Heiðagæsir á flugi ©Jóhann Óli Hilmarsson

Gæsaveiðitímabil hafið

Ljósmynd: Heiðagæsir á flugi. ©Jóhann Óli Hilmarsson

„Það er veiðidagur góður þegar hóflega er veitt, með talsverðri líkamlegri áreynslu, vakandi náttúruskyni og sært dýr liggur ekki eftir að kveldi“

Þessi orð eru höfð eftir Stefáni Jónssyni, alþingismanni, rithöfundi, útvarpsmanni og veiðimanni (1923 – 1990) og eiga jafn vel við í dag og þegar þau voru skrifuð.

Allir veiðimenn þurfa að hafa gild skotvopnaleyfi og veiðikort þegar gengið er til veiða. Leyfilegt er að skjóta grágæs og heiðargæs. Stofn heiðargæsa er í sögulegu hámarki, um fimmfalt stærri að talið er en grágæsastofninn. Út frá sjálfbærni auðlinda mega skotveiðimenn hafa það í huga ef valið stendur milli þess að skjóta heiðargæs eða grágæs.

Nánar um skynsamlega skotveiði á vef Skotvís.

Veiðimenn skulu sérstaklega minntir á að óheimilt er að skjóta fugla í sárum og ófleyga fugla. Í upphafi veiðitímabilsins má búast við að rekast á ófleyga unga, sérstaklega á svæðum þar sem varp hefur farið seint af stað.

Einnig er ástæða til að minna sérstaklega á alfriðun blesgæsarinnar en hún hefur verið friðuð síðan 2006. Þá mega veiðar á helsingja í Austur– og Vestur–Skaftafellssýslum ekki hefjast fyrr en 25. september.

Nánar um veiðitímabil á vef Umhverfisstofnunar.

Blesgæs friðuð

Ástæðan fyrir því að blesgæsin er friðaður fugl er hrun í stofninum. Blesgæsarstofninn sem hefur viðdvöl á Íslandi á fartíma er fáliðaður og verpir mjög dreift á Vesturströnd Grænlands. Á fáum árum hefur orðið hrun í stofninum og ein möguleg orsök er slakur varpárangur sem veldur því að nýliðun er ekki nægileg til að standa undir afföllum vegna skotveiða. Stofninn taldi um 36.000 fugla á árunum 1998-99 en er nú líklega innan við 19.000 fuglar. Veiðarnar eru þar af leiðandi ósjálfbærar. Nákvæm orsök afkomubrestsins er óþekkt.

Útbreiðslusvæði blesgæsar
Útbreiðslusvæði blesgæsar

Hófsemi veiðimanna lykillinn að sjálfbærum rjúpnaveiðum

Náttúrufræðistofnun Íslands hefur metið veiðiþol rjúpnastofnsins 2017. Ráðlögð rjúpnaveiði í haust er um 57 þúsund fuglar, en hún var á síðasta ári 40 þúsund fuglar. Stofnunin leggur áherslu á að hvergi verði slakað á í þeirri viðleitni að draga sem mest úr heildarafföllum rjúpunnar.

Viðkoma rjúpunnar var metin með talningum í tveimur landshlutum síðsumars. Hlutfall unga reyndist vera 78% á Norðausturlandi og 79% á Suðvesturlandi, þetta er ágæt viðkoma. Miðað við niðurstöður rjúpnatalninga er stærð rjúpnastofnsins  í meðallagi víðast hvar um land 2017 en þó ekki á Vestfjörðum og Suðausturlandi, þar er stofninn í lágmarki. Reiknuð heildarstærð varpstofns rjúpu vorið 2017 var metin 173 þúsund fuglar, en var 132 þúsund fuglar 2016. Framreiknuð stærð veiðistofns 2017 er 649 þúsund fuglar miðað við 453 þúsund fugla 2016. Þessir útreikningar byggja á gögnum fyrir Norðausturland og ofmeta stærð stofnsins nær örugglega.

Sjá nánar: Tillögur um rjúpnaveiði 2017

Veiðidagar rjúpu 2017

Fjöldi veiðidaga eru 12 sem skiptast á fjórar helgar, þ.e. síðustu helgina í október og fyrstu þrjár í nóvember:

  • föstudaginn 27. október, laugardaginn 28. október og sunnudaginn 29. október,
  • föstudaginn 3. nóvember, laugardaginn 4. nóvember og sunnudaginn 5. nóvember,
  • föstudaginn 10. nóvember, laugardaginn 11. nóvember og sunnudaginn 12. nóvember,
  • föstudaginn 17. nóvember, laugardaginn 18. nóvember og sunnudaginn 19. nóvember.

Veiðiverndarsvæði suðvestanlands

Á vef Umhverfis- og auðlindaráðuneytis kemur fram að líkt og undanfarin ár er veiðiverndarsvæði á SVlandi.

Sjá einnig: Kort af veiðiverndarsvæði rjúpu suðvestanlands.

Um svæðið segir í reglugerð 800/2005: “Allar rjúpnaveiðar eru óheimilar innan svæðis sem birt er í viðauka I við reglugerð þessa og markast í norðri af lögsagnarumdæmi Reykjavíkur, Mosfellsbæ, austurhluta Mosfellsheiðar í Grímsnes- og Grafningshreppi og Skálafells og Skálafellshálsi í Grímsnes- og Grafningshreppi, Bláskógabyggð og Kjósarhreppi. Hið friðaða svæði í Skálafelli og Skálafellshálsi markast af Kjósarskarðsvegi (48) frá vegamótum við Þingvallaveg (360) að vegamótum við Meðalfellsveg (461) og þaðan að brú á Svínadalsá og er ánni síðan fylgt að mörkum Reykjavíkur um Svínaskarð. Norðurhluti svæðisins markast síðan af Þingvallavegi frá gatnamótum Kjósarskarðsvegar að Grafningsvegamótum og þaðan af línu sem dregin er í austur frá Grafningsvegamótum í Þingvallavatn. Svæðið markast í austri af Þingvallavatni og fylgir síðan austurbakka Sogs og Ölfusár til sjávar.”

Sölubann á rjúpu og hófsemi veiðimanna

Markmið veiðistjórnunar á rjúpu er að veiðar verði sjálfbærar þannig að komandi kynslóðir geti stundað veiðar. Veiðistjórnun snýst því að vissu leyti um það langtímasjónarmið að vernda veiðistofna til framtíðar. Undanfarin ár hefur fyrst og fremst verið lögð áhersla á þrjú atriði í veiðistjórnun. Sóknardögum hefur verið fækkað verulega, sölubann á rjúpu og rjúpuafurðum var komið á og biðlað var til veiðimanna um að sýna hófsemi á rjúpnaveiðum.

Sölubann á rjúpu er í gildi skv. reglugerð 800/2005 sem eru breytingar á reglugerð 456/1994 og eiga þær sér stoð í lögum um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum nr. 64/1994. 

Umhverfisstofnun fer með eftirlit með veiðum og hér má skrá sig inn á vef Umhverfisstofnunar. Þar skila skotveiðimenn veiðiskýrslum árlega, óháð því hvort eitthvað var veitt eða ekki og sótt um og endurnýjuð veiðikort.

Þá viljum við minna á öryggi veiðimanna á veiðslóð og bendum á Vef Safetravel.is þar sem veiðimenn geta skilið eftir ferðaáætlun.

Fuglavernd hvetur alla skotveiðimenn til að sýna hófsemi við veiðar í rjúpu í ár, sem fyrri ár, svo stuðla megi að sjálfbærni rjúpnaveiða.

 

Hvernig á að greina blesgæs

Blesgæs hefur viðkomu hér á landi á vorin og svo aftur á haustin frá fyrri hluta september og fram í byrjun nóvember. Nú þegar gæsaveiðitímabilið er hafið er gagnlegt að rifja upp hvernig greina á blesgæsir frá öðrum gæsum en blesgæsin er friðaður fugl.

Blesgæs er dekkst gráu gæsanna. Fullorðnar eru þær með svartar rákir og díla á kvið sem er stundum nánast alsvartur. Fætur eru rauðgulir og goggur gulbleikur. Hvít blesa er ofan goggrótar. Blesgæs er sjónarmun minni en grágæs og heiðagæs en hegðar sér svipað, er þó sneggri á uppflugi og sýnist liprari á flugi. Hún lendir með sveflum og dýfum og kvakar hátt. Röddin er hærra stemmd en hjá öðrum gæsum og hún lætur meira í sér heyra.

Ungfugl að hausti vantar blesuna og svarta bletti á kvið. Hann er lítill og dökkur yfirlitum og goggur er daufari. Erfitt getur verið að greina hann frá öðrum gæsum en hann heldur sig innan um fullorðnar blesgæsir á haustin sem ætti að auðvelda greiningu. Greini skotveiðimenn eina eða fleiri blesgæsir í hóp er er líklegt að allir fuglarnir í hópnum séu blesgæsir. Líklega eru ungar innan um fullorðnu fuglana. Ættu þeir því að leyfa þeim að njóta vafans og sleppa því að skjóta.

Ástæðan fyrir því að blesgæsin er friðaður fugl er hrun í stofninum. Blesgæsarstofninn sem hefur viðdvöl á Íslandi á fartíma er fáliðaður og verpir mjög dreift á Vesturströnd Grænlands. Á fáum árum hefur orðið hrun í stofninum og ein möguleg orsök er slakur varpárangur sem veldur því að nýliðun er ekki nægileg til að standa undir afföllum vegna skotveiða. Stofninn taldi um 36.000 fugla á árunum 1998-99 en er nú líklega innan við 25.000 fuglar. Veiðarnar eru þar af leiðandi ósjálfbærar. Nákvæm orsök afkomubrestsins er óþekkt.

Útbreiðslusvæði blesgæsar á Íslandi er á Vesturlandi um Borgarfjarðarhérað og um sunnanvert Snæfellsnes, til suðurs um Kjós og Hvalfjörð. Á Suðurlandi halda blesgæsir til á láglendi Árnes- og Rangárvallasýslu, undir Eyjafjöllum og í Mýrdal. Í Skaftafellssýslum í Meðallandi, Landbroti og á Síðu.
Á öllum þessum svæðum þarf að gæta meiri varkárni við gæsaveiðar en í öðrum landshlutum er blesgæsin sjaldséður gestur. Sérstaklega ber að taka vara á veiðum í gæsanáttstöðum þar sem vitað er að blesgæsir safnast saman, en þar geta blesgæsir verið innan um grágæsir.

Skotveiðimenn þurfa að sýna sérstaka aðgát á svæðum sem merkt eru með rauðu á kortinu. 

Blesgæsakort