Í liðinni viku var haldinn hér á landi 41. ársfundur The Waterbirds Society. Dagskrá fundarinns spannaði þrjá daga og föstudaginn 11. ágúst snérist dagskráin að miklu leyti um lunda.
Starfsmenn Fuglaverndar, þær Hólmfríður og Dögg, heimsóttu fundinn þann dag og kynntu starfsemi Fuglaverndar á Íslandi.
Gaman var að koma á fundinn, þar sem m.a. er haldið uppboð á alls konar skemmtilegum hlutum til styrktar rannsóknarnemum á þessu sviði. Fuglavernd gaf barmmerki á uppboðið og vonum innilega að einhver hafi farið glaður með þá minjagripi heim frá fundinum.
Skrifstofan á Hverfisgötu 105, 101 Reykjavík verður lokuð vegna sumarleyfa frá og með mánudeginum 10. júlí. Við opnum aftur að loknu sumarleyfi þriðjudaginn 8. ágúst.
Það verður aldrei of oft hamrað á því að, að velferð fugla þarf alltaf að ganga fyrir. Það má ekki trufla þá, ekki fara of nálægt þeim sérstaklega ekki fara of nálægt hreiðrum.
Látið unga í friði sem virðast vera munaðarlausir, takið þá ekki úr sínu náttúrulega umhverfi. Foreldrarnir eru oftast í næsta nágrenni að safna æti og bíða eftir því að mannfólkið hverfi á braut.
Þegar fólk hringir til Fuglaverndar og segist hafa fundið unga er allra best að láta hann bara vera í friði, því oftast kemur móðirin að leita að unganum sínum þegar fólkið fer. Fuglarnir verða hræddir við fólk og láta sig hverfa. Þegar mannfólkið er farið þá fara foreldrarnir aftur að leita að ungunum sínum. Þá er leiðinlegt að búið sé að hirða ungann, “bjarga” honum með því að fara með hann í burtu.
Skógarþrastarungar fara ófleygir úr hreiðri
Í grein Ævars Petersen í Tímariti Hins íslenska náttúrufræðifélags, Náttúrufræðingnum, segir:1
Skógarþrastarungar eru ófleygir í hálfa til eina viku eftir að þeir fara úr hreiðri og dreifast þá vanalega um nærliggjandi garða. Á þessu tímabili eru þeir sérlega auðveld bráð fyrir ketti sem mikið er af í sumum þéttbýlishverfum.
Meðan skógarþrastarungar eru ófleygir en farnir úr hreiðri telur fólk gjarnan að þeir séu yfirgefnir. Þá eru þeir oft handsamaðir því fólk telur sig vera að bjarga þeim. Svo er alls ekki og hið eina rétta er að láta þá í friði. Foreldrarnir finna þá auðveldlega því ungarnir láta heyra til sín og nema foreldrar þau hljóð langar leiðir.
Náttúran sér um sína
Ef eitthvað er að ungum eru þeir oft skildir eftir af foreldrum sínum í náttúrunni og þurfa þeir að reyna að bjarga sér sjálfir. Yfirleitt er best að láta fugla vera í svona aðstæðum, leyfa náttúrunni að sjá um sig sjálf.
Öðru máli gegnir ef ungi eða fullorðinn fugl er slasaður, vængbrotinn eða fastur í einhverju rusli t.d. plasti eða snæri.
Ef nauðsynlega þarf að fanga fugl, setjið hann í kassa með pappír í botninum og setjið skál af vatni fyrir fuglinn. Látið kassan á dimman, hlýjan og rólegan stað og hafið samband við dýralækni eða Húsdýragarðinn.
Fuglavernd fagnar þeim áfangasigri sem fólgin er í úrskurðum Úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála varðandi sjókvíeldi. Það að vanda skuli til verka og fylgja þeim stjórnsýslureglum og lögum sem í gildi eru, svo ekki sé minnst á alþjóðlegar skuldbindingar er kemur að náttúruvernd er vissulega áfangasigur.
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sendi frá sér úrskurð 6/2017 Háafell Sjókvíeldi þann 20. júní 2017 þar sem því kærumáli var vísað frá. Sama dag úrskurðaði nefndin 5/2017 Háafell Sjókvíeldi og þar var um að ræða sama kærumál en aðrir málsaðilar. Í þeim úrskurði segir:
Felld er úr gildi ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 25. október 2016 um útgáfu starfsleyfis fyrir Háafell ehf. fyrir sjókvíaeldi í innanverðu Ísafjarðardjúpi á 6.800 tonna ársframleiðslu af regnbogasilungi og 200 tonna ársframleiðslu af þorski.
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 6. janúar 2017, er barst nefndinni 7. s.m., kærir NASF, verndarsjóður villtra laxastofna, Náttúruverndarsamtök Íslands, Æðarræktarfélag Íslands og Fuglavernd, ásamt nánar tilgreindum aðilum er telja sig eiga hagsmuna að gæta vegna umhverfisverndarsjónarmiða og veiðiréttinda, þá ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 25. október 2016 að gefa út starfsleyfi fyrir Háafell ehf. til sjókvíaeldis. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.
Teista er svartfugl. Teistustofninn er lítill og hefur verið áætlaður 10.000-15.000 varppör, sem samsvarar 51.000-77.000 einstaklingum. Teistum hefur fækkað verulega víða um land og er talið líklegt að þessi stofnstærðartala sé í raun mun lægri. T.d. hefur teistu fækkað um 80% í Strandasýslu frá 1959 en einnig í Flateyjum á Breiðafirði og á Skjálfanda.
Teista verpir tveimur eggjum, liggur á í 29-30 daga og ungatími eru 40 dagar. Teistan heldur sig við strendur og á grunnsævi og leitar sjaldan út á rúmsjó.
Verpur stök eða í litlum byggðum í eyjum, höfðum og urðum undir fuglabjörgum. Hreiður eru í klettaskorum, sprungum, undir steinum eða á syllum í hellum.
Fuglavernd hóf rannsókn á meðafla í grásleppunetum 2015 og sýna frumniðurstöður að teistur ánetjast mest fuglategunda eða allt að 6.700 fuglar árlega. Snemma vors 2016 var gerð úttekt á sjálfbærni bæði skotveiða á teistu og meðafla í grásleppunetum (sem og annarra veiðitegunda fugla) og var miðað við lægri tölu meðafla. Niðurstaðan er að núverandi veiðar eru að meðaltali 7,4 sinnum hærri en sjálfbærnimörk stofnsins leyfa samkvæmt PBR aðferðinni.
Hafrannsóknastofnun mat að árlegur meðafli teista í grásleppunet (um 2.000 fuglar) væri ósjálfbær veiði samkvæmt PBR aðferðinni.
Teista hentar illa sem veiðitegund vegna hægrar viðkomu,en fyrst og fremst vegna lítillar stofnstærðar hérlendis. Þessi tegund hefur í raun verið aukaafli svartfuglaveiðimanna og hefur ekki veriðsérstaklega sóst eftir henni.
Þessa vikuna er skrifstofan á Hverfisgötu lokuð. Starfsmenn Fuglaverndar ásamt Jóhanni Óla Hilmarssyni formanni sækja þessa daga fund allra Norðurlandanna sem haldinn er í Kaupmannahöfn.
Er þetta í fyrsta sinn sem fulltrúar frá öllum Norðurlöndunum hittast, til þess að læra og miðla reynslu í starfsemi fuglaverndar. Birdlife stendur að þessu samstarfi.
CAFF stendur fyrir Conservation of Arctic Flora and Fauna eða verndun gróðurs og dýralífs á Norðurskautinu var að gefa út skýrslu: State of the Arctic Marine Biodiversity Report eða Ástand líffræðilegs fjölbreytileika sjávar á Norðurskautinu. Efni skýrslunar er mjög yfirgripsmikið allt frá botndýrum og svifi yfir í fiska, sjávarspendýr og sjófugla.
Sem dæmi má nefna að mörgum tegundum sjófugla fækkað í Norðaustur Atlantshafi, í Noregi, á Íslandi, Grænlandi og í Færeyjum. Ísmáfinum hefur fækkað um 80-90% síðustu 20 ár í heimskautaeyjum Kanada og Norðaustur Atlantshafi og í Rússlandi hefur útbreiðsla skroppið saman í samræmi við hopun ísjaðarsins til norðurs.
Allir þeir sem láta sig umhverfið varða, sem og fuglavernd ættu ekki að láta þetta efni framhjá sér fara.
Í umboði neðangreindra samtaka skorum við á Alþingi og mennta- og menningarmálaráðherra að taka hið fyrsta af skarið varðandi málefni Náttúruminjasafns Íslands og búa þannig um hnúta að starfsemi þess rísi undir nafni við miðlun á fróðleik og þekkingu á náttúru landsins, náttúrusögu, náttúruvernd og nýtingu náttúruauðlinda, eins og lög kveða á um.
Ályktun Alþingis nr. 70/145 um hvernig minnast skuli aldarafmælis fullveldis Íslands, sem formenn allra þingflokka á Alþingi fluttu undir lok síðasta kjörtímabils og samþykkt var með 56 atkvæðum mótatkvæðalaust er mikið fagnaðarefni. Þar kemur m.a. fram að Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni ... „að sjá til þess að í fjármálaáætlun til næstu fimm ára, sem lögð verður fyrir Alþingi vorið 2017, verði gert ráð fyrir uppbyggingu Náttúruminjasafns.“
Það veldur því vonbrigðum að Náttúruminjasafns Íslands skuli hvergi vera getið í tillögu ríkisstjórnarinnar að ríkisfjármálaáætlun 2018–2022.
Á 100 ára afmæli HÍN árið 1989 kynnti menntamálaráðherra áætlanir um að reist yrði hús yfir Náttúrugripasafn Íslands. Í kjölfarið var mæld út lóð í Vatnsmýri fyrir byggingu Náttúruhúss sem var hugsað sem safnbygging og aðsetur Náttúrugripasafns. Í deiliskipulagi Háskólasvæðisins er enn gert ráð fyrir Náttúruhúsi á þessum stað, á svonefndum G-reit.
Staða Náttúruminjasafnsins, höfuðsafns þjóðarinnar í náttúrufræðum, hefur frá upphafi verið óviðunandi og safnið búið við þröngan kost þau tíu ár sem liðin eru frá stofnun þess. Fjárheimildir hafa verið afar naumt skornar, starfsmenn aðeins tveir hið mesta, skrifstofuaðstaða ótrygg og engin aðstaða til sýningahalds, kennslu eða miðlunar fróðleiks á eigin vegum.
Öflugt náttúrufræðisafn styrkir menntakerfið og menningarlífið og stuðlar að aukinni þekkingu á náttúru landsins og skilningi á tengslum hennar við umheiminn. Menntun landsmanna í náttúrufræðum er forsenda sjálfbærni í atvinnugreinum þjóðarinnar, sem nær allar hvíla á nýtingu náttúrunnar. Aukinn skilningur á náttúru Íslands er eitthvert brýnasta verkefni samtímans og skólaæska landsins á sannarlega skilið metnaðarfullt og nýstárlegt náttúrufræðisafn þar sem undrum og ferlum náttúrunnar eru gerð skil. Það er mikils um vert að ekki verði hvikað frá þeim góðu fyrirheitum sem gefin eru í fyrrnefndri ályktun Alþingis.
Síðastliðinn laugardag fór formaður Fuglaverndar, Jóhann Óli Hilmarsson fyrir hópferð sem bar yfirskriftina Leyndardómar Borgarfjarðar. Honum til aðstoðar var Alex Máni Guðríðarson. Ferðin hófst formlega í Borgarnesi, þar sem síðasti þátttakandinn slóst í hópinn og í Borgarvogi voru yfir 20 brandendur, sem glöddu augað, en brandendur sáust nokkuð víða á Mýrunum.
Farið var að Álftanesi, í Straumfjörð og að Ökrum og dugði það fyrir daginn. Á leiðinni sáust tveir fálkar, fullorðinn örn og stórir margæsahópar. Á fjörunni voru leirur fullar af vaðfuglum, m.a. rauðbrystingi, sanderlu og tildru á leið til hánorrænna varstöðva eins og margæsin. Rjúpukarrar sátu á hverjum hól á Mýrunum í blíðunni. Á bakaleiðinni var Ramsar-svæðið Grunnafjörður lauslega skoðað.
Við notum vafrakökur og aðra mælingatækni til að bæta vafraupplifun þína á vefnum okkar, sýna persónulegt efni, greina umferð um vefinn og skilja hvaðan úr veröldinni við fáum heimsóknir á vefinn okkar. Persónuverndarstefna okkar tók gildi 20. júlí 2018.
Með því að velja OK samþykkir þú notkun okkar á vafrakökum og öðrum rekjanleika.
OKNeiPersónuverndarstefna