Myndasýning í Nýherja 9.10.2013

Fuglavernd í samvinnu við Nýherja og Canon efnir til myndasýningar í Nýherja miðvikudaginn 9. október 2013 þar sem ljósmyndararar Óskar Andri, Sindri Skúlason og Jóhann Óli Hilmarsson sýna glæsilegar fuglamyndir úr náttúru Íslands. Húsið opnar kl.17:00 þar sem gestir geta skoðað Canon ofuraðdráttarlinsur. Meðfylgjandi mynd er af haferni eftir Sindra Skúlason.  Ókeypis er á viðburðinn en óskað eftir að fólk skrái sig hér.

Arnarritið

Í dag – 9. september – eru liðin 100 ár frá því að Alþingi samþykkti lög er fólu í sér friðun arnarins. Lögin tóku gildi 1. janúar 1914. Í tilefni af því og að Fuglavernd fagnar fimmtugasafmæli Fuglaverndar á þessu ári var ákveðið að gefa út veglegt rit um þennan tígulega en sjaldgæfa fugl enda snérist starf félagsins lengi framan af aðallega um vernd og viðgang arnarstofnsins. Ásamt því að vera afmælisgjöf félagsins til félaga þá höfum við dreift ritinu til menntastofnana í byggðarlögum á helstu búsvæðum arnarins. Ritið er unnið í samstarfi við Náttúrufræðistofnun Íslands og má þar finna upplýsingar um útbreiðslu og stofnstærð og lífshætti arnarins en einnig er komið inná sagnaminni og hindurvitni og sögu hans á Íslandi. Ritið prýða vel valdar ljósmyndir eftir helstu arnarljósmyndara landsins. Hægt er að fá ritið á skrifstofu félagsins – á kostnaðarverði – 1.000- kr. Það sem er ekki síst mikilvægt frá sjónarhorni Fuglaverndar við útgáfu slíks rits er sú von að með aukinni fræðslu og búsvæðavernd sé hægt að fækka þeim ógnum sem steðja að erninum af mannavöldum.

Hér er linkur á söluvörur félagsins

 

Hálfrar aldar hetjusaga

Félagið okkar Fuglavernd varð fimmtugt þann 28. janúar síðastliðinn. Það er eitt elsta og jafnframt stærsta náttúruverndarfélag landsins og hefur marga fjöruna sopið í baráttunni fyrir verndun fugla og búsvæða þeirra. Saga félagsins verður ekki rakin hér, heldur blásið til afmælishátíðar á afmælisári.
Aðalhátíðin verður haldin í Nauthóli þann 20. apríl. Boðað er til dagskrár frá hádegi og fram á kvöld. Aðalfundur verður haldinn þennan dag og síðan verður fræðslu- og skemmtidagskrá með erindum, myndasýningum og ávörpum. Umhverfisráðherra mætir og býður til hanastéls. Um kvöldið býðst fólki að snæða á staðnum.
Hátíðarútgáfa fugla kemur út í vor. Ákveðið var að fresta 2012 blaðinu, færa útgáfuna fram á vor og reyna að halda þeim útgáfutíma framvegis. Jafnframt er blásið til afmælisljósmyndasýningar. Fugl ársins verður kynntur í fyrsta sinn. Að tilnefna fugl ársins hefur lengi tíðkast hjá systurfélögum víða. Í tilefni afmælisins og sögu félagsins, þótti við hæfi að tilnefnda Haförninn. Veglegt smárit um örninn kemur síðan út á árinu í tilefni afmælisins. Jafnframt verður forsprakkanna minnst í ræðu og riti og þá sérstaklega Björns Guðbrandssonar, sem var prímus mótor félagsins í áratugi og sannkölluð hetja í baráttunni fyrir verndun arnarins.

Allar líkur eru til þess að Fuglavernd verði fullgildur meðlimur BirdLife International á árinu og þykir það viðeigandi á afmælisári. Loks hefur nýr vefur verið settur í loftið.

Það er því full ástæða til tilhlökkunar á þessari stóru stundu.
Ljósmynd: Daníel Bergmann.