Fimm silkitoppur og skógarþröstur við hlaðborð af ávöxtum og berjum. Ljósmynd © Örn Óskarsson

Fuglafóðrun

Auðvelt er að lokka fugla í garðinn með fóðrun á hvaða árstíma sem er og með góðu aðgengi að bað- og drykkjarvatni má fjölga tegundum og einstaklingum sem heimsækja garðinn.

Þegar tekur að kólna og frysta á haustin eru flestir farfuglar farnir sem á annað borð ætla sér til annarra vetrarstöðva. Það þarf þó ekki að bíða svo lengi með að hefja fóðrun í garðinum.

Fuglar eru vanafastir og hafi þeir uppgötvað garð þar sem fóðrað er munu þeir heimsækja hann reglulega svo framarlega sem þar er framboð af æti. Mikilvægt er að gefa  reglulega því þegar veður eru válynd munu fuglarnir sem heimsækja garðinn þinn hafa eytt dýrmætri orku í heimsóknina ef ekkert er þar að hafa. 

Fuglar brenna fljótt orkuforða sínum til að halda á sér hita og þurfa því að endurnýja birgðirnar reglulega.  

Fyrir rökkur og við birtingu er mikilvægast að fuglar nærist. Fyrir nóttina þurfa þeir næringu til að halda nauðsynlegri lífsstarfsemi gangandi því þá er lítið um fæðuöflun. Að morgni þurfa þeir svo fljótt að finna æti til að bæta upp þá orku sem fór í að halda hita um langa og kalda vetrarnótt. 

Leitastu við að garðfuglarnir þínir hafi nóg að bíta og brenna á þessum tímum dags. Ef því verður ekki komið við settu þá allavega út ríflegt fóður strax að morgni.

Þegar einu sinni er byrjað að setja út fóður ætti að halda því áfram til vors. Þeir fuglar sem hafa lært að reiða sig á fóður í garðinum þínum gætu átt erfitt með að finna annað æti ef skyndilega er hætt að gefa þeim. Vorhret eru líka tíð, sérstaklega á norðanverðu landinu og þá leita fastagestirnir aftur til sinna velgjörðarmanna eftir æti og nýkomnir farfuglar eiga meiri möguleika á að komast yfir hretið.

Fuglarnir sem þú laðar að garðinum þínum launa þér á móti, með iðandi lífi og jafnvel söng. Þegar fer að vora og sumra koma þeir og tína lirfur og skordýr sem annars geta verið hvimleið í ræktun garða og við matjurtarækt. 

Fuglavernd selur, til styrktar starfsemi félagsins, fóðurhús, fóðrara og fuglafóður

Þú munt fljótlega komast að því hvað fuglunum líkar og líkar ekki. Hér á eftir eru upplýsingar um mat sem hættulaust er að gefa fuglum og hlú þar með að þessum fiðruðu vinum okkar.

Vatn

Fuglabað gosbrunnur
Fuglabað í garði á góðviðrisdegi.        Ljósmynd © Dögg Matthíasdóttir

Fuglar þarfnast vatns, ekki síst á veturna. Vatn er þeim lífsnauðsynlegt til að drekka og baða sig í. Regluleg böð eru fuglum nauðsynleg til að halda fjöðrunum hreinum því hreinar fjaðrir gefa betri einangrun og vörn gegn kulda. Fræætur þurfa að drekka mikið vatn þar sem fræin eru þurr.

Grunn skál hentar sem fuglabað og vatnið ætti ekki að vera dýpra en 5 cm. Í frosti þarf að skipta reglulega um vatn, slá ísinn úr skálinni og bæta í hana volgu vatni. Sírennsli er einnig möguleg lausn og grunn tjörn eða brunnur laða að fugla.

Hreinlæti

Líkt og þar sem gnótt er af náttúrulegri fæðu getur mikill fuglafjöldi safnast saman þar sem fóðrað er á veturna. Við slíkar aðstæður er mögulegt að sjúkdómar komi upp og smitist fugla á milli. Með því að huga að almennu hreinlæti á fóðurstað má minnka eða koma í veg fyrir sýkingar og smit. Ekki hefur verið fylgst með heilbrigði garðfugla hér á landi á veturna og sjúkdómar meðal þeirra því óþekktir. Erlendis eru sýkingar af völdum salmonellu algengastar og verða sýktir fuglar orkulausir og veiklulegir ásýndar.

  • Gætið þess að fóðurbretti séu hrein. Best er að bursta af þeim fugladrit daglega.
  • Ef þú fóðrar fugla á jörðinni skaltu ekki setja fóðrið á sama stað alla daga.
  • Settu fóður á nokkra staði í garðinum til að dreifa úr fugla skaranum svo hann safnist ekki allur á einn stað.
  • Þrífðu fóðurbretti og fuglafóðrara reglulega með hreinsiefnum og skolaðu vel með vatni á eftir. Gættu þess að brettið/fóðrarinn sé þurrt þegar þú setur aftur fóður.

Forvarnir

Við fuglafóðrun leggjum við áherslu á heilbrigði og öryggi. Þess vegna er mikilvægt að aðskilja matarstaði, annars vegar fyrir þresti og stara (fituætur) og fyrir finkur og tittlinga (fræætur) hins vegar. Gefðu því þessum fuglategundum á ólíkum stöðum í garðinum þínum ef þú ert svo heppin/n að fá reglulegar heimsóknir frá þeim öllum. Ástæða þessa er sú að við viljum gera það sem í okkar valdi stendur til að varna þess að starar og þrestir beri ekki sjúkdóma í auðnutittlinga og snjótittlinga.

Tittlingar og finkur

Þeir smæstu, snjótittlingar, auðnutittlingar og finkur eru fræætur sem best er að gefa á fóðurpöllum eða á húsþökum. Barrfinkur og auðnutittlingar éta svo gjarnan úr hangandi fóðurdöllum.

Snjótittlingar hinsvegar kjósa helst að eta fræ af jörðinni eða kurlaðan maís þó þeir éti líka af fóðurpöllum, en sem fóðurpall má nota skorðaðan planka á milli greina í trjám.

Með fræjum er átt við sólblómafræ og allskonar fínkukorn.

Þrestir, starar

Skógarþrestir, svartþrestir og starar eru algengir vetrarfuglar í görðum. Að jafnaði éta þessar tegundir skordýr og önnur smádýr en ber á haustin. Í vetrarhörkum leita þeir í æti sem menn bera út í garð og eru sérlega sólgnir í feitmeti eins og kjötsag og mör. Einnig þiggja þeir ávexti svo sem epli, perur og rúsínur. Brauðmeti, sérstaklega ef það er blandað með matarolíu eða öðru feitmeti er einnig vel þegið í vetrarkuldum. Best er að koma þessum kræsingum fyrir á fóðurpalli eða hengja upp í tré. Epli og perur er gott að skera í tvennt og stinga uppá greinarenda 1-2 metra frá jörðu.

Hrafnar

Sumir gefa hrafninum, sérstaklega þegar snjór er yfir öllu og erfitt að finna æti. Hrafninn hættir sér ekki inn í þrönga garða en ef sæmilega rúmt er um hann þá borðar hann um það bil allt sem býðst og er sérstaklega sólgin í fitu. Hægt að fá kjötafganga og tólg í betri kjötbúðum fyrir lítið.

Erlendir gestir

Ýmsar erlendar fuglategundir halda sig í stundum vetrarlangt á Íslandi og eru þá oftar en ekki háðar matargjöfum til að lifa af. Dæmi um slíka gesti er gráþröstur, söngþröstur, mistilþröstur, silkitoppa, glóbrystingar og hettusöngvari. Erlendu þrestirnir hafa svipaðar matarvenjur og skógarþrestir og éta feitmeti, ávext og brauð hvort sem er af jörðu niðri eða af fóðurbretti. Silkitoppur eru sérhæfðar berjaætur og éta einkum ávexti svo sem epli og perur. Glóbrystingar vilja helst fá brauðbita eða kjötsag. Helst kjósa þeir að matast innundir runnum eða grenigreinum.

Hettusöngvarar éta feitmeti en einnig ávexti. Með stöðugri fóðrun er hægt að halda þeim á lífi yfir veturinn. Þeir eru einkum skordýraætur en éta þó lítil ber á haustin. Þeir leita sér að æti í trjám og runnum en fara sjaldan niður á jörðina. Best er því að gefa þeim á fóðurpalla eða sletta kjötsagi eða mör inn í runna eða á greinar grenitrjáa. Þeir þola illa samkeppni við stærri fugla og því er síðari aðferðin góð.

Fuglafóður

Hér eru nokkrir kafla um hvaða fóður má gefa fuglum og hvað er öruggt fyrir þá.

Fita

Öll fita er vinsæl hjá fuglum á köldum vetrardögum. Hrein fita, mör og tólg ásamt kjötsagi og fituafskurði eru tilvalið fuglafóður. Smjör inniheldur mikið af mettaðri fitu og má gefa fuglum.

Skammtastærðirnar skipta líka máli, ekki gefa fitu í stórum klumpum, sem fuglar geta stigið í og sporað sig út. Brjótið niður í smærri bita, best að blanda saman við annað fuglafóður s.s. þurr ber, korn og brauðmola (sjá fitukökur).

Fuglar melta bæði fjölómettaðar og einfaldar fitur. Fuglar þurfa mikið magn af mettaðri fitu, þeir brenna henni fljótt við að halda á sér hita í versta vetrarveðri og í miklum kulda.

Smjör, smjörlíki og jurtaolíu má því gefa, en í hóflegu magni. Auðvelt er að smyrja mjúkri fitu á fjaðrirnar og eyðileggja eiginleika vatnsþéttingarinnar og einangrunarinnar. Matarolíu úr fræjum ætti því aðeins að nota til að væta upp s.s. Þurrt brauðmeti og haframjöl  til að auka næringargildi þess.

Notuð fita

Ekki er mælt með notaðri steikingarolíu af kjöti. Olía sem kjöt hefur verið steikt uppúr hefur blandast við kjötsafa og salt og þá er fitan orðin gróðrarstía fyrir bakteríur og hugsanlega slæm fyrir heilsu fugla. Saltmagn fer eftir því hvað kjöt er notað og hvort einhverju salti er bætt við meðan á eldun stendur. Notaða steikingarfeiti t.d. Tólg eða jurtafitu eftir steikingu á kleinum og laufabrauði ætti þó að vera óhætt að gefa fuglum sbr. fitukökur og skammtastærðir. 

Fitukökur

Fitukökur ættu ekki að vera með fræjum, þar sem frææturnar vilja ekki fituna og fituæturnar (þrestir og starar) hafa ekki mikið með fræin að gera. Fitukökur geta þannig verið með brauðmolum, brauðmylsnu, haframjöli og öðru kornmeti og þurrkuðum berjum og/eða ávöxtum s.s. Rúsínum og eplum eða þurrkuðum reyniberjum úr garðinum. 

Fitukúlur

Fitukúlur í grænu plastneti geta verið varasamar fyrir fugla sem geta flækst í plastnetinu. Fitukúlur ætti því að klippa úr plastnetinu áður en þær eru settar út. Hjá Fuglavernd fást fóðrarar fyrir fóðurkúlur, járnhólkar sem hægt er að setja fóðurkúlur í. 

Algeng samsetning er fita og fræ og sú samsetning hentar aðallega meisum (paridae, ætt spörfugla). Fitukúlur eiga það til að harðna í frosti og þá geta fuglarnir ekki unnið á þeim (þrestir og starar). 

Fræ

Fodrari_stor_plast
Fóðrarar fyrir sólblómafræ eru til í nokkrum stærðum.

Sólblómafræ eru frábært fuglafóður, bæði með hýði og hýðislaus. Olíuinnihaldið er hærra í sólblómafræi með hýði svo þau eru hollari en mun minni sóðaskapur er af hýðislausum sólblómafræjum.

Hjá Fuglavernd er til styrktar starfsemi félagsins selt sólblómafræ, bæði í stórum sekkjum og í lausu (kíló vigtuð). Best er að koma með þann dall (fötu, kassa eða bauk) sem þú geymir fræin í og fá vigtað það magn sem þú treystir þér til að bera.

Fóðrarar fyrir sólblómafræ eru til í nokkrum stærðum.

Önnur fræ: Sesamfræ, finkufræ, hörfræ, Nyjer fræ (fást sjaldan hér), hirsi.

Fræblöndur

Margar gerðir af fræblöndum eru fáanlegar. Forðist fræblöndur sem innihalda klofnar baunir, baunir eða linsubaunir, því aðeins stærri fuglategundir geta borðað þær, án þess að þær séu bleyttar upp. Fræblöndur geta innihaldið gæludýrafóður með aukaefnum s.s. Litarefnum, svo mjög mikilvægt er að lesa innihaldslýsingar þeirra. 

Fyrir auðnutittlinga ganga allar fræblöndur fyrir gára og búrfinkur. Þeir ráða ekki við hveitifræ, það er of hart og seigt til þess að milja það í fóarni og ekki við kurlaðan maís. Hampfræ virðist einnig vera þeim erfitt. Lesið því innihaldslýsingar mjög vel. 

Korn

Skornir hafrar eru fyrirtaks fuglafóður fyrir margar tegundir sem og haframjöl vætt í fitu. Kurlaður maís (valsaður), bygg og hveiti (heilkorn) er einnig hægt að gefa, helst á jörðinni.  Hrísgrjón má gefa, ósoðin og soðin (í ósöltu vatni). Snjótittlingar kjósa kurlaðan maís, þá gefinn á jörðina. Þeir borða þó einnig fræblöndur m.a. með hveitikorni. Enn hafa þeir ekki lært að borða sólblómafræ með hýði.

Ávextir og ber

Margar fuglategundir eru sólgnar í ávexti. Epli, perur, melónur, banana, vínber, rúsínur og margar fleiri tegundir er hægt að gefa fuglum, um að gera að prófa sig áfram. Mælt er með að leggja þurrkaða ávexti í bleyti vor og sumar.

Ekki er mælt með að gefa lárperur (avókadó), þar sem rannsóknir hafa sýnt það sem dánarorsök búrfugla, sjá http://europepmc.org/article/med/2914792.

Hnetur

Pokar með hnetublöndum og hafa verið til sölu hérlendis henta ekki hér, eru fyrst og fremst fyrir meisur og barrfinkur. Jarðhnetur henta en ekki saltaðar eða ristaðar (búið að þurrka) og ekki sykraðar. Hnetusmjör er afbragðsfita og má gefa fuglum. 

Kókoshnetur

Kókosmjöl þarf að leggja í bleyti, ef það á að gefa það sem fuglafóður, þurrt kókosmjöl getur blásið út í meltingarvegi fugla og valdið dauða. 

Matarafgangar

Það er frábært að nýta matarafganga sem fuglafóður og sporna þar með gegn matarsóun. Margt sem til fellur á heimilum og vinnustöðum má nýta, sumir matráðar taka því fegins hendi ef einhver vill fá afganga með heim til að gefa fuglunum og jafnvel eru sumir sem fóðrar fugla með góðvild hjá bakaríi í nágrenninu. 

Áhersla er lögð á að gefa ekki fuglum lélegt eða ónýtt hráefni, ekki gefa neitt myglað, úldið eða skemmt á annan hátt, það getur aldrei verið gott fyrir þá.

Salt

Garðfuglar vinna ekki á salti með efnaskiptum sínum. Í miklu magni getur salt haft eituráhrif og það hefur áhrif á taugakerfi fuglanna. Undir venjulegum kringumstæðum í náttúrunni er ólíklegt að fuglar innbyrgði skaðlegt magn af salti. Setjið því aldrei út fyrir fugla saltaðan mat og bætið aldrei salti í fuglabaðið til að halda vatni íslausu á veturna.

Mjólk

Fuglar ættu ekki að fá mjólk, þar sem þeir geta ekki melt hana. Mjólk getur valið kviðverkjum hjá fuglum og jafnvel dauða. Fuglar geta hins vegar melt gerjaðar mjólkurafurðir eins og ost. Hægt er að gefa afgang af mjólkurgraut/grjónagraut en það er líka hægt að gera úr honum lummur. 

Ostur

Gefa má fuglum ost, rifinn niður.

Kjöt og fiskur

Leggja má út bæði kjöt og fisk, þó ekki með of miklu saltmagni. Líklegt er að stærri fuglategundir laðist þá að fóðurstaðnum s.s. máfategundir (en þeir eru flestir á válista og þurfa líka að borða greyin). 

Kartöflur

Kartöflur má gefa fuglum, bakaðar, soðnar og kartöflumús (sér í lagi ef hún inniheldur góða fitu). Kartöfluflus má gefa en ólíklegt að þeir borði. Fuglar borða sjaldan kartöfluflögur og franskar kartöflur (of saltar). 

Grænmeti

Grænmeti og grænmetisafskurð má gefa fuglum, en ólíklegt er að þeir sækist í það, sökum þess hve litla orku þeir fá úr því. Grænmetisafgangar og afskurður eru því sennilega betur komin í lífrænum úrgangi, í moltutunnu eða ormagryfju. 

Brauð

Fuglar geta melt allar tegdundir af brauði, en það ætti aðeins að vera lítill hluti af fjölbreyttu mataræði fugla. Brauð inniheldur ekki nauðsynleg prótein og fitu sem fuglar þurfa í mataræði sínu og getur því virkað sem tómt fylliefni. Þó brauð sé ekki skaðlegt fuglum, reyndu að bjóða það ekki í miklu magni, þar sem næringargildi þess er tiltölulega lítið. Fuglar sem nærast nær eingöngu á brauðmeti geta þjáðst af alvarlegum vítamínskorti, eða soltið. Sætabrauð, hver er ekki sólgin í það, en það er ekki hollt og hefur ekki gott næringarinnihald. 

Brauð sem er vætt upp (lagt í bleyti) er auðmeltanlegra en þurrt gamalt brauð. Gróft, heilkornabrauð er betra en hvítt brauð. Brauðmylsna hentar í litlu magni, en betra er að væta hana upp. Á varptíma er öruggara að hafa litla brauðbita til að reyna að koma í veg fyrir að ungar geti kafnað á brauðmolum. 

Garðfuglahelgin og garðfuglakönnun

Þá sem fóðra fugla viljum við hvetja til þess að taka þátt í viðburðum Fuglaverndar tengdum garðfuglum. 

Árlega, síðustu helgina í janúar, höldum við garðfuglahelgina þar sem við hvetjum þá sem fóðra fugla til þess að velja sér eina klukkustund og telja fuglana sem nýta sér garðinn til hvíldar, snyrtingar og fæðuöflunar. Niðurstöður athugunarinnar gefa okkur vísbendingar um fuglategundirnar sem hér eru og fjölda þeirra. 

Garðfuglakönnun Fuglaverndar er sams konar athugun, en nær yfir lengri tíma, 26 vikur yfir veturinn, frá lokum október og fram í apríl þegar farið er að vora. Markmið könnunarinnar er að fá fólk til að fylgjast með fuglalífinu í nærumhverfi sínu og fá í leiðinni upplýsingar um þær fuglategundir sem halda til hér yfir veturinn. Það er vel hægt að byrja seinna og hætta fyrr, aðalatriðið er að vera með í talningunni, ef þú ert hvort eð er að fóðra fiðraða vini í þínum garði. 

Það er ekki skilyrði að vera félagsmaður í Fuglavernd, aðalatriðið er að vera með.

Eyðublöð og leiðbeiningar fyrir Garðfuglakönnunina :

 

Garðfuglakönnun vikutalningarblað  2024 -2025 pdf

Garðfuglakönnun eingöngu skráningarblað  2024-2025 pdf

Garðfuglakönnun skráning  og leiðbeiningar 2024-2025 pdf

Garðfuglakönnun skráning og leiðbeiningar 2024-2025 docx skjal sem þarf að vista í tölvu sem word

Garðfuglakönnun skráning  2024-2025  xlsx skjal vista í tölvunni hjá sér sem excel

Uppfært 24. október 2024