Alþjóðlegur dagur votlendis í dag 2. febrúar

Eftirfarandi er af heimasíður Votlendissjóðsin, en á heimasíðu hans er meiri upplýsingar.

Mikið hefur gengið á votlendi landsins undanfarna áratugi. Í kjölfar jarðræktarlaga (1923) og með tilkomu stórvirkra vinnuvéla á fimmta áratug þessarar aldar, urðu þáttaskil í nýtingu mýrlendis hér á landi. Upphófst þá tímabil stórfelldrar framræslu sem styrkt var með framlögum úr opinberum sjóðum.
Til að byrja með voru láglendismýrar, sem eru víða frjósamar og vel fallnar til ræktunar, ræstar fram til túngerðar. Seinna meir jókst mjög framræsla mýra til að bæta þær sem beitiland. Vegagerð og þéttbýlismyndun hafa einnig tekið sinn toll og við virkjanir fallvatna hefur straumvötnum verið breytt og landi sökkt undir miðlunarlón.
Nú er svo komið að tiltölulega lítið er eftir af óröskuðu votlendi á láglendi. Sem dæmi má nefna að athuganir hafa leitt í ljós að einungis 3% alls votlendis á Suðurlandi er eftir óraskað og einungis 18% votlendis á Vesturlandi (sjá: Íslensk votlendi. Verndun og nýting – Háskólaútgáfan 1998).
Þessi saga hnignunar votlendis hér á landi er ekki einsdæmi; svipaða sögu er að segja um allan heim þar sem örar tækniframfarir hafa orðið.

Kort af Friðlandinu í Flóa
Kort af Friðlandinu í Flóa

Fuglavernd, í samstafi við Árborg hefur endurheimt votlendi í Flóanum norðan Eyrarbakka við bakka Ölfusár.

Jóhann Óli Hilmarsson segir frá hvað gerðist eftir að mýrin í  Friðlandi í Flóa var endurheimt

Meira um votlendi á heimasíðunni okkar

Forseti Íslands Hr. Guðni Th. Jóhannesson og Ásbjörn Björgvinsson framkvæmdastjóri Votlendissjóðsins

Votlendissjóðurinn tekur til starfa

Skrifað hefur verið undir stofnun Votlendissjóðsins. Tilgangur hans er að stuðla að endurheimt votlendis og draga með því úr losun gróðurhúsalofttegunda. Verndari sjóðsins er Forseti Íslands hr. Guðni Th. Jóhannesson. Kynningarfundur var haldinn á Bessastöðum þann 30. apríl 2018.

Votlendissjóðurinn er stofnaður um samfélagslegt verkefni sem hefur það að markmiði að fá fyrirtæki, félagasamtök og einstaklinga til að fjármagna endurheimt hluta þess votlendis sem þegar hefur verið raskað hérlendis. Víðtækt samstarf liggur að baki þessu verkefni svo sem Landgræðsla Ríkisins, Landbúnaðarháskólinn, Háskóli Íslands, Rannsóknarsetur Háskóla Íslands á Suðurlandi, Vegagerðin, Fuglavernd, Landvernd, Klappir, Náttúrustofa Austurlands, Náttúrufræðistofnun Íslands, sveitarfélög, bændur og landeigendur.

Verkefnið verður unnið með hverju sveitarfélagi fyrir sig þar sem íbúar fá kynningu á verkefninu og landeigendur fá boð um að taka þátt. Sveitarfélagið Fjarðabyggð ríður á vaðið og verður þar tilraunaverkefni sem verður þróað áfram. Reynt verður að fá ríkið til að endurheimta votlendi á þeim ríkisjörðum sem ekki eru í notkun.

Ásbjörn Björgvinsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Votlendissjóðsins.

Myndir

 

Meira um votlendi

Verkefnin>Votlendi

Votlendi.is

Facebook: Votlendi