis á Vesturlandi (sjá: Íslensk votlendi. Verndun og nýting – Háskólaútgáfan 1998).
Þessi saga hnignunar votlendis hér á landi er ekki einsdæmi; svipaða sögu er að segja um allan heim þar sem örar tækniframfarir hafa orðið.

Kort af Friðlandinu í Flóa
Kort af Friðlandinu í Flóa

Fuglavernd, í samstafi við Árborg hefur endurheimt votlendi í Flóanum norðan Eyrarbakka við bakka Ölfusár.

Jóhann Óli Hilmarsson segir frá hvað gerðist eftir að mýrin í  Friðlandi í Flóa var endurheimt

Meira um votlendi á heimasíðunni okkar

Vorverkin í Vatnsmýrinni 2019

Laugardaginn 6. apríl 2019 standa Hollvinir Tjarnarinnar fyrir árvissri tiltekt á friðlandinu í Vatnsmýrinni við Norræna Húsið.

Við ætlum að hittast við Norræna húsið kl. 11. Helstu verkefni eru ruslatínsla, hanskar og pokar verða á staðnum. Einnig verður unnið með trjágreinar til varnar landbroti eins og undanfarin ár.

Norræna húsið og Aalto bistro bjóða uppá hádegishressingu, súpu og kaffi. Sjálfboðaliðar eru vinsamlegast beðnir um að skrá sig, til að áætla fjölda.

Skráning í tiltekt í friðlandinu í Vatnsmýri laugardag 6. apríl kl. 11-15. 

Eins og alltaf er velkomið að koma síðar um daginn og slást í hópinn.

Dagur sjálfboðaliða

Í dag er alþjóðlegur dagur sjálfboðaliða. Fuglavernd er rík af sjálfboðaliðum sem á hverju ári leggja starfseminni til tíma sinn og vinna ólaunuð störf í þágu fuglaverndar, búsvæðaverndar og leggja til starfskrafta sína í fræðslustarfsemi á vegum félagsins.

Á hverju ári koma sjálfboðaliðar saman til vorhreinsunar í Friðlandinu í Vatnsmýrinni fyrstu helgina í apríl, sá hópur hefur kallað sig Hollvini Tjarnarinnar. Í Friðlandinu í Flóa hafa sjálfboðaliðar tekið að sér að veita leiðsögn um friðlandið, vanalega annað hvort á laugardögum eða sunnudögum í júní.

Í vetrarstarfinu eru fræðslu- og myndakvöld veigamikill þáttur og allir þeir sem taka að sér að flytja erindi á vegum Fuglaverndar gera það í sjálfboðavinnu. Þegar félagið stendur fyrir kynningu á starfsemi sinni höfum við líka geta kallað til sjálfboðaliða til að standa vaktina. Þá er utanumhald á garðfuglatalningu sem stendur allan veturinn í 26 vikur og garðfuglahelgin síðustu helgina í janúar í höndum sjálfboðaliða. Fjölmargir ljósmyndarar leggja okkur lið á hverju ári með því að láta okkur í té myndir og myndefni til þess að vekja athygli á brýnum málefnum, allt í sjálfboðastarfi.

Síðast en ekki síst má nefna setu í stjórn félagsins sem er í sjálfboðastarfi þeirra sem gefa kost á sér. Stjórn félagsins vinnur ályktanir og sendir á opinbera hagsmunaaðila í stjórnsýslunni bæði hvað varðar löggjöf og skipulagsmál.  Stjórnarmenn vinna ötullega að fræðslu á vegum félagsins, með rannsóknum, skrifum og myndum en þess má geta að tímarit félagsins, Fuglar er allt unnið í sjálfboðavinnu þ.m.t. umbrot blaðsins.

Öllum sjálfboðaliðum sem hafa lagt okkur lið, færum við okkar bestu þakkir.

Til hamingju með daginn.

Tiltekt í friðlandinu í Vatnsmýrinni – Hollvinir tjarnarinnar

Hollvinir tjarnarinnar eru óformlegur hópur sjálfboðaliða á vegum Fuglaverndar sem hafa árlega hittst við Norræna Húsið og tekið til í friðlandi fugla í Vatnsmýrinni. Sjálfboðaliðar hafa týnt rusl á svæðinu og lagt greinar í bakka til að varna landbroti og fleiri verk.   Framkvæmdir á vegum Reykjavíkurborgar standa yfir á svæðinu. Markmiðið er að gera svæðið  aðlaðandi varpsvæði fyrir endur og mófugla.

Þessa sömu helgi, 7.-8. apríl er umhverfishátíð í Norræna húsinu,  frá kl. 13-17 báða dagana og verður Fuglavernd einnig með kynningu á félaginu þar.

Friðlandið í Vatnsmýrinni er með Facebooksíðu

Í ár ætlum við að hittast í tiltektina laugardaginn 7. apríl kl. 13-17.

Allir velkomnir.

 

Hollvinir Tjarnarinnar 2013

Tiltekt í friðlandinu í Vatnsmýri

Laugardaginn 8. apríl 2017 standa Hollvinir Tjarnarinnar fyrir árvissri tiltekt á friðlandinu í Vatnsmýrinni við Norræna Húsið.

Við ætlum að hittast við Norræna húsið kl. 11. Helstu verkefni eru ruslatínsla, hanskar og pokar verða á staðnum.

Norræna húsið og Aalto bistro bjóða uppá hádegishressingu, súpu og kaffi. Sjálfboðaliðar eru vinsamlegast beðnir um að skrá sig, til að áætla fjölda.

Skráning í tiltekt í friðlandinu í Vatnsmýri laugardag 8. apríl kl. 11-15. 

Eins og alltaf er velkomið að koma síðar um daginn og slást í hópinn.