jún, 2013
Fuglaganga í Heiðmörk 4. júlí n.k.
Fuglavernd í samvinnu við Skógræktarfélag Reykjavíkur verður með fuglaskoðun í Heiðmörk fimmtudagskvöldið 4. júlí. Lagt verður af stað stundvíslega klukkan 20:00, frá Elliðavatnsbænum, sjá meðfylgjandi kort, og gengið meðfram vatninu og um nágrenni þess. Við megum búast við að sjá jaðrakan, óðinshana og himbrima ásamt öðrum tegundum og mun Edward Rickson leiða gönguna.
Allir velkomnir – munið að taka sjónaukann og jafnvel fuglabókina með og vera vel klædd.
Á ljósmyndinni má sjá óðinshana veitast að jaðrakan. Sigurjón Einarsson tók myndina.
jún, 2013
Fuglaskoðun í Vatnsmýrinni 29. júní
Fuglavernd í samvinnu við Norræna húsið býður upp á fuglaskoðun í friðlandinu í Vatnsmýrinni og að Tjörninni núna á laugardaginn 29.júni. Lagt verður af stað frá andyri norræna hússins klukkan 16:00 en gangan tekur um klukkutíma. Arnór Þrastarson mun leiða gönguna en skoðað verður fuglalífið á Hústjörn, Vatnsmýrartjörn og Þorfinnstjörn. Þetta er síðasta gangan í þessari röð. Róleg og þægileg fuglaskoðun í miðborginni.
jún, 2013
Krossnefir sjást á Suðurlandi
Stórir hópar af krossnefjum eru nú mættir á Hjaltlandseyjar og það lýtur út fyrir að einhverjir hafi borist hingað líka. Hópur sást á Selfossi í gær og líklegt að fleiri berist með lægðum. Krossnefur er stór og frekar sérkennileg finka með gogg sem er sérhæfður til að ná fræjum úr könglum. Goggurinn er stór og ganga skoltarnir á víxl og af því ber hann nafn sitt. Örn Óskarsson tók þessa mynd en á henni sjáum við karl hægra megin, oftast rauður með dekkri vængi, og kerlu vinstra megin gulgræn.
maí, 2013
Fuglaskoðun í Flóa 16. júní 2013
maí, 2013
Fálkaskuggamynd á glugga
Til að varna því að fuglar fljúgi á rúður og drepist eða slasist höfum við látið útbúa skuggamynd af fálka til að líma á rúður. Algengust eru þessi slys vor og haust og fórnarlömbin oftast skógarþrestir. Þúfutittlingar, maríuerlur, silkitoppur og hrossagaukar eiga það þó einnig til að fljúga á. Útlínur fálkans fær fuglana til að breyta flugstefnu sinni og forða þeim þannig frá árekstri við gluggana. Hægt að panta hana hér á söluvörusíðu félagsins.
maí, 2013
Mikilvæg haffuglasvæði
Hjá Fuglavernd starfar nú Ellen Magnúsdóttir fuglafræðingur tímabundið við að safna saman upplýsingum um mikilvæg fuglasvæði við og í hafinu, svokölluð IBA Marine.Við berum ábyrgð á nálægt fjórðungi af sjófuglastofnum N-Atlantshafsins miðað við lífmassa og því mikilvægt að afla okkur frekari þekkingar á búsvæðum þeirra.
Álka. Jóhann Óli Hilmarsson.
maí, 2013
Gönguferðir um Krýsuvíkursvæðið 9. maí
Fimmtudaginn 9. maí bjóða náttúruverndarsamtök alla náttúruunnendur velkoma til Krýsuvíkur til að skoða þetta fallega svæði. Kynnisferðir bjóða upp á sætaferðir frá BSÍ kl. 10:15 með viðkomu á N1 Hafnarfirði kl. 10:30 – en þeir sem ætla að nýta sér það sendi okkur línu á fuglavernd@fuglavernd.is eða skrái sig á fésbók síðu atburðarins.
Dagskrá hefst í Seltúni kl. 11:00.
Boðið verður upp á nokkrar stuttar og fræðandi gönguferðir um svæðið þannig að fólk geti valið þá göngu sem það vill eða farið í allar göngurnar, sem verða leiddar af staðkunnugum.
1. Hverasvæðið í Seltúni kl. 11:00
Gengið um litríkt hverasvæðið og fyrirbrigði þess skoðuð í fylgd jarðfræðings.
Seltún hafnaði í orkunýtingarflokki í rammaáætlun.
2. Sveifluháls – Pínir kl. 11:30
Gengið verður upp að hvernum Píni ofan við Seltún. Örlítið ofar á hálsinum fæst
gott útsýni yfir fyrirhugað virkjanasvæði og næsta umhverfi.
3. Grænavatn – Austurengjahver kl. 12:15 – 13:30.
Frá hinu iðagræna Grænavatni og upp í Austurengjar er stutt ganga. Austurengjahver var settur
í biðflokk í rammaáætlun.
Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands, Náttúruvaktin, Landvernd, Náttúruverndarsamtök Íslands, Framtíðarlandið, Fuglavernd og fleiri náttúruverndarsamtök.
maí, 2013
Dagsferð í fuglaskoðun á Reykjanesi
Laugardaginn 11. maí verður Fuglavernd með fuglaskoðunarferð um Reykjanesið. Helgi Guðmundsson leiðsögumaður og fuglaáhugamaður leiðir ferðina. Lagt verður af stað frá Höfða klukkan 9:00 að morgni þess 11. maí stundvíslega en áætlaður komutími til baka verður um klukkan fimm. Fólk þarf að muna að taka með sér sjónauka, jafnvel fuglabók, nesti fyrir allan daginn og gott er að hafa heitt á brúsa. Skráning er á netfangið fuglavernd@fuglavernd.is eða í síma 5620477 og kostar kr. 8000 kr. fyrir félagsmenn og kr. 10.000 fyrir utanfélagsmenn. Farið verður í ferðina ef 12 skrá sig en hámark eru 17 þátttakendur. Bendum þó á að síðasta vor seldist upp á nokkrum dögum.
Eftirfarandi er stutt leiðarlýsing birt með fyrirvara.
Farið verður frá Höfða kl. 09:00 og litið til fugla á Álftanesi þar sem margæsir eru nú í þúsundavís og stórir hópar af kríum og rauðbrystingum. Ef veður leyfir verður jafnframt skoðað flórgoða- og hettumávavarp á Ástjörn.
Ekið suður með sjó og numið staðar á helstu fuglaskoðunarstöðum, s.s. við höfnina í Garði, þar sem e.t.v. má sjá skrofur og súlur fljúga hjá. Við Garðskaga má jafnframt búast við sjófuglum og enn fremur safnast þar oft fjöldi vaðfugla í fjörur. Í Sandgerði eru einnig fjölmargir vaðfuglar og má að líkindum sjá sanderlur í fjörum og óðinshana á tjörnum.
Því næst verður ekið í átt að Ósabotnum og komið við í Höfnum. Þá verður litið til hafs við Valahnjúk á Reykjanesi þar sem Eldey blasir við skammt undan landi. Í Valahnjúk verpa m.a. fýll, rita og teista.
Ekið til austurs um Grindavík og Ögmundarhraun að Krýsuvíkurbergi. Í berginu verpa allir íslenskir svartfuglar: lundi, álka, langvía og stuttnefja, auk fýls og ritu. Ef veður og færð leyfir verður ekið niður að bjarginu og svipast um eftir bjargfuglum. Síðan verður haldið hjá Kleifarvatni til Reykjavíkur.
Þessa mynd af óðinshana tók Jakob Sigurðsson.
maí, 2013
Fuglaskoðun á Álftanesi 12. maí
Í tilefni af alþjóðlega farfugladeginum munum við vera með fuglaskoðun á Álftanesi sunnudaginn 12.maí. Alflestir farfuglarnar eru þá komnir. Ólafur Torfason mun leiða hópinn en lagt verður af stað frá Kasthústjörn klukkan 13:00 stundvíslega.
Ljósmyndin er af margæs en nú er mikið af þeim á Álftanesi og eru þær hér fargestir vor og haust. Okkar fargestir eru af undirtegund sem er ljósari á kviðinn og verpa á kanadísku Íshafseyjunum en hafa vetursetu á Írlandi. Aðalfæða þeirra er marhálmur, og draga þær nafn sitt af því, en þær sækja oft í tún á vorin og etur sjávarfitjung og grænþörunga. Margæsin er minnsta gæsin hér á landi, aðeins lítið eitt stærri en stokkönd. Höfundur myndarinnar er Eyþór Ingi Jónsson.
Allir velkomnir – munið að taka sjónaukan með. Það má svo gerast félagi að Fuglavernd með því að senda okkur póst á fuglavernd@fuglavernd.is en hér má sjá allt um aðildina: https://fuglavernd.is/felagar/
Hér er slóðin á vef alþjóðlega farfugladagsins: http://www.worldmigratorybirdday.org/