Fuglavernd óskar þér og þínum gleðilegra jóla, árs og friðar 2013. Þökkum stuðninginn á árinu sem er að líða.
des, 2012
Fugl fyrir milljón
Laugardaginn, 8. desember, voru úrslit kynnt og verðlaun veitt í ljósmyndasamkeppninni Fugl fyrir milljón, sem haldin var á vegum Brimnes hótels og bústaða í Ólafsfirði og Rauðku á Siglufirði. Þrír ljósmyndarar fengu viðurkenningar fyrir myndir sínar; Erlendur Guðmundsson, Akureyri, sem fékk 1.000.000 króna í verðlaun fyrir bestu myndina. Sigurður Ægisson, Siglufirði, varð í öðru sæti og Einar Guðmann, Akureyri í því þriðja.Einar vann keppnina síðast og Sigurður varð þá í 3. sæti. Keppnin snýst um bestu fuglamyndina tekna á Tröllaskaga, Hrísey, Grímsey, Drangey og Málmey á tímabilinu 14. maí til 31. ágúst, 2012, og er tilgangur hennar að kynna Tröllaskagann og nærliggjandi eyjar, fyrir náttúruunnendum og stuðla að aukinni fuglaskoðun og fuglaljósmyndun á svæðinu.
FFM_2012_1.saeti_ErlendurGudmuWSLaugardaginn, 8. desember, voru úrslit kynnt og verðlaun veitt í ljósmynda- samkeppninni Fugl fyrir milljón, sem haldin var á vegum Brimnes hótels og bústaða í Ólafsfirði og Rauðku á Siglufirði. Þrír ljósmyndarar fengu viðurkenningar fyrir myndir sínar; Erlendur Guðmundsson, Akureyri, sem fékk 1.000.000 króna í verðlaun fyrir bestu myndina. Sigurður Ægisson, Siglufirði, varð í öðru sæti og Einar Guðmann, Akureyri í því þriðja.Einar vann keppnina síðast og Sigurður varð þá í 3. sæti. Keppnin snýst um bestu fuglamyndina tekna á Tröllaskaga, Hrísey, Grímsey, Drangey og Málmey á tímabilinu 14. maí til 31. ágúst, 2012, og er tilgangur hennar að kynna Tröllaskagann og nærliggjandi eyjar, fyrir náttúruunnendum og stuðla að aukinni fuglaskoðun og fuglaljósmyndun á svæðinu. (Hinar verðlaunamyndirnar má sjá á fésbókarsíðu okkar)
des, 2012
Jólamarkaður – við Elliðavatn – 7.-8.des.2012
Minnum á jólamarkaðinn núna um helgina á Elliðavatni – við opnum 11:00 og verðum til 16:00 – föstudag og laugardag 7. og 8. desember. Þar munum við selja nýju jólakortin okkar, silkitoppa og himbrima ,ásamt eldri kortum, í pökkum og í lausu. Hægt verður að nálgast garðfuglabæklinginn okkar og síðan verðum við með úrval hreiðurhúsa – tilvalin til jólagjafa og annan varning. Aðild að Fuglavernd gæti líka verið kærkomin jólagjöf. Hér má sjá frekari upplýsingar um staðsetningu og dagskrá eða á www.fuglavernd.is.sjá á www.heidmork.is.
des, 2012
Fræðslufundur um farhætti skúma – 13. des.2012
Flestir sjófuglar dvelja langdvölum á hafi úti utan varptíma og því hefur þekking okkar á vistfræði sjófugla að vetrarlagi verið afar takmörkuð. Undanfarna áratugi hefur tækninni fleygt fram og framleiddir hafa verið ritar sem gera okkur kleyft að fylgjast með sjófuglum að vetrarlagi. Sumarið 2008 voru dægurritar settir á 40 fullorðna skúma á Breiðamerkursandi, 16 á eyjunni Foula, Skotlandi og 24 á Bjarnareyju, Noregi. Alls endurheimtust 23 dægurritar á næstu þremur árum og var unnt að finna út staðsetningar fuglanna yfir vetratímann sem gáfu mikilvægar upplýsingar um vetrarstöðvar skúma frá þessum þremur löndum. Ellen Magnúsdóttir fuglafræðingur ætlar að segja okkur frá þessum nýju upplýsingum um farhætti skúma.
Fræðslufundir Fuglaverndar eru haldnir í húsakynnum Arion banka í Borgartúni 19 og opnar húsið klukkan 20:00. Gengið er inn um aðal inngang hússins á austurhlið. Við verðum með jólakortin okkar og nýja fóðrara til sölu fyrir fundinn. Ókeypis er fyrir félagsmenn Fuglaverndar en 500 kr. fyrir aðra. Allir velkomnir.
[btn color=”red” text=”Fræðslufundir” url=”https://fuglavernd.is/portfolio_category/fraedslufundir/”]
des, 2012
Ný jóla- og tækifæriskort
Fuglavernd hefur gefið út tvö ný glæsileg jólakort. Himbrimi með unga prýðir annað kortið en falleg silkitoppa á grein prýðir hitt . Nýrri kort eru á 200 kr. stk. en eldri kort á 150 kr. stk en við erum með þó nokkuð úrval. Einnig má panta kortapakka með 11 kortum á 1500 kr. en þar eru valin saman bæði ný og eldri kort og þannig hægt að gera góð kaup.
Kortasalan eru liður í að styrkja fjárhag og kynna félagið. Pantið beint á pöntunarsíðunni okkar eða hafið samband við skrifstofu í síma 562 0477 /fuglavernd@fuglavernd.is . Ljósmyndarar eru Sindri Skúlason (himbrimann) og Hrafn Óskarsson (silkitoppuna).
okt, 2012
Frá heiðalæpu til þangrottu – fræðslufundur 14.nóv.2013
Fræðslufundur félagsins verður að þessu sinni um sendlinga og lífshlaup þeirra. Sendlingar eru norrænir varpfuglar frá heimskautaeyjum NA Kanada í vestri til Taimyrskaga í Rússlandi. Innan þessa svæðis eru nokkrir stofnar sem eiga það sameiginlegt að halda til í grýttum fjörum í Atlantshafi yfir vetrartímann en engir aðrir vaðfuglar þola vetursetu jafn norðarlega og sendlingarnir. Á Íslandi verpur sérstök undirtegund sendlinga sem talin er vera staðfugl en utan varptímans koma hingað til lands aðrir stofnar. Í fyrirlestrinum verður farið yfir lífshlaup sendlinganna, helstu stofna og ferðalög auk verndargildis þeirra stofna sem tengjast Íslandi. Gunnar Þór Hallgrímsson fuglafræðingur heldur erindið en fræðslufundir Fuglaverndar eru haldnir í húsakynnum Arion banka í Borgartúni 19 og byrjum við kl. 20:30. Gengið er inn um aðal inngang hússins á austurhlið. Ókeypis er fyrir félagsmenn Fuglaverndar en 500 kr. fyrir aðra. Allir velkomnir.
okt, 2012
Fuglavernd hvetur til hófsamra veiða
Fuglavernd hvetur veiðimenn til að sýna samstöðu um hófsama veiði – það er allra hagur að rjúpnaveiðar séu sjálfbærar til framtíðar Rjúpan er hænsnfugl og sá eini sem lifir villtur á Íslandi. Rjúpan er þýðingamikill fugl í íslensku vistkerfi og m.a. forsenda fyrir tilvist fálka hér á landi.Rjúpnastofninn sveiflast reglulega og stofnstærð virðist ná hámarki á um 10 ára fresti og getur verið allt að tífaldur munur á rjúpnamergð í lágmarki og hámarki. Líklega eru það nokkrir samverkandi þættir sem hafa áhrif á sveiflurnar svo sem fæðan, sníkjudýr og afrán. Uppi eru kenningar um að umferð veiðimanna um búsvæði rjúpunnar auki viðbótarafföll umfram það sem veitt er. Við hvetjum til hóflegra veiða og að boð og bönn séu virt og minnum á að sá sem kaupir eða selur rjúpu eða afurðir hennar er að brjóta lög. Þessa fallegu mynd tók Daníel Bergmann og hefur hún einnig prýtt jólakort Fuglaverndar.
okt, 2012
Garðfuglakönnunin framundan
Nú er komið að því að hefja árvissa garðfuglakönnun Fuglaverndar en Fuglavernd hefur um árabil staðið fyrir rannsókn á garðfuglum og fengið félagsmenn og aðra áhugasama í lið með sér. Markmiðið er að athuga hvaða fuglar sækja í garða, í hve miklu magni og breytingar á samsetningu tegunda yfir vetrarmánuðina. Sem athugunarsvæði má nota húsagarða, afmörkuð svæði innan almenningsgarða, garðlönd við sumarbústaði eða skógarlundi. Meginatriðið er að sama svæði sé talið og reglulega sé fylgst með því í viku hverri. Fylgst er með fuglalífinu frá því í lok október fram í lok apríl – og niðurstöðurnar skráðar á þar til gert eyðublað.
Veturinn 2012-2013 er garðfuglakönnun Fuglaverndar frá 28. október 2012 til 27. apríl 2013. Á Garðfuglavefnum má lesa nánar um könnina en hér má nálgast eyðublaðið sem fylla á út.
Áhugafólk um fugla er hvatt til að taka þátt – engin binding – lítið umstang en mjög skemmtilegt.
okt, 2012
Undirskriftasöfnun
okt, 2012
Framkvæmdir við Mývatn
Landvernd og Fuglavernd hafa sent skrifstofu Ramsar samningsins erindi þar sem farið er fram á að samningurinn rannsaki möguleg áhrif 45-90 MW jarðvarmavirkjunar Landsvirkjunar í Bjarnarflagi á lífríki Mývatns. Mývatns- Laxársvæðið er eitt þriggja Ramsarsvæða á Íslandi sem njóta verndar samkvæmt samningnum, en hann fjallar um vernd votlendis sem hefur alþjóðlegt gildi, ekki síst vegna fuglalífs.
Landvernd og Fuglavernd fara þess á leit við Ramsarskrifstofuna að hún grípi til eftirfarandi aðgerða:
- Krefji íslensk stjórnvöld, sem bera ábyrgð á framfylgd samningsins hér á landi, um upplýsingar um þær hættur sem kunni að steðji að vistkerfi Mývatns og Laxár frá hinni fyrirhuguðu jarðhitavirkjun Landsvirkjunar í Bjarnarflagi.
- Taki til skoðunar að tilnefna Mývatn-Laxá svæði á Montreux-lista samningsins sem er nokkurs konar válisti Ramsarsvæða sem sérstök hætta steðjar að og eru undir sérstöku eftirliti Ramsar-samningsins.
- Krefji íslensk stjórnvöld um viðunandi eftirlit og vöktun á lífríki Mývatns.
Í þessu sambandi benda samtökin á að leita þurfi svara við spurningum sem varða mengun frá virkjuninni. Þar ber hæst förgun affallsvatns og möguleg kæling á grunnvatnsstreymi sem getur minnkað kísilstreymi til Mývatns, sem er ein undirstaða fjölbreytts lífríkis vatnsins. Einnig benda samtökin á að Landsvirkjun hefur ekki útskýrt hvernig fyrirtækið hyggist standast kröfur varðandi brennisteinsmengun frá virkjuninni.