Fuglaskoðun á Reykjanesi

Laugardaginn 11. maí bauð Fuglavernd upp á fuglaskoðun við Garðskagavita. Tilefnið var Alþjóðlegi farfugladagurinn að vori, en hans er minns bæði vor og haust. Trausti Gunnarsson, leiðsögumaður og ritari stjórnar Fuglaverndar hélt utan um viðburðinn. Um 15 manns komu til að skoða sjófugla í sól en heldur nöpru veðri að öðru leyti.

Kíkir er gott hjálpartæki við fuglaskoðun. Ljósmynd: © Trausti Gunnarsson.
Fuglaskoðun við Garðskagavita. Ljósmynd: © Trausti Gunnarsson

Kort: Fuglaskoðun á Reykjanesskaga

Fuglaskoðun á Reykjanesi, kort á íslensku eða ensku.

Fuglaskoðun á Reykjanesi er samstarfsverkefni Þekkingarseturs Suðurnesja, Náttúrustofu Suðvesturlands, Reykjanes UNESCO Global Geopark og Markaðsstofu Reykjaness. Kortið er fáanlegt á tveimur tungumálum, íslensku og ensku. Nálgast má eintök af því á skrifstofu Fuglaverndar.

 

Lóan er komin og fleiri farfuglar

Fyrsta lóan 2019 sást í Stokkseyrarfjöru 28. mars. © Hjördís Davíðsdóttir

Í Stokkseyrarfjöru þann 28. mars náðist mynd af fyrstu lóu vorsins og var það Hjördís Davíðsdóttir sem náði henni. Þetta mun vera sami dagur og lóan kom í fyrra.

Á póstlista fuglaáhugamanna um allt land eru nú daglegar fregnir af farfuglum:

  • 27/3 Sá þó fyrstu grágæsirnar (2) og sílamáfana (2) í dag og yfir 20 fugla hóp af tjaldi sem var greinilega nýkominn. Fyrstu tjaldarnir voru komnir fyrir nokkru síðan. – Jónína Óskars, Fáskrúðsfirði
  • 28/3 11 skógarþrestir taldir í húsagarði hér í dag. Hafa ekki verið í vetur. – Jónína Óskarsdóttir, Fáskrúðsfirði.
  • 29/3 Það sást lóa hér á Stokkseyri í gær og náðist mynd af fuglinum. Tveir jaðrakanar í sumarbúningi á Eyrarbakka með tjöldum. – Jóhann Óli Hilmarsson, Stokkseyri.
  • 30/3 Í Þöll í Hafnarfirði í morgun: Skógarþröstur tyllti sér í grenitopp og söng óburðugt lag. Fyrsti söngur skógarþrastar sem ég heyri í vor. – Erling Ólafsson.
  • 30/3 Ég sá fyrstu urtendurnar í gær hér á Fáskrúðsfirði og síðan fyrstu rauðhöfðaendurnar í dag. – Jónína Óskarsdóttir.
  • 30/3 Ég myndaði í dag blesgæsir og heiðagæsir í Flóanum, nokkrar blesæsirnar voru merktar. Er þetta ekki óvenju snemma fyrir þessar tegundir? – Svanhildur Egilsdóttir.

Það er því næsta víst að vorið er á næsta leiti.

Gardfuglar 2017 Kápumynd Snjótittlingur ©Daníel Bergmann

Nýr garðfuglabæklingur og garðfuglahelgin

Bæklingurinn Garðfuglar er nú fáanlegur í vefverslun okkar í nýrri og endurbættri útgáfu. Bæklingurinn eru 24 bls. af fróðleik um fuglategundir sem vænta má í görðum, um fuglafæðu og hvaða gróðurtegundir gera garðinn aðlaðandi fyrir fuglalíf. Bæklinginn prýða bæði teiknaðar skýringarmyndir , m.a. eftir  Jón Baldur Hlíðberg, og ljósmyndir eftir nokkra félagsmenn, þá Daníel Bergmann, Hrafn Óskarsson, Jóhann Óla Hilmarsson, Sindra Skúlason og Örn Óskarsson.

Garðfuglahelgin 2018

Árleg garðfuglahelgi Fuglaverndar er nú um helgina, frá 26. -29. janúar.  Á þessum tíma í janúar er fjöldi fugla í görðum í hámarki og farfuglarnir ekki komnir til landsins. Athuganir garðfuglahelgarinnar gefa því vísbendingar um tegundir og fjölda fugla um hávetur á Íslandi.

Fyrirmynd garðfuglahelgarinnar er komin frá RSPB en í Bretlandi hefur garðfuglahelgin verið haldin frá árinu 1979 en hefur verið haldin hér á landi frá árinu 2004.

Veldu þér klukkutíma einhvern daganna um þessa helgi og fylgstu með fuglunum í garðinum þínum. Aðeins á að skrá fjölda fugla af ákveðinni tegund sem sjást saman í garðinum, ekki á að telja þá fugla sem fljúga hjá. Best er að tilkynna fjölda flestra fugla sem koma og setjast í garðinn. Það má nefnilega ekki leggja saman, það er gert til þess að forðast tvítalningar á sama fuglinum, sem ef til vill kemur á 15 mínútna fresti í garðinn. Þá er hann skráður sem einn fugl en ekki fjórir. Ef fjöldi fuglanna er slíkur að það getur verið erfitt að telja kvika smáfugla, er gott hjálpartæki að taka mynd og telja fuglana sem sjást á henni.

Fyrir börn og þá sem eru að stíga sín fyrstu skref í fuglaskoðun, þá höfum við útbúið:

Garðfuglar – Hjálparblað með myndum.pdf sem hægt er að prenta út og nota við talninguna.

Niðurstöðurnar getur þú skráð rafrænt hér:

Garðfuglahelgin 2018, rafræn skráning athugana

 

Vefverslunin

Í vefversluninni okkar finnur þú líka fuglahús og fuglafóður.

 

 

Dagsferðin: Leyndardómar Borgarfjarðar

Síðastliðinn laugardag fór formaður Fuglaverndar, Jóhann Óli Hilmarsson fyrir hópferð sem bar yfirskriftina Leyndardómar Borgarfjarðar. Honum til aðstoðar var Alex Máni Guðríðarson. Ferðin hófst formlega í Borgarnesi, þar sem síðasti þátttakandinn slóst í hópinn og í Borgarvogi voru yfir 20 brandendur, sem glöddu augað, en brandendur sáust nokkuð víða á Mýrunum.

Farið var að Álftanesi, í Straumfjörð og að Ökrum og dugði það fyrir daginn. Á leiðinni sáust tveir fálkar, fullorðinn örn og stórir margæsahópar. Á fjörunni voru leirur fullar af vaðfuglum, m.a. rauðbrystingi, sanderlu og tildru á leið til hánorrænna varstöðva eins og margæsin. Rjúpukarrar sátu á hverjum hól á Mýrunum í blíðunni. Á bakaleiðinni var Ramsar-svæðið Grunnafjörður lauslega skoðað.

Yfir 40 fuglategundir sáust í ferðinni:

 

Æður Hvítmáfur Sílamáfur
Álft Jaðrakan Silfurmáfur
Bjartmáfur Kjói Skógarþröstur
Brandönd Kría Skúfönd
Dílaskarfur Lómur Spói
Fálki Lóuþræll Stari
Flórgoði Margæs Steindepill
Fýll Maríuerla Stelkur
Grágæs Rauðbrystingur Stokkönd
Haförn Rauðhöfði Svartbakur
Heiðlóa Rita Tildra
Hettumáfur Rjúpa Tjaldur
Hrafn Sanderla Toppönd
Hrossagaukur Sandlóa Urtönd
Þúfutittlingur