Svífðu til liðs við Fuglavernd.

Viltu verða félagi í Fuglavernd?

Fuglavernd byggir afkomu sína að mestu leyti á félagsgjöldum og með aðild að félaginu færð þú m.a. áskrift að tímaritinu FUGLAR og frían aðgang að fræðslufundum og fuglaskoðunum á vegum félagsins.

Svífðu til liðs við Fuglavernd.

Hægt er að skrá sig í félagið af heimasíðu félagsins eða með tölvupósti í netfangið fuglavernd[hjá]fuglavernd.is

 

Tegundavernd

Með tegundavernd viljum við beina kastljósi að ábyrgðartegundum okkar Íslendina, stöðu tegunda á válista fugla sem er mat á hættu þeirra í útrýmingarhættu og til hvaða aðgerða við getum gripið til þess að vernda fuglategundirnar.

Búsvæðavernd 

Með vernd búsvæða er átt við búsvæði fugla, þar sem þeir finna sér stað til fæðuöflunar, hvíldar og varps. Fjölskrúðugt fuglalíf er einn besti mælikvarði sem hægt er að leggja á svæði, þá er víst að þar þrífst heilbrigt vistkerfi.

 

Sjálfboðaliðastarf

Fuglavernd treystir á krafta félaga í sjálboðaliðastörfum. Vettvangurinn snýst ekki eingöngu á vinnu heldur er þetta einnig kjörið tækifæri félganna til að hittast og deila áhugmáli sínu; fuglum.

Friðlandið í Vatnsmýrinni

Norræna húsið er við suðurenda Friðlands í Vatnsmýrinni. Þar koma félagar saman  í apríl árlega og tína rusl og bæta aðgengi fugla að tjörnunum.

Friðland í Flóa

Félagar hafa mætt til starfa í Friðlandi í Flóa við að stika göngustíg um svæðið sem er notaður til að skoða fugla. Enn fremur þarf að halda við fuglaskoðunarhúsinu sem og  palli og rampi en það hefur verið gert af sjálfboðaliðum.

Ljsm. Róbert A. Stefánsson. Kristinn Haukur og arnarungar. 2019.

Í minningu Kristins Hauks Skarphéðinssonar

Kristinn Haukur, dýravistfræðingur, er fallinn frá eftir skammvinn en snörp veikindi. Fuglavernd hefur um áratugaskeið notið krafta Kristins Hauks í baráttunni fyrir vernd fugla og búsvæða þeirra. Hann varð félagi í Fuglavernd strax á unglingsárum og alla tíð síðan öflugur liðsmaður og tilbúinn að leggja hönd á plóg ef eftir var leitað. Það munar um slíkan liðsauka! Af mörgu er að taka en ég vil nefna að Kristinn Haukur sat í stjórn félagsins um árabil, hann tók þátt í að skipuleggja 50 ára afmæli Fuglaverndar, hann var formaður undirbúningsnefndar ráðstefnu um vindorkuver og fugla 2023, hann ritaði margar greinar í tímarit félagsins, var um árabil fundarstjóri á aðalfundum félagsins og aðstoðaði við gagnasöfnun vegna skráningar á mikilvægum fuglasvæðum og gerð evrópska válistans fyrir fugla.
Verndun hafarnarins var Kristni Hauki hjartans mál og þar átti hann sterka samleið með Fuglavernd. Fuglavernd var stofnuð árið 1963 af Birni Guðbrandssyni og félögum hans. Meginmarkmið félagsins í upphafi var að tryggja framtíð hafarnastofnsins sem þá taldi aðeins um 20 varppör og því í útrýmingarhættu. Verndaraðgerðirnar sem félagið beitti voru einkum að fá landeigendur, þar sem ernir áttu sér óðul, til liðs við málstaðinn en einnig hvatti félagið stjórnvöld til að banna eiturútburð. Á þessum árum leyfðist að nota eitrað agn til að bana tófum og öðrum „meindýrum“. Þessar eitruðu beitur urðu örnum títt að grandi. Hvort tveggja gekk eftir, bæði jókst velvild í garð arnarins og eins var eiturútburður bannaður. Arnarstofninn svaraði og hefur vaxið hægt en þó jafnt og þétt frá um 1970 og telur nú meira en 90 óðalspör. Allt frá stofnun sinnti Fuglavernd líka vöktun arnarstofnsins. Kristinn Haukur tók þátt í því starfi og þegar frumherjarnir stigu til hliðar axlaði hann alfarið ábyrgðina og frá 1993 var vöktunin hluti af hans vinnu við Náttúrufræðistofnun. Félagar í Fuglavernd hafa allar götur síðan unnið með Kristni Hauki við vöktun arnastofnsins og þar hafa verið fremstir meðal jafningja Finnur L. Jóhannsson og Hallgrímur heitinn Gunnarsson. Í tilefni af 50 ára afmæli Fuglaverndar kom út ritið Haförninn. Kristinn Haukur ritaði textann og fjallar þar um sögu hafarnarins á Íslandi, vistfræði tegundarinnar og tengsl manna og arna. Utan vöktunar stofnsins voru arnarannsóknir Kristins og samstarfsaðila síðustu 6 árin einkum fólgnar í því að skrá með senditækjamerktum örnum ferðalög þeirra á milli sveita og landshluta.
Ný ógn, vindorkuver, steðjar að haferninum. Ætlunin er að reisa slík orkuver þvert í þjóðbraut arna. Reynsla erlendis frá sýnir að slíkt getur verið meiri háttar ógn við erni og nægir þar að nefna að á eyjunni Smöla fyrir ströndum Noregs hafa 150 ernir drepist eftir að hafa lent í spöðum vindmylla frá árinu 2002. Kortlagning Kristins og félaga á loftvegum arna eru grundvallarupplýsingar í umræðuna um staðsetningu vindorkuvera!
Með þakklæti og virðingu kveðjum við traustan félaga og vottum fjölskyldu hans okkar innilegustu samúðarkveðjur.
Fyrir hönd Fuglaverndar,
Hólmfríður Arnardóttir framkvæmdastjóri

Fróðlegt myndakvöld um farleið fugla um Texas

2. nóvember s.l. sýndu Edward Rickson og Sigmundur Ásgeirsson myndir hins síðarnefnda frá átta daga ferð þeirra félaga um Texas. Í máli og myndum fræddu þeir áhorfendur um hina s.k. miðfarleið fugla um Ameríku. Þeir sáu um 200 tegundir fugla á átta dögum og kynntust ýmsu fólki með sama áhugamál og þeir; fugla og ljósmyndun fugla. Þeir félagar tóku eftir  að hlutfall karla og kvenna á þessum slóðum var nokkuð jafnt hjá þeim sem að munduðu sjónauka eða myndavélar að fuglunum.

Eikarskríkja. Ljsm. Sigmundur Ásgeirsson

Fýlsungar í vanda

Fuglavernd hvetur fuglavini  sem eiga leið um Suðurland undir Eyjafjöllum og í  Mýrdal að bjarga fýlsungum.

Nú er runninn upp ágústmánuður, þegar nýfleygir fýlsungar þenja vængi sína og reyna að ná til sjávar. Tímabilið stendur fram yfir miðjan september. Það getur reynst ungun á Suðurlandi, undir Eyjafjöllum og í Mýrdal, þrautinni þyngri að ná á haf út. Björgin þar sem þeir alast upp eru norðan þjóðvegar. Ef lygnt er þegar ungarnir taka fyrsta flugið þá ná þeir stundum ekki til sjávar og lenda á vegum, bílastæðum og í skurðum þar sem þeirra bíður óþarfur, bráður bani.

Fuglavernd hvetur fólk sem á leið um þetta svæði að leggja hönd á plóg við að bjarga ungunum. Gott er að vera vel sýnileg og klæðast jafnvel gulu vesti og hafa með handklæði, létt teppi eða gamalt lak og kassa. Þegar ungi hefur verið fangaður skal sleppa honum af bryggju eða  setja hann í árós eða í lygna á sem að mun endanlega bera hann til sjávar.

 

Starfsmaður RSPB

Hanna Philips, starfsmaður RSPB (breska fuglaverndarfélagsins), verður í Vík við björgun og  við merkingar á fýlsungum til 3. september. Þeir sem vilja slást í för með henni geta haft samband við hana beint, sími +447793036536 eða fengið upplýsingar í  Kötlusetri upplýsingamiðstöðinni í Vík í Brydebúð við Víkurveg. 

 

Hvernig bjargar maður fýlsunga?

Nánari útskýringar á björgun fýlsunga  og hvernig kassa sé best að nota er hægt að lesa um á heimasíðu Fuglaverndar. 

Þeir sem nota Facebook og vilja taka þátt í fýlsungabjörgun geta verið með í lokuðum fýlsungabjörgunarhópi á FB. Vinsamlega meldið ykkur með pósti til:  fuglavernd@fuglavernd.is og þið fáið senda slóð til að skrá ykkur í hópinn.

 

Vinnuferð í Friðlandi í Flóa: Skilti endurnýjuð og ný skilti sett upp

Tveir sjálfboðaliðar nýttu frídag til að endurnýja forn skilti og setja upp ný skilti í og við Friðland fugla í Flóa. Gömlu skiltin voru orðin máð og skiltið við vegamótin sást ekki úr bíl sem ók framhjá og var orðið ansi snjáð.  Nýtt skilti var sett upp til að vísa fólki veginn. Það bar tilætlaðan árangur. Á meðan skiltafólkið bætti við stikum á gönguleiðinni um Friðlandið renndu ferðamenn í hlaðið, sumir því þeir höfðu lesið um Friðlandið og ætlað sér þangað aðrir komu því að þeir sáu skiltið við vegamótin.

Sunnan vindur og skúrir á köflum var þegar verkið hófst en það brast á með blíðu þegar drukkið var te á palli fuglaskoðunarhússins að verki loknu. Ljósmyndir; Anna María Lind Geirsdóttir.

Rauðbrystingar á flugi

Fuglaskoðun bætir líðan fólks

Vissuð þið að fuglar og gróður í næsta nágrenni  eykur hamingju fólks?

í Þættinum Samfélagið á rás 1 var umhverfisspjall við Hafdísi Hönnu Ægisdóttur sem vildi nefna eitthvað jákvætt á þessum drungalegu tímum neikvæðrar loftslagsskýrslu og stríðs.

Náttúruskoðun og  fuglaskoðun fólks hefur verið rannsökuð og er vísindalega sannað að náttúruskoðun og sérstaklega fuglaskoðun hefur jákvæð áhrif á andlega líðan fólks og dregur úr þunglyndi.  Fjöldi fugla í þéttbýli eykst með meiri gróðurþekju og hefur það bein áhrif á líðan fólks að vera með meiri gróður og þar af  fleiri fugla í næsta umhverfi.

Hér er hægt að hlusta á umhverfisspjallið

 

Skógarþröstur, Stari og Gráþröstur. Ljósmyndari: Örn Óskarsson
Skógarþröstur, stari og gráþröstur. Ljósmyndari: Örn Óskarsson.

Alþjóðlegi votlendisdagurinn 2. febrúar

Alþjóðlegi votlendisdagurinn er 2. febrúar á hvert en dagurinn markar þau tímamót að þann dag árið 1971 var Ramsarsamningur, samningur um votlendi, undirritaður en hann er alþjóðlegur samningur sem dregur nafn sitt af borginni Ramsar í Íran þar sem undirritunin fór fram.

Í dag eru um 170 ríki aðilar að samningnum þ.a.m. Ísland og tæplega 2.300 svæði vernduð af honum en samtals er flatarmálið er rúmlega stærð Mexíkó. Á Íslandi eru Ramsarsvæði sex talsins. Þau eru Grunnafjörður, Andakíl, Mývatn-Laxá, Guðlaugstungur, Þjórsárver og Snæfell-Eyjabakka svæðið.

í bókinni “Íslensk Votlendi” má lesa eftirfarandi um skilgreiningu á votlendi:  “Votlendi nefnum við þá hluta af yfirborði jarðar sem eru á mörkum þurrlendis og vatna eða sjávar.”

“Skilgreining um þetta hugtak er að finna í 1. grein Samþykktar um votlendi, sem hafa alþjóðlegt gildi , einkum fyrir fuglalíf og samþykkt var sem þingsályktun á Alþingi 4. maí 1977: “Í samþykkt þessari teljast til votlenda hvers konar mýrar, flóar, fen og vötn, bæði náttúrleg og tibúin, varanleg og óvaranleg með kyrru vatni eða rennandi, fersku, hálfsöltu eða söltu og þar á  meðal sjór allt að sex metra dýpi.”

Hér má lesa meira um votlendi á heimasíðu Votlendissjóðs

Margar ólíkar fuglategundir byggja afkomu sína á votlendi og þar má telja Jaðran sem spígsporar hér fyrir ofan, branduglu, lóuþræl, lóm og fleiri mætti telja upp.

Magnús Bergsson hefur tekið upp hljóð viða um Ísland.  Hér  er hljóðmynd með upptöku úr Friðlandi í Flóa, sem er sannkallað votlendi,  frá árinu 2012. 

Rétt tré á réttum stað

Sveinn Runólfsson og Andrés Arnaldsson birtu nýverið grein í Bændablaðinu þar sem þeir útskýra að það skiptir gríðalega miklu máli að stunduð sér ábyrg skógrækt með langtímaáhrif skógræktar í huga. Einig ber að meta hvernig er staðið við alþjóðlega samninga hér á landi í þeim málum.  Það er vandasamt verk að koma upp skógi á landi þar sem honum var eytt fyrir ekki svo löngu. Það er ekki sama hvaða tegundir eru valdar og ekki má fara offörum þegar finnast tegundir sem eru duglegar að breiða úr sér. Þar má nefna stafafuru sem er farin að sækja verulega á. Fuglavernd hefur áhyggjur af þessu því með dreifingu sinni er hætta á að furan taki yfir kjörlendi stofna varpfugla sem að flykkjast hingað á vorin.  Margar tegundir sem hér verpa kjósa kjarrlendi, mýrlendi og votlendi þar sem ekki vex skógur. Nýsjálendingar gerður mistök í sinni skógrækt og eru víti til varnaðar. Hér er hægt að lesa  greinina í Bændablaðinu.

Vinnuferð í Friðlandi í Flóa í október

Það þarf að viðhalda fuglaskoðunarhúsinu, rampi og palli í Friðlandinu. Fyrsta laugardag í október hittist þriggja manna hópur í Friðlandinu í Flóa til að vinna að viðhaldi mannvirkjanna þar. Fyrr á árinu mætti hópur á staðinn og hreinsaði lausa málningu af rampi og palli. Haust hópurinn náði að skrapa enn fremur og  olíubera allan rampinn og borð og bekk á pallinum. Eftir stendur þá að fínskrapa pallinn og húsið sjálft og síðan olíubera pallinn og mála húsið næst þegar gefur. Gert er ráð fyrir að það verði næsta vor.