Hollvinir Tjarnarinnar 23. apríl 2016

Laugardaginn 23. apríl n.k munum við hittast í fuglafriðlandinu í Vatnsmýrinni og láta hendur standa fram úr ermum. Mæting ellefu í andyri Norræna hússins en allt í lagi að mæta seinna ef þannig stendur á. Það sem þarf að gera er að safna saman rusli og grisja sjálfssáðan trjágróður sem vex á varplandi anda og mófugla í friðlandinu við Norræna húsið – gott  að kippa með sér garðverkfærum, hrífum og þessháttar. Allir velkomnir en endilega sendið okkur línu á fuglavernd@fuglavernd.is ef þið ætlið að koma – aðallega til að reikna út hve margir verða í kaffi. Margar hendur vinna létt verk. Hér er tengill á kort af Tjörninni og friðlandi fugla í Vatnsmýrinni. Gaman er að segja frá því að umtalsvert minna rusl er nú á svæðinu í kringum Vatnsmýrar- og hústjörn en var í fyrra og árið áður þegar félagar Fuglaverndar mættu að þrífa. 

Aðalfundur félagsins

Aðalfundur félagsins verður haldinn laugardaginn 16. apríl 2016 kl. 13:00 í Rauða húsinu á Eyrarbakka.  Við biðjum ykkur um að skrá ykkur á netfangið fuglavernd@fuglavernd.is svo við getum pantað súpu fyrir alla. Þeir sem geta tekið farþega eða vilja þiggja far hafið einnig samband við skrifstofu. Við stefnum á að hittast á Hverfisgötunni klukkan 12 til að sameinast í bíla.

Frestur til að skila inn framboðum til stjórnarkjörs rann út 14. febrúar síðastliðinn og bárust tvö framboð en tveir hafa sagt sig úr stjórn.  Frestur til að skila inn breytingatillögum á samþykktum félagsins var 15. febrúar síðastliðinn en engar tillögur bárust.

Þeir Hlynur Óskarsson og Alex Máni Guðríðarson munu vera með erindi um fuglana á svæðinu en stefnt er að fara í fuglaskoðun eftir fundinn.

Dagskrá fundarins er samkvæmt lögum félagsins þessi:

1. Skýrsla stjórnar um starfsemi félagsins á liðnu almanaksári.
2. Lagðir fram endurskoðaðir reikningar félagsins.
3. Breytingar á samþykktum félagsins samkvæmt 8 gr.
4. Kosin stjórn samkæmt 5 gr. samþykkta félagsins.
5. Kosinn skoðunarmaður félagsreikninga og einn til vara.
6. Ákvörðun árgjalds.
7. Önnur mál.

Ástand íslenska lómastofnsins

Mánudaginn 18. apríl kl.20:30 mun Ævar Petersen halda fræðslufund um lóminn í sal Arion banka Borgartúni 18 sem ber heitið ástand íslenska lómastofnsins.

Rannsóknir hafa verið stundaðar á lómum frá árinu 2006 en fyrir þann tíma hafði þessi tegund vakið litla athygli til rannsókna hér á landi. Upphaflega voru settir ljósritar á lóma en einnig fylgst með ástandi stofnsins og varpárangri. Jafnframt hefur upplýsingum verið safnað um varpstaði lóma í landinu.

Í fyrirlestrinum verður þó mest fjallað um samanburð milli tveggja svæði í landinu, á Mýrum á Vesturlandi og Núpasveit – V-Sléttu á Norðausturlandi, sem staðið hefur yfir frá árinu 2012. Fylgst hefur verið með fjölda óðalsbundinna para, varpárangri, fæðu unga o.fl. Niðurstöður eru m.a. túlkaðar með hliðsjón af umræðunni um loftlagsbreytingar og viðkomubrest hjá sandsílum. Ýmsir aðrir umhverfisþættir hafa áhrif á fjölda, útbreiðslu og varp lóma, t.d. afrán refa, sumarþurrkar og himbrimar.

Fundurinn hefst stundvíslega kl.20:30 og er öllum opin svo lengi sem húsrúm leyfir. Aðgangur er ókeypis fyrir félaga í Fuglavernd en aðgangseyrir er 500 krónur fyrir aðra.

Ljósmyndina tók Ævar við Nýlenduvatn á Mýrum, Mýrasýslu, 25. maí 2015 en þetta er lómur á hreiðri.

Að taka góða fuglaljósmynd! 7.04.2016

Fuglavernd, Canon og Nýherji efna til viðburðar þann 7. apríl n.k. þar sem öflugir fuglaljósmyndarar munu sýna ljósmyndirnar sínar auk þess sem veitt verður fræðsla um fuglaljósmyndun.

Jóhann Óli Hilmarsson, formaður Fuglaverndar og fuglaljósmyndari mun kynna félagið í stuttu máli og tæpa á siðfræði fuglaljósmyndunar.  Síðan sýna þau Alex Máni, Elma Benediktsdóttir, Finnur Andrésson og Sindri Skúlason myndirnar sínar og segja sögurnar á bak við þær.

Nýherji hefur fengið lánaðar aðdráttarlinsur hjá Canon sem verða til sýnis, m.a. EF 200-400mm f/4L IS USM Extender 1.4X og EF 500mm f/4L IS II USM o.fl. Þá verður nýjasta flaggskip Canon ,EOS-1D X Mark II, væntanlega á staðnum!

Viðburðurinn fer fram í Nýherja, Borgartúni 37. Húsið opnar kl. 19:00 þar sem áhugasamir geta skoðað Canon ljósmyndabúnað. Ókeypis er á viðburðinn en nauðsynlegt er að skrá sig (linkur hér).

Ljósmyndina af toppandarkollunni tók Finnur Andrésson.

Áskorun til grænlenskra stjórnvalda

Fuglavernd skorar á Grænlensk stjórnvöld að hlífa stuttnefjunni. Það hefur vakið athygli umheimsins að grænlenska landsstjórnin hefur heikst á að friða stuttnefjuna, þrátt fyrir að fjöldi aðvörunarbjalla hafi hringt undanfarin ár um að hún stæði á barmi útrýmingar. Fuglavernd ásamt fuglaverndarsamtökum í Danmörku, Noregi, Bandaríkjunum og Alþjóðasamtökum BirdLife hafa skorað á grænlensku landsstjórnina að stöðva alla veiði á stuttnefju. Það stefnir í að veiðar útrými tegundinni sem varpfugli í Grænlandi á fáum árum en gríðarlegt veiðiálag er á fugla við Vesturströnd Grænlands. Stuttnefjum sem verpa hér við land hefur fækkað mikið á síðustu árum og er talsvert af þeim drepið á vetrarstöðvum vestur af Suður-Grænlandi. Þar eru bæði mikilvægar varpstöðvar grænlenskra stuttnefja og vetrarstöðvar íslenskra. Fuglaverndarsamtökin skora á landsstjórnina að nýta náttúruauðlindir þess á sjálfbæran hátt.

Ljósmynd: Lars Maltha Rasmussen/DOF

Fundartörn um fuglameðafla

Í síðustu viku áttum við fundi með ýmsum aðilum í sjávarútvegi, þar sem helsta umræðuefnið var fuglameðafli á grásleppuveiðum. Við töluðum við fulltrúa frá Hafró, Fiskistofu, Landsambandi smábátaeiganda, Marine Stewardship Council, og Icelandic Sustainable Fisheries. Rory Crawford sem vinnur fyrir BirdLife International og RSPB Scotland tók þátt og Hólmfríður Arnardóttir og Erpur Snær Hansen fyrir hönd félagsins.

 

Garðfuglahelgin nálgast

Garðfuglahelgin verður að þessu sinni dagana 29.janúar-1.febrúar 2016. Framkvæmd athugunarinnar er einföld, það eina sem þátttakandi þarf að gera er að fylgjast með garði í klukkutíma  föstudaginn 29. jan., laugardaginn 30. jan., sunnudaginn 31. jan. eða mánudaginn 1. feb. Skrá hjá sér hvaða fugla viðkomandi sér og mesta fjölda af hverri tegund á meðan athugunin stendur yfir, þ.e. þá fugla sem eru í garðinum en ekki þá sem fljúga yfir.

Gott er að hefja undirbúning talningar nokkrum dögum áður með því að hefja daglegar fóðurgjafir til að lokka að fugla. Misjafnt er hvaða fóður hentar hverri fuglategund. Upplýsingar um fóðrun garðfugla er hægt að finna á vefsíðum um “fóðrun” og einnig í Garðfuglabæklingi Fuglaverndar sem fæst á skrifstofunni eða má panta á netfanginu fuglavernd@fuglavernd.is eða í síma 5620477.

Að lokinni athugun skal skrá niðurstöður með því að sækja eyðublaðið hér fyrir neðan (nr.1), prenta og fylla það út. Hægt er að senda það í pósti til Fuglaverndar, Hverfisgötu 105,101 Reykjavík.
Einnig er hægt að opna eyðublaðið í tölvunni – sækja eyðublað nr.2- og skrá inn upplýsingarnar beint, vista og hengja við tölvupóst (attachment) og senda á póstfang garðfuglavefsins, gardfugl@gmail.com.

[one_third_last][downloads show=”category” cat=”gardfuglahelgi”][/one_third_last]

Aðalfundur og stjórnarkjör

Aðalfundur Fuglaverndar verður að þessu sinni laugardaginn 16. apríl.
Frestur til að skila inn framboðum til stjórnarkjörs rennur út 14. febrúar og tillögum að breytingum á samþykktum félagsins 15. febrúar. Í ár eru þrjú sæti laus.

Á hverju ári ganga þrír úr stjórn félagsins og annaðhvort ár gengur formaður úr stjórn.
Við óskum hér með eftir framboðum í stjórn Fuglaverndar. Framboðum og breytingartillögum skal skilað með tölvupósti eða bréfleiðis til stjórnar.
Tölvupóstfang formannsins er johannoli@johannoli.com og póstfang félagsins er fuglavernd@fuglavernd.is.

Ljósmynd af lómum á Elma Rún Benediktsdóttir.

Hvar eru smáfuglarnir!

Margir hafa veitt því athygli hversu lítið hefur sést af smáfuglum í görðum það sem af er vetri. Þetta á sérstaklega við þá sem fóðra fugla. Fólk hér á Suðurlandi og víðar hefur varla séð auðnutittlinga í vetur og veturinn á undan. Nú hafa snjótittlingarnir einnig brugðist, þrátt fyrir tíð sem að öllu jöfnu hefði átt að fylkja þeim í garða, þar sem er gefið.

Hvað veldur? Því er fljótsvarað, það veit enginn með fullri vissu! Nokkrar tilgátur hafa komið fram um auðnutittlingafæðina. Stofnsveiflur eru þekktar hjá auðnutittlingnum og fleiri smáfuglum eins og hjá glókollinum landnemanum ljúfa. Birkifræ þroskaðist lítið eða ekki haustið 2014, en birkifræ er aðalfæða auðnutittlinga. Veturinn síðasti var umhleypingasamur og óhagstæður smáfuglum. Fuglarnir gætu hafa fallið vegna skorts á æti og óhagstæðrar tíðar. Sumir segja að auðnutittlingarnir hafi horfið um miðjan desember 2014. Þeir gætu því jafnvel hafa yfirgefið landið og leitað til Bretlandseyja eftir betra lífi. Síðasta haust, 2015, var fræframleiðsla birkis mjög góð. Samt hafa auðnutittlingar ekki sést að ráði í fóðri það sem af er vetri. Vonandi á stofninn eftir að ná sér á strik á ný. Margir sakna þessa spaka og kvika smávinar, sem lífgar uppá tilveru fólks í svartasta skammdeginu.

Fæðuhættir snjótittlinga eru talsvert öðruvísi en auðnutittlinga, þó þeir séu einnig fræætur. Þeir sækja í grasfræ eins og melfræ, njólafræ og því um líkt. Kornakrar, sérstaklega óslegnir, eru forðabúr á veturna. Snjótittlingur er norrænastur allra spörfugla og aðlagaður að kaldri veðráttu. Í hríðarbyljum láta þeir fenna yfir sig og ýfa fiðrið til að halda á sér hita. Veðráttan á því ekki að hafa teljandi áhrif á stofninn. Hvað veldur þá þessum snjótittlingaskorti? Hafa fuglarnir enn nóg æti úti í náttúrunni eða á kornökrum? Er einhver óþekkt óáran í stofninum? Eiga tittlingarnir eftir að koma í fóðrið fljótlega? Um næstu helgi, 9.-10. janúar, verður hin árlega vetrarfuglatalning Náttúrufræðistofnunnar um land allt. Það verður fróðlegt að sjá hvort og þá hvar, snjótittlingar komi fram í talningunni.

Meðfylgjandi mynd tók Halla Hreggviðsdóttir.