Mik­il fækk­un mó­fugla við vegi

Um­ferð um vegi lands­ins virðist hafa um­tals­verð áhrif á fugla­líf og benda nýj­ar niður­stöður rann­sókn­ar til þess að sum­um teg­und­um mó­fugla fækki um meira en helm­ing við vegi þar sem um­ferðin er frá því að vera lít­il og upp í um 4.000 bíla á sum­ar­dög­um.

Þetta má lesa út úr niður­stöðum rann­sókn­ar eða for­könn­un­ar þriggja höf­unda á áhrif­um um­ferðar á fugla­líf, sem birt er á vef Vega­gerðar­inn­ar og um fjallað í Morg­un­blaðinu í dag. Kannaður var þétt­leiki al­gengra mó­fugla við vegi með mis­mikla um­ferð og vökt­un­ar­gögn­um safnað við vegi á Suður­landi 2011-2018.

„Niður­stöður benda til að veg­ir minnki þétt­leika sumra mó­fugla langt út fyr­ir veg­inn. Flest­ir vaðfugl­arn­ir eru sjald­gæfari nær veg­um og sum­um þeirra fækk­ar meira nær um­ferðarþyngri veg­um,“ seg­ir þar.

Skýrslan: Áhrif umferðar á fuglalíf.pdf

Haxi kom í heimsókn

Haxi hagsmunafélag líffræðinema við Háskóla Íslands heimsótti Fuglavernd nú í byrjun árs 2019.

Rúmlega tuttugu manna föngulegur hópur heimsótti okkur föstudagskvöldið 11. janúar. Fengu þau kynningu á starfsemi félagsins og virtist koma flestum skemmtilega á óvart hversu umfangsmikil hún er. Lögð var áhersla á gott samstarf Fuglaverndar og vísindasamfélagsins s.s. hjá Náttúrufræðistofnun Íslands, náttúrustofunum hringinn í kringum landið og önnur umhverfisverndarsamtök en þess má geta að Fuglavernd er tengiliður milli Umhverfis- og Auðlindaráðuneytis og samstarfsvettvangs umhverfisverndarsamtaka sem eru býsna stór hópur.

Einnig var lögð áhersla á allt það sjálfboðastarf sem félagar Fuglaverndar inna af hendi, bæði við hagsmunagæslu af ýmsum toga, rannsóknir, útgáfu, fræðslu og miðlun en ekki hvað síst þegar taka þarf til hendinni.

Kvöldið flaug hjá í skemmtilegum umræðum við fróðleiksfúsa líffræðinemana. Við hjá Fuglavernd viljum þakka þeim kærlega fyrir heimsóknina og hlökkum til við að takast á við skemmtileg verkefni í framtíðinni, hvar svo sem þessir núverandi líffræðinemar koma til með að velja sér starfsvettvang í framtíðinni.

Líffræðinemar við Háskóla Íslands
Líffræðinemar við Háskóla Íslands II

Dagur sjálfboðaliða

Í dag er alþjóðlegur dagur sjálfboðaliða. Fuglavernd er rík af sjálfboðaliðum sem á hverju ári leggja starfseminni til tíma sinn og vinna ólaunuð störf í þágu fuglaverndar, búsvæðaverndar og leggja til starfskrafta sína í fræðslustarfsemi á vegum félagsins.

Á hverju ári koma sjálfboðaliðar saman til vorhreinsunar í Friðlandinu í Vatnsmýrinni fyrstu helgina í apríl, sá hópur hefur kallað sig Hollvini Tjarnarinnar. Í Friðlandinu í Flóa hafa sjálfboðaliðar tekið að sér að veita leiðsögn um friðlandið, vanalega annað hvort á laugardögum eða sunnudögum í júní.

Í vetrarstarfinu eru fræðslu- og myndakvöld veigamikill þáttur og allir þeir sem taka að sér að flytja erindi á vegum Fuglaverndar gera það í sjálfboðavinnu. Þegar félagið stendur fyrir kynningu á starfsemi sinni höfum við líka geta kallað til sjálfboðaliða til að standa vaktina. Þá er utanumhald á garðfuglatalningu sem stendur allan veturinn í 26 vikur og garðfuglahelgin síðustu helgina í janúar í höndum sjálfboðaliða. Fjölmargir ljósmyndarar leggja okkur lið á hverju ári með því að láta okkur í té myndir og myndefni til þess að vekja athygli á brýnum málefnum, allt í sjálfboðastarfi.

Síðast en ekki síst má nefna setu í stjórn félagsins sem er í sjálfboðastarfi þeirra sem gefa kost á sér. Stjórn félagsins vinnur ályktanir og sendir á opinbera hagsmunaaðila í stjórnsýslunni bæði hvað varðar löggjöf og skipulagsmál.  Stjórnarmenn vinna ötullega að fræðslu á vegum félagsins, með rannsóknum, skrifum og myndum en þess má geta að tímarit félagsins, Fuglar er allt unnið í sjálfboðavinnu þ.m.t. umbrot blaðsins.

Öllum sjálfboðaliðum sem hafa lagt okkur lið, færum við okkar bestu þakkir.

Til hamingju með daginn.

Akurey á Kollafirði. Ljósmynd Jóhann Óli Hilmarsson

Friðlýsing Akureyjar á Kollafirði í augsýn

Reykjavíkurborg og Umhverfisstofnun hafa formlega kynnt áform um friðlýsingu Akureyjar í Kollafirði sem friðland, í samræmi við 49. gr. náttúruverndarlaga nr. 60/2013. Meginmarkmið friðlýsingarinnar er að vernda alþjóðlega mikilvæga sjófuglabyggð, þá sérstaklega lundavarp en lundinn er tegund á válista.

Áform um friðlýsingu eru kynnt í samræmi við 2. mgr. 38. gr. náttúruverndarlaga en gert er ráð fyrir að svæði sem ekki eru á framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár skuli kynnt sérstaklega.

Akurey á Kollafirði

Akurey á Kollafirði. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson
Akurey á Kollafirði

Akurey er lág og vel gróin eyja í Kollafirði, um 6,6 hektarar að stærð, norðaustan við Seltjarnarnes. Í Akurey verpa ýmsir sjófuglar eins og lundi, sílamáfur, æðarfugl og teista, og er lundi langalgengastur, 15.000 pör. Akurey flokkast sem alþjóðlega mikilvæg sjófuglabyggð þar sem viðmiðið er ≥10.000 pör. Markmiðið með friðlýsingu Akureyjar er að vernda þetta alþjóðlega mikilvæga fuglasvæði í Reykjavík og sér í lagi varpstöð lunda sem er á válista um fugla skilgreindur sem tegund í bráðri hættu. Einnig er markmiðið að vernda lífríki í fjöru og á grunnsævi.

 

Aðkoma Fuglaverndar

Fuglavernd fagnar því að nú sé í augsýn friðlýsing Akureyjar á Kollafirði. Árið 2014 fór málið af stað, með því að bréf til Reykjavíkurborgar um Akurey og Lundey.pdf Í kjölfarið kom í ljós að Lundey er í eigu ríkisins og því var sent bréf til UAR um friðlýsingu Lundeyjar.pdf. Erindinu sem sent var um Lundey til Umhverfis- og auðlindaráðuneytis hefur enn ekki verið svarað, en nú er Reykjavíkurborg að bregðast við.

Erpur Snær Hansen Ph.D og stjórnarmaður í Fuglavernd hefur einnig ritað Reykjavíkurborg um Akurey og Lundey:

Akurey er á meðal 19 stærstu lundavarpa landsins (þegar Vestmannaeyjar annarsvegar og Breiðafjörður hinsvegar eru talin sem eitt varp). Akurey er næststærsta lundavarp í Faxaflóa (á eftir Andríðsey við Kjalarnes).

Þessi vörp eru stór á almennan mælikvarða en hafa einnig þá óvenjulegu sérstöðu hvað þau eru nálægt Reykjavíkurhöfn. Á síðustu árum hefur byggst upp hvala- og lundaskoðunariðnaður í Reykjavíkurhöfn sem á hagsmuni sína fólgna í að sýna lunda við þessi vörp, sérstaklega Akurey. Persónulega tel ég rétt að vekja sérstaklega athygli borgaryfirvalda á þessum áhugaverðu náttúruperlum við hafnarmynnið. Komin er tími til að borgaryfirvöld íhugi hvort þeirra eigin skipulag samræmist verndun og varðveislu þessara náttúruperla s.s. með því að hafa olíuuppskipunarhöfn á sama svæði. Síðustu hugmyndir sem lagðar voru til fyrir efnahagshrun var að stækka land með landfyllingu upp að Akurey og eyðileggja varpið í leiðinni. Borgaryfirvöld fá hér tækifæri til að sýna tilhlýðilega virðingu sína fyrir náttúrunni í verki.

 

 

Skilafrestur athugasemda 2. janúar 2019

Frestur til að skila athugasemdum við áform Umhverfisstofnunar og Reykjavíkurborgar er til og með 2. janúar 2019. Athugasemdum má skila á vef Umhverfisstofnunar, með tölvupósti á netfangið ust@ust.is eða senda með pósti til Umhverfisstofnunar, Suðurlandsbraut 24, 108 Reykjavík.

 

Íslenski rjúpnastofninn er vaktaður með talningum, mælingum á aldurshlutföllum, mati á holdafari fuglanna og skráningu á veiði og sókn.

Til rjúpnaveiðimanna: Um hófsemi við veiðar og sölubann

©Ljósmynd: Daníel Bergmann

Fuglavernd hvetur alla skotveiðimenn til að sýna hófsemi við veiðar í rjúpu í ár, sem fyrri ár, svo stuðla megi að sjálfbærni rjúpnaveiða.

Þá vill Fuglavernd minna á að í gildi er sölubann þannig að óheimilt er að bjóða til sölu, flytja út eða selja rjúpur eða rjúpnaafurðir. Með sölu er átt við hvers konar afhendingu gegn endurgjaldi. Umhverfisstofnun er falið að fylgja því banni eftir.

Veiðidagar rjúpu 2018

Náttúrufræðistofnun Íslands hefur metið veiðiþol rjúpnastofnsins 2018. Ráðlögð rjúpnaveiði í haust er um 67 þúsund fuglar, en hún var á síðasta ári 57 þúsund fuglar. Stofnunin leggur áherslu á að hvergi verði slakað á í þeirri viðleitni að draga sem mest úr heildarafföllum rjúpunnar.

Veiðidagar árið 2018 eru 15 og skiptast á fimm helgar, frá föstudegi til sunnudags og hefst veiði síðustu helgina í október sem hér segir:

  • Föstudaginn 26. október til sunnudags 28. október, þrír dagar.
  • Föstudaginn 2. nóvember til sunnudags 4. nóvember, þrír dagar.
  • Föstudaginn 9. nóvember til sunnudags 11. nóvember, þrír dagar.
  • Föstudaginn 16. nóvember til sunnudags 18. nóvember, þrír dagar.
  • Föstudaginn 23. nóvember til sunnudags 25. nóvember, þrír dagar.

Veiðiverndarsvæði suðvestanlands

Á vef Umhverfis- og auðlindaráðuneytis kemur fram að líkt og undanfarin ár er veiðiverndarsvæði á SVlandi. Sjá einnig: Kort af veiðiverndarsvæði rjúpu suðvestanlands.

Um svæðið segir í reglugerð 800/2005:

“Allar rjúpnaveiðar eru óheimilar innan svæðis sem birt er í viðauka I við reglugerð þessa og markast í norðri af lögsagnarumdæmi Reykjavíkur, Mosfellsbæ, austurhluta Mosfellsheiðar í Grímsnes- og Grafningshreppi og Skálafells og Skálafellshálsi í Grímsnes- og Grafningshreppi, Bláskógabyggð og Kjósarhreppi. Hið friðaða svæði í Skálafelli og Skálafellshálsi markast af Kjósarskarðsvegi (48) frá vegamótum við Þingvallaveg (360) að vegamótum við Meðalfellsveg (461) og þaðan að brú á Svínadalsá og er ánni síðan fylgt að mörkum Reykjavíkur um Svínaskarð. Norðurhluti svæðisins markast síðan af Þingvallavegi frá gatnamótum Kjósarskarðsvegar að Grafningsvegamótum og þaðan af línu sem dregin er í austur frá Grafningsvegamótum í Þingvallavatn. Svæðið markast í austri af Þingvallavatni og fylgir síðan austurbakka Sogs og Ölfusár til sjávar.”

Sölubann á rjúpu og hófsemi veiðimanna

Markmið veiðistjórnunar á rjúpu er að veiðar verði sjálfbærar þannig að komandi kynslóðir geti stundað veiðar. Veiðistjórnun snýst því að vissu leyti um það langtímasjónarmið að vernda veiðistofna til framtíðar. Undanfarin ár hefur fyrst og fremst verið lögð áhersla á þrjú atriði í veiðistjórnun. Sóknardögum hefur verið fækkað verulega, sölubann á rjúpu og rjúpuafurðum var komið á og biðlað var til veiðimanna um að sýna hófsemi á rjúpnaveiðum.

Sölubann á rjúpu er í gildi skv. reglugerð 800/2005 sem eru breytingar á reglugerð 456/1994 og eiga þær sér stoð í lögum um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum nr. 64/1994.

Umhverfisstofnun fer með eftirlit með veiðum og hér má skrá sig inn á vef Umhverfisstofnunar. Þar skila skotveiðimenn veiðiskýrslum árlega, óháð því hvort eitthvað var veitt eða ekki og sótt um og endurnýjuð veiðikort. 

Þá viljum við minna á öryggi veiðimanna á veiðslóð og bendum á Vef Safetravel.is þar sem veiðimenn geta skilið eftir ferðaáætlun.

Hófsemi veiðimanna er lykillinn að sjálfbærum rjúpnaveiðum.

1)Gui-Xi Young hjá BirdLife Europe, 2)Hólmfríður Arnardóttir framkvæmdastýra Fuglaverndar BirdLife Iceland, 3)Sandra Jovanovic frá BirdLife Serbia, 4) Jovana Janjusevicfrá Czip BirdLife Montenegro, 5)Tuba Kilickarci frá Doga BirdLife Turkey, 6) Natia Javakhishvili frá Sabuko BirdLife Georgia, 7) Karoline Kalinowska-Wysocka frá Otob BirdLife Polland og 8) Nigar Agayeva frá Azos BirdLife Azerbaijan.

Fundur BirdLife International

Í lok september sat framkvæmdastjóri Fuglaverndar, Hólmfríður Arnardóttir, fund á vegum BirdLife International. BirdLife International eru elstu náttúruverndarsamtök í heimi og hafa verið starfrækt frá árinu 1922. Alls eiga 121 lönd aðild að BirdLife, ein náttúruverndarsamtök eru aðili hvers lands fyrir sig og Fuglavernd er fulltrúi Íslands.

Á þessum vettvangi hittast stjórnendur og starfsfólk BirdLife og skiptast á hagnýtum upplýsingum og deila reynslu, sem mismunandi er milli landa og menningarheima. BirdLife er skipt upp í sex svæði, BirdLife Europe and Central Asia, BirdLife Afrika, BirdLife Amerikas, BirdLife Asia, BirdLife Middle East og BirdLife Pacific og því tóku rúmlega 200 manns þátt í fundinum. Konum innan BirdLife samtakanna er alltaf að fjölga og á dögunum náðist þessi mynd af nokkrum þeirra.

Á myndinni eru:
1)Gui-Xi Young hjá BirdLife Europe, 2)Hólmfríður Arnardóttir framkvæmdastýra Fuglaverndar BirdLife Iceland, 3)Sandra Jovanovic frá Društvo za zaštitu i proučavanje ptica Srbije BirdLife Serbia, 4) Jovana Janjusevicfrá Czip BirdLife Montenegro, 5)Tuba Kilickarci frá Doga BirdLife Turkey, 6) Natia Javakhishvili frá Sabuko BirdLife Georgia, 7) Karoline Kalinowska-Wysocka frá Otob BirdLife Poland og 8) Nigar Agayeva frá Aos BirdLife Azerbaijan.

 

Blesgæs (Anser albifrons flavirostris). Ljósmynd: © Daníel Bergmann.

Blesgæs (Anser albifrons flavirostris) – friðuð tegund í hættu

Fuglavernd vill áminna skotveiðimenn um friðun blesgæsar nú meðan gæsaveiðitímabilið stendur yfir eða frá 20. ágúst til 15. mars.

Blesgæs er friðuð samkvæmt lögum nr. 64/1994 um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum og hefur verið frá og með 12. júní 2006 skv. reglugerð 519/2006. Friðun blesgæsar er ótímabundin.

Blesgæs verpur víða á norðlægum slóðum og skiptist í nokkra vel aðgreinda stofna. Fuglar sem verpa á V-Grænlandi eru sérstök deilitegund (Anser albifrons flavirostris). Vetrarstöðvar þessara fugla eru á Bretlandseyjum og þá aðallega á Írlandi og í Skotlandi.

Alþjóðlega mikilvæg fuglasvæði

Helstu viðkomustaðir blesgæsa hér á landi eru alþjóðlega mikilvæg fuglasvæði. Þar dveljast a.m.k. 60% stofnsins samtímis og væntanlega fer allur stofninn um þessi svæði. Þetta eru Andakíll, Ferjubakkaflói–Hólmavað, Borgarfjörður–Löngufjörur og Suðurlandsundirlendi.

Kort 2: Fjöldi og dreifing blesgæsa á S- og V-landi 13.−15. október 2013. Alls sáust 11.091 fuglar.

Válisti fugla, blesgæs í hættu

Á válista fugla sem Náttúrufræðistofnun Íslands hefur tekið saman er blesgæs tegund í hættu (EN).

Kynslóðalengd (IUCN): 11,3 ár. Tímabil sem mat miðast við (3 kynslóðir): 1998–2032.

Þessi stofn var fyrst metinn með sæmilegu öryggi árið 1983 og var þá talinn um 16.500 fuglar. Í kjölfarið var gripið til verndarráðstafana á vetrarstöðvum á Bretlandseyjum og óx stofninn hratt fram til 1998 í nær 36.000 fugla. Þá tók honum að hnigna meira og minna samfellt til 2015 (<19.000 fuglar) en var metinn 22.000 fuglar árið 2017 (Wildfowl & Wetlands Trust). Fækkunin á þessum 20 árum er því tæp 40%.

Viðmiðunartímabil IUCN fyrir blesgæsir (alla stofna) hefur verið lengt úr 21 ári í 34 ár vegna þess að nú er notað annað kynslóðabil. Þetta þýðir að grænlenska blesgæsin telst strangt til tekið ekki í hættu, eins undarlega og það kann að virðast. Ef fækkun sú sem hófst árið 1998 heldur áfram með sama hraða og sem svarar þremur kynslóðum (1998–2032) leiðir það til 56% fækkunar eða 2,44% á ári. Samkvæmt því telst blesgæsin í hættu (EN, A4a) og er miðað við það hér.

Sjá nánar á vef Náttúrfræðistofnunar Íslands: Blesgæs (Anser albifrons flavirostris)

 

Greining blesgæsar

Í kjölfar friðunar blesgæsa 2006 var gefinn út bæklingur til að auðvelda skotveiðimönnum greiningu blesgæsa. Bæklingurinn er í fullu gildi og hann má finna á vef Umhverfisstofnunar: Friðun blesæsar, upplýsingar fyrir skotveiðimenn.pdf

Blesgæs (Anser albifrons flavirostris) © Daníel Bergmann

 

Hvers vegna er lundinn að hverfa?

Stytt úr grein NY Times: Why Are Puffins Vanishing? The Hunt for Clues Goes Deep (Into Their Burrows)

Ofveiði fisktegunda, veiðar og mengun eru meðal þátta sem valda álagi á fuglana en loftslagsbreytingar gætu reynst stærsta áskorunin.

“Lundinn er algengasti fugl Íslands” segir dr. Erpur Snær Hansen, stjórnarmaður í Fuglavernd og starfandi forstöðumaður Náttúrustofu Suðurlands. “Og hann er líka mest veiddur”.

Ásamt dr. Fayet, frönskum vísindamanni við Háskólann í Oxford, vinnur Erpur Snær Hansen að rannsókn hennar við vöktun á fjórum lundabyggðum, tveimur á Íslandi, einni í Wales og einni í Noregi. Frá árinu 2010 hefur dr. Erpur Snær einnig framkvæmt talningar tvisvar á ári, “lundarallið” þar sem hann ferðast tæpa 5.000 km hringinn í kringum landið og heimsækir um 700 merktar lundaholur í 12 lundabyggðum. Talin eru egg og ungar.

Hitastig sjávar umhverfis Ísland stjórnast af langtímasveiflum þar sem hlýskeið og kuldaskeið skiptast á. Frá 1965-1995 ríkti kuldaskeið og núverandi er hlýskeið. Dr. Erpur Snær segir að mælingar á hitastigi að vetri sýni hlýnun um 1°C, sem virðist vera lítið en hefur mikil áhrif á sandsíli. Kenning hans er þessi: “Ef hitastig hækkar um eina gráðu, breytir það vaxtarhraða og getu þeirra til að lifa af veturinn”.

Lundarallið hefur sýnt að 40% lundaunga léttast með tíma, sem er önnur slæm vísbending.

Þegar fullorðnu fuglarnir geta ekki veitt nóg til að fæða sjálfa sig og ungana, þá taka þeir ákvörðun með eðlisávísun sinni; ungarnir svelta.

Dr. Fayet kallaði leit sína “hjartabrjótandi”: “Þú stingur hendinni inn í lundaholuna og þreifar fyrir þér, finnur lítinn bolta á gólfinu, en áttar þig þá á því að hann er kaldur og hreyfir sig ekki”.

Dr. Hansen with a puffin chick pulled out of its burrow. ©Josh Haner – NY Times
Dead puffins taken by hunters that Dr. Hansen encountered on Lundey Island. ©Josh Haner – NY Times
Taking a break while hauling equipment on Iceland’s southeastern coast. ©Josh Haner – NY Times

Greinin í heild í NY Times: Why Are Puffins Vanishing? The Hunt for Clues Goes Deep (Into Their Burrows)

Heiðagæsir á flugi ©Jóhann Óli Hilmarsson

Gæsaveiðitímabil hafið

Ljósmynd: Heiðagæsir á flugi. ©Jóhann Óli Hilmarsson

„Það er veiðidagur góður þegar hóflega er veitt, með talsverðri líkamlegri áreynslu, vakandi náttúruskyni og sært dýr liggur ekki eftir að kveldi“

Þessi orð eru höfð eftir Stefáni Jónssyni, alþingismanni, rithöfundi, útvarpsmanni og veiðimanni (1923 – 1990) og eiga jafn vel við í dag og þegar þau voru skrifuð.

Allir veiðimenn þurfa að hafa gild skotvopnaleyfi og veiðikort þegar gengið er til veiða. Leyfilegt er að skjóta grágæs og heiðargæs. Stofn heiðargæsa er í sögulegu hámarki, um fimmfalt stærri að talið er en grágæsastofninn. Út frá sjálfbærni auðlinda mega skotveiðimenn hafa það í huga ef valið stendur milli þess að skjóta heiðargæs eða grágæs.

Nánar um skynsamlega skotveiði á vef Skotvís.

Veiðimenn skulu sérstaklega minntir á að óheimilt er að skjóta fugla í sárum og ófleyga fugla. Í upphafi veiðitímabilsins má búast við að rekast á ófleyga unga, sérstaklega á svæðum þar sem varp hefur farið seint af stað.

Einnig er ástæða til að minna sérstaklega á alfriðun blesgæsarinnar en hún hefur verið friðuð síðan 2006. Þá mega veiðar á helsingja í Austur– og Vestur–Skaftafellssýslum ekki hefjast fyrr en 25. september.

Nánar um veiðitímabil á vef Umhverfisstofnunar.

Blesgæs friðuð

Ástæðan fyrir því að blesgæsin er friðaður fugl er hrun í stofninum. Blesgæsarstofninn sem hefur viðdvöl á Íslandi á fartíma er fáliðaður og verpir mjög dreift á Vesturströnd Grænlands. Á fáum árum hefur orðið hrun í stofninum og ein möguleg orsök er slakur varpárangur sem veldur því að nýliðun er ekki nægileg til að standa undir afföllum vegna skotveiða. Stofninn taldi um 36.000 fugla á árunum 1998-99 en er nú líklega innan við 19.000 fuglar. Veiðarnar eru þar af leiðandi ósjálfbærar. Nákvæm orsök afkomubrestsins er óþekkt.

Útbreiðslusvæði blesgæsar
Útbreiðslusvæði blesgæsar
Summertime

Sumarið er tíminn – 11. júní – 11. ágúst

Þegar komið er sumar þá eru fjölmörg störf að vinna úti í náttúrunni í starfi Fuglaverndar. Frá og með 11. júní til og með 11. ágúst er því stopul viðvera starfsfólks á skrifstofunni. Best er að hringja á undan sér til þess að tryggja að einhver sé við, í síma 562 0477.

Í júlí er skrifstofan lokuð vegna sumarleyfa starfsfólks og á sama tíma verður ekki hægt að afgreiða pantanir sem gerðar eru í vefversluninni.

Hægt er að hafa samband gegnum vefinn eða í gegnum samfélagsmiðla t.d. Facebook Fuglaverndar

Það er margt um að vera, líttu í viðburðadagatalið og komdu út og vertu með.