Ljsm Hjalti Lúðvíksson

Alþjóðlegi farfugladagurinn að hausti laugardaginn  9. okóber 2021

Ljósm. ofan Hjalti Lúðvíksson

Níu manns á vegum Fuglaverndar hittust við Garðskagavita og skoðuðu og hentu tölu á fuglaflóruna þar á farfugladegi að hausti.  Enn fremur voru skoðaðir fuglar í Sandgerði og á Fitjum í Njarðvíkum.

Heilmikið sást af gylltum heiðlóum, hettulausum hettumáfum og  svo ekki sé minnst á vaðfugla eins og tildrur, sandlóur og sendlinga í haust eða vetrarbúning.   Það gekk á með skúrum en allir voru vel klæddir og vopnaðir sjónaukum. Eftir tveggja tíma úthald fór að hellirigna og þá var gert súpuhlé á veitingastaðnum Röstinni og þar var skipst á fuglasögum af krafti. Síðan var ekið til Sandgerðis og veðurguðirnir voru hópnum hliðhollir því það stytti upp skamma stund þegar staldrað var við þar og tjaldar, topendur og fleiri fuglar skoðaðir.  Síðasti áfangastaður var Fitjar í Njarðvíkum en þar hellirigndi en hópurinn setti upp hetturnar og fór út að skoða rauðhöfðaendur og álftir og sáu þá eina flæking dagsins; ljóshöfðastegg.  24  tegundir sáust samanlagt,

Fyrir utan hvað það er gaman að skoða fugla og reyna að greina nýjar tegundir er mikil skemmtun af því að hitta aðra félaga Fuglaverndar. Margir sem hafa áhuga á fuglaskoðun eru einir á báti í áhugamálinu og  hafa ekki alltaf skilning vina og kunningja á þessu. Sumir eiga auðvitað fullt af fuglaskoðunarvinum en fyrir þá sem eru einir á báti í áhugamálinu sínu þá mælum við í Fuglavernd með að koma á viðburðina okkar, hvort sem er í Friðlandinu, Garðskaga, í skógarferðir, langferðir um landið eða í fuglaskoðanir erlendis. Maður þarf ekki að vera fulllærður í faginu til að njóta þess. Alltaf er gott  að læra eitthvað nýtt. Þrátt fyrir að fuglar séu skemmtilegt viðfangsefni þá er maður manns gaman líka. Í þessum túr var Anna-María Lind starfsmaður skrifstofu Fuglaverndar fararstjóri, áhugakona um fugla en ekki enn sérfræðingur.  Innan vébanda Fuglaverndar er urmull færra fuglaskoðara sem við fáum með til leiks þegar þannig ber undir.

ljósmyndir Katrín Guðjónsdóttir

Vel heppnaðar göngur í Friðlandi í Flóa

Þrjár göngur hafa verið farnar í Friðlandið okkar á vegum Fuglaverndar í júní og júli.
Mikið var af óðinshönum í byrjun júní og álftarpar var á vappi á ýmsum stöðum í mýrinni. Skúfendur á tjörnum svo og rauðhöfðar. Órólegir þúfutittlingar við fuglskoðunarhúsið en væntanlega eru þeir með hreiður rétt hjá. Enginn stari, hann hefur móðgast þegar lokað var fyrir hreiðurstæði hans í þakskeggi undir stiganum. Honum hefur ekkert litist á varpkassana.
Lómarnir stela agjörlega senunni á kvöldin með sínum margbreytilegu hljóðum; kurri, góli, væli, mali og svo fram eftir götunum. Einnig er mikið fjör þegar 7 – 12 lómar safnast saman og skemmta sér á dæli eða tjörn.
Hópurinn í gærkvöldi var svo heppinn að sjá branduglu með æti í klóm væntanlega á leið heim til unganna og sá einnig álftapar með nokkura daga unga.
Sjöstjarnan sem vex af miklum móð í mýrinni hefur verið í blóma og mýrin virkilega verið stjörnum prýdd. Þessi planta er algengust á austurlandi en í Friðlandinu er hún út um allt. Um sjöstjörnuna

Ferðasaga: Fuglaskoðun í Portúgal

Fuglakoðun í Portúgal, samvinnuverkefni Fuglaverndar og Portúgalska fuglaverndarfélagsins, SPEA.

Þann 18. apríl 2019 héldu 12 kampakátir Íslendingar af stað í fuglaskoðun til Miðjarðarhafslandsins Portúgal. Ferðin var samvinnuverkefni Fuglaverndar og Portúgalska fuglaverndarfélagsins, SPEA. Portúgalarnir skipulögðu ferðina heimafyrir, meðan Fuglavernd sá um að koma hópnum út.

Tveir leiðsögumenn skiptu með sér leiðsögninni fyrir okkur og voru þeir hinir liprustu og þægilegir í umgengni og vildu allt fyrir hópinn gera. Rui Machado leiðsagði fyrri hlutann og Hugo Sampaio þann síðari. Undirritaður var síðan fararstjóri af hálfu Fuglaverndar.

Framan af var ferðast um suður og suðausturhluta landsins, en síðan mjökuðum við okkur inntil landsins og héldum okkur nærri landamærum Portúgal og Spánar. Að endingu var strikið tekið þvert yfir landið og síðustu dagana skoðuðum við okkur um við austanverða ósa Tejo (Tagus) árinnar, gegnt höfuðborginni Lissabon.

Veður var mjög fjölbreytt, frá slagveðursrigningu og yfir í brakandi blíðu og hita. Um tíma náðu skil norðan úr Dumbshafi suður til Pýreneaskagans og dældu þangað köldu lofti, meðan sömu skil hituðu upp loftið hér heima og var þá hlýrra hér en suður þar. Þær aðstæður vörðu stutt, sem betur fer fyrir okkur.

Menningunni var að einhverju leyti sinnt meðfram fuglaskoðun. Við heimsóttum til dæmis miðaldaþorpið Mértola á bökkum Guadiana árinnar, þar sem áður voru landamæri við Spán og hinn sögufræga bæ Évora, sem er á heimsminjaskrá UNESCO. Eftir að ferðinni lauk formlega, 28. apríl, hélt meirihluti hópsins til þeirrar merku borgar Lissabon og dvaldi þar í tvo daga.

Alls sáust 170 tegundir fugla í ferðinni, að meðtöldum innfluttum fuglum. Að sjálfsögðu sáu ekki allir þátttakendur allar fuglategundirnar. Hér að neðan eru taldar upp þær tegundir sem a.m.k. einn leiðangursmanna sá og skv. reglunum eru ekki taldir með fuglar sem leiðsögumaðurinn sér einn.

 

Einn fallegasti og sérstakasti sérstæðasti fugl fararinnar var bláhrani. Hann verpur aðeins á afmörkuðu svæði í Castro Verde í Portúgal. Ljósm. JÓH.

 

Tígulegur flatnefur í votlendi. Ljósm. Jón Hákonarson.
Við sáum fjöldann allan af hvítstorkum og hreiðrin voru víða, bæði á húsþökum, í trjám og á rafmagnsstaurum eða –möstrum. Ljósm. Jón Hákonarson.

Þess má geta að hvítstorkurinn er ein aðalsöguhetjan í árvekniátakið BirdLife sem ber yfirskriftina #FlightForSurvival. Sjá nánar á: https://flightforsurvival.org/

Korkeik skoðuð í Barranco do Velho Miklir áhugamenn og sérfræðingar um gróður, sérstaklega trjágróður, voru með í ferðinni. Ljósm. Kristinn Vilhelmsson.
Steinrósarunnar Brown Eyed Rockrose. (Cistus Ladanifer) uxu víða og þöktu sums staðar stór svæði. Það er einkennisjurt Castro Verde.
Svipast um eftir ránfuglum af hæð. Ljósm.: Kristinn Vilhelmsson.
Fuglaskoðun við ána Vascão (Ribeira do Vascão) – Næturgali. Næturgalinn söng víða hástöfum, þar sem við komum. Hann sýndi sig þó venjulega ekki en þessi fugl var sannarlega undantekning. Ljósm.: Kristinn Vilhelmsson.
Við gamla brennisteinsnámu í Parque Natural do Vale do Guadiana. Þar mátti meðal annars sjá Picus sharpei (Iberian Green Woodpecker), sem enn hefur ekki hlotið íslenskt heiti, enda nýbúið að splitta henni úr grænspætu. Laufglói lét í sér heyra og við sáum jörfadepil, auk fleiri fugla. Ljósm. Kristinn Vilhelmsson.
Litskrúðugt „landslag“ í koparnámunum. Ljósm. Kristinn Vilhelmsson.
Fuglaskoðun í árgljúfri Guadiana árinnar við Pulo do Loba. Þarna mátti m.a. sjá svartstorka og haukerni. Ljósm. Kristinn Vilhelmsson.
Tígulegur gjóður á eyju í Tejo. Tejo (frbr. Tesou) er portúgalska heitið yfir ána, sem enskumælandi nefna Tagus. Ljósm. Kristinn Vilhelmsson.
Sigling á Tejo. Ljósm. Kristinn Vilhelmsson.
Plöntuskoðun í Caldeirão hæðunum. Ljósm. JÓH.
Tyrkjadúfan er algeng í Portúgal. Ljósm. Jón Hákonarson.
Brandönd Rindilþvari Svölugleða
Skeiðönd Nátthegri Völsungur
Gargönd Kúhegri Gæsagammur
Stokkönd Mjallhegri Kuflgammur
Kólfönd Bjarthegri Snákerna
Skutulönd Gráhegri Brúnheiðir
Skúfönd Bognefur Gráheiðir
Sandhæna Flatnefur Músvákur
Kornhæna Svartstorkur Skassörn
Dverggoði Hvítstorkur Gullörn
Toppgoði Flæmingi Skálmaörn
Dílaskarfur Vatnagleða Haukörn
Gjóður Skeggþerna Hálmsöngvari
Kliðfálki Sandspjátra Sefsöngvari
Turnfálki Auðnaspjátra Reyrsöngvari
Förufálki Bjargdúfa Skopsöngvari
Smyrill Holudúfa Busksöngvari
Keldusvín Hringdúfa Hjálmsöngvari
Dílarella Tyrkjadúfa Hettusöngvari
Sefhæna Dílagaukur Limsöngvari
Bláhæna Gaukur Gullkollur
Bleshæna Kattugla Flekkugrípur
Grátrana Múrsvölungur Skottmeisa
Dvergdoðra Fölsvölungur Toppmeisa
Trölldoðra Bláþyrill Blámeisa
Háleggur Býsvelgur Flotmeisa
Bjúgnefja Bláhrani Hnotigða
Tríll Herfugl Garðfeti
Þernutrítill Grænspæta1 Laufglói
Vatnalóa Grænpáfi Steppusvarri
Sandlóa Sunnulævirki Trjásvarri
Strandlóa Sandlævirki Skrækskaði
Heiðlóa Stúflævirki Bláskjór
Grálóa Topplævirki Skjór
Rauðbrystingur Kamblævirki Bjargkorpungur
Veimiltíta Trjálævirki Dvergkráka
Lóuþræll Bakkasvala Svartkráka
Sanderla Bjargsvala Hrafn
Hrossagaukur Landsvala Gljástari
Jaðrakan Brandsvala Skúfmænir
Lappajaðrakan Bæjasvala Hettuvefari
Spói Sandtittlingur Fagurstrildi
Fjöruspói Gulerla Tígurstrildi
Lindastelkur Maríuerla
Lonchura punctulata 2
Flóastelkur Fossbúi Gráspör
Sótstelkur Músarrindill Spánarspör
Stelkur Glóbrystingur Trjáspör
Lyngstelkur Næturgali Steinspör
Tildra Húsaskotta Bókfinka
Hettumáfur Hagaskvetta Gulfinka
Lónamáfur Steindepill Grænfinka
Sílamáfur Jörfadepill Þistilfinka
Klapparmáfur Urðardepill Hampfinka
Kóralmáfur Bláþröstungur Álmtittlingur
Sandþerna Svartþröstur Steintittlingur
Þaraþerna Mistilþröstur Korntittlingur
Dvergþerna Blæsöngvari

1 Grænspætu hefur nú verið skipt upp og ný tegund, Picus sharpei (Iberian Green Woodpecker) orðið til.

2 Þessi innflutta tegund hefur ekki enn hlotið íslenskt heiti, heitir á ensku Scaly-breasted Munia.

 

Fyrir hönd Fuglaverndar: Jóhann Óli Hilmarsson

Fuglaskoðun á Reykjanesi

Laugardaginn 11. maí bauð Fuglavernd upp á fuglaskoðun við Garðskagavita. Tilefnið var Alþjóðlegi farfugladagurinn að vori, en hans er minns bæði vor og haust. Trausti Gunnarsson, leiðsögumaður og ritari stjórnar Fuglaverndar hélt utan um viðburðinn. Um 15 manns komu til að skoða sjófugla í sól en heldur nöpru veðri að öðru leyti.

Kíkir er gott hjálpartæki við fuglaskoðun. Ljósmynd: © Trausti Gunnarsson.
Fuglaskoðun við Garðskagavita. Ljósmynd: © Trausti Gunnarsson

Kort: Fuglaskoðun á Reykjanesskaga

Fuglaskoðun á Reykjanesi, kort á íslensku eða ensku.

Fuglaskoðun á Reykjanesi er samstarfsverkefni Þekkingarseturs Suðurnesja, Náttúrustofu Suðvesturlands, Reykjanes UNESCO Global Geopark og Markaðsstofu Reykjaness. Kortið er fáanlegt á tveimur tungumálum, íslensku og ensku. Nálgast má eintök af því á skrifstofu Fuglaverndar.

 

Lóan er komin og fleiri farfuglar

Fyrsta lóan 2019 sást í Stokkseyrarfjöru 28. mars. © Hjördís Davíðsdóttir

Í Stokkseyrarfjöru þann 28. mars náðist mynd af fyrstu lóu vorsins og var það Hjördís Davíðsdóttir sem náði henni. Þetta mun vera sami dagur og lóan kom í fyrra.

Á póstlista fuglaáhugamanna um allt land eru nú daglegar fregnir af farfuglum:

  • 27/3 Sá þó fyrstu grágæsirnar (2) og sílamáfana (2) í dag og yfir 20 fugla hóp af tjaldi sem var greinilega nýkominn. Fyrstu tjaldarnir voru komnir fyrir nokkru síðan. – Jónína Óskars, Fáskrúðsfirði
  • 28/3 11 skógarþrestir taldir í húsagarði hér í dag. Hafa ekki verið í vetur. – Jónína Óskarsdóttir, Fáskrúðsfirði.
  • 29/3 Það sást lóa hér á Stokkseyri í gær og náðist mynd af fuglinum. Tveir jaðrakanar í sumarbúningi á Eyrarbakka með tjöldum. – Jóhann Óli Hilmarsson, Stokkseyri.
  • 30/3 Í Þöll í Hafnarfirði í morgun: Skógarþröstur tyllti sér í grenitopp og söng óburðugt lag. Fyrsti söngur skógarþrastar sem ég heyri í vor. – Erling Ólafsson.
  • 30/3 Ég sá fyrstu urtendurnar í gær hér á Fáskrúðsfirði og síðan fyrstu rauðhöfðaendurnar í dag. – Jónína Óskarsdóttir.
  • 30/3 Ég myndaði í dag blesgæsir og heiðagæsir í Flóanum, nokkrar blesæsirnar voru merktar. Er þetta ekki óvenju snemma fyrir þessar tegundir? – Svanhildur Egilsdóttir.

Það er því næsta víst að vorið er á næsta leiti.

Gardfuglar 2017 Kápumynd Snjótittlingur ©Daníel Bergmann

Nýr garðfuglabæklingur og garðfuglahelgin

Bæklingurinn Garðfuglar er nú fáanlegur í vefverslun okkar í nýrri og endurbættri útgáfu. Bæklingurinn eru 24 bls. af fróðleik um fuglategundir sem vænta má í görðum, um fuglafæðu og hvaða gróðurtegundir gera garðinn aðlaðandi fyrir fuglalíf. Bæklinginn prýða bæði teiknaðar skýringarmyndir , m.a. eftir  Jón Baldur Hlíðberg, og ljósmyndir eftir nokkra félagsmenn, þá Daníel Bergmann, Hrafn Óskarsson, Jóhann Óla Hilmarsson, Sindra Skúlason og Örn Óskarsson.

Garðfuglahelgin 2018

Árleg garðfuglahelgi Fuglaverndar er nú um helgina, frá 26. -29. janúar.  Á þessum tíma í janúar er fjöldi fugla í görðum í hámarki og farfuglarnir ekki komnir til landsins. Athuganir garðfuglahelgarinnar gefa því vísbendingar um tegundir og fjölda fugla um hávetur á Íslandi.

Fyrirmynd garðfuglahelgarinnar er komin frá RSPB en í Bretlandi hefur garðfuglahelgin verið haldin frá árinu 1979 en hefur verið haldin hér á landi frá árinu 2004.

Veldu þér klukkutíma einhvern daganna um þessa helgi og fylgstu með fuglunum í garðinum þínum. Aðeins á að skrá fjölda fugla af ákveðinni tegund sem sjást saman í garðinum, ekki á að telja þá fugla sem fljúga hjá. Best er að tilkynna fjölda flestra fugla sem koma og setjast í garðinn. Það má nefnilega ekki leggja saman, það er gert til þess að forðast tvítalningar á sama fuglinum, sem ef til vill kemur á 15 mínútna fresti í garðinn. Þá er hann skráður sem einn fugl en ekki fjórir. Ef fjöldi fuglanna er slíkur að það getur verið erfitt að telja kvika smáfugla, er gott hjálpartæki að taka mynd og telja fuglana sem sjást á henni.

Fyrir börn og þá sem eru að stíga sín fyrstu skref í fuglaskoðun, þá höfum við útbúið:

Garðfuglar – Hjálparblað með myndum.pdf sem hægt er að prenta út og nota við talninguna.

Niðurstöðurnar getur þú skráð rafrænt hér:

Garðfuglahelgin 2018, rafræn skráning athugana

 

Vefverslunin

Í vefversluninni okkar finnur þú líka fuglahús og fuglafóður.

 

 

Dagsferðin: Leyndardómar Borgarfjarðar

Síðastliðinn laugardag fór formaður Fuglaverndar, Jóhann Óli Hilmarsson fyrir hópferð sem bar yfirskriftina Leyndardómar Borgarfjarðar. Honum til aðstoðar var Alex Máni Guðríðarson. Ferðin hófst formlega í Borgarnesi, þar sem síðasti þátttakandinn slóst í hópinn og í Borgarvogi voru yfir 20 brandendur, sem glöddu augað, en brandendur sáust nokkuð víða á Mýrunum.

Farið var að Álftanesi, í Straumfjörð og að Ökrum og dugði það fyrir daginn. Á leiðinni sáust tveir fálkar, fullorðinn örn og stórir margæsahópar. Á fjörunni voru leirur fullar af vaðfuglum, m.a. rauðbrystingi, sanderlu og tildru á leið til hánorrænna varstöðva eins og margæsin. Rjúpukarrar sátu á hverjum hól á Mýrunum í blíðunni. Á bakaleiðinni var Ramsar-svæðið Grunnafjörður lauslega skoðað.

Yfir 40 fuglategundir sáust í ferðinni:

 

Æður Hvítmáfur Sílamáfur
Álft Jaðrakan Silfurmáfur
Bjartmáfur Kjói Skógarþröstur
Brandönd Kría Skúfönd
Dílaskarfur Lómur Spói
Fálki Lóuþræll Stari
Flórgoði Margæs Steindepill
Fýll Maríuerla Stelkur
Grágæs Rauðbrystingur Stokkönd
Haförn Rauðhöfði Svartbakur
Heiðlóa Rita Tildra
Hettumáfur Rjúpa Tjaldur
Hrafn Sanderla Toppönd
Hrossagaukur Sandlóa Urtönd
Þúfutittlingur