Frá vinstri: Halla Hreggviðsdóttir, Menja Von Schmallensee, Snæþór Aðalsteinsson, Trausti Gunnarsson og Ólafur Karl Nielsen formaður stjórnar. Á myndina vantar Daníel Bergmann og Erp Snæ Hansen. Ljósmynd: ©Dögg Matthíasdóttir.
Mánudaginn 11. mars 2019 var kjörin ný stjórn á aðalfundi Fuglaverndar.
Jóhann Óli Hilmarsson lét af formennsku en hann hefur verið formaður Fuglaverndar allt frá árinu 1999. Jóhann Óli sat fyrst í stjórn á árunum 1974-1977, þá gerði hann tíu ára hlé en kom aftur inn í stjórnina árið 1987 og tók við formennsku 1999. Í hans stað gaf kost á sér Ólafur Karl Nielsen en hann hefur verið varaformaður félagsins. Þá gaf Sindri Skúlason ekki kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu. Voru þeim í lok fundarins færðir þakklætisvottur fyrir störf sín í þágu félagsins.
Jóhann Óli flutti ársskýrslu, en hana er að finna á: Um Fuglavernd>Ársskýrslur
Ný stjórn var kjörin með einróma lófataki, en hana skipa:
Ólafur Karl Nielsen – formaður, Daníel Bergmann, Erpur Snær Hansen, Halla Hreggviðsdóttir, Menja Von Schmalensee, Snæþór Aðalsteinsson og Trausti Gunnarsson. Á fyrsta fundi nýrrar stjórnar skiptir hún með sér verkum, aðeins formaður er kjörinn sérstaklega á aðalfundi félagsins.
Áður en tekið var til hefðbundinna aðalfundarstarfa flutti Jóhann Óli erindi um fuglaskoðun á Borgarfirði eystra og Ólafur Karl Nielsen gerði grein fyrir athugunum á fuglalífi í Njarðvík og Hafnarhólma á Borgarfirði eystra. Um fuglalíf Njarðvíkur má lesa meira á: Verkefnin>Njarðvík.
Fundurinn var fjölsóttur og meðal félagsmanna sem tóku þátt í umræðum á fundum er greinilegur áhugi á að Fuglavernd takist vel til í hlutverki landeiganda á fjölsóttum ferðamannastað. Að leiðarljósi verði náttúruvernd sem er grunnstarfsemi félagsins sem og sjálfbærni og fræðsla en það eru aðrar meginstoðir í stefnu Fuglaverndar.