Frá vinstri: Sigurður Þráinsson sérfræðingur hjá Umhverfis- og auðlindaráðuneyti, Hólmfríður Arnardóttir framkvæmdastjóri Fuglaverndar, Jóhann Óli Hilmarsson formaður Fuglaverndar, Björt Ólafsdóttir Umhverfis- og auðlindaráðherra, Indriði R. Grétarsson formaður Skotvís og Ingibjörg Svala Jónsdóttir formaður Vistfræðifélags Íslands.

Áskorun til umhverfisráðherra um friðun teistu (Cepphus grylle)

Föstudaginn 16. júní áttu fulltrúar Fuglaverndar, Vistfræðifélags Íslands og Skotvís fund með Björt Ólafsdóttur Umhverfis- og auðlindaráðherra.

Á fundinum var henni afhent sameiginleg Áskorun til Umhverfis- og auðlindaráðherra um friðun teistu (Ceppus grylle).pdf sem lesa má í heild sinni hér. Fundarmenn fengu jákvæð viðbrögð frá ráðherra á fundinum.

Skv. lögum nr. 64/1994 um vernd, friðun og veiðar villtra fugla og spendýra hefur ráðherra yfirumsjón með aðgerðum er varða friðun á villtum dýrum. Nú má skv. reglugerð 34/2012 veiða teistuna frá 1. september til 25. apríl ár hvert. Sama reglugerð heimilar einnig veiðar á öðrum tegundum svartfugla: Álku, stuttnefju, langvíu og lunda.

Teista (Cepphus grylle)

Teista er svartfugl. Teistustofninn er lítill og hefur verið áætlaður 10.000-15.000 varppör, sem samsvarar 51.000-77.000 einstaklingum. Teistum hefur fækkað verulega víða um land og er talið líklegt að þessi stofnstærðartala sé í raun mun lægri. T.d. hefur teistu fækkað um 80% í Strandasýslu frá 1959 en einnig í Flateyjum á Breiðafirði og á Skjálfanda.

Teista verpir tveimur eggjum, liggur á í 29-30 daga og ungatími eru 40 dagar. Teistan heldur sig við strendur og á grunnsævi og leitar sjaldan út á rúmsjó.
Verpur stök eða í litlum byggðum í eyjum, höfðum og urðum undir fuglabjörgum. Hreiður eru í klettaskorum, sprungum, undir steinum eða á syllum í hellum.

Fuglavernd hóf rannsókn á meðafla í grásleppunetum 2015 og sýna frumniðurstöður að teistur ánetjast mest fuglategunda eða allt að 6.700 fuglar árlega. Snemma vors 2016 var gerð úttekt á sjálfbærni bæði skotveiða á teistu og meðafla í grásleppunetum (sem og annarra veiðitegunda fugla) og var miðað við lægri tölu meðafla. Niðurstaðan er að núverandi veiðar eru að meðaltali 7,4 sinnum hærri en sjálfbærnimörk stofnsins leyfa samkvæmt PBR aðferðinni.

Hafrannsóknastofnun mat að árlegur meðafli teista í grásleppunet (um 2.000 fuglar) væri ósjálfbær veiði samkvæmt PBR aðferðinni.

Teista hentar illa sem veiðitegund vegna hægrar viðkomu,en fyrst og fremst vegna lítillar stofnstærðar hérlendis. Þessi tegund hefur í raun verið aukaafli svartfuglaveiðimanna og hefur ekki veriðsérstaklega sóst eftir henni.

Ályktun vegna vegagerðar í Gufudalssveit (Teigsskógur)

Fuglavernd leggst eindregið gegn þeirri veglínu, sem Vegagerðin vill fylgja í Gufudalssveit. Ákvörðun Vegagerðarinnar brýtur í bága við fjölmörg lög, bæði lög um náttúruvernd sem og lög um verndun Breiðafjarðar, alþjóðlega samninga eins og Bernar- og Ramsar-sáttmálana, auk þess að snúa á Hæstaréttardóm með málamyndabreytingum á þeirri veglínu sem þeir voru gerðir afturreka með.

Fuglavernd hvetur Vegagerðina að stíga inní nútímann, hlíta áliti Skipulagsstofnunar og velja ætíð þá leið sem hefur minnst umhverfisáhrif, þrátt fyrir að slík leið kunni að vera eitthvað dýrari en aðrar leiðir. Stofnunin á að láta umhverfið njóta vafans.

Fuglavernd skorar á ráðherra samgöngu- og umhverfismála að hlutast til um að Vegagerðin endurskoði þessa afstöðu sína.

Stjórn Fuglaverndar

 

Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.