Ólafur Karl Nielsen, formaður Fuglaverndar.

Haförninn getur orðið illa úti í vindmyllugörðum

Fuglaverndarfélag Íslands varar við því að vindmyllugarðar verði leyfðir á farleiðum fugla og á búsvæðum hafarna og hvetur til varfærni og vandaðs umhverfismats. Þetta kom fram í fréttum Stöðvar 2.

Ólafi K. Nielsen, formanni Fuglaverndarfélagsins, óar við þeim fjölda vindmyllugarða sem nú eru í pípunum.

„Það er eins og eitthvert gullgrafaraæði sé í gangi. Menn hlaupa eins og landafjandar um allt land og reka niður hæla og segja: Hér vil ég byggja!“

Hann segir félagið hvetja til varfærni. Því þurfi vandað umhverfismat.

„Í ljósi þessa höfum við hjá Fuglavernd hvatt stjórnvöld til þess að reyna að afmarka á einhvern máta þau svæði þar sem að vindmyllugarðar kæmu til greina. Ekki að landið allt verði undir.“

Ólafur vill hlífa svæðum sem skilgreind eru sem mikilvæg fuglasvæði, sem hann segir um eitthundrað talsins, en einnig farleiðum farfugla, sem eigi sínar þjóðbrautir á þessum loftvegum.

„Og einn af þessum stöðum er til dæmis Þykkvibærinn,“ segir Ólafur.

Þar hafi þegar risið tvær vindmyllur, áform verið uppi um vindmyllugarð, á svæði þar sem að hans mati ætti ekki að leyfa slík mannvirki.

„Þetta er tugir þúsunda fugla, eða hundruð þúsunda fugla, sem fara um Þykkvabæinn. Stórir fuglar og þungir á flugi, líkt og gæsir, álftir, endur.“

Hann segir stóra fugla berskjaldaða gagnvart vindmyllum og tekur dæmi frá eynni Smøla á vesturströnd Noregs.

„Þar hafa hátt í eitthundrað ernir farist í einum vindmyllugarði síðan hann var reistur fyrir einum fimmtán árum síðan,“ segir Ólafur.

Hann varar við vindmyllum á búsvæðum arnarins hérlendis, eins og Breiðafirði og Mýrum.

„Ef við verðum með vindmyllugarð á slíkum stöðum þá gæti örninn orðið illa úti,“

segir formaður Fuglaverndarfélags Íslands.

Sjá frétt á vef Vísis, myndskeið neðst: Segir haförninn geta orðið illa úti í vindmyllugörðum. 

 

Ályktun vegna vegagerðar í Gufudalssveit (Teigsskógur)

Fuglavernd leggst eindregið gegn þeirri veglínu, sem Vegagerðin vill fylgja í Gufudalssveit. Ákvörðun Vegagerðarinnar brýtur í bága við fjölmörg lög, bæði lög um náttúruvernd sem og lög um verndun Breiðafjarðar, alþjóðlega samninga eins og Bernar- og Ramsar-sáttmálana, auk þess að snúa á Hæstaréttardóm með málamyndabreytingum á þeirri veglínu sem þeir voru gerðir afturreka með.

Fuglavernd hvetur Vegagerðina að stíga inní nútímann, hlíta áliti Skipulagsstofnunar og velja ætíð þá leið sem hefur minnst umhverfisáhrif, þrátt fyrir að slík leið kunni að vera eitthvað dýrari en aðrar leiðir. Stofnunin á að láta umhverfið njóta vafans.

Fuglavernd skorar á ráðherra samgöngu- og umhverfismála að hlutast til um að Vegagerðin endurskoði þessa afstöðu sína.

Stjórn Fuglaverndar

 

Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Myndasýning í Nýherja 9.10.2013

Fuglavernd í samvinnu við Nýherja og Canon efnir til myndasýningar í Nýherja miðvikudaginn 9. október 2013 þar sem ljósmyndararar Óskar Andri, Sindri Skúlason og Jóhann Óli Hilmarsson sýna glæsilegar fuglamyndir úr náttúru Íslands. Húsið opnar kl.17:00 þar sem gestir geta skoðað Canon ofuraðdráttarlinsur. Meðfylgjandi mynd er af haferni eftir Sindra Skúlason.  Ókeypis er á viðburðinn en óskað eftir að fólk skrái sig hér.

Hálfrar aldar hetjusaga

Félagið okkar Fuglavernd varð fimmtugt þann 28. janúar síðastliðinn. Það er eitt elsta og jafnframt stærsta náttúruverndarfélag landsins og hefur marga fjöruna sopið í baráttunni fyrir verndun fugla og búsvæða þeirra. Saga félagsins verður ekki rakin hér, heldur blásið til afmælishátíðar á afmælisári.
Aðalhátíðin verður haldin í Nauthóli þann 20. apríl. Boðað er til dagskrár frá hádegi og fram á kvöld. Aðalfundur verður haldinn þennan dag og síðan verður fræðslu- og skemmtidagskrá með erindum, myndasýningum og ávörpum. Umhverfisráðherra mætir og býður til hanastéls. Um kvöldið býðst fólki að snæða á staðnum.
Hátíðarútgáfa fugla kemur út í vor. Ákveðið var að fresta 2012 blaðinu, færa útgáfuna fram á vor og reyna að halda þeim útgáfutíma framvegis. Jafnframt er blásið til afmælisljósmyndasýningar. Fugl ársins verður kynntur í fyrsta sinn. Að tilnefna fugl ársins hefur lengi tíðkast hjá systurfélögum víða. Í tilefni afmælisins og sögu félagsins, þótti við hæfi að tilnefnda Haförninn. Veglegt smárit um örninn kemur síðan út á árinu í tilefni afmælisins. Jafnframt verður forsprakkanna minnst í ræðu og riti og þá sérstaklega Björns Guðbrandssonar, sem var prímus mótor félagsins í áratugi og sannkölluð hetja í baráttunni fyrir verndun arnarins.

Allar líkur eru til þess að Fuglavernd verði fullgildur meðlimur BirdLife International á árinu og þykir það viðeigandi á afmælisári. Loks hefur nýr vefur verið settur í loftið.

Það er því full ástæða til tilhlökkunar á þessari stóru stundu.
Ljósmynd: Daníel Bergmann.