Ráðstefna Fuglaverndar sem haldin var 27.desember 2014 ályktaði svohljóðandi: Til mófugla teljast ýmsir algengir fuglar sem verpa dreift í opnu landi. Þetta eru einkum vaðfuglar en einnig teljast rjúpa og nokkrar tegundir spörfugla til mófugla. Á Íslandi eru afar stórir stofnar nokkurra mófuglategunda, t.d. er talið að allt að helmingur allra heiðlóa og spóa í heiminum verpi á Íslandi. Fleiri stofnar eru mjög stórir. Íslendingar bera ábyrgð á að vernda þessa fugla samkvæmt alþjóðasamningum, t.d. samningnum um líffræðilega fjölbreytni (Ríó) og AEWA samningnum sem tekur til verndar farfugla og votlendisfugla. Þrátt fyrir mikilvægi Íslands og alþjóðlega ábyrgð á mörgum mófuglastofnum er vöktun á þeim og búsvæðum þeirra afar takmörkuð. Brýnt er að þær stofnanir sem hafa lögbundið hlutverk við að vakta fuglastofna fái til þess nauðsynlegt fjármagn. Mófuglar verpa um allt land í fjölbreyttum búsvæðum á opnu landi. Sérstök áskorun er að vernda fuglastofna sem verpa svo dreift því verndarsvæði geta aðeins náð yfir lítinn hluta stofnanna. Brýnt er að efla og koma á fót verndarsvæðum á lykilstöðum. Einnig er nauðsynlegt að taka tillit til mófugla við skipulag landnotkunar svo þeir geti þrifist samhliða nýtingu. Örlög mófuglastofna á 21. öld munu endurspegla árangur Íslendinga við að samræma nýtingu og vernd landsins. Ályktunin er send ráðherra umhverfis- og auðlindaráðuneytis og landbúnaðarráðuneyti sem og fjölmiðlum. Hér má sjá ráðstefnudagskrána. |
okt, 2014
Takið þátt í heiðlóutalningu
Um helgina verður evrópsk heiðlóutalning og hvetjum við sem flesta til að taka þátt. Nú er bara að hafa augun hjá sér og nótera hvar og hvort lóur sjást og þá hve margar. Ekki væri verra ef fólk hefði tök á að kíkja í fjörur eða telja lóur í bíltúrum. Talningarnar þurfa ekki að vera merkilegar. Lóur sem menn sáu á rauðu ljósi á umferðareyjum komu t.d. sterkar inn í síðustu talningu 2008.
Þegar talið er á landi (þ.e. ekki í fjörum), gjarnan í bíltúrum, er gott að skrá hversu margir kílómetrar voru eknir og hversu langt frá vegi séðar lóur voru. Með slíkum upplýsingum má slá á lágmarksþéttleika.
Tómas Grétar Gunnarsson (tomas@hi.is) heldur utanum talninguna svo vinsamlegast sendið honum upplýsingarnar. Við munum svo birta niðurstöðurnar hér á síðunni okkar og samanburð við síðustu talningu sem var í október 2008.
Bjarni Sæmundsson tók meðfylgjandi mynd.