Alþjóðlegi farfugladagurinn – fuglaskoðun í Grunnafirði

Sanderla. © Ljósmynd: Yann Kolbeinsson

Laugardaginn 9. maí er Alþjóðlegi farfugladagurinn að vori. Af því tilefni verður boðið uppá fuglaskoðun í Grunnafirði, sem er eitt af sex Ramsarsvæðum á Íslandi, leiðsögumaður verður náttúrfræðingurinn Einar Þorleifsson.

Grunnafjörður var friðlýstur árið 1994 og er svæðið friðland. Tilgangur friðlýsingarinnar var að vernda landslag og lífríki svæðisins, sér í lagi fuglalíf sem er mjög auðugt. Stærð friðlýsta svæðisins er 1393,2 hektarar.

Árið 1996 var svæðið samþykkt sem Ramsar svæði. Svæðið hefur því verið verndað samkvæmt samþykkt um votlendi sem hefur alþjóðlegt gildi. Fjörðurinn er eina Ramsar svæðið á Íslandi sem liggur að sjó. Stærð Ramsar svæðisins er u.þ.b 1470 hektarar.

Grunnafjörður er mikilvægur fyrir margar tegundir fugla. Svæðið er alþjóðlega mikilvægt fyrir margæs, rauðbrysting og sanderlu. Um 25% margæsarstofnsins hefur viðkomu í Grunnafirði á ferðum sínum frá meginlandi Evrópu til heimskautasvæðanna bæði vor og haust og um 1% rauðbrystingsstofnsins.

Margir vaðfuglar, svo sem sendlingur, lóuþræll, sandlóa og tjaldur; byggja tilveru sína á lífríki leiranna. Í firðinum halda einnig æðarfuglar til.  Margar fuglategundir treysta á Grunnafjörð á veturna og má þar meðal annars nefna tjaldinn. Í fuglatalningum hefur orðið vart við nokkrar tegundir á válista s.s. brandönd, branduglu, grágæs, hrafn og svartbak en einnig er vitað að á svæðinu verpir hafarnarpar. Aðrar algengar fuglategundir á svæðinu eru m.a. dílaskarfar, toppendur, heiðlóur, jaðrakanar, sílamáfar, hvítmáfar og hettumáfar en einnig hafa fálkar og smyrlar sést.

Þeir sem ætla sér að njóta leiðsagnar í fuglaskoðuninni, koma sér sjálfir á staðinn. Við hittumst við Laxárbakka (sem er veitingastaður í Melasveit klukkan 9, þaðan verður stefnan tekin á skoðunarstað/i og gera má ráð fyrir að fuglaskoðunin taki um 1 klukkustund.

Nauðsynlegt er að vera vel skóaður og tilvalið að hafa meðferðis sjónauka, fuglahandbók og nesti til að maula.

Leyndardómar Borgarfjarðar

Fuglaskoðun – Dagsferð

Hvenær: 13. Maí 2017

Tímasetning: 9:00 – 18:00

Hvar: Brottför frá Hverfisgötu 105 101 Reykjavík, komið þangað aftur. (Einnig hægt að koma upp í bílinn á leið í Borgarfjörðinn)

Leiðsögumaður: Jóhann Óli Hilmarsson

Verð: 15.000 kr.

Fjöldi: Lágmark 9 manns, hámark 19 manns.

Hafa með: Nesti fyrir daginn, hlýjan og skjólgóðan fatnað og skó, sjónauka, ljósmyndabúnað og handbækur um fugla.

Skráning: ER LOKIРer bindandi og haft verður samband við þátttakendur vegna greiðslu um leið og lágmarksfjölda er náð.

 

Ferðalýsing – Leyndardómar Borgarfjarðar

Farið verður sem leið liggur í Grunnafjörð. Grunnafjörður er eitt af sex Ramsar-svæðum á Íslandi og hið eina sem liggur að sjó.  Víðlendar leirur eru í Grunnafirði og má segja að fjörðurinn sé frekar leirulón en eiginlegur fjörður.  Margæs (um fjórðungur stofnsins) og rauðbrystingur  hafa viðkomu á ferðum sínum til og frá vetrarstöðvum í Evrópu og varpstaða á heimskautasvæðunum. Tjaldur, heiðlóa, sandlóa og lóuþræll eru og algeng á fartíma. Í firðinum er mikið af æðarfugli. Margar fuglategundir treysta á Grunnafjörð á veturna, t.d. tjaldur.

Síðan verður ekið í Borgarfjörð. Borgarfjörður er grunnur og víðáttumikill fjörður með miklu grunnsævi og leirum, sem fóstra þúsundir fugla.  Utarlega í firðinum eru stærstu fellistöðvar æðarfugls á landinu, en innar er helsti brandandastaður landsins, þar má sjá nokkur hundruð fugla af þessum nýja landnema síðsumars, en við munum sjá varppörin í fjörugum biðilsleikjum.  Fjörðurinn er mikilvægur fyrir farfugla, bæði gæsir, endur og vaðfugla vor og haust.  Fyrir botni fjarðarins er Hvanneyri.  Þar er fyrsta búsvæðisverndarsvæði landsins, sem á að tryggja grænlensku blesgæsinni athvarf á Íslandi, sem jafnframt er Ramsar-svæði.  Um 10% stofnsins hefur viðkomu vor og haust, þær nátta sig á firðinum, eta á engjum og túnum og baða sig á Vatnshamravatni.  Við munum væntanlega ná í stélið á blesgæsafarinu.

Álftanes, Akrar og Löngufjörur með Sauratjörn er strandsvæði sem einkennist af víðáttumiklum leirum, sjávarfitjum, sandfjöru, grunnsævi, eyjum og skerjum auk mýrlendis, vatna og tjarna. Fjölbreytt andfuglalíf er á tjörnum við Álftanes, m.a. hafa skeiðönd, grafönd og gargönd sést þar. Grunnsvæðið er mjög mikilvægt fyrir æðarfugl og mikill fjöldi vaðfugla (svo sem rauðbrystingur, sanderla, stelkur, lóuþræll o.fl.) og margæs fer um svæðið vor og haust. Sex af átta varpstöðum dílaskarfs við Faxaflóa eru í skerjum á svæðinu. Lómur er óvíða algengari, t.d. er þétt varp í Hjörsey og við Akra og stór hópur álfta fellir flugfjaðrir.  Ernir sjást tíðum svífa þöndum vængjum. Útselur kæpir í Hvalseyjum og Tjaldeyjum og landselir halda sig að staðaldri við Löngufjörur.

Viðburðurinn á Facebook: Fuglaskoðun – Leyndardómar Borgarfjarðar 

Ljósmynd: Brandendur í Djúpavogi. Ljósmyndari: Jóhann Óli Hilmarsson.