Nýlega gáfu Alþjóða fuglaverndarsamtökin, BirdLife International, út válista yfir fuglategundir í Evrópu. Þetta er fjórða skiptið sem Alþjóða fuglaverndarsamtökin taka saman þetta yfirlit en fjöldi sjálfboðaliða koma að því að safna gögnunum sem liggja að baki. Þar sem fuglar eru mjög viðkvæmir fyrir öllum breytingum í umhverfinu þá eru þeir góður mælikvarði á það hvernig jörðinni okkar vegnar. En því miður eru skilaboðin skýr. Ein af hverjum fimm fuglategundum í Evrópu eru hætt komin, eða í yfirvofandi hættu (NT), og það hefur orðið fækkun í stofni einnar af hverri þremur fuglategundar í Evrópu á síðustu áratugum. Þar eru sjófuglar, vaðfuglar og ránfuglar mest áberandi en einnig eru á listanum vinsælar veiðbráðir í Evrópu.
Ástæður eru margvíslegar en aðallega eru breytingar á búsvæðum þessara fugla að hafa áhrif. Það er því hægt að bregðast við með því að endurheimt, sporna við mengun og ósjálfbærri landnýtingu.
Í dag er afmælisdagur Ómars Ragnarssonar og var sá dagur valinn sem Dagur íslenskrar náttúru af ríkisstjórn Íslands árið 2010.
Hipp húrra fyrir Ómari sem hefur aldeilis lagt sitt á vogaskálar til varnar íslenskri náttúru.
Hipp húrra fyrir degi Íslenskrara náttúru og allra félaga og samtaka sem standa vörð um náttúru okkar frá fjöru til fjalla – frá láði til lofts – frá smáfuglum til stórhvela.
Fuglaverndarfélag íslands var stofnað árið 1913 til varnar haferninum okkar sem var undir skipulögðum ofsóknum og var nær útdauður. Meira um haförninn hér
Varp hafarnarins gekk vel í ár og komust 58 ungar á legg. Kristinn Haukur Skarphéðinsson, dýravistfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun, segir þetta mesta fjölda unga frá því að hafernir voru fyrst taldir fyrir réttum 100 árum árið 1921. Hann rifjar upp að þá hafi upplýsinga verið aflað á manntalsþingum, en síðan hafi rannsóknir smám saman eflst og arnarstofninn sé nú einna best þekkti fuglastofn landsins.
Í ár var orpið á 69 óðulum og komust ungar á legg á 45 þeirra. Kristinn Haukur segir að allar vísitölur arnarins séu sterkar í ár, hreiður, varp, ungar og óðul í ábúð sem eru nú 86. Í fyrra komust 52 ungar á legg og 56 árið 2019, sem þá var besta árið í 100 ára sögu talninga. Nú áætlar Kristinn Haukur að arnarstofninn telji á fjórða hundrað fugla, en stór hluti hans séu ungfuglar, sem algengt er að byrji að verpa 5-6 ára. Á sjöunda áratug síðustu aldar voru arnapörin aðeins talin vera ríflega 20.
Aðalheimkynni arnarins eru frá Faxaflóa norður og vestur um í Húnaflóa. Fullorðnir fuglar hafa sést reglulega austur í Mývatnssveit en hafa ekki ekki slegið sér niður í varp á þeim slóðum.
„Enn er nokkuð í land að haförninn loki hringnum og fari að verpa í öllum landshlutum, en ég held að það gerist á næstu áratugum ef þessi hagfellda þróun heldur áfram,“ segir Kristinn Haukur.
Hann segir að tíðarfarið á undanförnum árum hafi verið erninum hagstætt og stofninn hafi fengið meiri frið og svigrúm til að þróast og þroskast en áður.
Fýlsungar eru að yfirgefa hreiður frá lok águst fram í miðjan september. Þeir svífa frá syllunni sinni og ná oft ekki út í sjó og lenda þá á landi milli varpstöðva og sjávar. Eftir gott sumar er nú urmull af þeim í Mýrdalnum og vafalaust víðar. Þeir eru í tugum á götum Víkur þegar þetta er ritað.
Fæstum fýlsungum þarf að bjarga, þeir spjara sig oftast sem hafa lent á söndum, túnum, engjum
eða viðlíka “flugbraut”. Þeir léttast á nokkrum dögum og verja tíma sínum við að styrkja vængi.
Þeir sem lenda á bílastæðum, vegum, skógi, háu grasi og í lúpínubreiðu gæti hinsvegar þurft að bjarga.
ATH: Þegar fýlsungar verja sig þá spýja eða æla þeir lýsiskenndu magainnihaldi sínu. Bunan getur verið
hátt í 2 m á lengd. Það er vissara að varast að lenda í bununni.
Flesta fýlsunga sem lenda á vegum þarf ekki að flytja á brott, yfirleitt er nóg að koma þeim af vegi
sjávarmegin við veginn.
EF ÞAÐ ÞARF AÐ FANGA FÝLSUNGA t.d. í þéttbýli, skóglendi, bílastæði, lúpinubreiðu eða af vegi þá er best að vera með réttan útbúnað.
FÖT: Föt sem má fórna í fýla-ælu, gúmmíhanskar. Áberandi lit á fatnaði ef verið er við vegi, t.d. áberandi gul vesti.
VERKFÆRI:
Handklæði til að fanga fýlsunga með.
Kassar 2 – 20 kassar til að setja ungana í.
Aðeins má setja einn fýl í kassa. Ef þeir eru tveir eða fleiri þá geta þeir ælt á hvorn annan og verða útataðir í lýsi.
Þá eru þeir í vondum málum.
Bíll og jafnvel kerru.
HVAR Á AÐ SLEPPA FÝLSUNGA: Alls ekki í sandfjöru þar sem er brim, þá velkjast þeir bara um og drepast.
Það verður að sleppa þeim þar sem þeir geta náð að svífa niður á sjávarflöt.
Lygnar ár og víðir ósar koma til greina. Jökulsár eru ekki lygnar ár.
Sleppistaðir í kringum Mýrdal og undir Eyjafjöllum:
Dyrhólaey, neðri ey og Dyrhólaós. Lónin hjá Höfðabrekku.
Sandar sunnan lúpínubreiða.
Holtsós. Skógaá.
Fýlsungar eru stríðaldir af foreldrum sínum svo þeir verða of þungir til flugs. Fýlavarp hefur teygt sig lengra inn til landsins, fjær sjó en hentugt er fyrir fýlsunga. En fýlum hefur fjölgað á s.l. áratugum og fýlahjón leita sér að góðu hreiðurstæði í björgum.
Nokkrar ástæður eru fyrir vali á björgum fjarri sjó. Þar má telja að sjóbjargastæðin eru frátekin, viðkomandi fýll ólst upp á syllu t.d. í Markarfljótgljúfrum og leitar heim.
Fýlar geta orðið allt að 60 ára gamlir og geta komið upp einum unga árlega.
Við þiggjum með þökkum ábendingar um góða sleppistaði fýlsunga um land allt.
Sólblómafræ hafa klárast í vefbúðinni okkar hjá Fuglavernd en munu verða komin aftur til sölu þegar nær dregur vetri. Sama er að segja um fóðrara og annað tengt fóðrun fugla. Munum við auglýsa það hér á fréttaveitu okkar.
Við viljum benda á að þegar hlýindi eru að sumri er ekki mjög gott að fóðra fugla sem þá koma margir saman á litlum fleti og þá eru meiri líkur á smitum milli þeirra, ef einhverjir fuglasjúkdómar eru á ferli. Einnig er gnótt ætis að sumri nema það sé þeim mun kaldara. Þegar kólna fer þá er kominn tími til að athuga með fóðrun.
Ólafur Karl Nielsen fuglafræðingur og formaður Fuglaverndar var sæmdur Fálkaorðunni við hátíðlega athöfn á Bessastöðum í gær 17. júní 2021. Heiðurinn hlýtir hann vegna rannsókna á íslenskum fuglum, ekki síst fálka og rjúpu, og miðlun þekkingar á því sviði.
Það er auðvitað viðeigandi að Ólafur K. beri Fálkaorðu á brjósti.
Stefnt er að því að halda aðalfund Fuglaverndar fyrir starfsárið 2020 fimmtudaginn 15. apríl nk. Staður og stund verða nánar auglýst síðar.
Frestur til að skila inn framboðum til stjórnarkjörs rennur út 14. febrúar.
Á hverju ári ganga þrír úr stjórn félagsins og annað hvert ár gengur formaður úr stjórn. Í ár er sæti formanns laust og þrjú sæti í stjórn, en öll gefa kost á sér áfram. Sjá: Skrifstofa og stjórn.
Tillögum að breytingum á samþykktum félagsins þarf að skila inn fyrir 15. febrúar. Sjá: lög og siðareglur félagsins.
Framboðum í stjórn og breytingartillögum skal skilað með tölvupósti á netfang Fuglaverndar eða bréfleiðis til stjórnar.
Fyrirhuguðum aðalfundi Fuglaverndar hefur verið frestað um óákveðinn tíma, vegna frekari takmarkana á samkomubanni. Vonir standa til þess að hægt verði að finna nýja dagsetningu og auglýsa fundinn með löglegum fyrirvara, fyrir sumardaginn fyrsta, sem er þann 23. apríl 2020.
Samkvæmt lögum félagsins hefur aðalfundur æðsta vald í málefnum félagsins. Hann skal halda fyrir sumardaginn fyrsta ár hvert og skal dagskrá hans vera sem hér segir:
Skýrsla stjórnar um starfsemi félagsins á liðnu almanaksári.
Lagðir fram endurskoðaðir reikningar félagsins.
Breytingar á samþykktum félagsins samkvæmt 7. gr.
Kosin stjórn samkæmt 5 gr. samþykkta félagsins.
Kosinn skoðunarmaður félagsreikninga og einn til vara.
Á Fésbókarsíðu Fuglaverndar mun birtast ein færsla á dag um fugl dagsins meðan á samkomubanni stendur.
Með þessu viljum við leggja okkar af mörkum, til að stytta fólki stundir og kannski aðeins að dreifa huganum, þó ekki sé nema í stutta stund á hverjum degi. Ef samkomubannið stendur í fjórar vikur þá komumst við yfir 28 fuglategundir alls, við þurfum þá að velja einhverjar þrjár sem eru ekki í hópi ábyrgðartegunda. Hægt verður að koma með ábendingar á Fésbókarsíðunni. Ef samkomubannið stendur lengur, þá finnum við bara til fleiri fuglategundir, það er af nógu að taka.
Skrifstofa félagsins lokuð
Skrifstofa félagsins að Hverfisgötu 105 í Reykjavík verður lokuð á meðan samkomubannið er í gildi, en starfsfólk félagsins mun ýmist vera við vinnu þar, eða heimavið.
Hægt er að ná í starfsfólk félagsins í gegnum tölvupóst og fuglavernd@fuglavernd.is og gegnum samfélagsmiðla.
Vefurinn er alltaf opinn og pantanir í vefverslun verða afgreiddar og afhentar eftir samkomulagi við viðskiptavini.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson Umhverfis- og auðlindaráðherra og Dagur B. Eggertsson Borgarstjóri Reykjavíkur undirrituðu formlega friðlýsingu Akureyjar á Kollafirði við Eiðsgranda í dag, 3. maí 2019.
Þetta er fyrsta friðlýsing sem Guðmundur Ingi undirritar en nú stendur yfir átak friðlýsinga hjá Umhverfis- og auðlindaráðuneyti í samvinnu við Umhverfisstofnun.
Búsvæðavernd
Akurey er að finna á nýjum vef, www.fuglavernd.is/sjofuglabyggðir en þar hefur Fuglavernd tekið saman upplýsingar um 37 sjófuglabyggðir við Ísland sem eru öll alþjóðlega mikilvæg, oftast vegna fjölda þeirra sjófugla sem reiða sig á þau.
Akurey er lítil, um 6,6 hektarar að stærð, láglend og flöt eins og aðrar eyjar á Kollafirði, hæsti punktur er 10 m.y.s. Eyjan er mjög gróskuleg og stórþýfð og einkennist af lundavarpinu sem þar er. Fjaran er stórgrýtt. Aðal varpfuglinn er lundi, um 20.000 pör í góðum árum, jafnframt verpur eitthvað af æðarfugli, fýl, hettumáfi, sílamáfi, svartabaki, teistu og kríu.
Í Akurey er alþjóðlega mikilvæg sjófuglabyggð, því þar verpa yfir 15.000 pör af lunda, um 0.7% af íslenska stofninum. Einnig verpa þar ýmsir sjófuglar í minna mæli, eins og sílamáfur, æður og teista.
Fuglavernd fagnar þessar friðlýsingu Akureyjar, en fyrst skoraði Fuglavernd á Reykjavíkurborg að friðlýsa Akurey og Lundey með bréfi þann 10. febrúar 2014, eins og sjá má undir /umsagnir.
Við notum vafrakökur og aðra mælingatækni til að bæta vafraupplifun þína á vefnum okkar, sýna persónulegt efni, greina umferð um vefinn og skilja hvaðan úr veröldinni við fáum heimsóknir á vefinn okkar. Persónuverndarstefna okkar tók gildi 20. júlí 2018.
Með því að velja OK samþykkir þú notkun okkar á vafrakökum og öðrum rekjanleika.
OKNeiPersónuverndarstefna