Nú verður Eyvafen friðlýst og þá er vonandi búið að slá endanlega út af borðinu allar hugmyndir um frekari lón í verunum (Norðlingaölduveitu), en Kvíslaveitur hafa nú þegar breytt vatnsbúskap veranna umtalsvert. Það hefði vissulega verið gaman, hefði friðlandið teygt sig niður með Þjórsá og Dynkur verið friðlýstur í leiðinni, en hann er einn stærsti, tignarlegasti og fallegasti foss landsins. En hans tími mun koma.
Frestur til að skila umsögnum og athugasemdum vegna tillögunnar er til 3. október næstkomandi og má senda þær á netfangið postur@uar.is eða í bréfpósti, á umhverfis- og auðlindaráðuneytið, Skuggasundi 1, 101 Reykjavík.
Á málþinginu voru flutt fjölmörg áhugaverð erindi, um válista almennt, lagalega stöðu hér á landi og á nágrannalöndunum og um þær fuglategundir sem hafa laka stöðu, bæði fargesti og staðbundnar tegundir.
Craig Hilton-Taylor yfirmaður válista hjá IUCN Alþjóða náttúruverndarsamtökunum var sérstakur gestur fundarins. Umhverfis- og auðlindaráðherra Björt Ólafsdóttir ávarpaði fundinn. Þá átti Craig einnig fund með starfsmönnum Náttúrufræðistofnunar sem starfa að verð válista, fyrir fugla, plöntur og spendýr en sá válisti er í bígerð á Íslandi í fyrsta sinn.
Hér eru nokkrar svipmyndir frá fundinum, en upptökur af erindunum verða einnig aðgengilega á vefnum en eru enn í vinnslu.
Umhverfis- og auðlindaráðherra hefur með reglugerð friðað teistu fyrir skotveiðum. Ákvörðun um friðun er tekin á grundvelli umsagna frá Náttúrufræðistofnun Íslands og Umhverfisstofnunar.
Teista er grunnsævisfugl sem telst til svartfugla og verpir í klettagjótum, urðum og sprungum. Erfitt er að meta stærð stofnsins en gróflega hefur verið áætlað að íslenski stofninn sé um 10.000-20.000 pör. Vöktun bendir sterklega til talsverðrar fækkunar teistu í allmörg síðustu ár.
Fuglavernd fagnar þessari reglugerðarbreytingu en betur má ef duga skal. Í dag, 1. september hefst veiðitími annara svartfuglategunda: Álku, langvíu, stuttnefju, lunda, en veiðar úr þessum stofnum eru áfram löglegar skv. fyrrgreindri reglugerð.
„hnignun þessara fimm stofna hefði verið veruleg undanfarin 10-15 ár og dregur í efa að stofnarnir séu sjálfbærir þannig að þeir þoli veiðar án þess að það gangi frekar á þá. Forsendur fyrir nýtingu þeirra, hvort sem er með skotveiðum eða hlunnindanýtingu, eru þar af leiðandi ekki lengur fyrir hendi. Starfshópurinn telur mikilvægt að gripið verði til aðgerða þegar í stað til þess að auka verndun þessara tegunda meðan stofnarnir eru á niðurleið og þar til þeir hafa jafnað sig og varp og nýliðun komin í horf sem talist getur eðlilegt. Meirihluti starfshópsins telur nauðsynlegt að stöðva tímabundið veiðar og nýtingu þessara fimm tegunda sem hann fjallaði um. Minnihluti hópsins (fulltrúar Skotvís og Umhverfisstofnunar eftir atvikum) tekur undir nauðsyn þess að friða teistu og lunda tímabundið fyrir veiðum og nýtingu en telur hins vegar að það nægi að draga tímabundið úr veiðum á svartfugli.“
Við fögnum því í dag þeim áfangasigri sem náðst hefur, en höldum áfram ótrauð vegferð fuglaverndar.
Fuglavernd hlaut í sumar umhverfisstyrk úr samfélagssjóði Landsbankans. Styrkurinn er veittur til að útbúa kynningarefni um Friðlandið í Flóa og þann árangur sem náðst hefur þar við endurheimt votlendis. Endurheimt votlendis við Friðlandið í Flóa hófst árið 1997 og því er verkefnið tuttugu ára í ár. Hólmfríður Arnardóttir tók á móti styrknum fyrir hönd félagsins.
Fimmtán verkefni hlutu umhverfisstyrki úr Samfélagssjóðnum miðvikudaginn 5. júlí, sjá frétt Landsbankans. Fimm verkefni fengu 500 þúsund krónur hvert og tíu verkefni 250 þúsund krónur hvert, samtals fimm milljónir króna. Þetta var í sjöunda sinn sem Landsbankinn veitir umhverfisstyrki úr Samfélagssjóði bankans en í ár bárust um 70 umsóknir.
Umhverfisstyrkjum Landsbankans er ætlað að styðja við verkefni á sviði umhverfismála og náttúruverndar og dómnefnd leitast við að velja metnaðarfull verkefni sem hafa skýra þýðingu fyrir íslenska náttúru og vistkerfið. Styrkirnir byggja á stefnu Landsbankans um samfélagslega ábyrgð þar sem fram kemur m.a. að bankinn hyggist flétta umhverfismál, efnahagsmál og samfélagsmál saman við rekstur sinn.
Í dómnefnd sátu Dr. Brynhildur Davíðsdóttir, dósent í umhverfis- og auðlindafræðum við Háskóla Íslands, Finnur Sveinsson, sérfræðingur í samfélagsábyrgð og dr. Guðrún Pétursdóttir, forstöðumaður Stofnunar Sæmundar fróða um sjálfbæra þróun við Háskóla Íslands, en hún var jafnframt formaður nefndarinnar.
Fuglaveiðimenn eru farnir að undirbúa fyrstu veiðiferð tímabilsins. Veiðar á grágæsum og heiðagæsum hófust sunnudaginn 20. ágúst.Þann 1. september hefst veiðitímabil anda, en á vef Umhverfisstofnunar má sjá veiðitímabil þeirra fugla sem heimilt er að veiða.
Veiðimenn skulu sérstaklega minntir á að óheimilt er að skjóta fugla í sárum og ófleyga fugla. Í upphafi veiðitímabilsins má búast við að rekast á ófleyga unga, sérstaklega á svæðum þar sem varp hefur farið seint af stað. Einnig er ástæða til að minna sérstaklega á alfriðun blesgæsarinnar en hún hefur verið friðuð síðan 2006. Þá mega veiðar á helsingja í Austur– og Vestur–Skaftafellssýslum ekki hefjast fyrr en 25. september.
Greining blesgæsar
Blesgæs hefur viðkomu hér á landi á vorin og svo aftur á haustin frá fyrri hluta september og fram í byrjun nóvember. Nú þegar gæsaveiðitímabilið er hafið er gagnlegt að rifja upp hvernig greina á blesgæsir frá öðrum gæsum en blesgæsin er friðaður fugl.
Blesgæs er dekkst gráu gæsanna. Fullorðnar eru þær með svartar rákir og díla á kvið sem er stundum nánast alsvartur. Fætur eru rauðgulir og goggur gulbleikur. Hvít blesa er ofan goggrótar. Blesgæs er sjónarmun minni en grágæs og heiðagæs en hegðar sér svipað, er þó sneggri á uppflugi og sýnist liprari á flugi. Hún lendir með sveflum og dýfum og kvakar hátt. Röddin er hærra stemmd en hjá öðrum gæsum og hún lætur meira í sér heyra.
Ungfugl að hausti vantar blesuna og svarta bletti á kvið. Hann er lítill og dökkur yfirlitum og goggur er daufari. Erfitt getur verið að greina hann frá öðrum gæsum en hann heldur sig innan um fullorðnar blesgæsir á haustin sem ætti að auðvelda greiningu. Greini skotveiðimenn eina eða fleiri blesgæsir í hóp er er líklegt að allir fuglarnir í hópnum séu blesgæsir. Líklega eru ungar innan um fullorðnu fuglana. Ættu þeir því að leyfa þeim að njóta vafans og sleppa því að skjóta.
Hrun í stofninum ástæða friðunar
Ástæðan fyrir því að blesgæsin er friðaður fugl er hrun í stofninum. Blesgæsarstofninn sem hefur viðdvöl á Íslandi á fartíma er fáliðaður og verpir mjög dreift á Vesturströnd Grænlands. Á fáum árum hefur orðið hrun í stofninum og ein möguleg orsök er slakur varpárangur sem veldur því að nýliðun er ekki nægileg til að standa undir afföllum vegna skotveiða. Stofninn taldi um 36.000 fugla á árunum 1998-99 en er nú líklega innan við 19.000 fuglar. Veiðarnar eru þar af leiðandi ósjálfbærar. Nákvæm orsök afkomubrestsins er óþekkt.
Útbreiðslusvæði blesgæsar
Útbreiðslusvæði blesgæsar á Íslandi er á Vesturlandi um Borgarfjarðarhérað og um sunnanvert Snæfellsnes, til suðurs um Kjós og Hvalfjörð. Á Suðurlandi halda blesgæsir til á láglendi Árnes- og Rangárvallasýslu, undir Eyjafjöllum og í Mýrdal. Í Skaftafellssýslum í Meðallandi, Landbroti og á Síðu.
Á öllum þessum svæðum þarf að gæta meiri varkárni við gæsaveiðar en í öðrum landshlutum er blesgæsin sjaldséður gestur. Sérstaklega ber að taka vara á veiðum í gæsanáttstöðum þar sem vitað er að blesgæsir safnast saman, en þar geta blesgæsir verið innan um grágæsir.
Skotveiðimenn þurfa að sýna sérstaka aðgát á svæðum sem merkt eru með rauðu á kortinu.
Vinna við aðgerðaáætlun í loftslagsmálum miðar að því að Ísland geti staðið við skuldbindingar sínar skv. Parísarsamningnum í loftslagsmálum til 2030. Áætlunin á að liggja fyrir í lok árs 2017.
Með áætluninni er stefnt að því að setja fram aðgerðir sem ætlað er að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi og auka bindingu koldíoxíðs úr andrúmslofti.
Sérstök verkefnisstjórn og sex faghópar vinna áætlunina, en við vinnu aðgerðaáætlunarinnar er áhersla lögð á samráð við haghafa og að sjónarmið og tillögur komi frá aðilum utan stjórnkerfisins. Í því augnmiði er starfandi samráðsvettvangur þar sem eiga sæti fulltrúar haghafa og flokka í minnihluta á Alþingi en auk þess er almenningur hvattur til að senda inn hugmyndir og tillögur að aðgerðum í gegn um netfangið loftslag@uar.is
Á vefnum www.co2.is eru birtar þær tillögur sem búið er að senda inn. Margar þeirra eru mjög fróðlegar og viljum við hvetja félagsmenn okkar til að senda inn þær hugmyndir sem þeir hafa, s.s. um endurheimt votlendis.
Í ár fer Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka fram laugardaginn 19. ágúst.
Að þessu sinni eru 22 hlauparar búnir að velja Fuglavernd sem það góðgerðarfélag sem hlýtur þau áheit sem þeir safna. Við hjá Fuglavernd kunnum þeim bestu þakkir fyrir stuðninginn.
Við viljum sýna hlaupurunum stuðning á móti og þakka fyrir okkur. Það er meðal annars hægt að gera gegnum vefinn hlaupastyrkur.is. Þar er hægt að senda hlaupurunum skilaboð og hvetja þá áfram. Einnig er hægt að heita á hlauparana og eru margar leiðir í boði, senda SMS skilaboð eða borga með kortum eða Kass appinu.
Öllum hlaupurum óskum við góðs gengis á laugardaginn, því mörg verðug málefni njóta góðs af.
Í liðinni viku var haldinn hér á landi 41. ársfundur The Waterbirds Society. Dagskrá fundarinns spannaði þrjá daga og föstudaginn 11. ágúst snérist dagskráin að miklu leyti um lunda.
Starfsmenn Fuglaverndar, þær Hólmfríður og Dögg, heimsóttu fundinn þann dag og kynntu starfsemi Fuglaverndar á Íslandi.
Gaman var að koma á fundinn, þar sem m.a. er haldið uppboð á alls konar skemmtilegum hlutum til styrktar rannsóknarnemum á þessu sviði. Fuglavernd gaf barmmerki á uppboðið og vonum innilega að einhver hafi farið glaður með þá minjagripi heim frá fundinum.
Skrifstofan á Hverfisgötu 105, 101 Reykjavík verður lokuð vegna sumarleyfa frá og með mánudeginum 10. júlí. Við opnum aftur að loknu sumarleyfi þriðjudaginn 8. ágúst.
Það verður aldrei of oft hamrað á því að, að velferð fugla þarf alltaf að ganga fyrir. Það má ekki trufla þá, ekki fara of nálægt þeim sérstaklega ekki fara of nálægt hreiðrum.
Látið unga í friði sem virðast vera munaðarlausir, takið þá ekki úr sínu náttúrulega umhverfi. Foreldrarnir eru oftast í næsta nágrenni að safna æti og bíða eftir því að mannfólkið hverfi á braut.
Þegar fólk hringir til Fuglaverndar og segist hafa fundið unga er allra best að láta hann bara vera í friði, því oftast kemur móðirin að leita að unganum sínum þegar fólkið fer. Fuglarnir verða hræddir við fólk og láta sig hverfa. Þegar mannfólkið er farið þá fara foreldrarnir aftur að leita að ungunum sínum. Þá er leiðinlegt að búið sé að hirða ungann, “bjarga” honum með því að fara með hann í burtu.
Skógarþrastarungar fara ófleygir úr hreiðri
Í grein Ævars Petersen í Tímariti Hins íslenska náttúrufræðifélags, Náttúrufræðingnum, segir:1
Skógarþrastarungar eru ófleygir í hálfa til eina viku eftir að þeir fara úr hreiðri og dreifast þá vanalega um nærliggjandi garða. Á þessu tímabili eru þeir sérlega auðveld bráð fyrir ketti sem mikið er af í sumum þéttbýlishverfum.
Meðan skógarþrastarungar eru ófleygir en farnir úr hreiðri telur fólk gjarnan að þeir séu yfirgefnir. Þá eru þeir oft handsamaðir því fólk telur sig vera að bjarga þeim. Svo er alls ekki og hið eina rétta er að láta þá í friði. Foreldrarnir finna þá auðveldlega því ungarnir láta heyra til sín og nema foreldrar þau hljóð langar leiðir.
Náttúran sér um sína
Ef eitthvað er að ungum eru þeir oft skildir eftir af foreldrum sínum í náttúrunni og þurfa þeir að reyna að bjarga sér sjálfir. Yfirleitt er best að láta fugla vera í svona aðstæðum, leyfa náttúrunni að sjá um sig sjálf.
Öðru máli gegnir ef ungi eða fullorðinn fugl er slasaður, vængbrotinn eða fastur í einhverju rusli t.d. plasti eða snæri.
Ef nauðsynlega þarf að fanga fugl, setjið hann í kassa með pappír í botninum og setjið skál af vatni fyrir fuglinn. Látið kassan á dimman, hlýjan og rólegan stað og hafið samband við dýralækni eða Húsdýragarðinn.
Við notum vafrakökur og aðra mælingatækni til að bæta vafraupplifun þína á vefnum okkar, sýna persónulegt efni, greina umferð um vefinn og skilja hvaðan úr veröldinni við fáum heimsóknir á vefinn okkar. Persónuverndarstefna okkar tók gildi 20. júlí 2018.
Með því að velja OK samþykkir þú notkun okkar á vafrakökum og öðrum rekjanleika.
OKNeiPersónuverndarstefna