Dagur sjálfboðaliða

Í dag er alþjóðlegur dagur sjálfboðaliða. Fuglavernd er rík af sjálfboðaliðum sem á hverju ári leggja starfseminni til tíma sinn og vinna ólaunuð störf í þágu fuglaverndar, búsvæðaverndar og leggja til starfskrafta sína í fræðslustarfsemi á vegum félagsins.

Á hverju ári koma sjálfboðaliðar saman til vorhreinsunar í Friðlandinu í Vatnsmýrinni fyrstu helgina í apríl, sá hópur hefur kallað sig Hollvini Tjarnarinnar. Í Friðlandinu í Flóa hafa sjálfboðaliðar tekið að sér að veita leiðsögn um friðlandið, vanalega annað hvort á laugardögum eða sunnudögum í júní.

Í vetrarstarfinu eru fræðslu- og myndakvöld veigamikill þáttur og allir þeir sem taka að sér að flytja erindi á vegum Fuglaverndar gera það í sjálfboðavinnu. Þegar félagið stendur fyrir kynningu á starfsemi sinni höfum við líka geta kallað til sjálfboðaliða til að standa vaktina. Þá er utanumhald á garðfuglatalningu sem stendur allan veturinn í 26 vikur og garðfuglahelgin síðustu helgina í janúar í höndum sjálfboðaliða. Fjölmargir ljósmyndarar leggja okkur lið á hverju ári með því að láta okkur í té myndir og myndefni til þess að vekja athygli á brýnum málefnum, allt í sjálfboðastarfi.

Síðast en ekki síst má nefna setu í stjórn félagsins sem er í sjálfboðastarfi þeirra sem gefa kost á sér. Stjórn félagsins vinnur ályktanir og sendir á opinbera hagsmunaaðila í stjórnsýslunni bæði hvað varðar löggjöf og skipulagsmál.  Stjórnarmenn vinna ötullega að fræðslu á vegum félagsins, með rannsóknum, skrifum og myndum en þess má geta að tímarit félagsins, Fuglar er allt unnið í sjálfboðavinnu þ.m.t. umbrot blaðsins.

Öllum sjálfboðaliðum sem hafa lagt okkur lið, færum við okkar bestu þakkir.

Til hamingju með daginn.

Teista ©Daníel Bergmann

Hagsmunagæsla

Fuglavernd gætir hagsmuna náttúruverndar á opinberum vettvangi, ýmist á eigin vegum eða í samstarfi við önnur félagasamtök á sviði umhverfis- og náttúruverndar.  Hólmfríður Arnardóttir framkvæmdastjóri Fuglaverndar hefur verið tengiliður félagasamtaka á sviði umhverfis- og náttúruverndar við Umhverfisráðuneyti.

Undir Verkefnin>Hagsmunagæsla má lesa um alla þá snertifleti sem eru við opinbera aðila, í starfshópum, nefndum, ráðum og um athugasemdir sem Fuglavernd sendir frá sér m.a. vegna skipulagsmála.

18. 01.2018 var skipaður fulltrúi frálsra félagasamtaka á sviði umhverfisverndar í starfshóp um lagabreytingar 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Árni Finnsson var skipaður.

21. 11.2017 var skipaður fulltrúi frjálsra félagasamtaka á sviði umhverfisverdar í starfshóp um bætt umhverfi endurvinnslu, á vegum umhverfisráðherra. Starfhópurinn skal skila tillögum fyrir 1. júní 2018. Hildur Hreinsdóttir var skipuð.